Menntastefna, umbætur og skólaþróun


Hér er um að ræða endurrit úr glósum og fylgigögnum sem eru hluti af ferilmöppu höfundar í námskeiðinu Námskrá og skólaþróun (KEN213F) í umsjón dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur prófessors á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, dr. Hjördís Þorgeirsdóttir framhaldsskólakennari og dr. Atli Vilhelm Harðarsson dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.


Hvenær verður einstaklingur betur menntaður eftir að hafa gengið í gegnum skóla? Hvort er réttara einblína á að byggja upp menntað samfélag eða menntaða einstaklinga? Er þarna munur á og hver á að sinna því hlutverki og þá hvernig?

Í Skýrslu Evrópumiðstöðvar (2017) er ítrekað varað við því að skortur á sameiginlegri sýn kunni að valda því að framkvæmd við innleiðingu stefnunnar um menntun fyrir alla verði yfirborðskennd og vandamálamiðuð og að ranghugmyndir um stefnuna standi framkvæmd hennar fyrir þrifum. Því er mikilvægt að beina sjónum að markvissu námi um hvað menntun fyrir alla þýðir í raun og veru, hvers konar starfshættir eigi þar við og hvers konar starfshætti þurfi að uppræta.

Menntun fyrir alla, skýrsla unnin fyrir mennta- og menningamálaráðuneytið, júní 2019, bls. 18.

Skólastigin

SkólastigISCEDÍSLAND
Leikskóli00
Barnaskóli/yngsta- og miðstig11
Gagnfræðiskóli/unglingastig21
Framhaldsskóli31, 2 & 3
Millistig framhalds- og háskóla44
Háskóli5-85-7
Heimild: Dr. Atli V. Harðarsson, fyrirlestur HÍ, 2021

Sé litið á flokkun skólastiga (ISCED – International Standard Classification of Education) á Íslandi í sambanburði við mörg önnur lönd má sjá talsverðan mun. Þessi munur hefur aldrei verið fyllilega útskýrður af íslenskum stjórnvöldum. Gott dæmi um þetta er að nú, innan framhaldsskólastigsins, er að finna stig 1, 2 og 3 á meðan víðast hvar og samkvæmt ISCED á aðeins að vera þar að finna 3. stig.

Í barna- og gagnfræðiskólum á Íslandi, sem eiga að flokkast í 1. og 2. stig, er aðeins að finna 1. stig. Hvað veldur að margir íslenskir nemendur eru skráðir í ,,lægra flokkað“ nám en nemendur á sama aldri eru skráðir í víða erlendis?

Samkvæmt þessu geta nú fulltrúar framhaldsskóla á Íslandi ráðið til sín menntaða grunnskólakennara, væntanlega á lægri launum, þ.e. kennara sem hlotið hafa nám fyrir kennslu á 1. stigi, sbr. ISCED og látið þannig hjá líða að ráða kennara í framhaldsskóla sem eru menntaðir framhaldsskólakennarar á 3. stigi. Eru stjórnvöld skipulega að draga úr gæðum menntunar á framhaldsskólastigi á Íslandi?

Grunnþættir og hæfniviðmið aðalnámskrár

Í aðalnámskrá er lagt upp úr 6 grunnþáttum menntunar ásamt hæfnisviðmiðum. Það er ákveðin hefð í námskrárfræðum að geta um hæfnismarkmið enda eðli máls mikilvægt. Með tilkomu Bologna ferlisins var tekin upp samræming á stefnu ríkja innan Evrópusambandsins vegna æðri menntunnar og þar fléttuðust inn hæfniviðmið. Með hæfniviðmiðum er m.a. lögð áhersla á að:

  • markmið sem á að ná,
  • markmiðin haldi sem á að ná,
  • hvernig á að skipuleggja þessi markmið og nýta reynslu,
  • metið sé hvernig og hvort markmið hafa náðs.

Um þessi hæfnimarkmið er m.a. fjallað í aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 í kafla 2.2. og 10.1.

Framhaldsskólar skulu bjóða nemendum nám við hæfi þar sem tekið er mið af hæfni nemandans og framtíðaráformum. Lokamarkmið hverrar námsbrautar skulu endurspegla hæfni nemenda að loknu námi. Þau kallast því hæfniviðmið og skulu vera lýsandi þannig að nemendur viti í upphafi að hverju er stefnt. Lögð er áhersla á að öll svið lykilhæfninnar séu sýnileg í hæfniviðmiðum námsbrauta.

Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011, kafli 10.1.

Þegar kemur að grunnþáttunum 6 þar sem m.a. er getið að sjálfbærni er einn þeirra grunnþátta. Svo virðist að grunnþættirnir eigi að snúa fremur að nemendanum sjálfum. Þessir grunnþættir eru:

  • læsi,
  • sjálfbærni,
  • heilbrigði og velferð,
  • lýðræði og mannréttindi,
  • jafnrétti,
  • sköpun.

