Hverjir afla? Hvar er bákn og hvar er böl?


Þeir fiska sem róa er þekkt og innihaldsríkt íslenskt máltæki. Þetta lýsir því mikilvægi að einhver þarf að skapa verðmæti og til þess að það sé gert nægir ekki að sitja heima og bíða eftir björginni.

Allt frá iðnbyltingunni, sem hófst síðla á 18. öldinni, hefur mannkynið náð miklum framförum en þær framfarir hafa vissulega orðið til þess að gengið hefur verið nokkuð á auðlindir jarðarinnar. Úr varð að þýskur hagfræðingur og heimspekingur, Karl Marx (5. maí 1818 – 14. mars 1883), þróaði stjórnmálaspeki er gekk út á átök milli stétta í stað samninga. Auðvaldið átti að deila meira af gæðunum til almúgans, þ.e. öreiga.

Á ekki að ríkja jafnvægi og jafnræði? Sósíalistar gagnrýndu Karl Marx til að öðlast sjálfir stöðu. Bæði kommúnisminn og sósíalisminn hafa gengið illa upp í stórvarasömum tilraunum sem flestar ef ekki allar hafa endað með mikilli skelfingu fyrir mannkynið.

Á 20. öldinni efldist ný grein, þ.e. þjónustugreinin og hefur hún drifið hagvöxt lungað úr þeirri öld allt til dagsins í dag. Það gerðist vissulega ásamt þróun á nýrri tækni, framleiðslu, þróun og hraðari heimi á tölvuöldinni miklu.

Sé litið til Íslands í dag starfa þar nú rétt tæplega 56 þúsund manns í opinberri stjórnsýslu, í fræðslustarfsemi og við heilbrigðis- og félagsþjónustu, þ.e. miðað við vinnuafl á aldursbilinu 16-74 ára sem er alþjóðlegt viðmið. Á mynd 1 má sjá þróunina. Gula súlan (mynd 1) á að tákna árið 2020 og er hún og hlutfallið sett þarna af greinarhöfundi hið sama og fyrir 2019 svo sjá megi viðmið, þ.e. ekki sem raunstaða.

Mynd 1
Heimild – Hagstofa Íslands, apríl 2020 (án gulu súlunnar)

Sem hlutfall af vinnuaflinu nemur vinnuaflið hjá hinu opinbera rúmum 28% af heildar vinnuaflinu á aldursbilinu 16-74 ára og hefur aukist talsvert frá því að kosið var síðast til Alþingis 28. október 2017 og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mynduð undir lok nóvembermánaðar sama ár. Flokkarnir sem mynda þessa ríkisstjórn eru Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri hreyfingin grænt framboð.

Litla rauða súlan (mynd 2) á að tákna árið 2020 og er hún og hlutfallið sett þarna af greinarhöfundi. Svo sýna megi áhrif ferðaþjónustunnar var vinnuaflið sett í 0 fyrir ferðatengda þjónustu til að lýsa því hve stór hluti hún í raun og sann er. Samdráttur er mikill hjá ferðaþjónustunni. Hefur því dregið gífurlega úr vinnuafli í þeirri grein og ferðatengdum greinum vegna uppsagna síðustu daga og vikna. Þetta sýnir einnig að þegar þessi mikilvæga atvinnugrein þurrkast nánast út hve gríðarlega stór hluti vinnuafls landsins starfar hjá hinu opinbera (mynd 1). Hér er þess gætt að halda sömu kvörðum í bæði mynd 1 og mynd 2 til að sjá megi betur þróunina hjá opinberum starfsmönnum og bera þær tölur saman við hluta hins almenna vinnumarkaðs sem finna má í mynd 2. Vakin er sérstaklega athygli að árið 2018 voru álíka margir starfandi hjá hinu opinbera og í öllum þeim greinum sem tilgreindar eru í mynd 2.

