Leyndardómur heimsborgara með augum afdalastráks.


Á árunum undir og eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar var það í tísku meðal góðborgara höfuðstaðarins að stunda fjallferðir. Hvítasunnuhelgin var sérstaklega vinsæl til útivistar og jöklaferða enda þá ekki þiðnað af jökulsprungum og tíðarfarið orðið hentugt til tjaldvistar.

Vorið 1945 var sögumaður sjö ára gamall og beið ævinlega spenntur eftir hvítasunnunni en þá fylltist dalurinn hans undir suðurhlíðum Eyjafjalla af tjöldum. Mest áberandi voru tjaldbúðir ungmennafélaga úr Reykjavík, sem risu á grundunum milli Lambafells- og Raufarfellsfjalls, en minni einangraðir hópar fengu tjaldstæði á Hlaupinu innan við heimatúnið og við Bakkanum neðan við bæinn. Bakkinn var allar hvítasunnuhelgar frátekinn fyrir ákveðinn, lítinn hóp vaskra jökulfara sem gengu á Goðastein. Einn meðlimur þessa hóps var vörpulegur, ókvæntur, verslunarmaður úr höfuðstaðnum og þekktastur fyrir að vera bróðir eins virtasta tónskálds og tónlistarmanns þjóðarinnar. Við skulum kalla hann Brúnólf í þessari frásögn. Enda mætti hann alltaf brúnklæddur í þessar fjallferðir og eftir nýjustu Evróputísku þessa tíma. Sannur heimsborgari.

Brúnólfur
Brúnólfur

Gestur í Stofunni

Og það brást ekki að þegar strákurinn kíkti út um baðstofugluggann snemma á laugardagsmorguninn, daginn fyrir hvítasunnu, var Grændalurinn þakinn, rútum og tjöldum og nokkur tjöld einnig komin upp neðan við Bakkann og inni á Hlaupinu. Hann vissi þá jafnframt að hann átti ekki að vera með skark í bæjargöngunum framan við stofudyrnar því Brúnólfur varð að fá að sofa frameftir eins lengi og hann kærði sig um. Brúnólfur tilheyrði hópnum sem tjaldaði á Bakkanum, en hann gisti sjálfur ævinlega í stofunni á bænum hans. Þessi tilhögun var greinilega skipulögð með góðum fyrirvara því stofan var alltaf undirbúin sérstaklega fyrir þessa gistingu. Hvunndags- stofusóffinn var fjarlægður og sett saman sérstakt langt rúmstæði, sem sótt var upp á háaloft, en Brúnólfur var hávaxnari en venjulegir menn. Þá var komið fyrir í stofunni þvottaskál og stórri, blárri emeleraðri vatnskönnu svo gesturinn gæti þvegið sér og rakað sig fyrir framan stofuspegilinn. Þennan tiltekna laugardagsmorgun læddist strákurinn því fram bæjargöngin á sokkaleistunum. Út með dyrakarminum á stofunni angaði framandi kaupstaðalykt og með smá hlustunartilfæringum gat hann heyrt að gesturinn hraut. Hann fór, aldrei þessu vant, í gúmmískóna sína úti á stéttinni og flýtti sér út í fjós til foreldranna sem voru þar við morgunmjaltirnar. Hann var sjö ára, bráðum átta og vildi nú ýmislegt vita um þennan framandi gest sem svaf í langa rúminu, þvoði sér upp úr skál, lyktaði eins og kerlingarnar í Hólakirkju, en hraut samt eins og annað fólk þegar hann svaf. Hann komst varla inn úr fjósdyrunum þegar spurningaflóðið hófst utarlega í flórnum.

Mamma af hverju sefur hann Brúnólfur ekki í tjöldunum eins og hinir kallarnir í hópnum hans? Af hverju er svona vellyktandi út úr stofunni? Af hverju fær hann að sofa út þegar allir eru komnir á lappir í bænum?

Foreldrarnir létu sér hvergi bregða þar sem þau sátu á mjaltakollunum.

O-jæja væni minn vertu ekki svona spurull. Honum Brúnólfi finnst ekki gott að sofa í svefnpoka í tjaldi, svo ber hann á sig rakspíra þegar hann hefur rakað sig, hann er líka elstur í hópnum og þarf að hvíla sig vel.

En strákurinn hélt áfram og vildi vita meira.

