Framtíð menntunar


Hér er um að ræða endurrit úr glósum og fylgigögnum sem eru hluti af ferilmöppu höfundar í námskeiðinu Námskrá og skólaþróun (KEN213F) í umsjón dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur prófessors á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, dr. Hjördísar Þorgeirsdóttur framhaldsskólakennara og dr. Atla Vilhelm Harðarssonar dósents á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.


Menntun fyrir alla
Kennum og nemum

Yfirferð í fyrirlestri um framtíð menntunar

Í fyrirlestrinum var fjallað um að nemendur gætu haldið svokallaða ferilmöppu yfir þá tíma sem væru framundan. Slíkt gæti nýst til námsmats og er ein aðferð til þess að meta hvort nemendur hafi náð efninu sem farið var yfir, kynnt sér efni þess og náð markmiðum námskeiðsins.

Sett var inn kveikja frá OECD og Sameinuðu þjóðunum hvað varðar Heimsmarkmiðin og menntun til sjálfbærni. Farið yfir kennslusýn í anda þessara áherslna. Vísað til þess að árið 2008 hafi lögum verið breytt og áhersla lögð á að ekki aðeins ættu kennarar að kenna með tilsvarandi undirbúningi heldur ekki síður að taka þátt í skólaþróun. Það varð til þess að námskeiðið varð í raun til. Við þessar breytingar var ríkari áhersla á þátttöku kennara í mótun skólanámskráa.

Fengist er við að læra tilhögun við gerð námskráa, eðli þeirra og fjalla um þróunarmál í skólum. Að loknu þessu námskeið á nemandi að geta:

 • nýtt sér hugtök, kenningar og rannsóknir um námskrá, skólaþróun og menntastefnu,
 • greint inntak og andstæð sjónarmið um menntastefnu, skráðar sem og óskráðar, innan skóla sem og á landsvísu og alþjóðlega,
 • skilið hvernig þjóðfélagsþróun og þróun þekkingar hefur áhrif á námskrár, skólastarf og menntastefnu,
 • útskýrt með hjálp kenninga og rannsókna, hvernig skólagerð framhaldsskóla og ýmsir þættir í skólamenningu hafa áhrif á hvernig skóla túlka stefnu menntayfrvalda,
 • nota hagnýt vinnubrögð við námskrárgerð og skólaþróun í framhaldsskólum,
 • greint frá og fundið nýjungar í starfi framhaldsskóla,
 • fylgst með rannsóknum á Íslandi og erlendis og fræðilegum skrifum um menntastefnu og skólaþróun.

Sé litið á kennslufræðilega sýn eru helstu hugtökin sem talin eru vera mikilvæg í því sambandi: samvinna, þátttaka, áhugi, ábyrgð, virkni og framlag. Í þessu efni hefur reynslan sýnt að aðferðirnar við nám og kennslu er ekki síður mikilvæg og kennsluefnið sjálft. Það kemur vel í ljós þegar unnið er með sjálfbærni og umhverfismál. Til að ná að þróa samfélagið í átt að aukinni sjálfbærni verður að virkja nemendur og leiða þeim það í ljós að þeir beri ábyrgð að eigin gjörðum. Með því að auka þátttöku nemenda má ná fram þessu markmiði. Ábyrgðartilfinning nemenda gagnvart námi og starfi.

Að velja sjálfir viðfangsefni og taka þátt í að ákveða hvernig þekkingar er aflað og henni miðlað.

Námskrá og skólaþróun í framhaldsskóla – Glærur dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur 14. janúar 2021

Nýjar kröfur koma til vegna fjölbreytni í hópi nemenda. Mikilvægt að tryggt sé að hæfniviðmið falli vel að markmiði sjálfbærnimenntunar.

Háskóli Íslands verður að tvinna saman sjálfbærnisýn og breytta kennsluhætti vegna þess að með virkri þátttöku nemenda verða gjarnan til nýjar hugmyndir og lausnir.

