Hulduhólamálið


ÞRÓUN MÁLA VEGNA FRAMSALS EIGNARRÉTTINDA MOSFELLSBÆJAR

Netútgáfa skýrslu birt í maí 2022 af erindi og skýrslu frá 2014 sem tekin var á dagskrá bæjarráðs Mosfellsbæjar 4. júní 2014, sbr. 6. dl. 1168. fundar bæjarráðs.

Skýrslan er nú í fyrsta skipti birt á netinu og það kemur til vegna fjölda áskoranna að koma efninu á aðgengilegra form fyrir íbúa í Mosfellsbæ.

Skýrslu þessa tileinkar höfundur skattgreiðendum í Mosfellsbæ.

Almennur fyrirvari

Höfundur er ekki löglærður en hefur starfað við fasteignamál um árabil. Höfundur er ekki að leggja fram beina ásökun í þessu máli gagnvart nokkrum einstaklingi heldur veltir því upp sem vafi leikur á að sé rétt og satt. Stuðst er alfarið við opinber gögn sem aðgengileg eru öllum landsmönnum. Höfundur er ekki að draga upp annað með þessari skýrslu en það sem virðist augljóst miðað við þau gögn sem fyrir liggja. Með þessu framtaki höfundar er verið að leitast við að sýna samfélagslega ábyrgð og nýta þekkingu til að sýna öðrum í Mosfellsbæ sem og víðar hvar brotalamir geta legið í ferli af þeim toga sem hér er reifað.

Mikilvægt er að árétta að ekki er talið að þeir sem hér er getið hafi brotið af sér eða beitt ólögmætum aðferðum við að ná réttindum sínum fram. Það er mikilvægt að almenningur viti hvernig staðið er að umsóknarferli í tengslum við sveitarstjórnarstigið almennt og lítur höfundur á þessa skýrslu sem kennsluefni fyrir almenning varðandi þær brotalamir sem kunna að vera á því þegar um er að ræða deiliskipulag, lóðarúthlutanir og þau verðmæti sem eru í húfi fyrir sveitarfélög almennt. Sveitarfélög eru mörg hver illa stödd um þessar mundir og hruni fjármálakerfisins oft um kennt. Svo ekki að vera enda lagaleg umgjörð sveitarfélaga afar skýr og hefur verið það lengi og hægt að bregðast fyrr væri ávallt haft borð fyrir báru.

Það eru þeir fulltrúar sem veljast, óháð stjórnmálaflokkum, til setu í sveitatjórnum sem máli skipta, hvernig þeir forgangsraða fyrir kjósendur sína og gæta þeirra verðmæta sem sveitarfélög, mörg fátæk og lítt burðug, eiga. Því er hér um kennsluefni að ræða og þar sem um er að ræða opinber gögn sem eru fylgiskjöl er vitnað beint í þau og látið verða af því að breyta nöfnum sem hvort eð er má sjá tilgreind í þeim skjölum sem vitnað er til. Í því felst gagnsæi sem almenningur hefur kallað mikið eftir og taldi höfundur að það skaðaði ekki hagsmuni aðila að varpa fram þessum upplýsingum sem hvort eð er má sjá í tilvitnuðum opinberum gögnum málsins.

Inngangur

Með ritun þessarar skýrslu er verið að leitast við að ná utan um frekar flókið ferli þegar sveitarfélag framselur óbein eignarréttindi eins og lóðarleiguréttindi til þriðja aðila. Í sambandi við það mál sem hér um ræðir, Hulduhólamálið, virðist hafa verið um margvíslegar brotalamir að ræða og sterkar líkur á að um e.k. umboðsvanda hafi  verið að ræða og misbeitingu valds ákveðinna kjörinna fulltrúa Mosfellsbæjar á þeim tíma sem málið var rekið innan vébanda bæjarins allt frá árinu 1990 til dagsins í dag.

Umboðsvandi er þegar aðili, einstaklingur eða hópur einstaklinga, gætir hagsmuna bæði sinna og annarra aðila samhliða og á janframt erfitt og í vanda með að velja á milli þess hvort hann láti sína persónulegu hagsmuni ganga fyrir eða þess sem unnið er fyrir við að gæta hagsmuna, t.a.m. Mosfellsbæjar í þessu tilviki.

Umboðssvik eru annað og um það verður rætt eilítið í þessari skýrslu. Bent skal sérstaklega á að höfundur er ekki sérfræðingur í lögum og því getur viðkomandi aðeins vísað til gagna máli sínu til stuðnings sem og tilvitnana í fræðirit og skýrslu því tengdu eða önnur tilfallandi gögn. Hér skal þó vísað til Jónatans Þórumundssonar varðandi umboðssvik:

Umboðssvik fela í sér einhliða og ólögmæta misnotkun aðstöðu eða trúnaðar til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, sem annar maður eða lögaðili verður bundinn við, enda sé verkið af ásetningi unnið og í auðgunarskyni[1]

Óvíst er hvort um umboðssvik hafi verið að ræða í því máli sem hér er reifað. Hins vegar er alveg ljóst að aðilar sem áttu að gæta hagsmuna skattgreiðenda í Mosfellsbæ hefðu getað valið að gæta hagsmuna Mosfellsbæjar mun betur en þess sem gert var og augljóst verður hverjum þeim sem setur sig vel í þróun þessa máls og afgreiðslu þess innan vébanda Mosfellbæjar og á vegum kjörinna fulltrúa.

Hingað til hefur þetta mál hvorki verið rannsakað formlega af lögreglu eða Sérstökum saksóknara á sínum tíma þegar málið var sent þangað af þáverandi bæjarfulltrúa, þ.e. árið 2014. Líkur eru á að málið sé fyrnt en hægt að læra af. Það er hins vegar ekki lokum fyrir það skotið að það verði rannsakað síðar svo fá megi úr því skorið hvort um saknæm brot hafi verið að ræða. Þó svo að það reynist ekki vera saknæmt sem framkvæmt var (eða látið vera að framkvæma) stendur eftir að framkvæmdin öll var til vansa og jaðrar við spillingu.

Það er markmið höfundar að gera Mosfellingum grein fyrir því hvernig málið þróaðist og veita þeim innsýn í það ferli sem í raun hófst með því að Mosfellsbær hafnaði lóðarleiguhöfum að deiliskipuleggja land lóðarleiguhafa að Hulduhólum eftir þeirra eigin óskum fyrir sveitarstjórnarkosningar 2002. Árið 2002 tók nýr meirihluti við völdum í Mosfellsbæ og fengu lóðarleiguhafar að Hulduhólum, sem og aðrir,  flestar ef ekki allar óskir sínar uppfylltar og rúmlega það.

Hugsanlegt er að einhverjir hafi jafnvel brotið trúnað við embættisfærslur sem kjörnir fulltrúar og brotið einnig reglur hvað allt ferlið varðar sem snýr að skipulagi, úthlutun lóða og fyrirtöku hjá bæjarstjórn og í bæjarráði.

Virðist sem lóðarleiguhafar að Hulduhólum hafi með framferði sínu haft forskot á aðra inn á markaðinn með réttindi sín til sölu. Var það vegna stöðu þeirra og aðstöðumunar innan stjórnskipulags Mosfellsbæjar, þ.e. á fasteignamarkaðinn, skal ósagt látið. Það er þitt að dæma lesandi góður.

Hér verður leitast við að taka á þeim málum sem hugsanlega gætu varðað við lög og reynt að benda á hvernig málin þróuðust á milli einstakra tímabila. Þér verður gerð grein fyrir hvaða gögn liggja að baki þeim fullyrðingum sem hafðar eru uppi og mörkuð niðurstaða í hverju skrefi þessa máls. Fylgiskjöl má finna aftast og með því að ýta á þar sem er hornklofi með tölu, [T], þar fer með þig á það fylgiskjal sem við á og ef þú ýtir á númer fylgiskjáls, getur þú fengið það upp á skjáinn.

Njóttu lestursins. Efnið er langt en það er þess virði að lesa. Þetta er einnig afar lærdómsríkt að fara yfir ef þú hefur áhuga á skipulagsmálum og ferlum þeim sem mál fara í gegnum stjórnkerfið í Mosfellsbæ.

Yfirlit yfir Hulduhólamálið í stórum dráttum

Í þessum kafla verður leitast við að fara yfir málið í stórum dráttum fyrir þá sem vilja sjá heildarmyndina reifaða með þeim hætti.

Sala og afsal á erfðafesturétti 1970 – Hulduhólar, eign Mosfellsbæjar, leigulóð 1990

Í þessari skýrslu er farið yfir ferlið frá kaupum Sverris Haraldssonar á erfðafesturéttindum og búseturétti að Hulduhólum í Mosfellsbæ[2], til þess tíma sem Mosfellsbær ákveður að semja við ekkju Sverris Haraldssonar, Steinunni Marteinsdóttur, um lóðarleigu ásamt endurgjaldi vegna þess að Mosfellbær leysti til bæjarins land í eigu bæjarins innan bæjarmarkanna. Segja má að þar verði fyrsti vendipunktur í málinu varðandi réttindi Mosfellsbæjar á landi Hulduhóla.[3]

Lóðarleiguhöfum hafnað að land þeirra yrði deiliskipulagt 2001 – ekki talið tímabært

Frá þeim tíma breytist réttarstaða bæjarins til hins betra[4], þ.e. með samningi um lóð að Hulduhólum árið 1990. Lögbundin réttindi bæjarins voru afar sterk gagnvart lóðarleiguhafa og má lesa það úr lögfræðiálitum sem og lokaafgreiðslu málsins gagnvart lóðarhafa fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2002.[5] Fyrir kosningar er lóðarleiguhafa hafnað, þ.e. því er hafnað að bærinn hefji deiliskipulagningu eftir óskum lóðarleiguhafa og urðu aðrir, sem sótt höfðu um sambærilega afgreiðslu bæjarins, einnig sæta sömu niðurstöðu. Var því jafnræðis gætt og meirihlutinn á þeim tíma leitaðist með þessum hætti að gæta hagsmuna bæjarbúa í Mosfellsbæ.

Samþykkt með þremur atkvæðum að árétta bókun bæjarráðs frá 454. fundi , 06.04.2000, um að bréfritara [innskot höfundar: Guðmundar Ágústssonar hdl] verði bent á að um er að ræða leigulóð í eigu bæjarins. Jafnframt samþykkt að fela bæjarritara að skoða réttarstöðu bæjarins gagnvart slíkum beiðnum lóðarhafa um heimild til að deiliskipuleggja leiguland sitt og úthluta lóðum, sbr. einnig hlíðstæðar beiðnir frá lóðarhöfum Hamrafells, Hjallabrekku og Hulduhóla, sbr. bréf dags. 24.11.2000 (00/703).[6]

Á þessum tíma verður annar vendipunktur í málinu þegar erindi og óskum lóðarleiguhafa að Hulduhólum er hafnað með sérstöku erindi eftir afgreiðslu Mosfellsbæjar og lögformlega framgöngu þess máls innan bæjarins og af hálfu embættismanna bæjarins.

Höfðu lóðarleiguhafar óskað eftir því, gegn ákvæðum skipulagslaga, að deiliskipuleggja sjálf land í umdæmi Mosfellsbæjar, land sem var í eigu bæjarins. Því var hafnað enda ekki lagastoð fyrir því að lóðir séu skipulagðar af einstaklingum þrátt fyrir lóðarleiguréttindi þeirra væru til staðar á því landi sem ætlunin var að deiliskipuleggja.  Taldi Mosfellsbær ekki tímabært að fara út í slíka vinnu sbr. erindi til lóðarleiguhafa.

Viðsnúningur eftir kosningar árið 2002

Eftir kosningarnar árið 2002 verða kaflaskipti þegar nýr meirihluti tekur við í bæjarstjórn Mosfellbæjar.[7]

Fljótlega er tekið vel í málaleitan lóðarhafa að Hulduhólum varðandi viðræður um að hefja deiliskipulagsvinnu á landi sem skv. þágildandi aðalskipulagi var skipulagt sem útivistasvæði. Sendu lóðarhafar inn nýtt erindi eftir kosningarnar 2002.[8]

Hafði lóðarleiguhafi m.a. sett út á það að á þessu landssvæði í eigu Mosfellsbæjar hefði fólk gengið um lóðina sem skipulögð var sem útivistasvæði skv. þágildandi aðalskipulagi og almenningssvæði.[9] Taldi lóðarleiguhafi þetta vera sína lóð ef svo má að orði komast.

Skipulagsyfirvöld gengu á þessum tíma í gegnum aðalskipulagsbreytingu og lagði lóðarleiguhafi Hulduhóla, sem og aðrir í lóðarleiguhafar í nágrenni Hulduhóla, áherslu á svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins varðandi þéttingu byggðar. [10] Fyrri meirihluti hafði þá afgreitt þetta með þeim hætti að þétting byggðar ætti ekki endilega við um Mosfellsbæ og taldi það ekki vera haldbær rök í málinu.[11] Nýr meirihluti, eftir sveitastjórnarkosningarnar árið 2002, fór að vinna að málinu og ræða við lóðarleiguhafa varðandi skipulagsmál.

Deiliskipulagsbreyting árið 2004

Næsti vendipunktur er 2 árum eftir kosningarnar árið 2002, þ.e. árið 2004. Þetta ár samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar (dags. 05.10.2004) deiliskipulag[12] að svæðinu, skipulag sem fyrri meirihluti hafði hafnað að yrði unnið að eftir forsendum lóðarleiguhafa.

Sonur lóðarleiguhafa að Hulduhólum, Haraldur Sverrisson, átti bæði sæti í skipulagsnefnd og var formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar á þessum tíma og bjó sjálfur að Hulduhólum sem og er einkaerfingi þeirra réttinda sem til var stofnað.[13]

Þess var sérstaklega getið á fundi skipulags- og byggingarnefndar (dags. 05.10.2004)  að Haraldur Sverrisson hafi vikið af fundi undir þeim dagskrárlið[14] er fjallaði um deiliskipulagið. Vék hann af fundi ásamt arkitekt er vann að skipulagstillögum að Leirvogstungu, Gylfa Guðjónssyni, landi sem þáverandi bæjarstjóri, Ragnheiður Ríkharðsdóttir átti landspildu. [15]

Við samþykki á nýju deiliskipulagi var vissulega um vendipunkt að ræða sem virðist hafa verið unnin án þess að litið yrði til hagsmuna Mosfellsbæjar. Áður en farið er í deiliskipulagsvinnu af þessum toga átti að vera búið að semja um réttindi Mosfellsbæjar á eigin landi en það var ekki gert og ekki hagsmunir lóðarleiguhafa að það yrði gert. Með því að deiliskipulag yrði samþykkt verða til verðmæti sem vega þungt þegar kemur að samningum við lóðarleiguhafa. Ef farið hefði verið að eins og fyrri meirihlutinn (fyrir kosningarnar 2002) ætlaði að væri skynsamlegast fyrir skattgreiðendur í Mosfellbæ varðandi Hulduhólamálið, sem og varðandi önnur sambærileg mál, væri hagsmunum bæjarins betur borgið eðli máls samkvæmt. Með því hefði verið samið við lóðarleiguhafa varðandi það að Mosfellbær fengi land og lóðir upp í kostnað við gerð deiliskipulags og þá aðallega vegna sterkrar eignarréttarlegrar stöðu Mosfellsbæjar á þessum tíma.

Gefnar út 4 lóðir áður en deiliskipulag tekur gildi árið 2005 og án samþykkis bæjarráðs og bæjarstjórnar – forskot formanns bæjarráðs?

Eftir að deiliskipulagið hefur verið samþykkt fyrir árslok 2004 tekur það gildi 29. apríl 2005.  Í febrúar 2005 óskar lóðarleiguhafinn að Hulduhólum eftir því að gefnar verði út 4 lóðir sem aðili á hans vegum hafði dregið upp. [16]  Næsti vendipunktur í málinu er þegar lóðarleiguhafinn að Hulduhólum, ásamt Haraldi Sverrissyni, fær gefna út 4 lóðaleigusamninga[17] (dags. 08.03.2005) án þess að það hafi verið tekið fyrir og samþykkt í fundi bæjarráðs eða bæjarstjórnar sbr. yfirlýsingar embættismanna um það.[18] Fundargerðir frá því í október 2004 til og með aprílmánuði 2005 styðja við það.

Skömmu eftir útgáfu lóðanna (A,B,C og D við Hulduhóla í Mosfellsbæ) selur lóðarleiguhafinn, Steinunn Marteinsdóttir, og afsalar (15.04.2005)[19] öllum réttindum sínum af einni lóðinni[20], þ.e. þeirri stærstu (merkt B) þar sem búið var að skipuleggja 12 lóðir auk einnar lóðar til viðbótar sem Haraldur Sverrisson fékk í fyrirframgreiddan arf[21] ásamt húsi[22] frá móður sinni, lóð sem var einnig gefin út af bænum 8. mars 2005 og mörgum mánuðum áður en aðrir sem gengu í gegnum sama skipulagsferli. Lóðin er Haraldur erfði frá móður sinni er sú þrettánda sem skipulögð var að Hulduhólum og var hún aðskilin frá þeim 12 er fólust í lóð merktri B.