Af hverju er hann elstur í hópnum og af hverju étur hann ekki nesti úr dósum frá sjálfum sér eins og hinir? Amma er búin að hræra fulla skyrskál og bað mig að minna þig á að fleyta ofanaf fyrir hann.

En líklega hef hann gengið of langt í forvitninni því pabbinn blandaði sér í umræðuna.

Siggi minn! við ræðum ekki um gestina okkar. Hann Brúnólfur er sómamaður, svolítið sérstakur, bráðskemmtilegur en kanski smávegis hátíðlegur og spéhræddur og ég fyrirbýð þér að hlæja að honum. Og svo ekki orð utanbæjar um gestinn okkar.

Þar með var málið útrætt. Samt vissi hann ekki almennilega hvað það var að vera spéhræddur og flýtti sér því aftur inn í bæ til að fá nánari skýringar hjá ömmunni. Hátíðlegur taldi hann víst að væri eins og fólk hagaði sér í kirkju.

Hvað er að vera spéhræddur amma?

Já væni minn það er nú aðallega svona þegar menn eru viðkvæmir fyrir hvað öðrum finnst um þá og þola t.d. alls ekki að gert sé að þeim grín eða hlegið að þeim.

Má ég þá ekki herma eftir honum?

Spurði strákurinn.

Þú átt nú sossum ekki að herma eftir neinum garmurinn

sagði amma hans.

En má ég þá ekki uppnefna hann eða segja að hann sé líkur einhverri hænunni í hænsnakofanum?

Spurði hann vondaufur.

Okkur líkar ekki væni minn að þú sért að bulla um fólk, uppnefna það og herma eftir.

Sagði amman snúðug.

Þið mamma hlógu nú samt báðar þegar þið hélduð að ég sæi ekki til ykkar, eftir að ég fullyrti að bæklaða hænan sem lenti undir kofahurðinni væri alveg eins og hún Sigga gamla.

Sagði hann galvaskur. Þá snéri gamla konan sér að eldavélinni, skaraði í, sussaði honum burtu og hann hefði geta svarið að hún brosti í kampinn.

Herbergi að Seljavöllum
Herbergi að Seljavöllum

Leyndarmálið af hverju Brúnólfur gisti inni í bæ

Morguninn var lengi að líða meðan strákurinn beið eftir að gesturinn í stofunni vaknaði, klæddi sig og kæmi á stjá. Þá hugsaði hann með sér að best væri bara að rölta niður á Bakka og forvitnast þar meir um spéhrædda gestinn í langa rúminu. Honum var að venju tekið kostum og kynjum í tjaldbúðunum á Bakkanum. Þarna voru u.þ.b. tíu tólf galvaskir strákar, nýskriðnir upp úr svefnpokunum og byrjaðir að pumpa prímusana. Strákurinn var kotroskinn eins og ófeimnum afdalastrákum er tamt og tjaldbúar höfðu gaman af grobbinu í honum. Spurðu hann um laugina, hvort eitthvað væri um gjafvaxta stelpur á næstu bæjum og hve margar beljur væru á bænum. Hann svaraði eftir bestu getu þótt hann vissi ekki hvað gjafvaxta var. Jók í og taldi bæði kálfa og tudda með kýreign foreldranna og nefndi með nafni alla næstu bæi þar sem heima áttu ógiftar stúlkur og taldi þá ógiftar kerlingar með allt upp í áttrætt. Þegar um hægðist spurði hann sjálfur yfir hópinn.

Af hverju sefur hann Brúnólfur ekki í tjaldi hérna eins og þið?

Honum fannst sem að umræðubann föðursins um gestinn ætti ekki við í hópi gestins sjálfs eða í túnfætinum á bænum. Það kom hik á hópinn, spurningin greinilega óvænt og eftir smá augnagotur svaraði fyrirliðinn.

Hann Brúnólfur gistir alltaf á næsta bæ þegar við förum saman í fjallferðir, hann kann nefnilega ekki að kúka á hækjum sér.

Þá vissi hann það, Brúnólfur gisti inni í rúmi á bæ með þokkalegan kamar vegan þess að hann kunni ekki að kúka úti. En honum fannst þetta ekki nóg.

Hvað gerir hann þá uppi á heiði eða uppi á jökli á morgun ef honum verður illt í maganum?

Aftur drógst með svarið sem þó að lokum kom eins og fyrr frá fyrirliðanum.

