Menntastefna til 2030


Hér er um að ræða endurrit úr glósum og fylgigögnum sem eru hluti af ferilmöppu höfundar í námskeiðinu Námskrá og skólaþróun (KEN213F) í umsjón dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur prófessors á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, dr. Hjördísar Þorgeirsdóttur framhaldsskólakennara og dr. Atla Vilhelm Harðarssonar dósents á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.


Heimildir herma að í kringum 1979 hafi ekki verið til aðalnámskrá fyrir framhaldsskólanna. Fyrsta samræmda aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla leit dagsins í ljós í ráðherratíð Birgis Ísleifs Gunnarssonar þv. menntamálaráðherra árið 1986.

Í ritrýndri fræðigrein sinni, Fleiri vindar blása, fjalla þau Árný Helga Reynisdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson um þær miklu breytingar sem áttu sér stað í umhverfi íslenskra framhaldsskóla á árabilinu 1986 til 2012. Sérstaklega er tekið fram að lög um framhaldsskóla árið 2008 ásamt útgáfu aðalnámskrár árið 2011 hafi falið í sér verulega stefnubreytingu frá fyrri viðmiðum varðandi skólastarf. Í framangreindri grein, sem birt er í Netlu, segir m.a. varðandi niðurstöðu af viðtölum við tólf kennara í fjórum framhaldsskólum á Íslandi:

Niðurstöður benda til þess að hlutverk kennaranna hafi breyst töluvert, t.d. fylgja því fleiri uppeldis- og kennslufræðilegar áskoranir sem rekja má til breyttrar samfélagsgerðar og fjölbreyttari nemendahóps. Viðhorf nemendanna hafa breyst, þeim finnst ekki lengur „merkilegt“ að vera í framhaldsskóla, þeir eru lítt móttækilegir fyrir upplýsingum sem hópur, þeir gera kröfur um athygli sem einstaklingar og eru síður pólitískt meðvitaðir. Viðmælendum okkar kvörtuðu ekki undan breytingunum á nemendahópnum en viðurkenndu að þetta gerði skólastarfið ekki einfaldara. Þeir nefndu að kennsluhættir hefðu breyst, t.d. að verkefnavinna hefði aukist á kostnað prófa. Einnig hefði skrifleg umsýsla aukist, ekki síst eftir tilkomu upplýsingatækni. Aðalnámskráin frá 1999 var flestum viðmælendum minnisstæð og ný aðalnámskrá frá 2011 fékk fremur jákvæða dóma, þótt ýmislegt hafi þótt óljóst um hvernig ætti að útfæra suma þætti hennar í skólastarfinu.

Árný Helga Reynisdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Fleiri vindar blása – Viðhorf reyndra framhaldsskólakennara til breytinga í skólastarfi 1986-2012, Netla 3. október 2013.
Fyrsta útskrift stúdenta við Menntaskólann í Hamrahlíð í júní 1970
Guðmundur Arnlaugsson (f.1913-d.1996) í pontu og ávarpar nýstúdenta MH
Heimild: Einu sinni var, Elín Hirst (2009)

Þetta er auðvitað stórmerkilegt að fyrsta aðalnámskráin varð til með grasrótarstarfi.

dr. Atli Vilhelm Harðarson, dósent, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, 21. janúar 2021

Það er áhugavert að í raun voru það kennarar sem mótuðu grunn að fyrstu samræmdu aðalnámskránni fyrir framhaldsskólanna með fundarhöldum og samræmdum vinnubrögðum, áfangalýsingum kennarra úr Flensborg, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti (1976). Síðar bættust fleiri kennarar við í þessa samræmdu vinnu þar sem þeir bjuggu til sameiginlega nálgun. Þegar ráðuneyti menntamála ákveður að gera aðalnámskrá nýtir ráðuneytið þessa vinnu kennara og mótar úr efniviðnum þeirra nýja aðalnámskrá, þá fyrstu fyrir framhaldsskóla á Íslandi.

Bæklingurinn, Í krafti upplýsinga: tillögur menntamálaráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni 1996-1999, sló tóninn sem síðar mátti lesa í nýrri aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla 1999 innihélt. Hún kemur fram í tíð Björns Bjarnasonar þá menntamálaráðherra.

Í gildi er aðalnámskrá 2011, 2. útgáfa með breytingum frá 2015, og í henni eru tilgreindir eftirfarandi 6 grunnþættir menntunar:

  • læsi,
  • sjálfbærni,
  • heilbrigði og velferð,
  • lýðræði og mannréttindi,
  • jafnrétti,
  • sköpun.

Framangreind aðalnámskrá kom fram í tíð Katrínar Jakobsdóttir þáverandi menntamálaráðherra og núverandi forsætisráðherra. Um hæfni segir í gildandi aðalnámskrá.

Ætlast er til að lykilhæfni og grunnþættir fléttist saman og myndi burðarstoð í öllu starfi framhaldsskóla, starfsumhverfi og skólabrag sem og námi og kennslu allra námsáfanga. Við umsókn um staðfestingu námsbrautarlýsinga er skólum skylt að útskýra hvar og hvernig grunnþáttum og lykilhæfni er sinnt.

Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011, 2. útgáfa með breytingum 2015, bls. 31.
Samspil grunnþátta og hæfni í aðalnámskrá framhaldsskóla 2011
Samspil grunnþátta og hæfni í aðalnámskrá framhaldsskóla 2011

Byggði framangreind aðalnámskrá m.a. á mikilvægi skóla án aðgreiningar sem á stoð í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samhliða var framhaldsskólum gert heimilt til að móta sína námskrá í ríkari mæli.

