Til hamingju með daginn Vigdís


Í dag á Vigdís Finnbogadóttir 90 ára afmæli. Íslendingar hafa átt því láni að fagna að velja sér forseta sem hafa reynst þjóð sinni vel. Vigdís gerði gott betur en svo að hafa reynst þjóð sinni vel. Vigdís varð fjölmörgum konum um heim allan innblástur og ég sem faðir tveggja stúlkna er stoltur af því að geta sagt þeim að það voru Íslendingar sem fyrstir kusu sér konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. Það var árið 1980, ég þá 12 ára en man vel hve mikilvægt þetta var og gerði mér grein fyrir tímamótunum.

Forsetaframbjóðendurnir 1980 - Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Albert Guðmundsson þingmaður og Pétur J. Thorsteinsson sendiherra
Forsetaframbjóðendurnir 1980 – Vigdís Finnbogadóttir, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Pétur J. Thorsteinsson sendiherra og Albert Guðmundsson þingmaður.

15 árum síðar, þá starfandi hjá Seðlabanka Íslands, fékk ég það verkefni að rita skýrslu fyrir forsetaembættið um efnahagsmál í Kína áður en forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, hélt í opinbera ráðstefnu til Beijing. Um var að ræða Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Átti ég fund með forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, á sínum tíma og var skrifstofa embættisins þá í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Alla tíð hef ég fylgst vel með framþróun í réttindum kvenna og störfum Vigísar. Það er fagnaðarefni að á Íslandi er nú rekin stofnun á vegum háskóla Sameinuðu þjóðanna í kynjafræðum og jafnrétti (UNU-GEST) þar sem konur víða að úr heiminum stunda nám og geta að því loknu haldið heim með boðskap Vigdísar og fleiri kvenna úr öllum heiminum sem rutt hafa brautina fyrir konur og ekki síður karlmenn.

Vigdís Finnbogadóttir nýkjörin forseti Íslands árið 1980
Vigdís Finnbogadóttir nýkjörin forseti Íslands árið 1980

Vigdís starfaði í Þjóðleikhúsinu og hóf þar fyrst störf 24 ára sem ritstjóri leikskrár og blaðafulltrúi leikhússins. Hún kenndi frönsku í Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum við Hamrahlíð frá 32 ára aldri til 42 ára aldurs. Þegar hún var fertug hóf hún að kenna frönsku í sjónvarpinu og stóð það í um eitt ár. Aðeins 42 ára varð hún leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur sem þá var til húsa í Iðnó. Hún, ásamt öðrum, stofnaði leikhópinn Grímu á þrítugasta og fyrsta aldursárinu. Þann hóp skipuðu auk Vigdísar þau Erlingur Gíslason (faðir Benedikts Erlingssonar leikara), hjónin Guðmundur Steinsson (leikritahöfundur) og Kristbjörg Kjeld leikkona (lék í kvikmyndinni Mamma Gógó), Magnús Pálsson (gjörningalistamaður) og Þorvarður Helgason. Óhætt er að segja að að frumkvöðlastarf þessa leikhóps hafi gert íslenskt leikhús frjórra, mun betra og þróað það inn í framtíðina.

Á 7. áratugnum skaut upp kollinum Rauðsokkahreyfingin. Hún var stofnuð í upphafi áratugarsins árið 1970. Barðist hreyfingin gegn kynjamisrétti. Á þessum tíma var róstursamt í Evrópu og í Bandaríkjunum. Víetnamstríðið geisaði, kalt stríð í Evrópu samhliða hernaðaruppbyggingu og stúdentar víða um heim létu til sín taka. Rauðsokkurnar höfðu áhrif. Kvennafrídaginn 24. október 1975 lögðu íslenskar konur niður vinnu og flykktust á baráttufundi víðsvegar um landið. Móðir mín hélt til Reykjavíkur á baráttufund ásamt vinkonum sínum og var þar ásamt um 30 þúsund konum. Árið 1980 var svar Íslendinga við þessu ástandi og þessari áskorun að kjósa sér fyrst þjóða konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. Fyrir valinu varð Vigdís Finnbogadóttir. Það var Íslendingum mikil gæfa enda hefur Vigdís alla tíð verið þjóð sinni til sóma.

Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna
Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna á gangi við Bessastaði árið 1986

Það kom í hlutverk Vigdísar Finnbogadóttur síðar, þ.e. árið 1986, að vera óbeint þátttakandi og gestgjafi tveggja voldugustu manna heims þegar leiðtogafundur þeirra Ronald Reagans, forseta Bandaríkjanna, og Mikhaíl Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna, var haldin í Höfða í Reykjavík. Þá var hún 56 ára gömul og sjaldan glæsilegri. Hver man ekki eftir því þegar hún tók á móti leikaranum og forseta Bandaríkjanna á Bessastöðum í þá tíð? Það var þá þegar kalda stríðið leið undir lok og það gerðist á Íslandi. Óhætt er að segja að Vigdís getur brætt hjörtu margra.

Vigdís Finnbogadóttir
Vigdís Finnbogadóttir

Árið 2001 var sett á laggirnar stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Um er að ræða rannsóknarstofnun innan Hugvísindadeildar Háskóla Íslands og var hún sett á laggirnar í október 2001 og nýtur þess heiðurs að bera nafn Vigdísar Finnbogadóttur. Um árabil hefur Vigdís gegnt starfi velgjörðarsendiherra tungumála hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) eða allt frá árinu 1998. Það er gaman frá því að segja að eiginkona mín, Danith Chan, starfaði á skrifstofu UNESCO í Beijing í Kína í nokkur ár á 10. áratugunum, þ.e. á sama áratugnum og ég ritaði skýrsluna fyrir Vigdísi áður en hún hélt á kvennaráðstefnu þar í borg. Allt á þetta sínar skýringar og um örlög okkar allra er spunninn þráður.

Við Íslendingar getum verið stoltir af því að hafa haft Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta. Til hamingju með daginn Vigdís Finnbogadóttir og innilegar þakkir fyrir þitt framtak, umhyggju og yndisleik.

COVID-19 – Hvað svo?


Grein sem birstist í Morgunblaðinu 14. apríl 2020

Um þessar mundir herjar veira, COVID-19, á heimsbyggðina. Þetta er skelfileg veira og illa liðin enda talin banvæn. Hvaða skaða veldur hún?

Þegar við lítum nú á veldisvöxt smita vegna COVID-19 er það ógnvekjandi en sama yrði einnig uppi á teningnum varðandi aðrar flensur yrðu skráningar sambærilegar. Þetta áréttar dr. John Lee (breskur prófessor emiratus í meinafræði). Fjallar hann í nýlegri grein sinni 28. mars sl. í „The Spectator“, sérstaklega um Bretland og COVID-19. Bendir hann á ferli veirufaraldursins í Bandaríkjunum sem og í öðrum löndum. Frá því í september 2019, skv. bandarískum heilbrigðisyfirvöldum, hefur árstíðabundin flensa náð að smita 38 milljónir þar í landi, 390.000 hafa lagst inn á spítala í kjölfarið og 23.000 hafa látist.

Varðandi Ísland segir hann að tölur þaðan bendi til að um 50% þeirra sem greinast með COVID-19 séu nánast alveg einkennalausir og aðrir með minni háttar einkenni. Dr. John Lee undirstrikar að Ísland sé afgerandi hvað greiningagetu varðar og skeri sig úr í því efni. Getur hann þess 28. mars sl. að á Íslandi hafi um 0,3% af smituðum einstaklingum láti lífið [innsk.: 0,5% 12. apríl]. Þetta hlutfall nemur um 9,9% á Ítalíu [innsk.: 12,8% 12. apríl] og 0,5% í Þýskalandi [innsk.: 2,2% 12. apríl]. Dr. Lee spyr sig réttilega í greininni: „Teljum við að vírusstofninn sé svo mismunandi í þessum nágrannalöndum að virkilega sé um mismunandi sjúkdóma að ræða?“ Hann bætir og við spurningu þess efnis hvort fólkið í þessum löndum gæti verið svo mismunandi af guði gert að það geti skýrt margfaldan mun á dauðsföllum á milli landanna.