Hér vekur sérstaklega athygli að Samvernd framselur aðeins 11 lóðir sem stofnhlutafé fyrir nýstofnað dótturfélag sitt Huldubyggð ehf.[23] Spurningin er sú hvort 1 lóð hafi verið skilin eftir í Samvernd og aðeins 11 lóðir seldar áfram til dótturfélagsins Huldubyggðar ehf. Svo virðist hafa verið og voru þessar 11 lóðir sagðar að verðmæti 117 milljónir króna og þar stuðst við bindandi kauptilboð af hálfu KPMG.[24] Spurningin er því hvort Steinunn Marteinsdóttir hafi ekki örugglega framselt allt landið eða aðeins hluta þess og ef hún hafi framseld allt landið (eins og afsalið gefur til skyn), var þá ein lóð eftir í Samvernd? Þá má ætla að ef Samvernd hafi framselt aðeins 11 lóðir af þeim 12 sem voru á þessari lóð, hafi virði lóðanna verið talsvert meira en 117 milljónir króna. [25]

Þarna komust þau mæðginin, a.m.k. Steinunn Marteinsdóttir, inná fasteignamarkaðinn um ári á undan öllum öðrum (er lutu sama skipulagi og ferli hjá Mosfellsbæ á sama tíma) með lóðarleigusamninga á lóðum í eigu Mosfellsbæjar er bærinn hafði skipulagt fyrir eigin reikning. Þessi framsöl áttu sér stað án vitneskju embættismanna Mosfellsbæjar.[26] Ekki er séð að fulltrúar meirihlutans hafi haft sömu hagsmuni uppi fyrir hönd Mosfellsbæjar og fyrri meirihluti er lagði upp með að gætt yrði að hagsmunum skattgreiðenda sem ættu lóðina, þ.e. Mosfellinga sjálfra, með því að innleysa hluta af lóðum upp í þann umtalsverða kostnað sem kostar að skipuleggja lóðir af þessum toga. Það að sala á lóð B hafi átt sér stað án tilkynningar til Mosfellsbæjar um slíkt, m.a. að hluti lóða hafi verið framseldur, bendir allt til þess að um brot á ákvæðum lóðarleigusamningsins hafi verið að ræða. Með því að dylja söluna fyrir embættismönnum og geta þessara sölu ekki í bæjarráði eða bæjarstjórn (Haraldur Sverrisson formaður bæjarráðs) má hugsanlega vera að það sé um alvarlegt brot að ræða gagnvart Mosfellsbæ. Á meðan biðu aðrir eftir því að Mosfellsbær afgreiddi tillögu að byggingaréttargjöldum og tilsvarandi gatnagerðargjöldum. Sjá má þennan aðstöðumun m.a. í fundi bæjarráðs[27] þann 19. apríl 2005 (aðeins 3 dögum eftir að Steinunn Marteinsdóttir afsalar lóð B til Samverndar 15. apríl 2005) þar sem erindi Regula lögmannsstofu (Berglind Svavarsdóttir hdl) er vísað til bæjarstjóra og bæjarverkfræðings á meðan móðir formanns bæjarráðs gat bæði fengið gefna út lóðir sínar í mars 2005 og selt þær 3 dögum áður en lóðarleiguhafar að Hamrafelli í Mosfellsbæ fengu gefið út byggingarleyfi til endubyggingar gamla hússins að Hamrafelli en hafði verið sótt um það fyrst formlega með bréfi til Mosfellsbæjar dags. 23. ágúst 2002. Haraldur Sverrisson er sagður hafa vikið af fundi undir þessum dagskrárlið er fjallaði um þetta en virðist ekki hafa séð ástæðu til þess sem formaður bæjarráðs að geta þess í upphafi fundarins að móðir hans hafi selt og afsalað stórri leigulóð, merkt B við Hulduhóla, 3 dögum fyrir þennan 716. fund bæjarráðs Mosfellsbæjar.[28]

Sala á hlutum í Huldubyggð ehf árið 2005

Næsti vendipunktur er þegar eigandi alls hlutafjár (eða a.m.k. stórs hluta þess hlutafjár) í Huldubyggð[29], sem hafði keypt 11 lóðir[30] af þeim 12 sem voru skipulagðir á lóð sem leigð var móður Haraldar Sverrissonar 8. mars 2005[31], kom á fund hjá embættismönnum Mosfellsbæjar og tjáði þeim að hann ætti félag er héti Huldubyggð ehf sem ætti lóð B við Hulduhóla og þar væru skipulagðar a.m.k. 11 einbýlishúsalóðir. Þarna var um að ræða þriðja eiganda alls hlutafjár í Huldubyggð ehf á innan við ári frá stofnun félagsins. Samvernd framseldi eignarhluti sína í Huldubyggð ehf til aðila[32] sem svo seldi félagið afram til Haraldar Skarphéðinssonar[33] sem fyrst er sagður hafa borið sig upp við Mosfellsbæ og tilkynnti að Steinunn Marteinsdóttir, móðir formanns bæjarráðs, hafi selt a.m.k. hluta úr lóð B við Hulduhóla (þ.e. 11 einbýlishúsalóðir skipulagðar á henni) í félag sem hann ætti orði hluti í.

Hafði félagið Samvernd eignarhaldsfélag ehf keypt og fengið afsalað[34] lóðarleiguréttindum (15.04.2005) af móður Haraldar Sverrissonar aðeins 14 dögum áður en deiliskipulag[35] um svæðið tók gildi (29.04.2005) og alfarið án vitneskju Mosfellbæjar[36], eiganda lóðarinnar.

Samvernd hins vegar framseldi, eins og áður segir, þessi réttindi til nýstofnaðs dótturfélags síns (stofnað 26.04.2004) sem hlaut heitið Huldubyggð ehf.[37] Var félagið því stofnað aðeins 3 dögum áður en deiliskipulagið um lóðirnar tók gildi. Fór þetta framsal fram án vitneskju Mosfellsbæjar eins og áður segir og var tilgreint og staðfest af KPMG að verðmætið væri 117 milljónir króna en ekki 75 milljónir króna eins og Haraldur Sverrisson getur til um í svari sínu til DV á sínum tíma, þá í formlegu svari sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar.[38]

Ekki er séð að einhver hagnaður hafi myndast vegna þessara viðskipta Samverndar innan rekstrarársins 2005 og hafi komið fram í ársreikningum félagsins enda tap ár eftir ár í því félagi á þessum tíma.[39]

Formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar tilkynnir ekki bænum um sölu á réttindum á landi í eigu bæjarins og gefinn hafi verið út lóðarleigusamningur án samþykkis bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Formaður bæjarráðs, Haraldur Sverrisson og núverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar, tilkynnti ekki um þessa sölu þó hún stæði nálægt honum vegna vensla við móður sína sem seldi lóðarréttindi sín af lóð í eigu bæjarins.[40] Ljóst er hve lítið jafnræði var á milli eigenda Hulduhóla, þ.e. bæði bæjarstjórans og móður hans, og annarra sem gengu í gegnum sama skipulagsferli.

Fulltrúar Mosfellsbæjar og embættismenn fengu enga vitneskju um þetta fyrr en þriðji hluthafinn í Huldubyggð ehf tilkynnti embættismönnum það í viðtali á bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar á vordögum 2006.

Enn einn vendipunkturinn er að þegar aðrir lóðarleiguhafar annarra lóða, sem gengu í gegnum sama ferli og lóðarleiguhafar Hulduhóla, eru látnir greiða gatnagerðargjöld og byggingarréttargjöld sem eigendur lóðarréttinda að Hulduhólum þurftu ekki að gera en það lenti á Huldubyggð ehf að greiða slíkt ella fengist ekki leyfi til að hefja byggingarframkvæmdir. Hins vegar og á sama tíma var Mosfellsbær skuldbundinn til að hefja framkvæmdir við gatnagerð og lagnavinnu þessu verkefni tengdu. Á 717. fundi bæjarráðs 26.05.2005, eða fáeinum dögum eftir að móðir hans framselur Samvernd lóðarréttindi lóðar í eigu Mosfellsbæjar og án vitneskju bæjarins, er samþykkt með 3 atkvæðum að bjóða út hönnun á götum, stígum og lögnum á deiliskipulögðu landi Hamrafells, Hulduhóla og Láguhlíðar.[41] Á þessum fundi og í upphafi hans virðist formaður bæjarráðs ekki sjá ástæðu til að tilkynna að móðir hans hafi selt lóðarréttindi[42] sín í hendur 3ja aðila (að hluta eða heild), aðila sem hugsanlega gæti veðsett lóðina og skert þannig tekjumöguleika bæjarins til að hafa upp í kostnað við gatnaframkvæmdir og lagnavinnu.[43]

Þann 12.01.2006 eru lögð fram drög á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar að samningi við lóðarleiguhafa þar sem fram koma áformaðar fjárhæðir sem lóðarleiguhöfum ber að greiða fyrir byggingarrétt og gatnagerðargjöld. Ekki sá Haraldur Sverrisson ástæðu á þessum fundi, með vitneskju um ferli málsins og lögformlega skyldu sína sem umbjóðandi kjósenda og sem hagsmunaðili, að tilkynna um sölu móður sinnar á lóðarréttindum lóðar (að hluta eða að heild) í eigu Mosfellsbæjar.

Að lokum má geta þess að Samvernd eignarhaldfélag ehf er gjaldþrota sem og Huldubyggð ehf.[44] Stærsti hluti lóðanna er óbyggður en Mosfellsbær hefur lagt í mikinn kostnað við gatnagerð og lagnavinnu að þeim fáu lóðum sem byggt hefur verið á. Svo má geta þeirra hagsmuna við rekstur Mosfellsbæjar er tengdust þáverandi bæjarstjóra, Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem átti mikið undir því að lönd í Leirvogstungu yrðu skipulögð og sat Haraldur í bæði skipulags- og byggingarnefnd á þessum tíma sem og í bæjarráði sem formaður bæjarráðs.

Í þessari skýrslu verður leitast við að varpa ljósi á þau atriði sem orka tvímælis og gætu reynst brotleg og jafnvel um ólögmæta auðgun að ræða, umboðssvik, brot á skattalögum sem og brot á trúnaði og jafnræðisreglu. Hugsanlegt er að farið hafi verið í bága við eignarréttarlega stöðu Mosfellsbæjar í þessu máli sem varin er í stjórnarskrá lýðveldisins. Áður en kveðið er á um slíkt verður að leita lögfræðiálita og gæta varúðar í túlkun.

Hulduhólar fyrir 1990

Árið 2010 ritar fyrrum forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar grein í Mosfelling, fréttablað sem dreift er í öll hús í Mosfellsbæ, og ver þar störf samstarfsmanns síns, Haraldar Sverrissonar. Þar segir hún m.a.:

Foreldrar Haraldar, keyptu jörðina Hulduhóla árið 1969. Landið var alls 28 hektarar og náði frá Vesturlandsvegi niður að sjó. Mosfellsbær leysti til sín 24 hektara svo byggja mætti Höfða- og Hlíðahverfi. Árið 2000 var lagt til að skipulagaðar yrðu 30 lóðir. Í framhaldi af því ákvað Mosfellsbær að deiliskipuleggja land Hamrafells, Hjallabrekku, Láguhlíðar og Hulduhóla og tók deiliskipulagið gildi 29. apríl 2005.[45]

Þarna fer fyrrum forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og fyrrum stjórnarmaður í EIR frjálslega með staðreyndir, því miður. Hugsanlegt er að viðkomandi hafi fengið þessar upplýsingar frá þriðja aðila og ekki búið yfir öllum þeim gögnum sem þarf til svo meta mætti þetta heildstætt.

Staðreyndin er sú að árið 1970 afsalar[46] Viggó Valdimarsson Hulduhólum til Sverris Haraldssonar og Knúts Bruun og við það er söluferli á þeim réttindum, sem seldir voru, fullnægt. Það sem keypt var voru svokölluð óbein eignarréttindi. Það voru ekki foreldrar Haraldar Sverrissonar sem keyptu jörð heldur keypti faðir Haraldar réttindi sem getið er um í afsalinu sem gefið var út og hreppsnefnd Mosfellshrepps staðfesti m.t.t. forkaupsréttarákvæðis og kvaða þar um. Jörðin var eign Mosfellshrepps alla tíð og er það enn, nú Mosfellsbæjar.

Sverrir Haraldsson, ásamt Knúti Bruun, keypti réttindi til búsetu á jörðinni Hulduhólum er fólst í erfðafestu eða erfðaleiguréttindum sem tíðkuðust þá víða sem óbein eignarréttindi vegna ábúðar á jörðum. Jörðin var engu að síður í eigu Mosfellshrepps og meira til, hreppurinn hafði forkaupsrétt að þessum réttindum alla tíð.

Gerðu Sverrir og Knútur m.a. með sér sameignarsamning (dags. 17. maí 1971) og áttu þeir saman þessi réttindi, þ.e. erfðafesturéttindi á landi nýbýlisins að Hulduhólum í Mosfellsbæ.

Í frétt 13. nóvember 2003 fjallar Morgunblaðið (á miðopnu blaðsins) um Lund í Kópavogi sem var þá erfðafestuland og spurði fréttamaður lögfræðinga að því hvað erfðafestuland væri og hvaða þýðingu það hefði þegar kæmi að nýtingu landsins.[47]

Sagt er m.a. að erfðafesta sé í eðli sínu óuppsegjanlegt leiguform þar sem einstaklingi er veittur réttur til að nýta land og rétturinn erfist eins og aðrar eignir. Samningar um erfðafestu voru víst algengir framyfir miðja 20. öldina en eru ekki gerðir í dag sé vitnað í frétt Morgunblaðsins frá 2003.

Land var bundið erfðafestu þegar sveitarfélög eða aðrir aðilar gerðu samning við einstaklinga um nýtingu landsins, yfirleitt í ákveðnum tilgangi eins og til húsbygginga, ræktunar eða fiskverkunar. Leigusalinn, sveitarfélögin, geta ekki sagt samningum upp  heldur þurfa að semja við erfðafestuhafa um að kaupa réttinn af þeim sé vitnað beint í frétt Morgunblaðsins frá árinu 2003 en þar var vitnað í lögmenn sem sérfróðir eru um þessi mál.

Það er ljóst að handhafi erfðafesturéttar er alla jafna með miklu meiri verðmæti í höndunum en venjulegur leigutaki.[48]

Taldi Ólafur Björnsson, hrl, að erfðafesturéttur væri mjög sterkur réttur samkvæmt lögum og ekki muni miklu á erfðafestu og því að eiga land.

Erfðafestuhafar hafa mjög svipaða stöðu og eigandi lands til að nýta það með þeim hætti sem mögulegt er.[49]

Segir Ólafur ljóst að bætur fyrir land sem er tekið eignarnámi þurfi að bæta alla hugsanlega notkun á svæðinu, ekki bara þá sem nú er í gangi. Hins vegar segir Karl Axelsson í þessari sömu frétt að í grunnatriðum megi ekki gera annað á landinu en það sem erfðafestusamningurinn segir til um.