Mynd 2
Heimild – Hagstofa Íslands, apríl 2020 (án rauðu súlunnar)

Það er síður en svo mælt með því hér að farið verði í e.k. uppsagnir hjá hinu opinbera eins og nú árar. Einhver hagræðing þarf að eiga sér stað engu að síður hjá hinu opinbera þegar fram líður. Greinilegt er að það var gert á árunum frá hruni allt þar til þess að núverandi ríkisstjórn var mynduð og kom sínu fólki í embætti eins og enginn væri morgundagurinn. Það kom reyndar á daginn að staðan hjá mörgum í dag, a.m.k. fyrir fjölmarga á hinum almenna vinnumarkaði, er líkt því að enginn verði morgundagurinn. Hefur ríkisstjórn Katrínar Jakopsdóttur bætt í Báknið, komið sínu fólki í stöður rétt eftir kosningar til dagsins í dag og gefið ríflega á garðann.

Hver á að greiða skattana til að halda uppi tæplega 56 þúsund einstaklingum í störfum hjá hinu opinbera? Af þessum 56 þúsundum má nefna tæp 4 þúsund sem núverandi ríkisstjórn hefur bætt við frá því að hún tók við völdum í landinu. Það gerðist fyrir rétt rúmum 2 árum. Ljóst er samkvæmt þessum tölum að það hefur fækkað þeim sem greiða skattana til að halda megi störfum fyrir opinbera starfsmenn eins og Katrínu Jakbosdóttur og fjölmarga aðra sem teljast mikilvægt vinnuafl, sbr. heilbrigðisstarfsfólk, kennara ofl. Báknið stækkar.

Annað, sem ekki virðist vera mikið rætt, er áhættan eða starfsöryggið öllu heldur. Hver tekur meiri áhættu hér? Eru það opinberir starfsmenn eða starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði og fyrirtækin í landinu? Svarið er augljóst. Þeir sem ættu að hafa hærri tekjur, m.t.t. starfsöryggis í sambærilegum störfum fólks með sambærilega reynslu og menntun, eru starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði. Annað væri ekki aðeins ósanngjarnt heldur bæði ósiðlegt og óeðlilegt nema einna helst hjá lögreglu sem starfar í áhættuumhverfi.

Mikilvægt er að þeir sem vinna hjá hinu opinbera beri skynbragð á þessa staðreynd, þ.e. að ef viðkomandi starfar hjá hinu opinbera felst í starfinu mun meira starfsöryggi en ef starfað er á hinum almenna vinnumarkaði. Það að krefjast launa hjá hinu opinbera langt umfram það sem gerist í sömu störfum á hinum almenna vinnumarkaði er því ekki í samræmi við að áhættan er minni sem tekin er, þ.e. meira starfsöryggi er hjá hinu opinbera eins og sjá má m.a. á mynd 1. Benda má á fjölmarga aðra þætti sem auka á starfsöryggi í opinberum störfum umfram störf á hinum almenna vinnumarkaði. Má þar m.a. nefna eftirlaunakjör opinberra starfsmanna, uppsagnarákvæði, áminningarferli oþh. sem gerir fulltrúum skattgreiðenda oft erfitt að losa sig við óhæft vinnuafl og draga saman seglin þegar á bjátar í rekstri ríkis eða stofnana hins opinbera. Ekki er með þessu verið að segja að einhver eigi ekki skilið launahækkun og starfsöryggi sé viðkomandi starfandi hjá hinu opinbera, alls ekki. Það þarf bara að ríkja jafnræði og samkeppnisstaða fyrirtækja og almenna vinnumarkaðarins verður að vera jöfn gagnvart hinu opinbera. Svo virðist ekki vera í dag enda bifast Báknið ekki. Báknið kjurt.

Hér er verið að benda á staðreyndir svo almenningur geti gert sér grein fyrir þessu og þeirri áhættu sem felst í mismunandi störfum og mismunandi starfsöryggi. Þetta eiga fjölmargir sósíaldemókratar erfitt með að skilja. Fjölmargir, sem þekkja til og vita hvað hér er um að ræða, voga sér hugsanlega ekki að koma fram af ótta við verða fyrir aðkasti. En þetta eru staðreyndir og lögmál rétt eins og þyngdarlögmálið. Það breytist því ekki þó fjölmargir vinstri menn haldi öðru fram, hugsanlega margir gegn betri vitund sem er öllu verra en gagnrýni hinna vammlausu.

