Skarhólabraut og skipulag í Mosfellsbæ


Úrklippa úr auglýsingu á atvinnuhúsalóðum sem birt var í Morgunblaðinu 21. október 2007

4. júlí 2007 var samþykkt deiliskipulag í bæjarstjórn fyrir Desjamýri og tæpu ári síðar, 12. mars 2008 , var samþykkt deiliskipulag fyrir Skarhólabraut. Því eru tæp 15 ár liðin frá samþykki deiliskipulags vegna Desjamýri og rúm 14 ár frá því að deiliskipulag vegna Skarhólabrautar var samþykkt.

Sérstök áhersla var á það á þessum tíma að klára Skarhólbraut að slökkvistöð sem síðar reis í Mosfellsbæ og samhliða tóku bæjaryfirvöld upp á því að auglýsa lóðir í Desjamýri. Þessu var fagnað víða og horfðu margir björtum augum til þess að nú mætti fá starfsemi í bæinn sem skilaði tekjum, fasteignagjöldum sem og útvarstekjum.

Síðla árs 2008 skall á alvarlegt fjármálahrun og óskuðu margir eftir því að skila inn lóðum. Síðar, þegar hagur vænkaðist, tók svæðið að byggjast upp og áfram var því lofað að Skarhólabraut yrði kláruð með fullnægjandi hætti. Við það loforð hefur ekki verið staðið.

Vesturlandsvegur, Skarhólabraut, íbúahverfið við Grænumýri og Tún ásamt iðnaðarhverfi við Flugumýri og Desjamýri í Mosfellsbæ – Sjá má (gulur hringur) hvar umferð þungra vinnufélaga og flutningabifreiða ógnar friði íbúa. Rauð lína sýnir hvar Skarhólabrautin er illa fær og ókláruð. Græn lína sýna hvar umferðin liggur að mestu að iðnaðar- og atvinnurekstri á svæðinu.

Í greinargerð með deiliskipulagi hverfisins, þ.e. tengt Desjamýri, sem fjárfestum og atvinnurekendum, sem hafa byggt á svæðinu, hefur verið afhend segir m.a.:

Aðkoma að hverfinu frá Vesturlandsvegi er um tengibrautina Skarhólabraut sem liggja mun til austurs að stofnbrautinni Hafravatnsvegi skv. aðalskipulagi. Aðkoma að iðnaðarhverfinu verður um Austurmýri. Gert er ráð fyrir nýrri aðkomu að svæðinu í austri um veg er gæti einnig legið að íbúðarhverfi undir Lágafelli. Þannig má koma að svæðinu frá tveimur stöðum og aka þar í gegn.

Svo segir um ,,Frágang lóða“:

Hönnun og frágangur húss og lóðar skal taka mið af nánd við íbúðasvæði til norðurs og tengibrautarinnar Skarhólabrautar í suðri í ásýnd hverfisins.

Að auki segir varðandi ,,Umferð“:

Greiðfær leið er um hverfið og að aðliggjandi hverfi í vestri og aðalgatnakerfi þannig að auðvelt er að komast út á tengibraut og stofnbraut. Umferðarspá fyrir Skarhólabraut gerir ráð fyrir 3.000 ökutækjum á sólahring, þar af 100 þungum ökutækjum, miðað við fullbyggt íbúðar- og iðnaðarhverfi 2024. Gert er ráð fyrir að núverandi Skarhólabraut verði nýtt sem göngustígur í framtíðinni þegar hin nýja braut hefur verið tekin í notkun. Á nýju brautinni er gert ráð fyrir miðeyjum þar sem merkja má þverun gangandi umferðar. Gönguleiðir liggja að lóðum um aðalstíga, sjá nánar deiliskipulagsuppdrætti.

Tilvitnanir teknar úr greingargerð með deiliskipulagsuppdrætti vegna Desjamýri

Hvers vegna hefur ekki verið lokið við verkefnið? Íbúar á svæðinu hafa greitt umtalsvert í fasteignagjöld og útsvar síðustu 14 til 15 árin og mikilvægt að það fáist svör um forgang þess verkefnis sem Skarhólabrautin er. Verður Skarhólabrautin áfram e.k. illfær göngustígur eða tengibraut í samræmi við það sem selt hefur verið hingað til?