Við gröfum bara holu fyrir hann og röðum þrem steinum kring um holuna, en hættu svo að spyrja um þetta strákur.

Svo rétti talsmaðurinn stráknum tíkall og lítinn mjólkurbrúsa og bað hann að sækja mjólk heim á bæinn. Og þar sem strákurinn taldi sig nú, eftir ráðningu sína sem mjólkurpóst, vera orðinn nánast einn úr hópi tjaldbúa ætti hann fulla heimild til að vita fleira sem hann var forvitinn um.

Hann Brúnólfur getur nú notað kamarinn heima þó hann sofi hér í tjaldi eins og þið gerið?

Honum er líka illa við að hátta í köldu tjaldi, honum finnst hart að liggja á hörðum tjaldbotni og honum finnst betra að raka sig inni í húsi en utan við tjaldskör og þegiðu svo strákur og sæktu mjólkina.

Með það fór hann heim eftir mjólkinni þó mörgum óspurðum spurningum væri ósvarað um Brúnólf. Af hverju hann æti bara með fólkinu á bænum en ekki prímusmat úr dósum og drykki gosdrykki með ásamt tjaldfélögum sínum. Af hverju hann fengi nestið sitt útbúið á bænum, rúgbrauð og flatkökur með miklu sméri og kæfu og stóra mjólkurflösku. Hann spurði auðvitað að þessu öllu þegar hann kom til baka með mjólkina á tjaldstaðinn, ákveðin í að afhenda ekki mjólkurbrúsann fyrr en svör hefðu fengist. En fyrirliðinn lét sig ekki og sagði nú hálfhlægjandi en ákveðinn.

Nú steinþegir þú strákur eða ég segi honum pabba þínum af bullinu í þér.

Þá þorði strákurinn ekki annað en bakka, afhenti brúsann þegjandi og rölti til baka upp túnið.

Gesturinn kunni ekki að meta súrheyslykt

Brúnólfur var vaknaður, komin á fætur og búin að raka sig svo glansaði á bústnar kinnarnar. Hann angaði af vellyktandi, sem fólk kallar víst rakspíra fyrir sunnan. Þessi stóri maður í brúnni fínprjónaðri peysu varð að beygja sig í hverju dyragati. Hann var í brúnum einskonar reiðbuxum sem náðu rétt niður á fótleggi og enduðu þar í mjóum hólk. Neðanfrá var hann í gljáandi brúnum, háreimuðum fjallgönguklossum og ljósbrúnum sokkum sem náðu hátt upp á fótleggina utan yfir buxnahólkana. Á handleggnum hélt hann á brúnan stormjakka úr leðri, fóðraðan með einhverju mjúku og áfasta loðna hettu. Í vösunum glitti á þykka leðurhanska. Stráknum fannst þessi manneskja stórkostlegt fyrirbæri en það vantaði næstum því á hann hökuna. Röddin hans var dimm og djúp og hláturinn skrítinn eins og þessi hljóð öll kæm ekki úr munninum eða hálsinum heldur neðan úr maga. Strákurinn sat við eldhúsborðið hjá ömmu sinni og var að éta morgungrautinn sinn en gamla konan setti skyr og nýfleyttan rjóma fyrir gestinn. Brúnólfur talaði lengi bara við ömmuna en ekkert við strákinn. Hann borðaði skyrið sitt hægt og rólega, tók lítið í skeiðina í einu, hélt henni pent og litli fingurinn á hægri hendinni stóð þráðbeinn út í loftið. Það hafði strákurinn aldrei séð, langaði til að hlæja en þorði það ekki. Hann talaði heilmikið um veðrið, jökulinn, síðustu jöklaferðirnar sínar á aðra jökla og um fólk sem þau bæði þekktu fyrir sunnan amman og hann. Hann talaði ekki með matinn uppi í sér heldur stoppaði átið meðan hann talaði og hló svo á milli svo glumdi í eldhúsinu. Svo kom þó að lokum að hann beinti orðum sínum yfir borðið og spurði strákinn hvað hann væri gamall, hvort hann hjálpaði ekki foreldrum sínum við gegningarnar og eitthvað fleira sem stráknum fannst ekkert merkilegt.

Ég moka stundum flórinn og skríð inn í súrheysgryfju og leysi þar fyrir pabba.

Svaraði strákurinn, en heyrði fljótlega að gesturinn vissi ekkert hvað súrhey var eða hvað það var að leysa.