Margir opinberir starfsmenn kalla sífellt á hærri laun, sem eru oft (ekki alltaf) umfram það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði í sambærilegum störfum. Svo virðist sem þetta beinlínis ógni stöðugleika á vinnumarkaði. Oftar en ekki eru kröfur settar fram gegn framangreindum lögmálum. Enn og aftur er áréttað að ekki er verið að segja að starfsfólk hjá hinu opinbera eigi ekki fullan rétt á að sækja aukin laun og bætt kjör til viðsemjenda sinna. Aðeins er bent á að líta verði á framangreindar staðreyndir, þ.e. það er aukið starfsöryggi hjá hinu opinbera og mörg kjör betri en á hinum almenna vinnumarkaði.

Stundum fara opinberir starfsmenn illa upplýstir af stað með launakröfur og ýmsar kjarabætur inn í samningaviðræður. Slíkt getur skaðað samningsstöðuna og þann grunn sem laun þeirra sjálfra byggjast á. Þessi leið getur beinlínis grafið undan kjörum á hinum almenna vinnumarkaði þar sem skatttekjurnar myndast til að halda uppi störfum hjá hinu opinbera. Þetta er keðjuverkandi og kallar oftar en ekki á svokallað höfrungahlaup.

Margir kunna að hugsa: ,,Þetta lendir ekki á mér, kanski á einhverjum öðrum hjá hinu opinbera.“. Þetta er afleiðingin af því að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, hafa ekki tekið á því að koma á jafnræði á milli starfa hjá hinu opinbera annars vegar og á hinum almenna vinnumarkaði hins vegar. Það eru fáir sem þora í þá vegferð að gagnrýna, a.m.k. innan vébanda stjórnvalda í dag. Á meðan eykst ójafnræðið á milli vinnandi fólks hjá hinu opinbera og á almenna vinnumarkaðnum svo ekki sé minnst á átök á milli stétta hjá hinu opinbera. Slíkt kristallast í verkfalli sem boðað er af hálfu Eflingar stéttarfélags, óbilgirni gagnvart hjúkrunarfræðingum og lögreglu. Þetta vilja greinilega vinstri menn rétt eins og elíta íslenskra sósíaldemókrata. Sú guðsvolaða elíta, óháð flokkum er m.a. skipa ríkisstjórn íslands í dag, virðist þrífast best hjá hinu opinbera án þess að þurfa að taka afleiðingum gjörða sinna. Þar ríkir starfsöryggi innan um ókleifa veggi regluverks varðandi áminningarferli og önnur kostakjör. Svo sitja hinir hólpnu í elítunni á opinberu kaffistofunni sem Efling skúrar og lögregla stendur vörð um. Þar sötrar gengið dreggjarnar rétt eins og sprengjusveit bandaríska flughersins sem nýlega hefur skilað ,,góðu“ dagsverki og komin öll aftur heil heim í kaffi. ,,Þetta lendir ekki á mér og ég… ég er yfirleitt ef ekki alltaf í um 20 þúsund fetum innan vébanda hins opinbera á Íslandi.“. Þarna kristallast stéttaátök Karls Marx innan vébanda hins opinbera á Íslandi í dag. Sökum þessa vex og stækkar Báknið á kostnað skattgreiðenda og hugsanlega einnig á kostnað þeirra allra lægstu í opinberum launastigagöngum þar á bæ.

Það er mikilvægt að fram fari ítarleg rannsókn á því hvort svo stór hópur opinberra starfsmanna sé eðlilegur í litlu hagkerfi. Einnig þyrfti að kanna hvort ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, stofnanir á vegum hins opinbera og sveitarfélög hafi beinlínis ógnað fjármálastöðugleika í landinu með því að bæta við allt að 4 þúsundum í opinber störf á síðustu 2 árum. Það er afar mikilvægt að líta á þetta í samhengi. Þarna virðist ríkisstjórnarsamstarfið mikið til hafa byggst á því að gefa á garðann strax í upphafi fyrsta starfsárs ríkisstjórnarinnar. Það varð að líma samstarfið einhvernvegin saman.