Náum við þessu t.a.m. með því að fá nemendur til að syngja í kór þar sem við göngum ekki á gæði náttúrunnar? Hvað með leiklistarlíf? Hvernig eiga einstaklingar að ná að uppfylla þessa grunnþætti í sama mund og markmiðið er að ná þeirri hæfni sem sett eru í þeim markmiðum sem getið er um í aðalnámskrá?

Gagnadrifin stjórnsýsla

Sé litið á hönnun og smíði námsbrautar er hún gerð úr áföngum. Áfangar eru hinsvegar aðeins skilgreindir með því að skrifa texta í reiti í kerfi Menntamálastofnunar. Það er einmitt þarna sem ætlunin er að skilgreina leikni og hæfni sem leitast verður eftir að nemandi nái og virðist skv. þessu tæknilega útilokað af hálfu stofnunarinnar og yfirvalda að víkja frá hæfnimiðaðri hugsun og snúa meira að þeim grunnþáttum sem getið er um í aðalnámskrá. Er ríkið enn of miðstýrt í hugsun þegar kemur að námsþróun?

Dr. Atli Vilhelm Harðarsson, dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, hefur lagt sig í framkróka við að benda á hina gagnadrifnu stjórnsýslu í tengslum við nám. Hann getur þess m.a. að oftar en ekki hafa miðstýrðar umbætur í menntamálum fremur mistekist en hitt. Hvað er þá til ráða?

White (2005) segir bæði að ákvarðanir um námskrá verði að taka mið af pólitískri sýn á hvað er gott samfélag og að markmið menntunar snúist um velferð nemandans fremur en um skyldur hans við aðra. Á svipuðum nótum talar Sigrún Aðalbjarnardóttir (2007, bls. 95) um það sem verkefni hvers samfélags „að finna jafnvægi milli einstaklingshyggju og samfélagshyggju“.

Dr. Atli Vilhelm Harðarsson, Tvímælis: Heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans, Netla, 11.12.2019, bls.7.
Njótum námsins

Umræða um menntun og úrbætur í menntun mótast af mismunandi áherslum og skoðunum. Eigum við að ,,framleiða“ nemendur fyrir atvinnulífið eða eigum við að gæta að börnunum og mennta ungt fólk sem getur notið sín ásamt því að standast alþjóðleg viðmið, ungt fólk sem getur notið lífsins til fulls og það með sjálbærnum hætti?

Hvernig er hægt að ná markmiðum hins opinbera um allt þetta? Eru þetta raunhæf markmið og mælanleg? Hins vegar er spurning hvort öll markmið eigi og geti verið mælanleg.

Í gegnum árin virðist ríkið kalla eftir stöðluðum veruleika en horfir ekki á flókið samspil menntunar, náms og þeirra einstaklinga sem mynda skólasamfélagið, þroskast þar og dafna. Einingar eru gott dæmi um þetta staðlaða form á menntun. Hafir þú náð stúdentsprófi í dönsku og þeim einingum sem til þarf er víst að þú getir yfirleitt bjargað þér á dönsku? Kanntu eitthvað í þessu tungumáli? Ríkið segir að svo sé sértu búinn að uppfylla fjölda eininga. Er slíkt mat fullnægjandi? Svar mitt er nei.

Hættan er sú að gögn einfaldi veruleikann og í raun myndi skekkju. Gagnadrifin stjórnsýsla þarf ekki endilega að mæla rétt, gefa réttar upplýsingar eða vera grunnur sem miða á við til að taka ,,réttar“ ákvarðanir fyrir skólasamfélög.

Menntastefna í mótun

Nú þegar menntastefna er mótuð og sett til framtíðar á markmið sem ekki er hægt að ná, hverskonar stefna er það? Hvorki er möguleiki á að mæla né átta sig á hvort markmiðum sé náð. Erum við með það ljóst hvort einstaklingur sé yfirleitt betur menntaður og að þá samfélagið í heild ef það byggir á gögnum sem sýna og mynda skekkju, þ.e. bjögun? Hvernig eiga stjórnendur skóla að huga að störfum sínum í skólum svo hægt sé að uppfylla allar þessar kröfur og ná árangri?

Rannsökum

Spurningin hvort markmiðið eigi að vera að hefja sig yfir þetta og einblína aðeins á hæfnina. Svo er spurning hvort við eigum fremur að líta til vitsmunalegra dygða eins og þekkingaþrár, virðingu fyrir skynsemi og rökum, hæfilega efagirni, auðmýkt fram fyrir leyndardómum tilverunnar? Í þetta fléttast siðferðislegar dygðir eins og hátterni, framferði, skapferli og hugarfar.

Við erum greinilega langt frá markmiðum okkar en látum ekki deigan síga, stefnum áfram að betra lífi, meiri sjálfbærni sem mótuð er af skynsemi og góðu hyggjuviti.