Börn, ungmenni og öryggisnetið


Í sama mund og heilbrigðismál á Íslandi virðast ramba á barmi hruns karpa stjórnmálamenn, m.a. þeir sem lengi hafa setið í borgar- og bæjarstjórnum, þingmenn og ráðherrar, um hver beri, utan foreldra, ábyrgð á börnum landsins. Nýlega kom út skýrsla sem ber yfirskriftina:

Staða barna með fjölþættan vanda – Skýrsla stjórnenda í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu – SSH (2021)

Í þessari skýrslu kemur fram að málefni barna með fjölþættan vanda er og hefur verið um árabil í algjörum ólestri. Það skiptir litlu þó að Sjálfstæðisflokkurinn sé í meirihluta í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu utan höfuðborgarinnar og í ríkisstjórn, nú eða að Samfylkingin ráði höfuðborginni ásamt Viðreisn og Pírötum og sé eða verði í ríkisstjórn í vinstri stjórn. Það skiptir litlu hvort Vinstri hreyfingin grænt framboð (VG) sé í ríkisstjórn og leggi þar fremur áherslu á hálendisþjóðgarð en flest annað og sé í meirihluta í Mosfellsbæ. Allir þessir flokkar geta ekki komið sér saman um börnin, fatlaða en setja fram háleit markmið sem ekki virka, geta ekki komið sér saman frá ríkisstjórnarborði yfir á sveitastjórnarstigið og öfugt. Er þá hægt að segja að um stjórntæka flokkasamstæðu sé að ræða?

Í skýrslunni kemur m.a. fram að árið 2012 hafi nokkur sveitarfélög leitað til velferðarráðuneytið vegna þessa barnahóps sem enginn virðist hafa verið að aðstoða. Endalausar biðraðir og flækjustig gera það orðið að verkum að börn eru vistuð, fá ekki greiningu fyrr en eftir dúk og disk. nú eru að vera brátt 10 ár síðan að stofnanaherlegheitin hittist og ætlaði sér að bregðast við. Eftir fund framangreindra sveitarfélaga með fulltrúum ríkisvaldsins var skipuð nefnd á vegum velferðarráðuneytisins enda þurfti fjármagn í verkefnið og þörf var á faglegri aðstoð frá ríkinu vegna stöðu barnanna. Í nefndinni sátu fulltrúar frá velferðarráðuneytinu, BUGL, Barnaverndarstofu, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Greingingar og ráðgjafastöð ríkisins, félagsráðgjafi frá geðsviði LSH og aðili frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Að auki starfaði með nefndinni lögfræðingur frá velferðarráðuneyti. Skilaði svo þessi nefnd frá sér skýrslu 2013 sem ber heitið:

Skýrsla nefndar um samhæfða þjónustu við börn með alvarlegar þroska og geðraskanir.

Velferðarráðuneytið 2013

Á þessum tíma var verið að ræða um tæplega tug barna og nýjar fréttir herma að vandamálið er orðið það aðkallandi að BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítalans) ráði hreinlega ekki við stöðu málanna og sérfræðingar þar á bæ telja úrræðaleysi stjórnvalda algjört. Má þar m.a. vísa í frétt Hávars Sigurjónssonar sem birtist í Læknablaðinu árið 2007 en þá var vandinn þegar kunnur. Þar ræddi hann um alvarlega fjárhagsstöðu BUGL við Ólaf Ó. Guðmundsson yfirlækni hjá BUGL.

Sveitarfélög kalla eftir ábyrgð ríkisins og ríkisvaldið virðist algjörlega aðgerðarlaust. Mikið er rætt og ráðherrar jafnvel farnir að fella tár til að draga athyglina frá á málum þessum. Hræsnin er algjör, úrræðaleysið yfirgripsmikið og á meðan þurfa börn og foreldrar þeirra að bíða í röðum rétt eins og aðrir í íslensku heilbrigðistkerfi mótað með sovésku yfirbragði, stefnu sem löngu er liðin undir lok og afgreidd sem ein stærstu mistök mannkyns.

Í ágúst 2020 fól samráðshópur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um velferðarmál starfshópi í barnavernd að afla upplýsinga um þau börn á höfuðborgarsvæðinu sem eru í alvarlegan fjölþættan vanda og í þörf fyrir búsetuúrræði. Fundaði starfshópurinn í ein sjö skipti.

Komst þessi hópur að því að ,,gríðarlegar breytingar í flóru úrræða fyrir börn í vanda“ hafi orðið frá 2012. Getið er um farsældarlög fyrir börn og barnafjölskyldur sem ráðherra barnamála Framsóknarflokksins (Framsókn) hefur básúnað um víðan völl en hvað segir þessi glænýja skýrsla svo:

Ríkið getur ekki skorast undan ábyrgð á þjónustu við þennan hóp barna í mestri þörf fyrir umfangsmikla þjónustu. Slíkt bitnar á börnunum og hagsmunum þeirra.

Staða barna með fjölþættan vanda – Skýrsla stjórnenda í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu, bls. 9 (SSH, 2021)

Hér virðist um þetta mál vera svipað og með NPA samninga heilbrigðisráðherra. Allt fullt af loforðaflaumi frá bæði Framsókn og VG en ekkert fjármagn fylgir frá ríki til sveitarfélaganna sem gert er að framkvæma efni laganna án fjármagnsins. Hversu mikil getur hræsnin orðið og það gagnvart bæði fötluðum og börnum á Íslandi?

Það virðist vera að með framangreinda ríkisstjórnarflokka við völd búi bæði börn og fjölfatlaðir við falskt öryggi þar sem loforðum fylgir ekki fjármagn. Hin hlið málsins felst í spurningu um það hvort búið sé að skuldsetja og yfirkeyra bæði sveitarfélög, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, og ríki að ekki er hægt að byggja á þeim lögum sem Alþingi setur. Svo virðist vera. Loforð í stjórnmálum án innistæðu eru ímyndunarstjórnmál og grafalvarleg þróun.