Í þessari frétt er einnig fjallað um leiðir sveitarfélaga til að nýta land sem samið hafði verið um erfðafestu. Nokkrar leiðir eru færar í því efni og ein var farin þegar Steinunn Marteinsdóttir, ekkja Sverris Haraldssonar[50] semur við Mosfellsbæ árið 1990 um að fá greitt fyrir réttindin með tveimur lóðum að eigin vali í Mosfellsbæ án þess að þurfa að greiða gatnagerðar-, bygginga- og tengigjöld. Auk þess fékk hún yfir 3 hektara til að nýta áfram, rétt til að endurbyggja hús á lóðinni sem voru þar fyrir auk þess heimild til að byggja eitt nýtt hús á sömu lóð við Hulduhóla án greiðslu gatnagerðar-, bygginga- og tengigjalda.[51]

Gerði Mosfellsbær sambærilega samninga við aðra eigendur réttinda af slíkum toga og má þar benda á leigusamning frá árinu 1983[52] sem gerður var um leigu á Hamrafelli í Mosfellsbæ. Auk þessa má benda á samning frá árinu 1992 um leigu af landi Láguhlíðar í Mosfellsbæ.[53]

Þess ber að geta að allt þetta land var og er í eigu Mosfellsbæjar en ekki lóðarleiguhafa. Jafnframt hafa lóðarleiguhafar, með þessum samningum við Mosfellsbæ, afsalað erfðafesturéttindum sínum á þessum tíma. Til samræmis við það sem lóðarleiguhafar að Hulduhólum fengu árið 1990 fengu aðrir slíkt einnig með sambærilegum hætti.[54]

Af þessu ferli má ráða að þegar kemur að því að afgreiða mál í tengslum við deiliskipulag fyrir lóðarleiguhafa, án þess að hagmunir Mosfellsbæjar séu hafðir að leiðarljósi varðandi fjárhagslegar skuldbindingar bæjarins, að ekki lágu fyrir þær eignarheimildir sem haldið hefur verið fram opinberlega af hálfu fulltrúa bæjarins er þátt tók í afgreiðslu málsins fyrir bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Móðir Haraldar, Steinnunn Marteinsdóttir, og faðir hans, Sverrir Haraldsson, keyptu lögbýlið Hulduhóla árið 1969 sem var 28 ha. að stærð og náði frá Vesturlandsvegi niður að sjó á milli jarðanna Hamrafells og Láguhlíðar. Landið var leiguland með ábúðarrétti og var samningurinn gerður 1948 til 99 ára.[55]

Þetta er ekki allskostar rétt nema það sem getið er að um hafi verið að ræða leiguland með ábúðarrétti. Faðir Haraldar keypti ekki lögbýli heldur erfðafesturéttindi eins og að framan greinir og síðar samið um lóðarleiguréttindi árið 1990 eins og komið hefur verið að hér að framan.

Sótt um deiliskipulag til Mosfellsbæjar 2000-2002

Með erindi Mosfellsbæjar dags. 23. ágúst 2000 kemur fram að á 5. fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hafði verið tekin fyrir fyrirspurn Bjarna Marteinssonar (fh. lóðarleiguhafa) varðandi deiliskipulagningar lands Hulduhóla og Láguhlíðar í Mosfellsbæ.[56]

Í svari af hálfu Mosfellsbæjar var talið að tillögur þær sem lágu fyrir nefndinni ekki vera í samræmi við það sem nefndin taldi að væri við hæfi að nefndin afgreiddi enda um of þétta byggð að ræða.

Á fundi bæjarstjórnar 30. ágúst 2000 var fundargerð 5. fundar skipulags- og byggingarnefndar samþykkt.[57]

Þann 24. nóvember 2000 berst bæjarráði Mosfellsbæjar erindi frá lóðarleiguhöfum að Hjallabrekku, Hamrafelli og Hulduhólum. Þar óska lóðarhafar framangreinds lands í eigu Mosfellsbæjar eftir því að fá að hefja gerð deiliskipulags á ,,lóðum okkar“ eins og þau orða það í erindi sínu.

Þar segir m.a.:

Fyrirkomulagið á uppbyggingu svæðisins höfum við hugsað okkur þannig að við sjáum um og kostum skipulagsgerðina og úthlutun lóðanna. Greidd yrðu gatnagerðargjöld til bæjarins sem mundi sjá um gatnagerð.[58]

Á fundi bæjarráðs, dags. 30. nóvember 2000 , var samþykkt að fresta málinu.

Bæjarráð Mosfellsbæjar setti málið á dagskrá aftur á 495. fundi bæjarráðs dags. 7. desember 2000. Var það tekið fyrir og vísað með 3 atkvæðum til umsagnar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar.[59]

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar 28. desember 2000 var málið 8. dagskrármál. Var málinu frestað.[60]

Málið kom aftur á borð nefndarinnar á 18. fundi hennar eftir áramótin eða 9. janúar 2001. Var málið þá 5. dagskrármál fundar. Á þessum fundi var umhverfisdeild Mosfellsbæjar falið að vinna frekar að málinu og ræða við lóðarhafa.

Þann 17. janúar 2001 var haldinn 318. fundur í bæjarstjórn Mosfellsbæjar þar sem afgreiðsla fundargerðar 17. og 18. fundar skipulags- og byggingarnefndar var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Lóðarhöfum hafnað 2001

Þann 22. nóvember 2001 sendi Mosfellsbær fjórum lóðarleighöfum, að Láguhlíð, Hamrafelli, Hjallabrekku og að Hulduhólum, svarbréf við erindi lóðarleiguhafa frá október 2001. Þar hafnar bæjarstjórn Mosfellsbæjar beiðni lóðarleiguhafa að landi Hamrafells, Hjallabrekku, Hulduhóla og Láguhlíðar að lóðarleiguhafar annist sjálfir og kosti deiliskipulagningu nefndra leigulóða.[61]

Vísaði bæjarstjórnin til þeirrar meginreglu að sveitarfélagið sjálft annist undirbúning og gerð deiliskipulags á eignarlandi bæjarins og beri af því kostnað.

Taldi Mosfellsbær ekki tímabært að fara í þessa vinnu og lagði því til grundvallar þróun og vöxt sveitarfélagsins.

Á 503. fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar, dags. 1. febrúar 2001, var bréf Guðmundar Ágústssonar hdl (dags. 17.01.2001), til umfjöllunar en í því erindi hans fólst ósk eigenda Láguhlíðar að fá heimild til að deiliskipuleggja landið að Láguhlíð í Mosfellsbæ. Skv. fundargerð kemur fram eftirfarandi:

Samþykkt með þremur atkvæðum að árétta bókun bæjarráðs frá 454. fundi, 06.04.2000, um að bréfritara verði bent á að um er að ræða leigulóð í eigu bæjarins. Jafnframt samþykkt að fela bæjarritara að skoða réttarstöðu bæjarins gagnvart slíkum beiðnum lóðarhafa um heimild til að deiliskipuleggja leiguland sitt og úthluta lóðum, sbr. einnig hliðstæðar beiðnir frá lóðarhöfum Hamrafells, Hjallabrekku og Hulduhóla, sbr. bréf dags. 24.11.2000.[62]

Hér kemur skýr vilji bæjarráðs Mosfellsbæjar að gæta skuli hagsmuna skattgreiðenda í Mosfellsbæ og bæjarins sjálfs. Markmiðið var ekki að skerða réttindi lóðarleiguhafa meira en eðlilegt kann að vera enda ljóst að þeir höfðu á árum áður gengist undir rausnarlega samninga í tengslum við framsal réttinda eins og framar er getið í þessari skýrslu.

Athygli vekur að fram kemur í minnisblaði vegna fundar með lóðarleiguhöfum 13. mars 2001 eftirfandi:

Steinunn vakti máls á notkun barna og umferð útivistafólks um lóð sína (nokkuð sem við hin höfum líka orðið vör við í vaxandi mæli) og upplýsa þyrfti að þetta svæði yrði ekki útivistasvæði til frjálsrar notkunnar um ókomna tíð.[63]

Hér vekur það sérstaka furðu að lóðarleiguhafi lands í eigu Mosfellsbæjar sé að amast við börnum og umferð á landi sem skipulagt var á þessum tíma sem útivistarsvæði skv. fyrirliggjandi aðalskipulagi á þessum tíma og um að ræða land í eigu Mosfellsbæjar.

Þykir ljóst að lóðarleiguhafar gengu afar hart fram í að fá lóðir í eigu Mosfellsbæjar, sem viðkomandi lóðarleiguhafar leigðu af bænum, deiliskipulagðar. Þykir augljóst að við því gæti Mosfellsbær ekki orðið m.t.t. þess að skv. lögum væri slíkt á forræði sveitarfélaga en ekki einstakra lóðarleiguhafa.

Þykir afar undarlegt að lóðarleiguhafar hafi ekki gert sér grein fyrir því að þrátt fyrir að bjóða að greiða þann kostnað allan af deiliskipulaginu hafi bæjaryfirvöld ekki haft áform um slík né gert ráð fyrir að þær lóðir kæmu inná fasteignamarkaðinn í bæjarfélaginu. Á þessum tíma var slíkt enda ekki talið tímabært eins og ástatt var varðandi þróun Mosfellsbæjar. Nægt framboð virtist hafa verið á lóðum á þessum tíma.

Álit lögmannsstofunnar Lex ehf

Mosfellsbær óskaði eftir áliti frá lögmannsstofunni Lex ehf á árinu 2001 og barst bænum svar dags. 9. júlí 2001.[64]

Erindið sneri að réttarstöðu Mosfellbæjar yrði farið í innlausn á lóðarleigurétti og tilsvarandi eignarnámsbætur ef slíkt kæmi til. Var í erindinu m.a. bent á að samkvæmt 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms er það matsnefnd eignarnámsbóta sem sker úr um fjárhæð eignarnámsbóta, náist ekki sáttir milli eignarnema og eignarnámsþola. Sagt er jafnframt í erindi frá lögmannsstofunni Lex ehf að í 3. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er sagt að eignarnám sé því aðeins heimilt að sveitarstjórn hafi áður með sannanlegum hætti leitast við að ná samningum við eigendur þeirra eigna eða réttinda sem hún hyggst taka eignarnámi.

Fram kemur í erindi frá lögmannsstofunni Lex ehf að meginreglan sé sú að samningaviðræður verða að vera fullreyndar áður en gripið er til eignarnámsaðgerða, sbr. dóm Hæstaréttar 1998:985 þar sem eignarnámi var hafnað vegna þess að Garðabær hafði ekki reynt til nægilegrar hlítar að ná samningum við landeigendur á Arnarnesi áður farið var að krefjast eignarnáms.

Þar segir einnig:

Þar sem í þessu máli er um að ræða lóðarleigusamninga verður að skoða þá sérstaklega vel. Í lóðarleigusamningunum fjórum sem um er rætt er hvergi minnst á skyldu leigutaka til þess að láta af hendi leigurétt sinn í þeim tilgangi að Mosfellsbær geti nýtt landið í samræmi við skipulag.

Hér er verið að benda á lóðarleigusamninga sem gerðir voru á árum áður við lóðarleiguhafa að Hamrafelli, Hjallabrekku, Hulduhólum og Láguhlíð.

Síðan segir:

Hér má þó benda á úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta nr. 5/1997 frá 16. janúar 1998. Þar var vegastæði undir Veturlandsveg tekið eignarnámi. Alls voru teknir 44.943 m2. Bætur voru ákveðnar kr. 20.000.000,- eða kr. 445,- á m2. Við leggjum hins vegar áherslu á það að engin tvö lönd eru alveg eins þegar kemur að mati eignarnámsbótum. Í þessu tilvitnaða máli var um að ræða eignarland en í málinu sem hér er verið að fjalla um er slíku ekki að heilsa, heldur yrði aðeins metið verðmæti bygginga, ræktunar o.þ.h. sem tekið yrði eignarnámi.[65]

Hér er beinlínis verið að segja að Mosfellsbær geti hafið samningaviðræður við lóðarleiguhafa að kaupa húseignir þeirra og láta meta ræktarland og krefjast eignarnáms sem miðaðist við að lóðarleiguhafarnir fengu greitt fyrir þann húsakost sem á landinu væri auk annarra bóta en lóðin yrði full nýtanleg Mosfellsbæ til að skipuleggja og selja þar lóðir. Hins vegar yrði Mosfellsbær að ganga til samninga við lóðarleiguhafa og með sannarlegum hætti sýna fram á að allt hefði verið reynt í þeim efnum áður en krafist yrði eignarnáms.

Eins og að framan má geta eru heimildir og staða lóðarleiguhafa, eftir samninga við Mosfellsbæ á árunum 1983 til 1992,  ekki sú sama. Vegur því þyngra sé um eignarland að ræða en hér var aðeins um lóðarleigu að ræða og eigandinn Mosfellsbær.

Greinargerð bæjarritara Mosfellsbæjar 2001

Við mat á réttarstöðu Mosfellsbæjar gagnvart fjórum lóðarleiguhöfum í Mosfellsbæ tók bæjarritari, Anna Guðrún Björnsdóttir, saman greinargerð um málið og eftir að hafa leitað álits lögfræðinga.

Varðandi Hulduhóla segir í greinargerðinni[66] dags. 12. júlí 2001:

Samkvæmt þinglýsingarvottorði, sem fengið var hjá sýslumanninum í Reykjavík nú í júni en er ódags., eru þinglýstir eigendur Steinunn Marteinsdóttir og Haraldur Sverrisson.

Samkvæmt þessu virðist núverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar hafa átt lóðaréttindi eða önnur fasteignaréttindi að hluta eða heild að Hulduhólum ásamt móður sinni, Steinunni Marteinsdóttur.[67]

Síðan segir:

Af ofangreindum yfirlitum er ljóst að lóðarhafar hafa stöðu venjulegra lóðarleigutaka og ekki er lengur um ábúðar- eða erfðafesturéttindi að ræða.

Hér kemur skýrt í ljós hjá fyrrum bæjarritara Mosfellsbæjar að réttindi þeirra lóðarleiguhafa sem um ræðir og ganga hart fram í að fá lóðir sínar deiliskipulagðar, voru eins og hvers annars lóðarleiguhafa í Mosfellsbæ sem er þorri bæjarbúa og langstærstur hluti þeirra.

Svo virðist sem aðgerðir lóðarleiguhafa hafi verið samtaka, a.m.k. fyrst um sinn. Leitað var eftir því að Mosfellsbær myndi heimila deiliskipulag sem lóðarleiguhafar buðust til að greiða fyrir. Líkur eru á, m.t.t. þeirra laga sem voru þá í gildi, að þarna hafi verið þrýst óeðlilega á Mosfellsbæ enda ljóst að lög heimiluðu ekki annað en að skipulagsáform væru á forræði sveitarfélaga.

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum, er ótvírætt að sveitarfélög hafa forræði á skipulagsmálum sínum og meginreglan er sú að sveitarfélögum ber að standa að gerð deiliskipulaga, sbr. m.a. 5. liður 34. gr. laganna þar sem kveðið er á um að kostnaður við gerð deiliskipulags greiðist úr sveitarsjóði, sbr. einnig grein 2.3 og grein 3.1.4 skipulagsreglugerðar, nr. 400/1998, þar sem fram kemur að sveitarstjórnir beri ábyrð á að annist gerð deiliskipulagsáætlana. Í grein 3.1.4 er þó tekið fram að tillaga að deiliskipulagi geti einnig verið unnin á vegum landeigenda eða framkvæmdaraðila og á kostnað þeirra.[68]

Hér var ekki um landeigendur að ræða né framkvæmdaraðila heldur lóðarleiguhafa á lóð í eigu Mosfellsbæjar.

Því var talið ljóst af hálfu bæjarritara að lóðarhafar eigi ekki kröfu á því að fá að annast undirbúning og framkvæmd deiliskipulags á leigulandi því sem þau höfðu til umráða.

Ummæli Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra í formlegu svari til DV árið 2009 varðandi þetta kemur því spánskt fyrir sjónir. Hann segir:

Mosfellsbær bar kostnað af deiliskipulagsvinnu þrátt fyrir ósk Steinunnar um annað. Lóðarhafar á Hamrafelli, Hjallabrekku og Hulduhólum, þar á meðal Steinunn Marteinsdóttir, óskuðu eftir því við Mosfellsbæ að hafa sjálf umsjón með deiliskipulagningu lóðanna og bera þar af leiðandi þann kostnað sem af því hlýst. Þeirri beiðni var hafnað.

Haraldur var á þessum tíma, þegar hann svarar þessu, bæjarstjóri Mosfellsbæjar og er það enn. Vekur það sérstaka undrun að hann skuli hér telja að Mosfellsbær hafi á þessum tíma hafa haft heimild til að leyfa lóðarleiguhöfum að deiliskipuleggja land sem ekki var í þeirra eigu heldur í eigu Mosfellsbæjar. Vísað er í framangreind rök fyrrum bæjarritara Mosfellsbæjar hvað þetta varðar.[69]

Einnig segir í greinargerð bæjarritara Mosfellsbæjar:

Vilji bærinn sjálfur deiliskipuleggja landið getur hann þurft að leysa til sín landið með eignarnámi, sbr. 5. lið 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga, náist ekki samkomulag um bætur. Í tilvitnaðri grein kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunnar og á grundvelli gildandi deiliskipulags, að taka eignarnámi vegna framkvæmdar skipulagsins lóð eða lóðarhluta sem stendur í vegi fyrir nýrri lóðaskiptingu sem ákveðin er í deiliskipulaginu. Bætur vegna eignarnáms greiðast úr sveitarsjóði.[70]

Hér má augljóslega sjá hve miklir hagsmunir það eru sem eru í húfi fyrir sveitarfélag að hefja deiliskipulagsvinnu áður en gengið hefur verið til samninga um að tryggja viðkomandi sveitarfélagi full umráð yfir því landi sem skipulagt er sé það á annað borð í eigu sveitarfélagsins.

Svo segir í greinargerð bæjarritara:

Hafa þarf í huga að landið er skilgreint sem almennt útivistarsvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi og breyting á því er forsenda deiliskipulags fyrir íbúðarsvæði.

