Hinn bíllausi lífstíll


Hver vill ekki njóta náttúrunnar? Hver vill ekki geta átt meiri frítíma með fjölskyldunni? Hver vill ekki lágmarka tafir þegar mikið liggur við?

Í lögum samtaka um bíllausan lífstíl segir í 1.2. grein þeirra samtaka:

Samtök um bíllausan lífsstíl er þverpólitískt félag fólks sem hefur það sameiginlega áhugamál að gera bíllausan lífsstíl að vænlegri kosti en nú er. Markmið félagsins er ekki að berjast gegn einkabílum eða bíleigendum, heldur einungis að stuðla að fjölbreyttari samgöngum og berjast fyrir því að jafnræðis sé gætt milli ólíkra samgöngukosta.

Þetta er áhugaverð nálgun samtaka sem vilja ekki ,,berjast gegn einkabílnum eða bíleigendum“ en leggja engu að síður áherslu á að ekki eigi að nota slík farartæki. Er þetta þá e.k. tvíhyggja? Nú styðja ófáir félagar þessara samtaka einmitt stefnu um að lagðir séu steinar víða í götu bíleigenda. Þeir styðja umtalsverða lækkun á umferðarhraða, þrengingu gatna og að dregið sé þannig úr afköstum vegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu.

Þann 24. september 2020, rétt í upphafi annarrar bylgju COVID-19 smita á Íslandi, ákváðu samtökin um bíllausan lífsstíl á Íslandi að efna til aðalfundar og skipta um stjórn.

Úrklippa af fésbókarsíðu samtakanna um bíllausan lífstíl – Aðalfundur 24. september 2020

Á fundinn mætti forsvarsmaður verkefnastofu Borgarlínu, Hrafnkell Ásólfur Proppé skipulagsfræðingur. Bryndís Haraldssdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fagnaði nýrri stjórn samtaka sem leggur til að að hún leggi jeppanum og taki Strætó.

Borgarlínur og góðar almenningssamgöngur eru mikilvægar en þarf allt þetta ofstæki í umræðuna? Er ekki í lagi að gæta að hag skattborgara svo vel verði farið með opinbera fjármuni? Það þarf að gæta að því að slíkar línur gæti að samgöngum fyrir alla. Til að leggja áherslu á samgöngur fyrir alla hafa verið stofnuð samtök. Hér má finna vefslóð þeirra samtaka: Áhugafólk um samgöngur fyrir alla.

Fjárfesting á hjólum

Staðfestar fregnir herma að 14 dögum eftir aðalfund samtakanna um bíllausa lífstílinn hafi hinn nýkjörni formaður samtakanna fjárfest í bíl. Það staðfesti formaðurinn sjálfur og einnig formaður framkvæmdastjórnar Pírata sem er víst fjárfestir í þessum bíl formannsins. Svo virðist sem verðlaunafé úr samkeppni á vegum Arion banka hafi riðið þarna baggamuninn.

Það er fagnaðarefni að banki geti glatt ungt fólk og stuðlað að frumkvöðlastarfi með fjárframlögum og margvíslegum verkefnum. Sama má segja um áhuga á drefingu rafskutlna um víðan völl þessi dægrin. Betri almenningssamgöngur eru ekki síður mikilvægar og má þar m.a. nefna BRT-Lite en ekki þunga borgarlínu eins og boðuð er. Útreiðar, hjólreiðar og aðrar samgöngur, bæði á sjó og landi, skipta einnig miklu enda varða samgöngur mikið til frelsi, frelsi til athafna.

Öll ný tækni ætti að gleðja börnin og þá sem vilja helst ekki ganga eða geta það ekki, t.a.m. sökum fötlunar eða flutninga á búnaði sem verður að fylgja með, t.a.m. til vinnu. Þrátt fyrir nýjungar og þrengingar, sem ekki stuðla endilega að frelsi, gæti hyggið ungt fólk engu að síður fjárfest í bifreið til að auka frelsi sitt og komist þannig lengra, t.d. út í sveit. Slíkt er og verður greinilega áfram bráðnauðsynlegt.

Skiptir því greinilega litlu hvort viðkomandi sé fulltrúi FÍB eða formaður samtaka um bíllausan lífsstíl, við þurfum á einkabílnum að halda.

Vinninghafarnir fjárfestu í bifreið

Þetta er fögur sýn á frelsið. Það skiptir litlu hvað ráðandi stjórnvöld reyna og berjast fyrir því að setja hömlur á fólk, skerða frelsið. Fólk mun ávallt leita leiða til að auka frelsið sitt. Það eru hins vegar til þeir sem vilja njóta frelsisins en koma böndum á aðra. Þarna geta vissulega legið að baki hefðbundin eiginhagsmunapólitík sem byggir á því að til að geta aukið eigið frelsi verði að koma böndum á frelsi annarra.

Unga fólkið flest þekkir vel hvað felst í frelsi.

Hvað er frelsi? Krafturinn til að lifa eins og maður vill.

Marcus Tullius Cicero