Námskrá og skólaþróun í framhaldsskóla – Glærur dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur 14. janúar 2021

Í fyrirlestrinum var lögð rík áhersla á að sökum þessa verði Háskóli Íslands að auka vægi þátttökunáms. Til að ná slíku markmiði verði kennarar að nota verklag sem eykur þátttöku og virkjar nemendur.

OECD og framtíð menntunar

Þann 15. september 2020 ritaði Andreas Schleicher, forstöðumaður, Menntamálastofnun OECD, pistil um fjórar sviðsmyndir um framtíðarmenntun og skólagöngu.

 • Lenging skólagöngu
 • Útvistun menntunnar
 • Skólar sem námsmiðstöðvar
 • Læra hvar sem er, hvernær sem er

Þessar sviðsmyndir þrýsta á að við hugsum um árangur með þróun endurmenntunnar (e. re-schooling) svo dæmi sé nefnt. Námsmarkaðurinn stækkar, foreldrar eru orðnir meiri þátttakendur í ferlinu ásamt aukinni fjárfestingu í stafrænni tækni sem tengir fólk saman. Þarna skiptir miklu að auka virkni nemenda í þátttöku á oft óformföstu ferli og auðlindum til að bæta við sig þekkingu.

Að hvaða marki mun núverandi fyrirkomulag hjálpa eða hindra okkar sýn?

Andreas Schleicher, forstöðumaður, Menntamálastofnun OECD, 15. september 2020.

Eigum við að reisa hið nýja á grunni hins gamla og aðeins fínstilla það? Eigum við að bylta kerfinu með nýrri tækni? Á að nýta rými skólastofnanna með öðrum hætti, mannauðinn, fólkið og tæknina? Umbreytingar gætu hugsanlega átt að eiga sér stað en hvaða aldurshópa á slík breyting að ná til? Ungabörn, unglinga, fullorðna og jafnvel þá elstu? Þátttakan er að aukast með fjölgun mannkyns og hærri lífaldri.

Andreas Schleicher virðist sjá hér umbreytingu í miðjum COVID-19 faraldri enda birtist greinin seint á árinu 2020. Hann telur að framangreindar 4 sviðsmyndir OECD varðandi framtíðarsýn, þ.e. kennslusýn, mætti nota til hvatningar og sem innblástur til umbreytinga. Þessar sviðsmyndir mætti nota til að kanna mikilvægi þess skoða þetta einnig út frá framtíðar áföllum. Hann leggur þó upp úr því að við könnum þetta og metum án allrar sjálfumgleði með einföldum lausnum. Þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn vill Andreas Schleicher árétta að þessi draumur, sem virðist fjarlægður, gæti orðið að raunveruleikanum á morgun.

Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun

Heimsmarkmiðin – Menntun til sjálfbærni

Markmiðið er að tryggja með þessari áherslu Sameinuðu þjóðanna aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi. Til greind eru ófá undirmarkmið þessu stil stuðnings.

Menntun fyrir alla

Hér fara helstu undirmarkmiðin sem sett eru fram undir þessum lið varðandi menntun fyrir alla.

4.1 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki góðri grunnskólamenntun á jafnréttisgrundvelli án endurgjalds til að öðlast viðeigandi og gagnlega menntun. 

4.2 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost að þroskast og dafna frá unga aldri, fá umönnun og leikskólamenntun til að búa þau undir grunnskóla.  

4.3 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði. 

4.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ungmennum og fullorðnum með hagnýta kunnáttu fjölgað umtalsvert, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt viðeigandi störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi. 

4.5 Eigi síðar en árið 2030 hafi kynjamismunun í menntakerfinu verið afnumin og jafn aðgangur að námi á öllum stigum tryggður og starfsþjálfun fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, þar á meðal fyrir fatlað fólk, frumbyggja og börn sem búa við erfiðar aðstæður. 

4.6 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að öll ungmenni og stór hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, hafi náð tökum á lestri og skrift og öðlast talnaskilning.