Vegna þessa vekur það sérstaka undrun að einn lóðarleigjandinn, að Hulduhólum, hafi getið þess sérstaklega á fundi og amast við umferð fólks og barna á þessu svæði, þ.e. á skipulögðu útivistarsvæði á lóð í eigu Mosfellsbæjar.[71]

Síðan segir:

Niðurstaðan er því sú að vega og meta þarf kosti og galla þess hvort bærinn eigi að leysa til sín landið og skipuleggja og úthluta því sjálfur gegn greiðslu bóta til lóðarhafa eða heimila lóðarhöfum að vinna deiliskipulagstillögur og úthluta landinu sjálfir til bygginga eins og [innskot] gert var varðandi Klapparlóðarinnar [innskot][72]. Í því sambandi er rétt að fjalla sérstaklega um það að lóðarhafar skírskota til þess að jafnfræði eigi að vera með þeim og eiganda Klappar.[73]

Hér er skírskotað til eiganda lóðaréttinda að Klöpp í Mosfellsbæ, lóðarréttinda sem gengið hafði kaupum og sölum eftir að lóðarleigusamningi (þar sem slit á erfðafesturéttindum var staðfest) var ekki þinglýst árið 1990 eftir samningagerðina. Mótmælti því eigandi Klappar, lóðarleiguhafa réttinda sem gengið hafði gengið kaupum og sölum, að bærinn gæti byggt á samningnum um slit á erfðafesturéttindum. Með samningi dags. 31. júlí 1997 um heimild eiganda Klappar til að deiliskipuleggja landið var verið að útkljá þennan ágreining.

Eigandi húseignarinnar Klappar á þessum tíma var félagið Arnarbakki ehf  og var félaginu heimilað að hefja framkvæmdir á lóð við Klöpp í samræmi við deiliskipulag fyrir lóðina og gegn greiðslu gatnagerðargjalda vegna lóðanna. Vegna kostnaðar Arnarbakka af gerð deiliskipulagsins og þar sem staðhættir takmörkuðu mögulega nýtingu lóðarinnar, samþykkti Mosfellsbær að veita félaginu 30% afslátt af gatnagerðargjöldum. Samningurinn fól einnig í sér makaskipti á landi og uppgjör á vangreiddum gjöldum Arnarbakka við bæinn.

Jafnframt benti bæjarritari á það í greinargerð sinni frá 2001 að þessi samningur við Arnarbakka hafi verið gerður áður en núgildandi skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, tóku gildi. Með þeim lögum var frumkvæði og ábyrgð sveitarfélaga í skipulagsmálum aukið. Fram að gildistöku þessara laga hafði hin venjubundna framkvæmd Mosfellsbæjar verið að landeigendur önnuðust gerð deiliskipulaga á löndum sínum og fengu 20% afslátt af gatnagerðargjöldum til að mæta kostnaði vegna deiliskipulags. Hér skal áréttað að hér er átt við lönd í eigu viðkomandi aðila en ekki leigulóðarrétthafa.

Svo segir í greinargerð bæjarritara:

Aðstæður hafa líka breyst að því leyti að samkvæmt gjaldskrá um gatnagerðargjöld í Mosfellsbæ sem samþykkt var af bæjarstjórn 16. september 1998 er ekki gert ráð fyrir að veittur sé afsláttur af gatnagerðargjöldum þó að eigandi lands kosti deiliskipulag lands.

Hér er áréttað sérstaklega að Mosfellsbær hefur ekki gert ráð fyrir, eftir að ný skipulags- og byggingarlög tóku gildi, að veittur sé lengur afsláttur af gatnagerðargjöldum hver svo sem það er sem sér um að kosta deiliskipulagsvinnu.

Því segir í greinargerð bæjarritarans varðandi jafnræðisreglu stjórnsýslulaga:

Með vísun til þess að málsatvik eru önnur og laga- og regluumhverfi hafa breyst frá því að samningurinn var gerður við Arnarbakka tel ég ekki að umræddir lóðarhafar geti haldið því fram að bærinn gerist sekur um brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, enda þótt beiðni þeirra um sams konar samning og gerður var við Arnarbakka, yrði hafnað.

Megin niðurstaða bæjarritara var að draga upp tvo kosti. Í fyrsta lagi að lóðarleiguhafar annist gerð deiliskipulags sjálfir á eigin kostnað en þá væri ekki heimild til að veita afslátt af gatnagerðargjöldum enda slíkt aðeins heimilt sé um landeigendur að ræða og gæti hliðrun á þessu leitt til brota á jafnræðisreglu gagnvart öðrum landeigendum. Í annan stað að hafna beiðni lóðarhafa og hefja annað hvort strax samningaviðræður eða þegar bærinn telur tímabært að taka landið til deiliskipulagningar og úthlutunar. Kæmi þá til innlausn Mosfellsbæjar á lóðarleiguréttindum og vísaði bæjarritarinn þá til álits frá lögmannsstofunni Lex ehf.

Að lokum segir:

Varðandi eignarnámsbætur er rétt að taka fram að samkvæmt hrd. 150/2000 hefði bærinn heimild til að jafna kostnað vegna eignarnámsins yfir á þá sem fengju úthlutað lóðum á landinu á grundvelli deiliskipulags.

Ljóst má vera að bæði embættismenn og kjörnir fulltrúar hafa gert sitt besta til að fylgja lögum og reglum og gæta hagsmuna Mosfellsbæjar sem eiganda þess lands sem lóðarleiguhafar vildu ganga í að skipuleggja.

Í lokin bendir bæjarritarinn á þá staðreynd að fyrirliggjandi dómur Hæstaréttar nr. 150/2000 segir í raun að hægt væri að fara í eignarnám og greiða fyrir slíkt með skipulögðum lóðum á viðkomandi svæði.

Höfnun 2001

Með erindi[74] dags. 22.11.2001 fá allir lóðarleiguhafar sambærilegt erindi þess efnis að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafi samþykkt tillögu sem var svohljóðandi:

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafnar beiðni lóðarleiguhafa að landi Hamrafells, Hjallabrekku, Hulduhóla og Láguhlíðar þess efnis að lóðarleiguhafar annist sjálfir og kosti deiliskipulagningu nefndra leigulóða.

Í þessu sambandi vísar bæjarstjórn til þeirrar meginreglu að sveitarfélagið sjálft annist undirbúning og gerð deiliskipulags á eignarlandi bæjarins og beri af því kostnað.

Mosfellsbær mun huga að deiliskipulagsvinnu nefndra lóða þegar bærinn telur tímabært að fara í slíka vinnu með tilliti til þróunar og vaxtar sveitarfélagsins og væntir þess á þeim tímapunkti að geta átt gott samstarf við hlutaðeigandi lóðarleiguhafa.

Jafnframt er bæjarstjóra falið að láta yfirfara þau réttindi sem lóðarleiguhafar hafa samkvæmt lóðarleigusamningum með tilliti til þess að þau verði tryggð.

Þetta var sent á Steinunni Marteinsdóttur að Hulduhólum, á Ólaf Sigurðsson að Hjallabrekku, á Finn Ingimarsson að Hamrafelli og á Maríu Irenu Martin að Láguhlíð í Mosfellsbæ.

Ljóst þykir að allt árið 2001 fór í að afgreiða málið af hálfu Mosfellsbæjar og meira til.

Eftir sveitastjórnarkosningarnar árið 2002 þróast málið á annan veg.

Nýr meirihluti tekur við í Mosfellsbæ árið 2002

Eftir að nýr meirihluti tekur við stjórnartaumunum í Mosfellsbæ má sjá breytingu í þróun þessara mála. Á 64. fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar var tekinn fyrir 7. dagskrárliður er fjallaði um málefni Hamrafells, Hjallabrekku og Hulduhóla.[75]

Nýtt erindi lá fyrir fundinum frá lóðarleiguhöfum framangreindra lóða (dags. 17.08.2002).  Fund þennan sátu Haraldur Sverrisson, Erlendur Fjelsted, Pétur Fenger, Eyjólfur Árni Rafnsson og Ólafur Gunnarsson. Að auki sátu fundinn tveir embættismenn, þeir Ásbjörn Þorvarðarson byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar og Tryggvi Jónsson bæjarverkfræðingur.

Þess er getið sérstaklega í fundargerð að Haraldur Sverrisson hafi vikið af fundi undir 7. dagskrárlið fundarsins.

Fram kemur á fundinum varðandi lið 7 á dagskrá hans að nefndin væri almennt jákvæð fyrir erindi því sem borist hafði frá framangreindum lóðarleiguhöfum.

Á 355. bæjarstjórnarfundi Mosfellsbæjar var framangreind fundargerð 64. fundar skipulags- og bygginganefndar lögð fyrir og var hún afgreidd á þessum fundi bæjarsjtórnar 4. september 2002.[76]

Á 66. fundi skipulags- og byggingarnefndar (hann sátu Haraldur Sverrisson, Erlendur Fjelsted, Pétur U. Fenger, Sigurður, Ólafur Gunnarsson ásamt tveimur embættismönnum, byggingarfulltrúa og bæjarverkfræðingi) var lagt til við bæjarstjórn að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2003 verði áætluð fjárveiting til að bærinn geti látið vinna deiliskipulag af svæðinu milli Langatanga og Skálatúns og sagt að það yrði að gera ,,enda landið í eigu Mosfellsbæjar.“.[77]

Hér virðast fulltrúar í skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar gleyma þeim réttindum sem Mosfellsbær hefur gagnvart lóðarleiguhöfum enda bærinn eigandi lóðanna. Vekur athygli að leitað sé leiða til að hefja fjármögnun á deiliskipulagsvinnu áður en tryggt er að ná megi út hagsmunum bæjarins með því að taka land eignarnámi og semja við leigjendur lóðanna um afgreiðslu málsins áður en bærinn leggur í skuldbindingar sem gætu ekki verið afturkræfar, t.a.m. við öflun tekna af því landi sem bærinn sannarlega á.

Á 357. fundi bæjarstjórnar (hann sátu Hafsteinn Pálsson, forseti bæjarstjórnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri, Herdís Sigurjónsdóttir ofl) var samþykkt með 7 atkvæðum að vísa máli því er afgreitt var undir 5. dagskrárlið á 66. fundi skipulags- og byggingarnefndar til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar 2003. Hvergi var minnst á hagsmuni Mosfellsbæjar í málinu sbr. ítarlega úttekt á því á síðasta kjörtímabili og með vísan í lögfræðiálit og mat sérfróðra aðila hvað það varðar.

Á 68. fundi skipulags- og byggingarnefndar dags. 22. október 2002 gerir Ólafur Gunnarsson athugasemd við bókun 7. dagskrárliðar á 66. fundi skipulags- og byggingarnefndar:

Ólafur Gunnarsson gerir athugasemd við bókun 7. máls, 66. fundar skipulags- og byggingarnefndar, vegna Hamrafells, Hjallabrekku og Hulduhóla og telur rétt að þeim aðilum sem úthlutað er lóðum greiði allan kostnað við deiliskipulagið.[78]

Þarna má sjá að einn aðili hreyfir a.m.k. við því að gætt sé hagsmuna Mosfellsbæjar og vekur athygli að enginn nefndarmanna tekur undir þessi orð Ólafs Gunnarssonar. Sat Haraldur Sverrisson þennan fund ásamt Erlendi Fjelsted, Pétur Fenger ofl.

Var þessi fundargerð (þ.e. af 68. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 22.10.2002) tekin fyrir á 359. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 30. október 2002. Þann fund sat Haraldur Sverrisson ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Pétur Berg Matthíassyni, Bryndísi Bjarnason, Þresti Karlssyni og Jónasi Sigurðssyni. Að auki sat þennan bæjarstjórnarfund Stefán Ómar Jónsson þáverandi og núverandi bæjarritari Mosfellsbæjar.

Rætt var um athugasemd Ólafs Gunnarssonar sem að framan greinir. Sagt að Haraldur Sverrisson hafi vikið af fundi undir þessum lið en hann gerði það ekki þegar Ólafur lagði bókunina fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22.10.2002 skv. fundargerð þess fundar. Tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir til máls ásamt Jónasi Sigurðssyni en ekki virðist sem þessir kjörnu fulltrúar hafi getið þess að þarna yrði að gæta hagsmuna Mosfellsbæjar m.t.t. þess sem áður hefur verið afgreitt af hálfu bæjarstjórnar um málið af fyrri meirihluta á sínum tíma. Ekkert virðist hafa verið rætt um það að taka vel í þessa málalyktan Ólafs Gunnarssonar svo tryggja mætti hagsmuni bæjarins. Heldur var ekki lagt upp með að fresta deiliskipulagningu þar til að fullreynt yrði með eignarnám á lóðum bæjarins. Það ætti að eiga sér stað áður en farið yrði í skuldbindingar af þessari stærðargráðu af hálfu bæjarins sem yrði vissulega óafturkræf virðisaukning á réttindum lóðarleiguhafa gegn hagsmunum Mosfellsbæjar. Það er Mosfellsbær sem ætti eðli máls samkvæmt að hefja strax viðræður um þessi mál, þ.e. eignarnám og sátt um skiptingu lóða og kostnað þessu samfara.

Var fundargerð 68. fundar skipulags- og byggingarnefndar engu að síður afgreidd af hálfu bæjarstjórnar án þess að taka efnislega á áréttingu Ólafs Gunnarssonar sem beinlínis var árétting svo gæta mætti hagsmuna skattgreiðenda í Mosfellsbæ.

Deiliskipulagsvinna hefst

Á 111. fundi[79] skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar 20. apríl 2004 er tekið fyrir 1. mál á dagskrá sem varðaði deiliskipulag Hamrafells í Mosfellsbæ. Fundinn sátu Haraldur Sverrisson, Erlendur Fjelsted, Pétur Fenger, Eyjólfur Árni Rafnsson og Ólafur Gunnarsson auk þess sem byggingarfulltrúi bæjarins og bæjarverkfræðingur voru viðstaddir fundinn). Sagt er að Haraldur hafi vikið af fundi undir þessum dagskrárlið.

Nefndin lagði til við bæjarstjórn á þessum fundi að deiliskipulagið verði kynnt í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Sama dag skrifa lóðarleiguhafar að Hulduhólum og Hjallabrekku bæjarstjórn harðort bréf um framgöngu málsins sem tekið var fyrir þann dag hjá skipulags- og byggingarnefnd og varðaði Hamrafell í Mosfellsbæ. Þar lýsa þau því að óskum þeirra um að fá að láta Mosfellsbæ deiliskipuleggja land sem þau leigja af bænum hafi verið illa tekið til ársins 2002.[80]

Þar segja lóðarleiguhafar að Hjallabrekku og Hulduhólum:

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar í dag virðist sem málið hafi tekið kúvendingu. Nefndin samþykkti þá sérstakt deiliskipulag af landi Hamrafells einu og sér án samráðs við aðra íbúa á svæðinu. Okkur er ljós nauðsyn íbúa Hamrafells á því að ljúka þessari skipulagsvinnu þar vegna ástands húsakosts þar. Hinsvegar teljum við það afar slæman kost að hluta ekki annars litla svæði niður í smærri skipulagseiningar. Það er ekki til þess fallið að viðhalda samstöðu íbúa á svæðinu né auðvelda framgang málsins hvað varðar aðliggjandi byggð.

Hér vekur athygli að hér er kallað eftir því að kynna málið fyrir ,,íbúum“. Það verður vissulega gert þegar skipulag er kynnt lögum samkvæmt en þarna eiga þessir lóðarleiguhafar við sig sjálfa, ekki aðra íbúa enda kynning á ferlinu til íbúa í Mosfellsbæ ekki hafin enda hluti af ferli skipulagsvinnu sem var ólokið. Að auki er kallað eftir því að Mosfellsbær hafi íhlutun varðandi það að gætt sé samstöðu ,,íbúa“ á svæðinu. Hér er líklega átt við að þessir lóðarleiguhafar óttuðust mest að samstaða allra lóðarleiguhafa rofnaði við það að ná undan Mosfellsbæ þeim réttindum bæjarins sem fólst á þessum tíma í þeim rétti er felst í að bærinn átti landið sem þau voru að leigja af honum. Vildu þau líklega fá það skipulagt ,,undir samningi“ þeim sem var í gildi á milli þeirra og bæjarins svo tryggja mætti betur samningsstöðu þeirra gagnvart bænum.

Var þetta erindi lóðarleiguhafa að Hulduhólum og Hjallabrekku tekið fyrir á 661. fundi bæjarráðs þann 23. apríl 2004 en þann sama dag móttekur Mosfellsbær erindi þeirra  sbr. móttökustimpil bæjarins á erindinu sjálfu, erindi sem var dagsett sama dag og skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar tók erindi Hamrafells fyrir 20. apríl 2004. Vekur athygli hve vel lóðarleiguhafar fylgdust með framgangi mála innan veggja bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar sbr. framangreint.[81]

Fund bæjarráðs sátu Haraldur Sverrisson, formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar, Herdís Sigurjónsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir ofl.

