Til hamingju með daginn Vigdís


Í dag á Vigdís Finnbogadóttir 90 ára afmæli. Íslendingar hafa átt því láni að fagna að velja sér forseta sem hafa reynst þjóð sinni vel. Vigdís gerði gott betur en svo að hafa reynst þjóð sinni vel. Vigdís varð fjölmörgum konum um heim allan innblástur og ég sem faðir tveggja stúlkna er stoltur af því að geta sagt þeim að það voru Íslendingar sem fyrstir kusu sér konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. Það var árið 1980, ég þá 12 ára en man vel hve mikilvægt þetta var og gerði mér grein fyrir tímamótunum.

Forsetaframbjóðendurnir 1980 - Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Albert Guðmundsson þingmaður og Pétur J. Thorsteinsson sendiherra
Forsetaframbjóðendurnir 1980 – Vigdís Finnbogadóttir, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Pétur J. Thorsteinsson sendiherra og Albert Guðmundsson þingmaður.

15 árum síðar, þá starfandi hjá Seðlabanka Íslands, fékk ég það verkefni að rita skýrslu fyrir forsetaembættið um efnahagsmál í Kína áður en forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, hélt í opinbera ráðstefnu til Beijing. Um var að ræða Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Átti ég fund með forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, á sínum tíma og var skrifstofa embættisins þá í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Alla tíð hef ég fylgst vel með framþróun í réttindum kvenna og störfum Vigísar. Það er fagnaðarefni að á Íslandi er nú rekin stofnun á vegum háskóla Sameinuðu þjóðanna í kynjafræðum og jafnrétti (UNU-GEST) þar sem konur víða að úr heiminum stunda nám og geta að því loknu haldið heim með boðskap Vigdísar og fleiri kvenna úr öllum heiminum sem rutt hafa brautina fyrir konur og ekki síður karlmenn.

Vigdís Finnbogadóttir nýkjörin forseti Íslands árið 1980
Vigdís Finnbogadóttir nýkjörin forseti Íslands árið 1980

Vigdís starfaði í Þjóðleikhúsinu og hóf þar fyrst störf 24 ára sem ritstjóri leikskrár og blaðafulltrúi leikhússins. Hún kenndi frönsku í Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum við Hamrahlíð frá 32 ára aldri til 42 ára aldurs. Þegar hún var fertug hóf hún að kenna frönsku í sjónvarpinu og stóð það í um eitt ár. Aðeins 42 ára varð hún leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur sem þá var til húsa í Iðnó. Hún, ásamt öðrum, stofnaði leikhópinn Grímu á þrítugasta og fyrsta aldursárinu. Þann hóp skipuðu auk Vigdísar þau Erlingur Gíslason (faðir Benedikts Erlingssonar leikara), hjónin Guðmundur Steinsson (leikritahöfundur) og Kristbjörg Kjeld leikkona (lék í kvikmyndinni Mamma Gógó), Magnús Pálsson (gjörningalistamaður) og Þorvarður Helgason. Óhætt er að segja að að frumkvöðlastarf þessa leikhóps hafi gert íslenskt leikhús frjórra, mun betra og þróað það inn í framtíðina.

Á 7. áratugnum skaut upp kollinum Rauðsokkahreyfingin. Hún var stofnuð í upphafi áratugarsins árið 1970. Barðist hreyfingin gegn kynjamisrétti. Á þessum tíma var róstursamt í Evrópu og í Bandaríkjunum. Víetnamstríðið geisaði, kalt stríð í Evrópu samhliða hernaðaruppbyggingu og stúdentar víða um heim létu til sín taka. Rauðsokkurnar höfðu áhrif. Kvennafrídaginn 24. október 1975 lögðu íslenskar konur niður vinnu og flykktust á baráttufundi víðsvegar um landið. Móðir mín hélt til Reykjavíkur á baráttufund ásamt vinkonum sínum og var þar ásamt um 30 þúsund konum. Árið 1980 var svar Íslendinga við þessu ástandi og þessari áskorun að kjósa sér fyrst þjóða konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. Fyrir valinu varð Vigdís Finnbogadóttir. Það var Íslendingum mikil gæfa enda hefur Vigdís alla tíð verið þjóð sinni til sóma.

Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna
Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna á gangi við Bessastaði árið 1986

Það kom í hlutverk Vigdísar Finnbogadóttur síðar, þ.e. árið 1986, að vera óbeint þátttakandi og gestgjafi tveggja voldugustu manna heims þegar leiðtogafundur þeirra Ronald Reagans, forseta Bandaríkjanna, og Mikhaíl Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna, var haldin í Höfða í Reykjavík. Þá var hún 56 ára gömul og sjaldan glæsilegri. Hver man ekki eftir því þegar hún tók á móti leikaranum og forseta Bandaríkjanna á Bessastöðum í þá tíð? Það var þá þegar kalda stríðið leið undir lok og það gerðist á Íslandi. Óhætt er að segja að Vigdís getur brætt hjörtu margra.

Vigdís Finnbogadóttir
Vigdís Finnbogadóttir

Árið 2001 var sett á laggirnar stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Um er að ræða rannsóknarstofnun innan Hugvísindadeildar Háskóla Íslands og var hún sett á laggirnar í október 2001 og nýtur þess heiðurs að bera nafn Vigdísar Finnbogadóttur. Um árabil hefur Vigdís gegnt starfi velgjörðarsendiherra tungumála hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) eða allt frá árinu 1998. Það er gaman frá því að segja að eiginkona mín, Danith Chan, starfaði á skrifstofu UNESCO í Beijing í Kína í nokkur ár á 10. áratugunum, þ.e. á sama áratugnum og ég ritaði skýrsluna fyrir Vigdísi áður en hún hélt á kvennaráðstefnu þar í borg. Allt á þetta sínar skýringar og um örlög okkar allra er spunninn þráður.

Við Íslendingar getum verið stoltir af því að hafa haft Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta. Til hamingju með daginn Vigdís Finnbogadóttir og innilegar þakkir fyrir þitt framtak, umhyggju og yndisleik.