Ert þú að meina votheysgryfju?

Spurði gesturinn.

Sú agalegasta lykt sem ég veit um er af þessu votheyi.

Sagði gesturinn.

Það er ekkert vond lykt af súrheyinu okkar.

Sagði strákurinn móðgaður og stakk upp á því að gesturinn kæmi bara með sér og finndi sjálfur. Við þessa tillögu rak Brúnólfur langt nefið beint upp í loftið svo hálsinn á honum náði alveg yfir munn og allt upp að nefi, en svaraði engu. Stráknum sem fannst að þrátt fyrir ítrekaðar eftirgrennslanir hefði hann ekki fengið fullnægjandi svör við útúrboru Brúnólfs frá hópnum sínum á Bakkanum og ákvað bara að ganga hreint til verks við þann sem svörin ætti að kunna. Þegar amman brá sér niður í kjallarann notaði hann tækifærið og spurði.

Af hverju sefur þú ekki í tjöldunum eins og hinir í hópnum þínum og er það satt að þú kunnir ekki að kúka úti?

Skyrskeiðin, sem var á leið framhjá löngum hálsinum upp í munninn á gestinum, stoppaði á miðri leið og stífi litli fingurinn hvarf inn í lófann. Strákurinn hafði aldrei beðið eins lengi eftir nokkru svari. Það barst heldur ekki því að amman kom upp úr kjallaranum í sama mund og strákurinn ætlaði að fara að hvá, eins og hann var vanur ef hann fékk ekki svör strax við sínum mörgu spursmálum. Hann hætti við það og gesturinn hætti við að svara hafi hann á annað borð ætlað sér það. Hann lauk við skyrið sitt þakkaði ömmunni innilega fyrir og strauk blíðlega um kollinn á stráknum þegar hann stóð upp, beygði sig í dyragættinni og gekk út bæjargöngin. Þegar Brúnólfur var farinn til félaga sinna niðri á Bakkanum til að funda og skipuleggja jökulgönguna næsta dag vogaði strákurinn sér að opna rifu á stofudyrunum og kíkja þar inn. Risastór leðurtaska með veglegum ólum stóð á gólfinu við rúmgaflinn og á hillunni neðan við spegilinn voru raktæki og einhverjar smákrúsir. Stofan angaði öll af vellyktinni sem fólk kallaði rakspíra. “Vertu ekki að snuðra þarna í gættinni heillin mín,” sagði amman, sem átti leið framhjá inn í Gamleldhúsgöngin. “Meðan gestir dvelja í þessu herbergi eiga engir aðrir að koma þar inn nema sá sem býr um og þrífur.” Þá vissi hann það, hallaði aftur hurðinni og dró sig út á stéttina. Hann var enn úrillur yfir því að Brúnólfur teldi sjálfgefið að lyktin af súrheyinu heima hjá honum væri agaleg.

Hvítasunnudagurinn fram á kvöld árið 1945

Jöklafararnir voru löngu horfnir á braut þegar strákurinn vaknaði á hvítasunnumorgninum. Tjöldin á Bakkanum voru harðreimuð aftur, stofan á bænum var líka mannlaus og skíðin horfin af þakgrindum bílanna. Sólin skein í heiði og það var eins og þessi hvítasunnudagur stráksins á bænum yrði dæmdur til að verða óendanlegur. Hvernig gengi nú strákunum og Brúnólfi jökulgangan og hvernær mætti búast við að sjá þá koma niður heiðina og fram á brúnirnar ofan við bæinn? Hvernig færi nú ef Brúnólfi yrði illt í maganum á leiðinni? Ætli þeir hafi munað að taka með sér skóflu til þess að grafa fyrir hann holu ef svo færi? Honum var allt í einu annt um Brúnólf svona með sjálfum sér. Hann var jú eldri en hinir, hálfgerður kall og sá eini sem ekki skammaði hann fyrir hvað hann var spurull. Samt fór ekki úr honum ergelsið yfir súrheyslyktinni. Hann ákvað að þegar Björgúlfur kæmi til baka myndi hann skríða inn í súrheysgryfjuna og ná í tuggu handa honum til að þefa af. Hann vissi af reynslu fyrri vora að jöklafararnir færi beint í sundlaugina, tæku þar kalda sturtu og sundsprett til þess að ná úr sér harðsperrunum. Honum var líka falið það ábyrgðarstarf að fara með sundfötin þeirra inn í laugina án tafar þegar þeir birtust á neðstu brúnum, en þau voru frágengin í stórum bakpoka á stofugólfinu. Hann hafði ofanaf fyrir sér með venjulegum hætti fram eftir deginum við að stríða hundinum, leita að eggjum, elta pabbann í fjárhúsið og veita í læknum. Þegar klukkan var orðin fimm síðdegis sat hann samt fastur á útkikkinu. Loksins sá hann þá koma fram á brúnina fyrir ofan Svarthamra.