11. dagskrárliður bæjarráðsfundarins fjallaði um erindi Steinunnar Marteinsdóttur og Ólafs Sigurðssonar frá 20. apríl 2004 sem móttekið var hjá bænum sama dag og bæjarráðsfundur þessi var haldinn. Sagt er að Haraldur Sverrisson hafi vikið af fundi undir þessum dagskrárlið.

Samþykkt var með þremur atkvæðum að vísa erindinu til skipulags- og byggingarnefndar til umsagnar og afgreiðslu.

Rétt er að vísa til orða í erindi lóðarleiguhafa dags. 20. apríl 2004:

Ástæða óska okkar var að við sáum fram á að lóðir okkar[82] voru að verða útundan í gerð deiliskipulagsvinnu á vestursvæðinu og þétting byggðar norðan við okkur var mjög hröð.

Hér vekur sérstaka athygli að lóðarleiguhafar virðast hér eigna sér lóð í eigu Mosfellsbæjar og standa í þeirri trú að þetta séu ,,lóðir þeirra“ en þetta eru ,,lóðir bæjarbúa“ og skattgreiðenda í Mosfellsbæ.

Í bæjarráði Mosfellsbæjar, þar sem Haraldur Sverrisson sat sem formaður þess, var kallað eftir því að lægra stjórnsýslustig ekki aðeins tæki málið til skoðunar og umsagnar heldur til afgreiðslu. Ekki er orði minnst á það sem fyrri meirihluti kallaði eftir og var að leitast eftir að gæta hagsmuna Mosfellsbæjar í málinu. Það að ganga ekki nú strax (í apríl 2004) til samninga um hvernig landinu skildi skipt upp áður en deiliskipulagsvinna hæfist á þessum lóðum gerði Mosfellsbæ aðeins erfiðara fyrir að ná samningum sem bænum yrðu hagstæðir.

Að auki má nefna að á þessum tíma var mikið framboð á lóðum í Mosfellsbæ og því óhætt að segja að þessi viðbót, svo ekki sé minnst á Leirvogstungu þar sem þáverandi bæjarstjóri hafði hagsmuni að gæta að yrði skipulagt og komið á markað, myndi þynna markaðinn út og skapa hættu á að Mosfellsbær, sem bar ábyrð á gatnagerð, lagnavinnu ofl. lenti í fjárhagslegum ógöngum vegna þessa. Það kom svo síðar á daginn að það gerðist og hafði og hefur enn umtalsverð áhrif á bæjarbúa og skuldastöðu bæjarins sem og hátt útsvar sem annars væri hægt að stilla í hóf.

Fimm dögum eftir bæjarráðsfundinn, þ.e. 28. apríl 2004, var haldinn 395. bæjarstjórnarfundur Mosfellsbæjar. Þar mættu Hafsteinn Pálsson, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir kjörinn fulltrúi og bæjarstjóri, Haraldur Sverrisson, Herdís Sigurjónsdóttir, Bryndís Bjarnason, Þröstur Karlsson, Jónas Sigurðsson auk bæjarritara, Stefáns Ómars Jónssonar.[83]

Var fundargerð 661. bæjarráðsfundar staðfest með 7 atkvæðum sem er ótrúleg afgreiðsla án þess að minnihluti Mosfellsbæjar lyfti litla fingri til að gæta hagsmuna Mosfellsbæjar í þessu máli sé vísað í þá vinnu sem var lögð í málið af hálfu fyrri meirihluta. Fjórði dagskrárliður bæjarstjórnarfundarins fjallaði um deiliskipulag lands við Hamrafell, sem tekið var fyrir á 111. fundi skipulags- og byggingarnefndar. Undir þeim lið er sagt að Haraldur Sverrisson hafi vikið af fundi. Samþykkti bæjarstjórn að fresta máli Hamrafells og ástæðan því sú að lóðarleiguhafar að Hulduhólum og Hjallabrekku hafa haft þar áhrif á.

Vekur undrun að Haraldi Sverrissyni hafi verið í raun boðið að koma á fundi m.a. í nefndum á vegum bæjarins sem sáu um þessi mál. Réttast hefði verið að hann væri ekki formaður bæjarráðs á meðan þessu stæði, sæti ekki í bæjarstjórn en gæti verið formaður nefndar sem ekki væri að fjalla um skipulags- og byggingarmál þegar svo mikið hagsmunamál væri þar í meðförum er snerti hann beint og persónulega.

Telja má að hér hafi verið farin vegferð sem hafi verið stýrt utan úr bæ og með e.k. innherja hjá Mosfellsbæ þar sem ávallt var hægt að afla upplýsinga og þrýsta á bæði embættismenn og kjörna fulltrúa sem virðast hafa unnið afar skipulega að því að ná sínum málum fram og varðaði þessa hagsmuni sem hér hafa verið tíundaðir.

Ekki má gleyma því að á sama tíma var verið að undirbúa skipulagningu við Leirvogstungu og þar hafði þáverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, mikilla hagsmuna að gæta. Því og þess vegna má sjá að það hentaði þessum aðilum vel að hafa tangarhald á öllu skipulagsferlinu svo ,,ekkert færi úrskeiðis“.

Það vekur ahygli hve augljóst þetta reyndar er þegar málið er rakið með þessum hætti og ljóst hve mikil áhersla hefur verið lögð á að málið myndi ekki tefjast. Augljóst má vera að með þessu framferði er sjálfstæði sveitarfélags storkað svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Þann 4. maí 2005 er haldinn 112. fundur í skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar. Þar mæta Pétur U. Fenger, Erlendur Fjeldsted, Ólafur Sigurðsson, Sigurður Kristjánsson, Ólafur Guðmundsson og að auki mættu embættismennirnir Ásbjörn Þorvarldsson byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar og Tryggvi Jónsson bæjarverkfræðingur.[84]

Hér vekur athygli að Haraldur Sverrisson mætir ekki á fundinn en þess í stað mætir Ólafur Sigurðsson, lóðarleiguhafi Hjallabrekku, á fundinn. Ólafur er svo sagður víkja af fundi undir öðrum dagskrárlið hans er fjallaði um erindi hans sjálfs og Steinnunnar Marteinsdóttur móður Haraldar. Óhætt er að segja að þéttskipað var liði utan um þetta mál á þessum tíma. Skiptir afar litlu þó aðilar hafi verið látnir víkja af fundi undir ákveðnum dagskrárliðum þegar þeir gátu haft óbein áhrif á fundinum sjálfum og með viðveru sinni. Það var hugsanlega ætlunin en erfitt að fullyrða um slíkt.

Bókað var eftirfarandi á þessum fundi:

Erindið er lagt fram og umhverfisnefnd er falið að ljúka skipulagsvinnu alls svæðisins fyrir næsta fund nefndarinnar.

Hér hafa því lóðarleiguhafar unnið fullnaðar sigur í máli sínu gagnvart Mosfellsbæ og það vekur undrun að minnihlutinn í Mosfellsbæ hafi ekki mótmælt þessu framferði harkalega enda um að ræða að hefja deiliskipulagsvinnu áður en gætt er að því hvort og þá hvernig semja megi við lóðarleiguhafa lóða sem Mosfellsbær á.

Ekki má gleyma því að á árunum 1983 til 1992 var búið að semja við þessa aðila áður og fengu þeir í greiðslu lóðir, réttindi sem og hlunnindi sem voru mikils virði, bæði þá og enn þann dag í dag. Hér ná þessir lóðarleiguhafar í gegn að fá land í eigu bæjarins deiliskipulagt áður en bærinn hafi samið um hvernig málum skuli áttað varðandi lóðir og verðmæti sem skapast í kjölfar slíkrar skipulagsvinnu.

Því er ekki aðeins verið að kalla á umtalsverð fjárútlát Mosfellsbæjar með þessu. Jafnframt var skert sú samningsstaða sem bærinn hafði til samninga við lóðarleiguhafa, þ.e. samninga sem hægt var að gera þannig að bærinn gæti a.m.k. fengið eitthvað upp í þann kostnað sem hann var að leggja út í með deiliskipulagsvinnunni. Bærinn var lögbundinn af að vinna slíkt deiliskipulag eftir þessa afgreiðslu kjörinna fulltrúa bæjarins sem voru bæði í vinskap við og nánum tengslum við þá er höfðu hagsmuni að gæta í málinu, aðila sem voru formenn nefnda, bæjarráðs og sátu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Það er einnig líkur á að einhvejir hagsmunir hafi blandast í þetta mál þegar kom að skipulagi á landinu í Leirvogstungu. Eftir stóð að Mosfellsbær stóð uppi með mikið af óbyggðum lóðum og umtalsvert meira framboð en efni stóðu til.

Á 395. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, dags. 11. maí 2004, var þar sjöunda mál á dagskrá 112. fundur skipulags- og byggingarnefndar bæjarins frá 4. maí 2004. Á fundi bæjarstjórnar voru mættir Hafsteinn Pálsson, forseti, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Haraldur Sverrisson, Herdís Sigurjónsdóttir, Bryndís Bjarnason, Þröstur Karlsson, Jónas Sigurðsson og að auki bæjarritari Mosfellsbæjar, Stefán Ómar Jónsson. Þarna vék ekki nokkur maður af fundi undir 7. dagskrárliðnum. Var fundargerð 112. fundar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar afgreidd á þessum fundi bæjarstjórnar án athugasemda.

Lóðarleiguhafar náðu sínu fram.

Deiliskipulagið unnið og afgreitt

Þann 8. júní 2004 var haldinn 115. fundur skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar og tekið þar fyrir fjórða mál á dagskrá sem var tillaga frá Landslagi að deiliskipulagi Hamrafells, Hulduhóla og Láguhlíðar. Á þennan fund mættu Haraldur Sverrisson, Pétur U. Fenger, Ólafur Gunnarsson, Sigurður Kristjánsson ofl. Sagt er að Haraldur hafi vikið af fundi undir fjórða dagskrárlið.[85]

Lagði nefndin til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan yrði auglýst til kynningar í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Á 398. fundi bæjarstjórnar var tíunda dagskrármálið afgreiðsla framangreinds 115. fundar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar. Á þennan fund mættu Hafsteinn Pálsson, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, Haraldur Sverrisson, Klara Sigurðardóttir, Bjarki Sigurðsson, Bryndís Bjarnason, Þröstur Karlsson og Jónas Sigurðsson ásamt bæjarritara, Stefáni Ómari Jónssyni.[86]

Samþykkt var með 7 atkvæðum að fresta þessum dagskrárlið á fundinum en engin sérstök ástæða gefin fyrir þeirri frestun. Vekur athygli að Haraldur vék ekki af fundi undir tíunda dagskrárliðnum.

Þann 29. júní 2004 var haldinn 117. fundur skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar. Mættu á þann fund Haraldur Sverrisson, Pétur U. Fenger, Ólafur Gunnarsson ofl. Fyrsta mál á dagskrá fundarins var deiliskipulag Hamrafells, Hulduhóla og Láguhlíðar. Gerði Þráinn Hauksson, skipulagshönnuður, grein fyrir ákvæðum skilmála og kynnti nýjan uppdrátt af skipulaginu. Sagt að Haraldur hafi ekki setið fundinn undir þessum dagskrárlið. Á þessum fundi lagði nefndin til við bæjarstjórn Mosfellsbæjar að skipulags- og byggingarskilmálar ásamt deiliskipulagsuppdrætti með áorðnum breytingum verði samþykktur til auglýsingar í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.[87]

Þann 7. júlí 2004, eða um viku síðar, var haldinn 400. fundur bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Þar mættu þau Herdís Sigurjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Hafsteinn Pálsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri, Haraldur Sverrisson, Bryndís Bjarnason, Þröstur Karlsson og Jónas Sigurðsson.[88]

Sagt að Haraldur hafi vikið af fundi eftir afgreiðslu 5. dagskrárliðar og áður en farið var í 6. dagskrárlið og að Klara Sigurðardóttir hafi þá tekið sæti hans. Þarna má greina í fyrsta skipti sem varamaður er kallaður inn í meðförum þessa máls.

6. dagskrárliður fjallaði um 117. fund skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar og þá deiliskipulag Hamrafells, Hulduhóla og Láguhlíðar. Pétur Fenger, nefndarmaður í skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar og varaformaður þar á eftir Haraldi Sverrissyni, kom á fundinn undir þessum dagskrárlið og kynnti málið. Til máls tóku Herdís, Pétur, Ragnheiður, Jónas, Þröstur og Hafsteinn.

Var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar afgreidd með 5 atkvæðum og gerði Þröstur Karlsson grein fyrir hjásetu sinni þar sem hann vildi sjá meiri heildarsýn varðandi málið.

Hér staðfesti því bæjarstjórn Mosfellsbæjar afgreiðslu nefndarinnar sem leiddi til þess að hægt var að ganga í að kynna íbúum Mosfellsbæjar og öðrum fyrirliggjandi deiliskipulagstillögur.

Á 121. fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar 7. september 2004 var 8. dagskrármál deiliskipulag íbúðarsvæðis á landi Hamrafells, Hulduhóla og Láguhlíðar. Samkvæmt þessu lá fyrir að athugasemdafrestur eftir auglýsingu á skipulaginu var liðinn. Óskaði nefndin eftir umsögnum skipulagshöfunda. Á þennan fund mætti Haraldur Sverrisson, Ólafur Sigurðsson, Pétur Fenger og embættismaðurinn Tryggvi Jónsson, bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar. Varðandi 8. dagskrárlið var sagt að Haraldur og Ólafur hafi vikið af fundi undir þeim lið. Því var það aðeins einn nefndarmaður sem tók ákvörðun á fundinum um afdrif málsins og afgreiðslu þess. Hér vekur undrun að ekki hafi fundi verið frestað svo nefndin yrði fullskipuð varamönnum og þess í stað einn maður látinn taka þessa ákvörðun.[89]

Þann 15. september 2004 hélt bæjarstjórn sinn 403. fund og 5. mál á dagskrá fundarins var 121. fundur skipulags- og byggingarnefndar dags. 7. september 2004. Fjallað var um afgreiðslu þess fundar í tengslum við deiliskipulag íbúðarsvæðis í landi Hamrafells, Hulduhóla og Láguhlíðar.

Var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 7. septemeber 2004 lögð fram og afgreidd.  Þetta var gert þó svo að það var aðeins einn maður á fundi nefndarinnar sem afgreiddi þetta mál úr nefndinni. Hér hefði bæjarstjórn átt að óska eftir því að skipulags- og byggingarnefndin tæki þetta aftur fyrir og þá fullskipuð með varamönnum væri þess þörf enda viku af þessum fundi nefndarinnar tveir aðilar sem högðu mikilla hagsmuni að gæta, þeir Haraldur Sverrisson og Ólafur Sigurðsson, aðilar sem báðir voru beintengdir því svæði sem var í skipulagsferli, skipulagsferli sem Mosfellsbær bar að greiða fyrir á leigulóðum þeirra en á lóð í eigu bæjarins.

Á þennan bæjarstjórnarfund mættu Herdís Sigurjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Hafsteinn Pálsson, Bjarki Sigurðsson, Bryndís Bjarnason, Marteinn Magnússon og Jónas Sigurðsson auk eins embættismanns.[90]

Þann 5. október 2004 er haldinn 123. fundur skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar. Á þann fund mæta Haraldur Sverrisson, Erlendur Fjelsted, Gylfi Guðjónsson, Sigurður Kristjánsson, Ólafur Gunnarsson og tveir embættismenn, þeir Ásbjörn Þorvarðarson byggingarfulltrúi og Tryggvi Jónsson bæjarverkfræðingur.[91]

Sjötta mál á dagskrá varðaði deiliskipulag íbúðarsvæðis á landi Hamrafells, Hulduhólum og Láguhlíð. Hér var um að ræða framhaldsumræðu um málið. Kynnt var umsögn skipulagshönnuðar varðandi athugasemdir sem fram komu á kynningartíma deiliskipulagsuppdráttanna. Sagt að Haraldur Sverrisson og Gylfi Guðjónsson (arkitekt sem vann skipulagshugmyndir fyrir Leirvogstungu og kynnti á þessum sama fundi) hafi vikið af fundi undir sjötta dagskrárliðnum.