Fullyrðir dr. Lee að ef framangreindar tilgátur séu ekki réttar, sem augljóst má vera, að hér kristallist umtalsverð tölfræðileg kerfisskekkja á milli landa. Á Spáni er gefið upp 7,1% dánarhlutfall [innsk.: 10,1% 12. apríl] af COVID-19 greindum einstaklingum þar í landi, 1,3% í Bandaríkjunum [innsk.: 3,8% 12. apríl], 1,3% í Sviss, [innsk.: 3,3% 12. apríl], 4,3% í Frakklandi [innsk.: 14,9% 12. apríl], 1,3% í Suður-Kóreu, 5% í Bretlandi [innsk. 12,5% 12. apríl] og 7,8% í Íran [innsk.: 6,2% 12. apríl]. Dr. Lee segir í grein sinni að við gætum alveg eins borið saman epli og appelsínur. Fullyrðir dr. Lee að eini rétti mælikvarðinn sé sá að ef sýking veldur dauðsföllum umfram eðlilegan framgang lífsins frá ári til árs megi sjá stöðuna rétt og meta svo út frá því hvað gera skuli. Fullyrðir hann að enn hafi ekki verið sýnt fram á tölfræðilegar staðreyndir sem sanna ótvírætt að um sé að ræða óeðlilega mikil dauðsföll umfram það sem gerist og gengur frá ári til árs um heim allan.

Til áréttingar bendir dr. Lee réttilega á að vissulega geti „COVID-19 hæglega dregið fólk til dauða sem er með alvarlega undirliggjandi lungasjúkdóma og hjá einstaklingum sem reykja. Meðalaldur þeirra sem látast nú á Ítalíu er um 78 ár. Níu af hverjum tíu sem látast nú þar eru á áttræðisaldri. Lífslíkur Ítala eru tæplega 83 ár.

Með framangreind rök að leiðarljósi má ætla að einangrun ákveðins aldurshóps sé mikilvæg ráðstöfun en óvíst hvort það módel sem beitt er á alla sé hið eina rétta. Til þess að þeim eigi að fylgja eftir verða að liggja einhver haldbær rök. Einnig þurfa að liggja fyrir haldbær rök sé áformað að beita harðari úrræðum. Taka þessi módel tillit til aldurs, þekktra undirliggjandi sjúkdóma, breytileika veiru, skráningar dánarvottorða og annarra marbreytilegra þátta?

Staðreyndin er einmitt kannski sú að við erum að skoða veiruna COVID-19 á allt annan hátt og af mun meiri athygli en nokkur veira hefur verið skoðuð áður, fullyrðir dr. Lee. Sjónvarpsútsendingar og upptökur frá Ítalíu lýsa hörmungum. En dr. Lee segir sjónvarp ekki vera vísindi. Það má víst til sannsvegar færa. Það vita flestir, dr. Lee ekki síður en aðrir, að lokun og einangrun (e. lockdown) dregur úr áhrifum og smiti COVID-19 og slökun á þessum lokunum muni auka á smit. En þarf þetta að verða til þess að halda eigi þessum lokunum til streitu? Er þetta ekki einmitt úrræðið þegar kemur til að um mjög alvarlegan vírus sé að ræða? Því og þess vegna er okkur lífsnauðsynlegt að skrá rétt og færa rétt til bókar. Ef ekki er rétt að því staðið gætu tölurnar gefið rangar vísbendingar um afleiðingarnar sem vírusinn kann í raun og sann að valda. Hvernig getum við annars metið afleiðingarnar af því að fólk geti látið lífið, misst atvinnu, lífsgæði sín og tilgang vegna fyrirséðrar ógnar? Hvað af þessu veldur í raun mestum skaða?

Hér er ekki verið að fjalla um hvort um sé að ræða líf eða fjármuni heldur líf eða líf. Það geta einmitt liðið mánuðir, jafnvel ár þar til við getum metið áhrif gjörða okkar í dag. Hver verður skaðinn af menntunarskorti barna, vegna aukningar sjálfsmorða, aukins geðheilbrigðisvanda og af því að taka heilbrigðisstarfsfólk frá öðrum sjúkum sem eru veikir og þurfa á margvíslegri læknishjálp að halda?