Hvar er Brúnólfur?

Spurði hann umsvifalaust inn við laugina þegar hann sá hann ekki í hópnum.

Þú er jafn spurull og þú varst í gær.

Svaraði fyrirliðinn og brosti.

En annars hann fór beint niður að bænum og kemur ekki hingað í laugina að þessu sinni. Við skulum taka sundfötin hans heim með okkur.

Varð honum illt?

Spurði strákurinn.

Nei nei honum varð ekkert illt.

Svaraði foringinn.

Gleymdu þið kanski skóflunni og hann gat ekki kúkað eða datt hann í holuna kanski og meiddi sig á rassinum?

Spurði strákurinn.

Svona svona nú.

Sagði fyrirliðinn þolinmóður.

Víst kom svolítið fyrir rassinn á honum en hann jafnar sig nú á því og komdu þér heim núna.

Strákurinn lét ekki segja sér það tvisvar en hentist fram einstigið, aurinn og heimaúnið í einum flengspretti. Á leiðinni ímyndaði hann sér allskonar hremmingar, sem aumingja Brúnólfur hefði lent í með rassinn á sér. Kanski hefur hann stíflast eða dottið niður í holuna. Honum var farið að verða verulega vel við Brúnólf þó kallinn kynni ekki að meta súrheyslykt. Þegar heim kom henntist hann inn í bæ og alveg inn í eldhús en þar sat Brúnólfur makildalega á eldhúsbekknum, peysulaus með rúmteppi yfir kríkana. Hann þorði ekki að spyrja neins pabbann, gestinn eða ömmuna sem öll voru í eldhúsinu og leitaði að mömmu sinni sem sat við saumavélina við gluggaborðið í stofunni og var að sauma eitthvað í brúnu buxurnar hans Brúnólfs.

Hvað kom fyrir Brúnólf mamma?

Svo sem ekkert væni minn, það rifnuðu aðeins buxurnar hans og ég er núna að lagfæra það.

Og lengra komst hann ekki innanbæjar. Hann sat því fyrir jöklaförunum þegar þeir komu úr lauginni í tjöldin sín.

Hvað kom fyrir Brúnólf?

Og nú spurði hann allan hópinn en ekki bara foringjann.

Af hverju rifnuðu buxurnar hans?

Ég hljóp með sundfötin ykkar alla leið inn í laug svo þið getið bara sagt mér hvað kom fyrir.

Líklega var stutt í skeifuna á sjö ára andliti stráksins því hópurinn umvafði hann skyndilega, gaf honum súkkulaði og gosdrykk. “Þetta var ekkert alvarlegt,” sagði fyrirliðinn.

Hann Brúnólfur stígur aldrei á skíði, hann gengur bara og gengur okkur alla af sér sem yngri erum. Við komum upp á Goðastein í blíðskapar veðri og sóluðum okkur í snjóbirtunni. Svo renndum við okkur á skíðunum niður bunguna í hlykkjum og beyjum til þess að drýgja vegalengdina niður. Brúnólfur ætlaði bara að labba niður beinustu leið eins og venjulega. Líklega hefur hann viljað auðvelda sér niðurleiðina og tók það til bragðs að renna sér niður hábunguna á rassinum. Hann gat ekki stoppað sig tímalega og endaði með að missa rassinn úr buxunum. Svo gekk hann með peysuna sína bundna um mittið niður alla heiði og lét hana hylja bossann. Við sáum þetta en hann var ófáanlegur til þess að ræða málið og þú skalt líka láta kjurt liggja.

Strákurinn lallaði sáttur upp túnið og inn í bæ. Hann flýtti sér framhjá stofunni og eldhúsinu og fór beint í rúmið því hann vissi að ef hann mætti Brúnólfi þá færi hann að hlæja.