Niðurstaða fundarins var að nefndin lagði til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt með áorðnum breytingum og send Skipulagsstofnun í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Á 405. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar varðaði 11. mál á dagskrá fundarins deiliskipulag íbúðarsvæðis á landi Hamrafells, Hulduhóla og Láguhlíðar. Haraldur er sagður hafa vikið af fundi bæjarstjórnar undir þessum lið en á fundinum sátu hann, Herdís Sigurjónsdóttir forseti bæjarstjórnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri, Hafsteinn Pálsson, Bryndís Bjarnason, Þröstur Karlsson og Jónas Sigurðsson auk þess sem bæjarritari, Stefán Ómar Jónsson, sat fundinn.[92]

Samþykkt af bæjarstjórn með 6 atkvæðum að fresta afgreiðslu málsins.

Undir þessum líð tóku til máls Ragnheiður, Hafsteinn, Þröstur og Jónas. Ljóst má vera að þarna hafi verið tekist á um þá hagsmuni sem bærinn hefur af málinu enda kostar bærinn alla vinnu við deiliskipulagið en hefur enn ekki á þessum tímapunkti tryggt sína stöðu gagnvart lóðarleiguhöfum varðandi skiptingu lands og lóða til að tryggja að Mosfellsbær fái t.a.m. upp í kostnað við gerð deiliskipulagsins og síðar gatnagerð og þann byggingarrétt sem er hluti af mikilvægum tekjulindum hvers bæjarfélags.

Þann 10. nóvember 2004  var haldinn 407. fundur bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Mættir á þann fund voru Herdís Sigurjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri, Hafsteinn Pálsson, Klara Sigurðardóttir, Bryndís Bjarnason, Marteinn Magnússon og Jónas Sigurðsson auk Stefáns Ómars Jónssonar bæjarritara.

Hér vekur athygli að Haraldur Sverrisson situr ekki þennan fund heldur Klara Sigurðadóttir sem virðist koma í hans stað.

Annað mál á dagskrá var deiliskipulag íbúðarsvæðis á landi Hamrafells, Hulduhóla og Láguhlíðar í Mosfellsbæ. Undir þessum lið tóku þau Ragnheiður og Jónas til máls.

Samþykkt var eftirfarandi með 7 atkvæðum í bæjarstjórn Mosfellsbæjar þar sem aðeins 1 atkvæði var talið nægja í skipulags- og byggingarnefnd:

Nefndin samþykkir umsögn skipulagshöfundar og felur bæjarverkfræðingi að svara öðrum athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum.

Nefndin leggur til að við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt með áorðnum breytingum og send Skipulagsstofnun í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.[93]

Hér er vendipunktur í ferlinu varðandi skipulagsmálin. Þennan dag samþykkir bæjarstjórn Mosfellsbæjar fyrirliggjandi deiliskipulagsuppdrátt sem hefur verið kynntur lögum samkvæmt. Þetta er gert alfarið án þess að búið sé að ganga frá samningum við lóðarleiguhafa sem leigja lóðir í eigu bæjarins varðandi hvernig Mosfellsbær eigi að fá upp í kostnað við deiliskipulag og síðar annan kostnað sem tengist gatnagerð ofl.

Hér hefur deiliskipulagið verið afgreitt og var síðar auglýst í B-deild stjórnartíðinda. Tók það svo gildi 29. apríl 2005.[94]

Lóðarleiguhafar hafa náð sínu fram.

Lóðir stofnaðar að Hulduhólum og nýjir lóðarleigusamningar gefnir út 2005

Þann 21. febrúar 2005 berst skrifstofu Mosfellsbæjar erindi frá Steinunni Marteinsdóttur, lóðarleiguhafa að Hulduhólum sem var og er eign Mosfellsbæjar. Þar segir:

Meðfylgjandi er hnitasettur uppdráttur af landi mínu á Hulduhólum Mosfellsbæ unnin af Verkfræðistofunni Ráðgjöf. Á honum hefur landinu verið skipt niður í fjórar lóðir merktar A, B, C og D. Óskað er eftir að bærinn heimili skiptingu landsins eins og meðfylgjandi uppdráttur sínir.[95]

Það virðist vera að lóðarleiguhafar hafi ætíð haldið í það að þetta væri landið þeirra, þeirra eign með öllu. Svo var ekki enda var um að ræða eign Mosfellsbæjar en leigulóðarhafar hafa óbeinan eignarrétt sem fólgin er í þeim lóðarleiguréttindum sem gerðir eru við lóðarleiguhafa eins og algengt er hjá sveitarfélögum og nánast því allir eru settir undir hjá Mosfellsbæ sem þar búa í eigin húsnæði.

Hér kallar Steinunn Marteinsdóttir eftir því að fá afgreiðslu Mosfellsbæjar ein og sér og er ekki að leita eftir þessu með jafnræðissjónarmið í huga sbr. erindi frá henni og öðrum á sínum tíma. Þar má m.a. benda á erindi frá henni og Ólafi Sigurðssyni, lóðarleiguhafa að Hjallarbrekku dags. 20. apríl 2004.[96]

Í erindi Ólafs Sigurðssonar og Steinunnar Marteinsdóttir segir m.a.:

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar í dag[97] virðist sem málið hafi tekið kúvendinu. Nefndin samþykkti þá sérstakt deiliskipulag af landi Hamrafells einu og sér án samráðs við aðra íbúa á svæðinu.[98]

Og svo segir einnig í sama erindi til bæjarstjórnar og bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur:

Við lóðarhafar á Hjallabrekku og Hulduhólum viljum með bréfi þessu mótmæla þessum vinnubrögðum og óskum eindregið eftir því að lokið verði við deiliskipulagningu af öllum lóðum strax í samvinnu og sátt við íbúana á svæðinu.

Hér skín í gegn frekja og yfirgangur þess sem erindið ritar. Engu að síður líða ekki nema fáeinir mánuðir þar til Steinunn Marteinsdóttir óskar eftir því að fá sér meðferð hjá bænum þegar hentar henni ekki lengur, eða syni hennar Haraldi Sverrissyni, að bíða lengur eftir hinum er fleyttu þeim áfram við að ná markmiði sínu öll þessi ár, hugsanlega allt gegn réttmætum og eðlilegum hagsmunum Mosfellsbæjar og skattgreiðenda í bænum.

Það vekur furðu, eins og sjá má á þróun mála í köflum hér að framan, að kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn, bæjarráði og í skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar hafi ekki á þessu tímabili gætt að hagsmunum Mosfellsbæjar í málinu.

Lóðir stofnaðar í febrúar 2005

Ekki liðu nema 15 dagar frá framangreindu erindi Steinunnar Marteinsdóttur þar til byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar gefur út stofnskjöl fyrir 4 lóðir að Hulduhólum í Mosfellsbæ, skráir þær í opinbera fasteignaskrá, gefur út 4 lóðarleigusamninga[99] og ritar sérstakt erindi til Sýslumannsins í Reykjavík þar sem hann óskar eftir því að þessi skjöl, þ.e. stofnskjölin, verði þinglýst hjá embættinu. Ekki er vitað til þess að á þessum tíma eða síðar eftir þetta lægi fyrir heimild frá bæjarstjórn, bæjarráði eða skipulags- og byggingarnefnd til að framkvæma þetta.[100]

Skýrsluhöfundur leitaði að gögnum hjá Mosfellsbæ, bæði á vefsíðu bæjarins og með því að kalla eftir gögnum frá skrifstofu bæjarins, til að leita þeirrar formlegu staðfestingar á þessum gjörningi sem þarna átti sér stað. Með góðum vilja og áræðni var reynt að finna þessari framkvæmd bæjaryfirvalda stað í stjórnsýslu bæjarins en ekkert ávannst í því efni. Ljóst þykir því að þessi ákvörðun byggingarfulltrúa hafi ekki verið tekin nema undir miklum þrýstingi enda er þetta ekki stjórnsýslulega eðlilegur framgangsmáti.

Með vísan í framangreint skal hér bent á 1. mgr. 19. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 en þar segir:

Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.[101]

Haraldur Sverrisson átti ekki aðeins sæti í bæjarstjórn, hann var bæði formaður bæjarráðs og átti sæti í skipulags- og byggingarnefnd á meðan málið var í meðförum innan Mosfellsbæjar. Þrátt fyrir að hann hafi vikið sæti þegar málin voru tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd, eða í bæjarráði, þar sem hann sat sem formaður, er ekki að sjá að við afgreiðslu þeirra fundargerða í bæjarstjórn hafi hann vikið sæti, a.m.k. ekki tilgreint um það í fundargerðum bæjarstjórnar á því tímabili sem málið var til umræðu og var tekið til endanlegrar afgreiðslu.

Hver það var sem tryggði upplýsingaflæði um málarekstur innan veggja bæjarins til lóðarleiguhafa að Hulduhólum skal ósagt látið en öllu mikilvægara er að vita hver þrýsti með þessum hætti á byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar er leiddi til þess að hann gaf út fjórar lóðir í mars árið 2005 án þess að það hafi verið samþykkt á fundi bæjarráðs og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.

Jafnframt liggur fyrir að ein þessara lóða var seld og afsöluð[102] þriðja aðila að hluta eða heild 15. apríl 2005 eða aðeins 14 dögum áður en deiliskipulag fyrir svæðið tók gildi[103], þ.e. 29. sama mánaðar 2005.

Til að bæta gráu ofan á svart varðandi þetta mál er það ljóst að þessi tilhögun varðandi stofnun fjögurra lóða að Hulduhólum og gerð lóðarleigusamninga sem voru undirritaðir sama dag og lóðirnar voru stofnaðar en óþinglýstar, var ekki leitað samþykkis bæjarráðs eða bæjarstjórnar á þessari tilhögun mála.[104]

Hver það er sem þrýsti á embættismenn Mosfellsbæjar á þessum tíma skal ekki látið uppi hér en haft hefur verið eftir, þegar á þá var gengið, að þeir hafi ekki getið þess formlega hver óskaði eftir þessum framgangsmáta og þrýst á þetta mál heldur gefið sterklega í skyn hver það í raun og veru hafi verið.

Vekur undrun að ekki hafi verið farið í rannsókn á þessu máli af hálfu Mosfellsbæjar enda var með þessu framferði verið að ganga í berhögg við hagsmuni Mosfellsbæjar. Þarna var hætta á að leigulóð í eigu bæjarins gæti verið veðsett og fjármunum ráðstafað fyrir þeim réttindum án aðkomu Mosfellsbæjar sem gæti annars hafa getað tryggt hagsmuni sína m.a. vegna þeirrar deiliskipulagsvinnu sem var verið að vinna og þeirrar lögbundnu skyldu bæjarins auk þeirrar skyldu sem beinist síðar að bænum varðandi gatnagerð og lagnavinnu. Öllum er kunnugt um að þetta fór á hinn versta veg fyrir Mosfellsbæ sem og það fyrirtæki og þá einstaklinga sem enduðu uppi með ,,svarta pétur“ í málinu að lokum ásamt Mosfellsbæ.[105]

Þarna var ekki aðeins verið að stofna lóðir, gefa út og samþykkja lóðarleigusamninga heldur var verið að taka til greina skipulagsbreytingu, áður en deiliskipulag fyrir svæðið tók formlega gildi (er gerði það fáeinum dögum síðar), sbr. drög að uppskiptingu lóðanna er fylgdi erindi Steinunnar Marteinsdóttur 21. febrúar 2005, uppdáttur sem unnin var fyrir Steinunni sjálfa af Verkfræðistofunni Ráðgjöf.[106]

Átti Steinunn, byggingarfulltrúinn og svo Haraldur Sverrisson, sem fékk gefna út lóðarleigusamning[107] sama dag og móðir hans á þessum tíma, að vita af því að bæði skipulags- og byggingarnefnd hafði samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið, það hafði verið kynnt og afgreitt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar og var í ferli hjá Skipulagsstofnun og í auglýsingu á þessum tíma í B-deild Stjórnartíðinda. Hvers vegna að víkja með þessum hætti frá þessu ferli og ganga í berhögg við lögbundið ferli og leggja til uppskiptingu lóða sem var í engu samræmi við deiliskipulagið sem hafði verið samþykkt af bæjarstjórn?

Í d. lið 1. mgr. 20. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 segir m.a. varðandi málaflokka er krefjast tveggja umræðna í sveitarstjórn:

áætlanir fyrir sveitarfélagið sem gilda eiga til lengri tíma, svo sem skipulags- og framkvæmdaáætlanir[108]

Ekki er séð að nokkur umræða um þetta erindi Steinunnar Marteinsdóttur hafi yfirleitt farið fram. Það sést í raun og veru að það fór engin umræða fram, af þessu vissu afar fáir og enginn af því að fáeinum dögum þarna á eftir framselur hún þessi lóðarréttindi sín til þriðja aðila er svo framselur það í dótturfélag sem hann selur. Það dótturfélag hafið skipt um hendur áður en Mosfellsbær fékk nokkra vitneskju um söluna á þessu landi sem fékk þessa óeðlilegu afgreiðslu er telja má fullvíst að hafi verið í bága við gildandi sveitarstjórnarlög á þessum tíma.

Á þessum tíma var formaður bæjarráðs Haraldur Sverrisson, sonur Steinunnar Marteinsdóttur og fékk hann réttindi á þessum sama degi og ritaði undir lóðarleigusamning, rétt eins og móðir hans, þann 8. mars. 2005. Ekki er séð af þeim fundargerðum eftir þennan gjörning að hann hafi séð ástæðu til að geta þessa á fundum sem hann sat, ekki í skipulags- og byggingarnefnd, ekki í bæjarráði þar sem hann gegndi formennsku né í bæjarstjórn þar sem hann átti sæti.

Ef ætla mætti að mál af þessum toga ætti ekki að fara í gegnum tvær umræður skal á það bent að þessi afgreiðsla fór ekki einu sinni í gegnum eina umræðu áður en gengið var frá því með þessum hætti.[109]

Þær lóðir sem stofnaðar voru að beiðni Steinunnar Marteinsdóttur og að öllum líkindum einnig að beiðni sonar hennar, Haraldar Sverrissonar[110] voru eftirtaldar:

Hulduhólar A:                    1.207,0                m2                         landnr. 200794

Hulduhólar B:                     21.488,8 m2                         landnr. 200795

Hulduhólar C:                     8.945,3                m2                         landnr. 123684

Hulduhólar D:                    3.201,3                m2                         landnr. 200793

Samtals er þarna um að ræða 34.842,4 m2 af landi í eigu Mosfellsbæjar sem réttindum er ráðstafað af en í öllum lóðarleigusamningunum er vísað til þess að lóðirnar eru leigðar á grundvelli lóðarleigusamnings frá 21. september frá árinu 1990.[111] Í samningnum frá árinu 1990 segir m.a. í 5. gr. þess samnings:

Leigutaka er heimilt að selja eða veðsetja leigurétt sinn á lóðinni í heild ásamt húsum þeim og mannvirkjum sem á henni verða gerð. Sala skal tilkynnt á skrifstofu Mosfellsbæjar um leið og hún fer fram.

Hvorki hafði þessi afgreiðsla verið tekin fyrir með lögformlegum hætti innan vébanda Mosfellsbæjar né að aðilar máls hafi tilkynnt sölu lóðaleiguréttinda sinna til Mosfellsbæjar með sannarlegum hætti svo vitað sé.

Einnig er hér byggt á því, þ.e. sé miðað við samninginn frá árinu 1990, að þarna sé átt við lóðina alla eins og hún var þá skipulögð ,,ásamt húsum“ sem heimilt var að selja en ekki lóðina að hluta.

Í lóðarsamningum þeim sem Steinunn Marteinsdóttir og Haraldur Sverrisson, þáverandi bæjarráðsformaður, nefndarmaður í skipulags- og byggingarnefnd sem og með sæti í bæjarstjórn, rituðu undir, dags. 8. mars. 2005 segir m.a. í 7. gr.:

Leigutaka er heimilt, eftir þinglýsingu þessa samnings, að selja og veðsetja leigurétt sinn að lóðinni í heild, ásamt húsum þeim og mannvirkjum, sem á henni verða byggð. Sala og veðsetning fyrir þann tíma er ekki heimil, nema með sérstöku leyfi Mosfellsbæjar. Sala skal tilkynnt skrifstofu Mosfellsbæjar um leið og hún fer fram.

Hér má ljóst vera að með því að tilkynna Mosfellsbæ ekki[112] með sannarlegum hætti um framsal[113] lóðarréttinda sinna 15. apríl 2005 gefst bænum, þ.e. embættismönnum bæjarins ekki ráðrúm til að gæta réttinda Mosfellsbæjar. Var það hægt m.a. með tilkynningu til Sýslumannsins í Reykjavík er þinglýsir þessum réttindum og hefur umþóttunartíma til þess að ljúka afgreiðslu slíkra mála í 1 til 2 virkra daga sem hefði nægt (þ.e. frá dagbókafærslu hjá sýslumanni til þinglýsingar) Mosfellsbæ að bregðast við og gæta hagsmuna bæjarins í málinu sem þinglýstur eigandi lóðanna.