Það er miður ef ríkið dregur sífellt meira súrefni frá atvinnulífinu í landinu með því að keppa við það um vinnuaflið. Miðað við áhættustigið og starfsöryggið má ætla að ríkið keppi ekki aðeins um vinnuafl heldur má vænta þess að það hirði flest af vel menntuðum frá atvinnulífinu þó það þurfi að kanna betur.

Ríkið virðist því stunda félagsleg undirboð á vinnumarkaði með ígidi óeðlilegra ,,ríkisstyrkja“ sem felast í störfum hjá hinu opinbera og kjörum sem almenni vinnumarkaðurinn getur aldrei boðið. Vísa má m.a. á skýrslu sem starfshópur ráðuneytis félags- og barnamála gaf út í janúar árið 2019 er snéri einmitt að félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Í þeirri skýrslu má beinlínis sjá hvert almenni vinnumarkaðurinn leitar þegar ríkið hagar sínum máli með þeim hætti sem hér er reifað. Athuga ber að ríki og sveitarfélög saman er sem tvíhöfða þurs á íslenskum vinnumarkaði. Það er miður að starfshópur ráðherra félags- og barnamála hafi ekki litið sér nær við skýrslugerðina.

Hér má finna skýrslu samstarfshóps ráðuneytis félags- og barnamála á Íslandi er varðar félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

Ætla má að þeir sem leiti í störf hjá hinu opinbera verði oftar en ekki að uppfylla ströng skilyrði um menntun, reynslu og fyrri störf, fara í gegnum flókna og oft ósanngjarnt mat sem fáir eða enginn botnar í. Þetta virðist til þess eins að þróa áfram kapplaup um bestu bitana, þ.e. hjá hinu opinbera. Svo er það starfsánægjan við að vinna hjá hinu opinbera, það er allt annað mál og ólíkt viðfangsefni en það sem hér er reifað.

Nú um stundir eiga margir um sárt að binda og fyrirtæki á hnjánum hjá þeirri ríkisstjórn sem keppir við atvinnulífið um vinnuaflið með ígildi félagslegra undirboða. Haldi þetta áfram inn í ókomna framtíð mun vinnuaflið líklegast leita þangað sem ,,hlýjast“ er og í ,,öruggt“ húsaskjól hins opinbera. Á meðan dregur ríkið að sér nánast allt súrefni og skemmir útfrá sér frá ári til árs, þ.e. étur undan sér. Báknið verður böl.

Eftir allt hrósið til heilbrigðisstarfsfólks að undanförnu, sem mest allt eru opinberir starfsmenn er eiga allt gott skilið eftir vasklega framgöngu gegn COVID-19, vill greinarhöfundur hrósa og þakka öðru fólki einnig.

Hrósið og þakkirnar, að öðrum ólöstuðum, fær ferðaþjónustufólkið sem starfað hefur m.a. fyrir íslenska skattgreiðendur síðustu ár og áratugi og tekur nú á sig áhættuna sem í þeirra störfum var fólgin. Þetta er fólkið sem nú axlar ábyrgðina og skilur eftir í ríkissjóði gífurlegt fjármagn. Það fjármagn nýtist nú svo að halda megi uppi frábæru starfsfólki á heilbrigðisstofnunum og kennurum er sinntu börnum á erfiðum tímum. Þetta fjármagn nýtist einnig til uppbyggingar innviða og til að reisa atvinnulífið við.

Fólkið sem starfað hefur í ferðaiðnaði hefur ekki aðeins styrkt ríkissjóð og byggt upp frá hruni. Þetta fólk hefur aflað gífurlegra gjaldeyristekna og tekið áhættu í ófærð og byl. Það hefur starfað í grein sinni af alúð og dug.

Von greinarhöfundar er að kjósendur og þar með skattgreiðendur sjái þá mynd sem hér er dregin upp og móti sína afstöðu út frá því. Lengi má böl bæta.

Til hamingju með daginn ykkar, 1. maí, kæra verkafólk um land allt !

Þakkir enn og aftur frábæra ferðaþjónustufólk !