Brot úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna
Brot úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Nútímasamfélag gerir margar og oft mótsagnakenndar kröfur til þegnanna. Hlutverk skólakerfisins er m.a. að búa einstaklinginn undir áskoranir og verkefni daglegs lífs og hjálpa honum að fóta sig í flóknu samhengi náttúru og samfélags, hluta og hugmynda.

Aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla 2011

Rétt er að minnast á Hvítbók þá er Illugi Gunnarsson, þv. menntamálaráðherra, lét gefa út 2014 en þar var lögð áhersla á læsi. Þar kom m.a. fram að stefnt yrði að því að 90% barna nái lágmarksviðmiðun í læsi en staðan þá var um 79% barna náðu viðmiðinu. Einnig var lögð áhersla að 60% nemenda ljúki úr framhaldsskóla en það hlutfall reyndist þá 44%. Þar sem aðalnámskrá hafi tekið gildi 2011 var helst til of stutt um liðið frá því þar til hvítbók þessi var gefin út en var samt góð áminning um stöðu mála.

Árið 2018 var síðan gefin út skýrslan, Menntun fyrir alla – horft fram á veginn. Hún var unnin fyrir mennta- og menningamálaráðuneytið og er þar kannað hvernig til hefur tekist á Íslandi að innleiða stefnu um menntun án aðgreiningar og menntun fyrir alla. Þar voru settar fram tillögur í sjö liðum til hvers konar úrbóta.

Tillögurnar eru byggðar á grunni niðurstaðnanna sem birtast í vörðunni, fræðilegu samhengi og síðast en ekki síst á vistkerfinu sem nefnt er að framan. Tillögurnar eru byggðar á því að sameiginlegt markmið allra aðgerðanna sem í þeim felast sé að auka gæði náms allra nemenda og að menntakerfið í heild beri sameiginlega ábyrgð á því. Engu að síður er gengið út frá því að ábyrgð á tilteknum málaflokkum geti tilheyrt einu eða fleiri lögum í vistkerfinu sérstaklega og séu á ábyrgð hagsmunaaðila og stjórnenda sem þar starfa.

Horft fram á veginn, skýrsla mennta- og meningarmálaráðuneytisins, 2018

Þegar litið er yfir töfluna, sem lesa má í framangreindri skýrslu, hallar mjög á skólastofnanir og sjá má að þar liggur ábyrgðin að langmestu leiti hjá sveitarfélögunum og ríkinu. Það vekur sérstaka athygli við lestur og rýni skýrslunnar og er í raun megin niðurstaða hennar. Allra verst er þó að þessari ábyrgð er ekki vísað á einn stað og á meðan svo er geta allir bent hver á annan án þess að nokkur árangur náist í bráð eða lengd.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra lagði fram þingsályktunartillögu um menntastefnu 2021-2030, stórt og mikið plagg, sem námskráin á síðan að byggja á. Hún hefur verið samþykkt á Alþingi.

Í þessari þingsályktunartillögu segir að menntastefnan byggir á eftirfarandi stoðum sem styðja á við gildi stefnunnar:

  • Jöfn tækifæri fyrir alla – Áherslur á: 1. Nám við allra hæfi. 2. Menntun um allt land. 3. Fjölbreytt menntasamfélag. 4. Snemmbæran stuðning. 5. Raunfærnimat.
  • Kennsla í fremstu röð – Áherslur á: 1. Kennaramenntun og nýliðun. 2. Þekkingu og hugrekki. 3. Hæfniþróun fagstétta í skólastarfi. 4. Lagaramma menntamála. 5. Fjölbreytileika.
  • Hæfni fyrir framtíðina – Áherslur á: 1. Læsi. 2. Framþróun íslensks máls og táknmáls. 3. Vísindi og rannsóknir. 4. Starfs-, iðn- og tækninám. 5. Náms- og starfsráðgjöf. 6. List- og verknám. 7. Sköpun og gagnrýna hugsun. 8. Stafræna tilveru. 9. Bókasöfn. 10. Menntun fyrir alla.
  • Vellíðan í öndvegi – Áherslur á: 1. Heilsueflningu. 2. Geðrækt. 3. Forvarnir. 4. Rödd nemenda. 5. Vellíðan allra.
  • Gæði í forgrunni – Áherslur á: 1. Ábyrgð og samhæfingu þjónustukerfa. 2. Aðalnámskrár sem styðja við menntastefnu. 3. Námsmat og námsgögn. 4. Væntingar til nemenda. 5. Væntingar til foreldra. 6. Stöðugar umbætur og gæðastarf. 7. Skilvirka ráðstöfun fjármuna.

Í þingsályktunartillögunni er síðan tekið fram í III. kafla hennar hvernig innleiðingu menntastefnunarinnar á að vera háttað. Innleiðingin á að eiga sér stað á þremur tímabilum. Fyrir hvert tímabil á að vinna innleiðingaráætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum.

Þingsályktunin var samþykkt 24. mars 2021 og segir í ályktuninni að innan sex mánaða frá samþykki hennar mun fyrsta áætlunin verða lögð fram og kynnt ráðherra. Á það að eiga sér stað fyrir lok júlí 2021.