Sala á lóðarleiguréttindum lóða í eigu Mosfellsbæjar 2005

Eins og framan hefur komið seldi Steinnunn Marteinsdóttir lóðarleiguréttindi sín að lóð B við Hulduhóla í Mosfellsbæ sbr. afsal þar um dags. 15. apríl 2005.[114] Þessi réttindi voru gefin út með undirritun lóðarleigusamnings 8. mars 2005 og var lóð þessi því seld tæpum mánuði eftir að lóðarleigusamningur var undirritaður um hana.[115]

Í auglýsingu í B-deil Stjórnartíðinda[116], skv. skipulags- og byggingarlögum, var á þessum tíma deiliskipulagt fyrir þetta sama svæði. Það deiliskipulag hafði gengið í gegnum stjórnkerfi Mosfellsbæjar en hafði ekki tekið gildi þegar lóðarleigusamningar voru undirritaðir og skipting lóða og skipulag á reit Hulduhóla var breytt á skjön við það skipulagsferli sem var í meðförum skv. lögum hjá opinberum aðilum.

Þann 5. október 2004 var það deiliskipulag samþykkt af skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar. Var deiliskipulagið auglýst frá 27. júlí 2004 til 19. ágúst 2004 og fékk lögformlega meðferð skv. 25. gr. í lögum nr. 73/1997. Það var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 10. nóvember 2004 og undirritað í kjölfarið af þáverandi bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Tók þetta deiliskipulag síðan gildi 29. apríl 2005.

Því selur Steinunn Marteinsdóttir lóðarleiguréttindi sín á lóð B við Hulduhóla áður en fyrirliggjandi deiliskipulag tók gildi og hafði þá verið gerðir lóðarleigusamningar með tilsvarandi skilyrðum sem ekki var staðið við, t.a.m. varðandi tilkynningu um framsal þessara réttinda.

Í afsalinu sem Steinnunn Marteinsdóttir gefur út 15. apríl 2005 segir m.a.:

Með undirritun sinni á samning þennan afsalar seljandi til kaupanda, eftirgreindri fasteign seljanda við Hulduhóla í Mosfellsbæ: Lóðarréttindum seljanda, þ.e. Hulduhólar B landnúmer 200795, þjóðskrárnúmer: 0003-6030 óbyggð lóð, landareigandi Mosfellsbær. Stærð lóðarinnar er 21.488,8fm. og er lögun hennar eins og fram kemur á uppdrætti Verkfræðistofunnar Ráðgjafar hef., dags. 17.02.2005.[117]

Ætti öllum aðilum málsins að vera ljós sá texti sem er í lóðarleigusamningi varðandi tilkynningarskyldu til Mosfellsbæjar. Hafði Mosfellsbær einmitt haft það ráðrúm sem þarf til að gefa eiganda leigulóðar til að bregðast við m.a. með erindi til Sýslumannsins í Reykjavík svo gæta mætti hagsmuna Mosfellsbæjar t.a.m. ef ætlunin yrði að veðsetja lóðina með þeim hætti að það gæti valdið Mosfellsbæ beinu eða óbeinu tjóni.

Einnig varðar þetta það að kaupandi lóðarréttinda gæti ekki verið ljóst að það ætti eftir að ljúka við drög að samningi við lóðarleiguhafa varðandi greiðslu fyrir byggingarrétt og greiðslu gatnagerðargjalda en það átti t.a.m. Haraldur að vita sé vitnað til 716. fundar bæjarráðs þann 19. maí 2005 þar sem Haraldur Sverrisson gegndi formennsku. Mættu á þann fund formaðurinn sjálfur, Hafsteinn Pálsson, Þröstur Karlsson og Hanna Bjartmarz sem áheyrnarfulltrúi auk bæjarritara, Stefáns Ómars Jónssonar. Sá fundur varðaði erindi frá Regula lögmannstofu varðandi Hamrafell í Mosfellsbæ og frá Helga Rúnari Rafnssyni fh. Tré-búkka ehf varðandi hönnun og gatnagerðarframkvæmdir við Láguhlíð. Erindi Regula lögmannsstofu var móttekið hjá Mosfellsbæ 17. maí 2005 og var erindi Tré-búkka dagsett 15. maí 2005.[118]

Sagt var að Haraldur hafi vikið af fundi undir þeim dagskrárlið er fjallaði um erindi þessara aðila. Þarna var verið að óska um að fá byggingarleyfi til endurbyggingar húss að Hamrafelli og óskað eftir því að hafnar yrðu viðræður við umbjóðendur lögmannsstofunnar varðandi ráðstöfun þeirra á 5 lóðum sem hafa verið skipulagðar í landi Hamrafells.

Hér er augljóst að aðilar eru að leita lögformlegra leiða og heimildar til að fá að ráðstafa lóðum sem hafa verið skipulagðar á sama tíma og Steinunn Marteinsdóttir hefur þegar fengið að hluta Hulduhóla niður í 4 lóðir (í mótsögn við skipulags- og byggingarlög sem og það skipulagsferli sem var rétt í þann mund að ljúka) og framselt þá stærstu án þess að tilkynna það framsal til Mosfellsbæjar.

Á þessum 716. fundi bæjarráðs var samþykkt með aðeins tveimur atkvæðum (ekki kallaður inn varamaður) að vísa erindi þessara aðila til bæjarstjóra og bæjarverkfræðings til skoðunar.

Á næsta fundi bæjarráðs[119] 26. maí 2005 var mál Hamrafells tekið til afgreiðslu og var samþykkt með 3 atkvæðum eftirfarandi:

Samþykkt með þremur atkvæðum að bjóða út hönnun á götum, stígum og lögnum á deiliskipulögðu landi Hamrafells, Hulduhóla og Láguhlíðar. Jafnframt að samningar um endurbyggingar / byggingarrétt sem þegar hafa verið gerðir við lóðarhafa gildi áfram. Einnig samþykkir bæjarráð í samræmi við gildandi deiliskipulag niðurrif húsa/útihúsa í landi Hamrafells og Láguhlíðar enda beri lóðarhafar kostnað af niðurrifi og förgun. Bæjarráð samþykkir með þremur atkvæðum að samið verði sérstaklega um ráðstöfun lóða samkvæmt gildandi deiliskipulagi í landi Hamrafells, Hulduhóla og Láguhlíðar sem og gatnagerðargjöld og önnur gjöld á svæðinu.

Þetta erindi er dagsett 26. maí 2005 og sent Regula lögmannstofu ehf og undir það ritar Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þáverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar. Á þessum tíma hefur deiliskipulag svæðisins tekið gildi en því var ekki að heilsa þegar Steinunn Marteinsdóttir og Haraldur Sverrisson fengu að skipta Hulduhólum upp þar sem bæjarráðsformaðurinn ritaði undir einn lóðarleigusamninginn og móðir hans þrjá og ráðstafaði í kjölfarið einum þeirra til þriðja aðila án þess að tilkynna það framsal Mosfelslbæ, eiganda lóðarinnar.

Þann 14. nóvember sendir bæjarstjóri bæjarráði minnisblað[120] og vísar þar til 717. fundar bæjarráðs sem samþykkti með þremur atkvæðum að samið yrði sérstaklega um ráðstofun lóða, sbr. beina tilvitun hér að framan.

Þar leggur bæjarstjóri fyrst fram tillögur um með hvaða hætti standa skuli að ráðstöfun lóðarleiguhafa á lóðum í kjölfar deiliskipulags. Meðfylgjandi erindi bæjarstjóra fylgja tillögur m.a. um fjárhæð gatnagerðargjalda og verð á byggingarrétti sem stofn að tekjumöguleikum Mosfellsbæjar til að standa undir þeim kostnaði sem fallið hefur til vegna deiliskipulagsvinnunnar sem og það sem framundan er varðandi gatnagerð og lagnavinnu á þessu svæði.

Á þessum tíma og fyrir hann hefur Haraldur Sverrisson ekki tilkynnt Mosfellsbæ um sölu móður hans á leiguréttindum sínum og móðir hans, Steinunn Marteinsdóttir, hefur ekki tilkynnt bænum framsalið formlega. Draga má í efa að Haraldur hafi ekki haft vitneskju um þetta á þessum tíma en ekki skal útilokað að móðir hans hafi ekki látið hann vita um framsal sitt á lóðinni til þriðja aðila.

Var mál þetta m.a. tekið fyrir í bæjarstjórn 30. nóvember 2005.[121]

Þess ber að geta að fyrir þennan tíma lá fyrir að Íslandsbanki hafði gefið út tryggingarbréf að fjárhæð kr. 132.000.000,- í lóð B við Hulduhóla en það var dagsett 6. maí 2005.[122] Það var því búið að veðsetja lóðina áður en umræður hófust um hvernig semja ætti við lóðarhafa á þessum svæðum öllum varðandi ráðstofun lóðanna sem voru í skipulagsferli.

Þeir sem Steinunn Marteinsdóttir framseldi lóðarréttindi sín 15. apríl 2005 höfðu ekki aðeins framselt[123] réttindin áfram í formi stofnhlutafjárs 28. apríl 2005 á kr. 117 milljónir (aðeins 11 lóðir af 12) í nýtt dótturfélag sitt að nafni Huldubyggð ehf heldur framselt[124] alla hluti í því félagi 29. apríl 2005, sama dag og deiliskipulag um svæðið tók gildi. Að lokum er allt hlutafé í Huldubyggð ehf, sem á þessi réttindi að hluta[125] skv. afsali dags. 28. apríl 2005, framselt Haraldi Skarphéðinssyni með kaupsamningi dags. 5. júlí 2005 á kr. 148.000.000,- m.a. með yfirtöku á áhvílandi tryggingarbréfi (láni) við Íslandsbanka dags. 6. maí 2005, sbr. 2. og 3. gr. kaupsamningsins.

Haraldur Skarphéðinsson greiddi því kr. 16 milljónir í peningum og tók yfir lán sem greinilega hefur verið tekið í kjölfarið þegar Samvernd ehf selur alla hluti í Huldubyggð ehf 29. apríl 2005.

Á þessum tímapunkti hafa embættismenn Mosfellsbæjar ekki hugmynd um að í fyrsta lagi að það sé búið að framselja lóðarréttindin að lóð B við Hulduhóla heldur búa þeir ekki yfir vitneskju um að búið sé að veðsetja lóðina um a.m.k. 132 milljónir króna. Á sama tíma bíða aðrir lóðarleiguhafar, er lutu sama skipulagsferli, eftir því að fá heimild til að ráðstafa lóðum sínum sem ekki voru gefnar út eða stofnaðar nema að því tilskyldu að þeir rituðu undir samning um þessa ráðstöfun er fól í sér skuldbindingu, til að tryggja hagsmuni Mosfellsbæjar, að greiða fyrir gatnagerðargjöld sem og byggingarétt á þeim lóðum sem skipulagðar voru.

Framsal lóðar B við Hulduhóla til einkahlutafélags og svo til stofnunar Huldubyggðar ehf

Við rannsókn á þessu máli kemur skýrsluhöfundi það sérstaklega á óvart að þegar litið er til þess er Samvernd ehf afsalar[126] Huldubyggð ehf, í formi stofnfjár, lóð B við Hulduhóla að þar eru aðeins 11 lóðir framseldar af þeim 12 sem áttu að vera skv. samþykktu deiliskipulagi á því svæði. Einnig vekur athygli að í hluta stofnskjala vegna Huldubyggðar ehf, sem finna má hjá Fyrirtækjaskrá RSK, er gagn sem sýnir að andvirði þessara 11 lóða hafi numið kr. 117 milljónum skv. ,,bindandi kauptilboði“ eins og það er orðað í skýrslu stofnanda Huldubyggðar ehf (átti að heita Hulduhólar ehf en því var breytt við stofnun og í meðförum Fyrirtækjaskrár Íslands).[127]

Það vekur sérstaka athygli að til staðfestingar á þessu verðmæti ritar undir endurskoðandi sem greinilega hefur móttekið og séð þetta bindandi kauptilboð áður en staðfesting var veitt og send Fyrirtækjaskrá RSK. Þar segir m.a.

Spilda merkt B úr landi Hulduhóla, Mosfellsbæ. Um er að ræða 11 lóðir fyrir einbýlishús samkvæmt uppdrætti metið á 117.000.000 kr.

Mat á verðmæti landsins byggist á bindandi kauptilboði til handa hinu óstofnaða einkahlutafélagi að fjárhæð 117.000.000 kr.

Umsamið endurgjald fyrir framangreindar eignir eru hluti í Hulduhólum ehf að sömu fjárhæð miðað við nafnverð eða kr. 117.000.000 að nafnverði. Með vísan til framangreinds telst verðmætið svara til endurgjaldsins á því heimilt að færa hina eignirnar á yfirfærsluverðinu í bókum félagsins.[128]

Hér vekur athygli að endurskoðendur eru KPMG, þeir og hinu sömu sem Mosfellsbær fékk til að vinna bókhald bæjarins og endurskoðar enn fyrir hann.

Sé litið á ársreikninga Samverndar ehf fyrir rekstrarárin 2005 til og með 2007 er ekki að sjá að arðsemi af þessari sölu hafi haft umtalsverð rekstrarlega jákvæð áhrif á það félag.[129]

Þann 14. ágúst árið 2009 sá Haraldur Sverrisson, þáverandi bæjarstjóri og núverandi, ástæðu til að svara DV sem hafði fjallað um meint brask hvað öll viðskipti og afgreiðslu mála varðandi Hulduhóla í Mosfellsbæ. Þar segir bæjarstjórinn m.a.:

Árið 2005 seldi Steinunn stærstan hluta af því landi sem hún hafði til umráða. Kaupverðið var 75 milljónir.[130]

Hér stangast margt á. Haraldur fullyrðir að móðir hans hafi selt lóð B við Hulduhóla árið 2005 á 75 milljónir króna en skv. staðfestu stofnskjali af hálfu KPMG, vegna stofnun Huldubyggðar, er lagt upp með að fyrirliggjandi sé bindandi kauptilboð (26. apríl 2005) sem undirstrikar verðmæti 11 lóða (ekki 12 eins og rúmuðust á lóð B sem Steinunn framseldi) að fjárhæð kr. 117 milljónum króna.

Þar sem Samvernd ehf framselur og afsalar þessum hluta lóðar B við Hulduhóla,  11 lóðum, þann 28. apríl 2005 til Huldubyggðar, þ.e. 2 dögum fyrir þessa yfirlýsingu um verðmætið 117 milljónir króna, er alsendis óvíst hvort þarna hafi verið um að ræða bindandi kauptilboð (sem er þá orðinn bindandi kaupsamningur á milli aðila) á milli Samverndar ehf og Steinunnar eða á milli Samverndar og Huldubyggðar.

Hafi verið um að ræða bindandi kauptilboð á milli Samverndar og Huldubyggðar að fjárhæð kr. 117 milljónum króna og að Steinnunn hafi selt Samvernd lóð B við Hulduhóla á 75 milljónir skv. tilvitnun í bæjarstjóra Mosfellsbæjar hér að framan, vekur það athygli að um 42 milljóna mismun, þ.e. hagnaður, sem ekki er að finna í ársreikningi Samverndar fyrir rektrarárið 2005. Í skýrslu stjórnar Samverndar segir m.a.:

Tap varð á rekstri félagsins á árinu 2005 að fjárhæð 13,0 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi og var eigið fé neikvætt í árslok um 20,6 millj. kr. skv. efnahagsreikningi. Vísað er til ársreikningsins varðandi jöfnun taps og aðrar breytingar á eiginfjárreikningum.[131]

Ekki er að sjá að þessi vænti 42 milljóna króna hagnaður, ef einhver hefði verið, hafi verður færður til bókar fyrir rekstrarárið 2006 þegar félagið skilaði tapi að fjárhæð kr. 7,3 milljónum króna og þegar eigið fé var þá í árslok orðið neikvætt um 28 milljónir króna. Hér svo rétt að minnast á gjaldþrot[132] Samverndar ehf 4. desember 2008.

Það er aðeins eitt sem getur sannfært skýrsluhöfund hvað þessa sölu varðar er frumrit af vottuðum kaupsamningi eða bindandi tilboði á milli Steinunnar og Samverndar sem sýnir að Steinunn hafi raunverulega selt lóð B við Hulduhóla á kr. 75 milljónir króna.

