Atvinnumál þjóðar í þrengingum – Hvert stefnir?


Vinnuaflið á Íslandi, 25-64 ára (2019), telur um 155.000 einstaklinga en skv. alþjóðlegu viðmiðið, á aldursbilinu 16-74 ára, telur það um 197.000.

Samkvæmt Vinnumálastofnun (VMST-apríl 2020) eru með einum eða öðrum hætti 53.000 einstaklingar á bótum. Þar af 18.000 atvinnulausir og 35.000 á hlutabótum vegna skerts starfshlutfalls. Meðalskerðing þessa hóps er um 60% og er ígildi atvinnuleysis þess hóps því um 21.000.

Í dag eru því um 39.000 atvinnulausir eða ígildi þess að vera það. Þetta telur um 20% til 25% atvinnuleysi (þýði 16-74 ára og 25-64 ára) og kostar þetta um 12 milljarða á mánuði.

Starfandi eru um 56.000 opinberir starfsmenn (þýði 16-74 ára) er telur 28% vinnuaflsins en um 45.000 (sé miðað við 25-64 ára). Því eru um 48% til 54% vinnuaflsins á framfæri hins opinbera á Íslandi í dag.

Atvinnuleysi í einstaka sveitarfélögum er fordæmalaust. Í Mýrdalshreppi mældist það í apríl 2019 um 1,1% en skv. mælingum í dag mælist það 46,8%. Í Reykjanesbæ mældist þetta í apríl 2019 um 6,1% en í dag er það komið í 27%. Framundan er að útsvarið lækki og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga einnig enda ber þetta allt að sama brunni.

Fjárhagslega veik sveitarfélög eins og Mosfellsbær, þar sem atvinnuleysi mælist nú yfir 16%, geta lítið sem ekkert gert. Það er boðið upp á frestun á greiðslu gjalda og lækkun á liðum sem hrökkva skammt. Þessar aðgerðir eru samræmdar á höfuðborgarsvæðinu á meðal sveitarfélaga þar þó Reykjavík hafi farið sínar eigin leiðir og klofið samstöðuna. Í samanburði má segja að Reykjavík standi einna verst á höfuðborgarsvæðinu en þar mælist nú 18,2% atvinnuleysi, í Hafnarfirði 17%, Kópavogi og Garðabæ tæp 17% og á Seltjarnarnesi 15,5% (apríltölur VMST).

Hér á landi svipar nú til eins og í alþjóðasamfélaginu. Það ríkir hálfgerð ringulreið og aðgerðarstopp vegna þess að enginn virðist vita hvaða leið á að fara til að reisa atvinnulífið við. Gripið var víða um heim til allsherjar lokana vegna COVID-19 sem hefur nær kæft hagkerfi heims. Kerfislega mikilvæg ríki heims, eins og Bandaríkin, Bretlandi, Þýskaland, Ítalía og Frakkland, eru í miklum vanda. Þessi ríki hafa stóru hlutverki að gegna til að koma hagkerfi okkar Íslendinga í gang.

Óttinn er sjálfsagt mikill við skuldasöfnun ríkja og aukningu fjármagns í umferð samfara varanlegum samdrætti í framboði ásamt mikilli eftirspurn inn í ókomna framtíð. Þessi þróun er þekkt eftir styrjaldir fyrri alda.

Faraldurinn sem nú geisar mun marka skýr skil á milli tímabils lækkunar verðbólgu síðustu 30 til 40 árin og umtalsverðrar verðbólgu næstu áratuga. Hér er vístað til hagfræðiprófessoranna dr. David Miles (Imperial College Business School, London) og dr. Andrew Scott (London Business School) en þetta kom fram í greinarstúf þeirra 4. apríl sl. er birtist í breska vefmiðlinum VOX.

Óvissan varðandi þróun veirufaraldursins er mikil og enn meiri óvissa er ríkjandi um þróun efnahagsmála heimsins. Íslendingar munu þurfa að líta til rótækra og óvenjulegra aðgerða til að koma eigin hagkerfi í gang. Hvers vegna? Það er augljóslega vegna þess að fáir utanaðkomandi munu stuðla að því að eigin frumkvæði að koma öðrum en eigin þjóð úr þessum vanda. Mikilvægt er Íslendingum að opnað sé sem fyrst á virkari verslun, samgöngur og alþjóðaviðskipti.

Það sem þarf að varast er tvennt. Annars vegar að hér verði ekki gífurleg verðhjöðnun og stöðnun og hins vegar að hér verði ekki til langs tíma gífurleg verðbólga með tilsvarandi launaskriði, óróa á fjármálamörkuðum og óstöðugleika. Þarna skiptir miklu að launþegahreyfingar axli ábyrgð ásamt atvinnurekendum. Valdajafnvægi ákveðinna hópa í samfélaginu mun riðlast og því mikilvægt er að sýna samtakamátt í einskonar þjóðarsátt.

Sé vísað í orð dr. Miles og dr. Scott, munu launþegahreyfingar hafa mikil áhrif á verðlagsþróun. Þeir félagarnir geta þess m.a. að eftir spænsku veikina hafi mikill hluti vinnuaflsins látist í þeim faraldri. Vegna þess hafði það haft mikil áhrif á launaþróun, þ.e. til hækkunar sökum skorts á vinnuafli. Svo virðist ekki raunin nú. Telja þeir félagarnir að það verði í framtíðinni mun meira rætt um „nauðsynlegt eða ónauðsynlegt“ vinnuafl í stað „sérhæfðs vinnuafls eða ósérhæfðs“. Það mun koma til þó svo að það sé ekki bein afleiðing af COVID-19 faraldrinum.

Þeir kraftar sem munu verða leystir úr læðingi eftir COVID-19 faraldurinn, sökum mikils atvinnuleysis, munu væntanlega auka þolinmæði almennings gagnvart verðbólgu. Samstaða um nýjar áherslur, þar sem fjármagni yrði varpað inn í hagkerfið, gætu orðið til að breyta afstöðu fræðimanna til stefnu í peningamálum. Óvæntir atburðir geta leitt til þess að mistök, m.a. vegna stefnumótunar í dag, komi upp á yfirborðið síðar og muni kristallast m.a. í mikilli verðbólgu. Hinir óvæntu atburðir gætu einnig leitt til skelfilegrar þróunar, þ.e. til verðhjöðnunar. Því má vænta þess að verðbólga verði víða óumflýjanleg. Undirbúum því stýritækin, styrkjum innviði og tökum stefnuna.