Hvað svo með gífurlegan samdrátt í matvælaframleiðslu og óheyrilegan samdrátt viðskipta á heimsvísu sem mun hafa gífurlegar afleiðingar hér á Íslandi og víðar en sérstaklega í vanþróuðum löndum?

Heimildir: The Spectator 28. mars 2020, www.who.int, www.covid.is

Stefnumál og stöðugleiki


Hverju sinni sem hugað er að velferð þjóðar skiptir miklu að stöðugleiki ríki og fólk geti gengið að grundvallarlífsskilyrðum sem gefnum. Eitt af því er að geta átt skjól, ekki aðeins húsaskjól heldur einnig skjól þegar ekk er í önnur hús að venda.

Traustur grunnur hvers samfélags byggir á því að fólk búi vel í haginn, gæti að því að það sjálft byggi velferð sína á þekkingu og menntun ásamt því að stuðla að viðgangi fjölskyldu sinnar og öryggi. Þegar á reynir eru það einmitt stoðirnar sem hver og ein fjölskylda hefur rekið undir sig og sína sem samfélagið sjálft stendur á.

Grunnstefna, sem á að vera þverpólitísk samstaða um, ætti því að vera sú að tryggja velferð fjölskyldna um fram allt enda eru það þær sem allt annað byggist á. Sé menntun og þekking ekki til staðar og fjölskyldan getur ekki stuðlað að því að ala upp samkeppnishæfar kynslóðir, sem verða að keppa við aðrar á alþjóðlegum vettvangi, eru það fyrirtækin sem eiga erfitt með að fóta sig, skapa atvinnu og stuðla að velferð og viðgangi samfélagsins.

Mikilvægt er að frelsi fylgi ábyrgð. Það verður því að gera þeim, sem vilja auka frelsið, að tryggja að þroski hvers samfélags og geta þess að takast á við aukið frelsi í viðskiptum án þess að slíkt geti valdið öðrum tjóni. Það vill svo vera að oft er talið að við öll séum sterk, traustsins verð og með þann aga sem til þarf að banna sjálfum sér að taka út það og nýta í eigin þágu sem öðrum ber. Eitt má nefna í því samhengi.

Ef við viljum samkeppni og frjálsan markað verðum við að tryggja að slíkt frelsi verði ekki til þess að valda öðrum helsi, m.a. vegna styrk þess sem hefur fengið frelsið í hendur úr hendi ríkis eða sveitarfélags? Gott dæmi eru bankar og stofnanir sem hyggja á sameiningar, hagræðingu og frekari skuldsetningu til að auka arðsemi eiginfjár með því t.a.m. að lágmarka það í bókum sínum. Svo skellur á kreppa, veirufaraldur og önnur vá sem ber að með öðrum hætti í hvert sinn sem slikt kemur öllum á óvart. Það er einmitt þá sem veikleiki hagræðingarinnar kemur í ljós, veikleiki og máttleysi fyrirtækjanna og stofnana vegna of mikilla skulda sem teknar voru þegar allt lék í lyndi. Í hruni koma veikleikar t.a.m. sveitarfélaga og ríkis í ljós og getuleysi til að gæta að grunnstoðum samfélagsins, þ.e. fjölskyldunum. Hvað með að eiga nú fleiri en eitt hátæknisjúkrahús og geta nú tryggt fyrir komandi kynslóðir að allir viti betur, afli þekkingar og læri af því sem við göngum nú í gegnum?

Það er einmitt þá sem margir verða fyrir áfalli geta aðeins leitað á einn stað, þ.e. í trú sína og von ef öll sund eru lokuð. Því er mikilvægt að fólk geti leitað huggunar harmi gegn. Eftir stendur þó ábyrgð þeirra sem ekki huga að áhættu fyrr en hún umbreytist í hörmungar þar sem stoðir gefa sig jafnvel allar nema ein, þ.e. kirkjan.