4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

4.8 Byggð verði upp og endurbætt aðstaða til menntunar fyrir börn, óháð kyni, svo að allir geti lært í öruggu og friðsamlegu umhverfi án aðgreiningar, fatlaðir sem aðrir. 

4.9 Eigi síðar en árið 2020 hafi námsstyrkjum sem standa þróunarlöndum til boða verið fjölgað um heim allan, einkum í þeim löndum sem eru skemmst á veg komin, þ.e. smáeyríkjum og Afríkuríkjum, til að efla háskólamenntun í þróunarlöndum, þar á meðal starfsnám og upplýsinga- og samskiptatækni, tækninám, verkfræði og raunvísindi.

4.10 Eigi síðar en árið 2030 verði framboð á menntuðum og hæfum kennurum aukið verulega, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og smáeyríkjum.

Vandinn við markmið sem þessi, hvort heldur að alþjóðasamfélag setur þau eða bara heimili, skólastofnun eða sveitarfélag, ef þau eru óraunhæf verði minna litið á þau sem raunverulegt markmið heldur óskhyggja. Skilgreiningaratriðið hér ætti að vera nokkuð ljóst en hér er áréttað að fyrir árið 2030 eigi að vera búið að koma málum þannig fyrir að ,,allir“ eigi aðgengi að menntun. Hvað með Jemen, Eritreu eða Tigray héraðið í Eþíópíu svo ekki sé minnst á alvarlega stöðu barna innan Evrópu og víða um heim? Hvernig ætla fulltrúar og yfirvöld þeirra 193 aðildarlanda Sameinuðu þjóðanna að tryggja að þetta nái fram að ganga?

Þarna er getið um leikskólamenntun. Í fyrsta lagi eru leikskólar og rekstur leikskóla ekki skylda sveitarfélaga að byggja upp og reka á Íslandi. Hvernig má vera að það átak, sem var gífurlega erfitt mörgum sveitarfélögum hér á landi að uppfylla, nái hreinlega fram að ganga fyrir 2030 innan allra ríkja sem aðild eiga að Sameinuðu Þjóðunum?

Skilgreiningarvandinn er hrópandi hér þegar fjallað er um að það eigi að tryggja jafnan aðgang að ,,góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði.“. Hvað er átt við með ,,góðu“ og hvað er átt við með ,,viðráðanlegu verði“? ECST einingakerfið í námi innan Evrópusambandsins og þar með Evrópska efnahagssvæðisins, sem snýr að ærði menntun, er alfarið undir stjórn Evrópusambandsins. Þetta kerfi hefur enn ekki náð, þ.e. árið 2021, að viðurkenna fjölmörg fjarkennslukerfi og menntun margra af erlendum uppruna sem koma inn í og þurfa á að halda ódýru en skilvirku námi. Hvers vegna? Ætli það kunni að vera vegna þess að hagsmunir margra háskóla séu að halda í hið gamla kerfi sem vissulega tryggir gæði og öryggi. Til þess að svo verði kostar slíkt ómælt fé.

Það er ekki svo að markmiðin séu ekki göfug og verðug. Vandinn er bara sá að þegar sett eru markmið sem þessi eru þau oft það brött að þó svo að innleiðing eigi sér stað sé ekki eftir þeim farið. Það sem reyndar er af hinu góða er að þeir sem kalla eftir breytingum geta bent á þessi markmið og krafist aðgerða, þ.e. ef stjórnvöld eru tilbúin að hlusta og gefa verkefnum tækifæri sem geta reyndar ógnað gildum og viðhorfum, jafnvel heilu starfsstéttunum, sem gæti tafið framþróun.

Í 7. lið má sjá afar áhugaverða áherslu sem tengist beint sjálbærri þróun þar sem lögð er rík áhersla á sjálfbæran lífsstíl. Markmiðið er að hlúð sé að friðsamlegri menningu, mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálbærrar þróunar. Hér vantar augljóslega eitthvað sem snýr að kynfrelsi en líkur eru á að með ,,friðsamlegri menningu“ gæti verið hægt að koma þjóðum og þjóðarbrotum heims í skilning um að við erum misjöfn.