Hitt er svo annað mál, þrátt fyrir að sýnt verði fram á að kaupverðið hafi verið 75 milljónir, er en uppi sú spurning hvernig staðið var að þessu máli og að Mosfellsbæ hafi ekki verið tilkynnt um framsal Steinunnar Marteinsdóttur. Það að hafa ekki upplýst Mosfellsbæ hefur augljóslega valdið Mosfellsbæ tjóni enda lóðirnar veðsettar með þeim hætti að allt verðmæti sem kann að hafa verið í þeim fólgið hafði verið leyst úr læðingi og framselt öðrum aðila án þess að fyrir lægi þau gjöld sem Mosfellsbær þurfti að leggja á lóðarleiguhafa svo hafa mætti tekjur á móti gjöldum sem fór í gatnagerð bæjarins, lagnir og frágang í samræmi við samþykkt deiliskipulag sem lóðarleiguhafar kölluðu eftir.

Í erindi sem barst Mosfellbæ 24. nóvember 2000 frá lóðarleiguhafa að Hulduhólum (sem og öðrum) segir m.a.

Greidd yrðu gatnagerðargjöld til bæjarins sem mun sjá um gatnagerð.[133]

Ljóst er að lóðarleiguhafar af þeim 4 lóðum sem gefnar voru út 8. mars. 2008 vissu vel að þeim bar að greiða gatnagerðargjöld sem og fyrir byggingarrétt á þeim lóðum sem voru í deiliskipulagsferli.[134]

Hafði Haraldur Sverrisson, sem sjálfur ritaði undir lóðarleigusamning[135] 8. mars 2008 og vottaði hina 3, fulla vitneskju um eðli og efni samningana og það að óheimilt væri að framselja réttindin með þessum hætti án vitneskju Mosfellsbæjar. Glögglega má lesa líkt út úr samningunum sjálfum sem og því að eðli máls samkvæmt var lögð fram skipulagsbreyting sem sundurliðaði Hulduhóla í 4 lóðir rétt áður en deiliskipulagið um svæðið tók formlega gildi.

Samið við lóðarhafa um gatnagerðargjöld og byggingarrétt

Eins og að framan hefur verið komið sendi þáverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, erindi til bæjarráðs þar sem Haraldur Sverrisson gegndi formennsku en erindið er dagsett 14. nóvember 2005 og var í formi minnisblaðs.[136]

Með þessu minnisblaði fylgdu drög að samkomulagi sem ætlunin var að gera við lóðarleiguhafa og m.a. vísað til samþykktar 717. fundar bæjarráðs frá 26. maí 2005 en þar segir m.a.:

Bæjarráð samþykkir með þremur atkvæðum að samið verði sérstaklega um ráðstöfun lóða samkvæmt gildandi deiliskipulagi í landi Hamrafells, Hulduhóla og Láguhliðar sem og gatnagerðargjöld og önnur gjöld á svæðinu.

Á 432. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar rétt fyrir Jólin 2005, þ.e. 14. desember 2005,  kom til umfjöllunar tillaga bæjarstjóra, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, varðandi ráðstöfun á lóðum við Hamrafell, Hulduhóla, Láguhlið, Brúarhól og Vinja sem og á lóðum í miðbæ Mosfellsbæjar í kjölfar deiliskipulags.

Á þessum fundi var verið að ákvarða hve mikið ætti að innheimta fyrir byggingarrétt og gatnagerðargjöld. Sá fulltrúi B-lista sér knúinn til að leggja fram svohljóðandi bókun á þessum fundi:

Eins og fram hefur komið í umræðunni um þetta mál hvað varðar landsvæðið við Hamrafell, Hulduhóla og Láguhlíð er það mín skoðun að meðhöndla hefði átt með öðrum hætti allt frá upphafi þess. Af þeim sökum tek ég ekki afstöðu til framkominna tillagna.[137]

Haraldur Sverrisson sat þennan fund en vék undir þessum lið er fjallaði um þessi mál. Drögin sem lögð voru fram varðandi samning um gatnagerðargjöld og gjöld fyrir byggingarétt á framangreindum lóðum voru einnig rædd í upphafi árs 2006 eða á bæjarráðsfundi þann 12. janúar 2006. Var samþykkt að þessi drög yrðu lögð til grundvallar samningum við aðra lóðarleiguhafa.[138]

Kom síðar í ljós að allir urðu að ganga að þessu samkomulagi nema Steinunn Marteinsdóttir sem framselt hafði lóðarleiguréttindi sín áður en bæjarstjórn hafði afgreitt drög að samkomulagi varðandi þau gjöld sem þurfti að leggja á vegna þess kostnaðar sem bærinn hafði orðið fyrir samhliða deiliskipulagsvinnu sem og kostnaðar vegna væntanlegra framkvæmda.

Á þessum tíma hafði þáverandi eigandi Huldubyggðar ehf, sem var eigandi að lóð B við Hulduhóla (11 lóðir af 12), að öllum líkindum enga hugmynd um að þurfa að greiða gatnagerðargjöld og fyrir byggingarrétt ofan á þær kr. 148 milljónir[139] sem hann greiddi fyrir alla hluti í félaginu með kr. 16 milljónum og yfirtöku á kr. 132 milljónum að auki. Nam kaupverðið þegar orðið um 13,5 milljónum á hverja einbýlishúsalóð og við það átti eftir að bætast kr. 7,9 milljónir á hverja lóð skv. þeim drögum að samkomulagi við lóðarhafa[140] sem afgreidd voru og samþykkt á 756. fundi bæjarráðs Mosfesllsbæjar 12. janúar 2006. Samtals nam þetta þá á hverja einbýlishúsalóð kr. 21,4 milljónum króna en þá átti viðkomandi aðili eftir að grafa fyrir grunni húss og byggja það með öllu tilheyrandi. Ætla má að þetta hafi verið eitt dýrasta lóðarverð á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma fyrir eina einbýlishúsalóð þó víðar væri leitað hærri verða árið 2006.

Þennan fund sat Haraldur Sverrisson en vék af fundi undir þessum lið og við hans sæti tók Herdís Sigurjónsdóttir.

Á 762. fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar dags. 23. febrúar 2006 er tekið fyrir minnisblað frá Stefáni Ómari Jónssyni bæjarritara Mosfellsbæjar. Þar kemur hann inná eftirfarandi:

Í framhaldi af frágangi á samningi milli Mosfellsbæjar og Leirvogstungu ehf þar sem m.a. er tekið á því hvernig háttað skuli málum m.a. varðandi það ef byggingarrétthafi brýtur gegn skipulags- og byggingarlögum, heldur ekki áfram framkvæmdum, heldur ekki tímasetningar, o.fl. og þá hvernig háttað verður sölu á byggingarrétti viðkomandi.

Sýnt þykir að sömu atriði eigi við í þeim samningsdrögum sem áður hafa verið kynnt í bæjarráði varðandi ofangreindar lóðir[141] á deiliskipulagssvæðinu frá Skálatúni að Langatanga og er því lagt til við bæjarráð að það fallist á endurbætta útgáfu að drögum að samkomulagi við lóðarleiguhafa á þessu svæði.[142]

Hér má sjá að bæjarritari er að gæta hagsmuna Mosfellsbæjar í hvívetna með því að árétta afleiðingar ef brot verða af hálfu rétthafa að lóðum í eigu bæjarins. Sagt er að Haraldur hafi vikið af fundi undir þessum lið og voru framlögð drög staðfest með tveimur atkvæðum. Óvíst er hvort á þessari stundu hafi Haraldur Skarphéðinsson, þáverandi eigandi hlutafjár í Huldubyggð ehf, sem átti lóð B við Hulduhóla, hafi borið sig upp við Mosfellsbæ og þannig tilkynnt að hann ætti þessa lóð í gegnum félag sitt.

Líkur eru á því að þar hafi Haraldur Skarphéðinsson áttað sig á að hann hafi greitt offjár fyrir hluti í  hlutafélagi sem átti lóðir er hann taldi að öllum líkindum að fylgdu öll þau réttindi varðandi bygginarrétt, þ.e. á þeim 11 lóðum sem hann taldi sig hafa til umráða.

Í kaupsamningi hans segir:

Skipulagsuppdráttur og byggingarskilmálar liggja fyrir við undirritun kaupsamnings þessa varðandi hinar seldu lóðir.[143]

Ekki er að sjá að byggingarskilmálar Mosfellsbæjar hafi legið fyrir á þessum tíma þegar Haraldur Skarphéðinsson, eigandi hluta í Hulduhólum ehf, ritar undir kaupsamning að öllum hlutum í félaginu 5. júlí 2005 enda að öllum líkindum ekki gengið frá slíkum skilmálum og drögum að samkomulagi fyrr en 23. febrúar 2006 eða um 7 mánuðum síðar.

Hvaða gögn það voru sem lágu til grundvallar kaupum Haraldar Skarphéðinssonar í júlí 2005 skal ósagt látið en ljóst þykir að hann hljóti að hafa talið að hann hafi þarna a.m.k. verið að borga fyrir byggignarrétt að lóðunum skipulögðum.

Á 437.  fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar var tekið fyrir framangreint mál varðandi ráðstöfun á lóðum við Hamrafell, Hulduhóla, Vinja og lóðum í miðbæ Mosfellsbæjar í kjölfar deiliskipulagsvinnu. Var það sem fram hafði komið við afgreiðslu bæjarráðs staðfest með 7 atkvæðum.

Í fylgiskjölum 1053 (dags. 05.04.2006), 1054 (dags. 27.06.2006), 1055[144] (dags. 06.12.2005) má sjá að fyrst á þessu tímabili er gengið til samninga um lóðir  annarra lóðarleiguhafa og þeim gert samhliða að rita undir samkomulag varðandi kostnað vegna gatnagerðargjalda og byggingarréttar.

Sé miðað við þær 12 lóðir sem um var að ræða á lóð B við Hulduhóla og Steinunn Marteinsdóttir framseldi án vitneskju Mosfellsbæjar árið 2005. Í tengslum við framangreind gjöld sem bar að greiða bænum var um að ræða kr. 7,9 milljónir á hvert einbýlishús eða 94,8 milljónir króna, sé miðað við 12 lóðir, og 86,9 milljónir króna sé miðað við 11 lóðir eftir því sem við á í þessu samhengi og virðist ekki fullkomlega ljóst, þ.e. hvort Steinunn seldi 11 lóðir eða 12 árið 2005.

Þarna er vissulega um umtalsverða fjármuni að ræða fyrir Mosfellsbæ og sé litið til afkomu Mosfellsbæjar fyrir rekstrarárið (bæði A+B hluta sveitarsjóðs) 2013, þ.e. rétt um 30 milljónir í hagnað, er hér um að ræða umtalsverða fjármuni sem vissulega hafa glatast bænum með beinum eða óbeinum hætti, að hluta til eða heild.

Kom þetta til með tvennum hætti að mati skýrsluhöfundar.

Þetta kom að öllum líkindum í kjölfar þess að fulltrúar Mosfellsbæjar, kjörnir fulltrúar sem og einstaka embættismenn, gættu ekki að sér en aðallega vegna þess að lóðarleiguhafi tilkynnti ekki Mosfellsbæ söluna árið 2005 en þá hefði bærinn getað þinglýst kvöð sama dag varðandi gjöld sem ógreidd voru eða voru fyrirsjáanleg og vænta má að lóðarleiguhafi þyrfti að greiða ásamt því að bærinn gat bannað veðsetningu, veðsetningu sem augljóslega gat komið bænum illa enda lítil rýmd eftir til að tryggja hagsmuni bæjarins væru lóðirnar og lönd sem leigð voru veðsettar 3ja aðila sem gæti falið í sér umtalsverðar fjárhæðir eins og hér varð raunin á.

Arfur eða ekki arfur

Það er ljóst að núverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar var afskaplega vel inn í þeim málum sem hér er til umfjöllunar þrátt fyrir að hafa þurft að víkja af fundum.

Hann m.a. fékk persónulega úthlutað leigulóð[145] á þessum tíma, þ.e.  8. mars 2005 og á undan öðrum í sama ferli, og erfði leigulóðaréttindi[146] á annarri, réttindi sem voru einnig veitt fyrir lóð 8. mars 2005, þá til Steinunnar móður hans, í eigu Mosfellsbæjar síðar, þá lóð sem einnig var fyrst leigð út 8. mars 2008, ásamt nýju húsi sbr. gögn frá 2011.[147]

Það hús sagðist hann reynar hafa verið að byggja sjálfur fyrir eigin reikning ef vitnað er beint í Harald Sverrisson bæjarstjóra sem gaf út yfirlýsingu er birtist í DV 21. maí árið 2010 en þar segir  Haraldur m.a.:

Árið 2008 ákveðum við hjónin að hefja byggingu einbýlishúss við Skálahlíð 46. Alefli var þá að byggja önnur þrjú hús við þessa götu og fengum við tilboð frá þeim við vinnu við uppsteypu hússins. Tilboðinu tókum við eftir að við höfðum látið yfirfara það af sérfræðingum. Allar greiðslur til Aleflis höfum við greitt að fullu í samræmi við gerða samninga. Öll gögn varðandi þessar byggingar liggja skilmerkilega fyrir bæði í einkabókhaldi okkar hjóna sem og í bókhaldi Aleflis. Ég þarf ekki að taka það fram að þar er ekkert að fela.[148]

Í skiptalýsingu dags. 26. janúar 2011 um sömu fasteign segir eftirfarandi:

Ég undirritaður Haraldur Sverrisson kt. 141261-7119 Hulduhólum 270 Mosfellsbæ lýsi því hér með yfir að ég hef í dag fengið afhent úr búi móður minnar Steinunnar Marteinsdóttur kt. 180236-2609 Hulduhólum 270 Mosfellsbæ sem fyrirframgreiddan arf eftir hana fasteignina Skálahlíð 46 270 Mosfellsbæ. Fastanúmer er 231-7400. Landnúmer er 200794. [149]

Ekki er séð hvernig Haraldur Sverrisson og eiginkona hans geta staðið í byggingu sem Haraldur sjálfur fær síðar í arf. Í skiptalýsingunni kemur ekki fram að aðeins sé um lóðina að ræða heldur alla fasteignina með húsinu á enda þar tilgreint fastanúmer hússins ásamt landnúmeri.

Þetta vekur athygli í ljósi þess að hann erfir hús af móður sinni en sá fyrirvari er hér settur að ekki liggur fyrir afrit af erfðafjárskýrslu nr. 683/2010 sem gæti greint þetta betur og skýrt hvað var hér raunverulega verið að gera og erfa. Þar sem skýrsluhöfundur hefur ekki aðgang að þessum gögnum verður að setja hér eðlilegan fyrirvara um þetta atrið.

Fljótt á litið má þá greina þarna e.k. mismun sem gæti hafa valdið því að þetta sé tómur misskilningur en engu að síður áhugavert að benda á og kanna betur. Hins vegar getur Haraldur Sverrisson birt erfðafjárskýrsluna sjálfur opinberlega til að taka af öll tvímæli óski hann þess.

Það er hreint með ólíkindum hve fimlega lóðarleiguhafarnir náðu að halda utan um þetta ferli og ná sínu fram hvort heldur sé hægt að draga afgreiðsluna og ferlið í efa eða ekki.

Þarna má sjá þvílíkt flækjustig að vart er hægt að greina það þó menn hafi mikið fyrir því með það að leiðarljósi að koma öðrum í betri skilning um þetta mál, þ.e. Hulduhólamálið.

Veðsetning og veðflutningar

Þann 2. mars 2006 gefur Mosfellsbær fyrst út 12 lóðir (sjá athugasemd)[150] fyrir lóð B við Hulduhóla (landnr. 200795).

Allar þessar lóðir voru teknar úr lóð með landnúmeri 200795[151] sem er lóðin er Huldubyggð ehf fékk afsalaða[152] (utan einnar lóðar, þ.e. 11 framseldar Huldubyggð ehf af 12) 28. apríl 2005, þ.e. degi áður en deiliskipulagið fyrir svæðið tók gildi[153]. Hvað varð um þessa einu lóð (áttu að vera 12 lóðir innan lóðar B) skal ósagt látið en hennar er a.m.k. ekki getið þegar Samvernd afsalar dótturfélagi sínu Huldubyggð ehf gegn hlutum í því félagi þessari lóð B en tilgreinir 11 einbýlishúsalóðir innan lóðar B í stað 12.

Sjá má að með fylgiskjali nr. 1056 (dags. 02.03.2006 – miðað við stofndag einbýlishúsalóðanna) að þarna rita bæði byggingarfulltrúi og bæjarritari Mosfellsbæjar undir stofnun lóðanna en því var ekki að heilsa 8. mars 2008 þegar um sambærilega stofnun nýrra lóða var að ræða og undirritun lóðarleigusamninga.

Þarna var einnig um að ræða 13. Lóðina (sem slóð reyndar utan lóðar B) sem er nr. 46 við Skálahlíð og Haraldur fékk í arf (með eða án nýrrar byggingar) frá móður sinni. Samkvæmt gömlu samkomulagi frá 1990 þurfti Steinunn ekki að greiða af þeirri lóð gatnagerðar- eða tengigjöld.[154]

Sjá má að á þessum tíma, þ.e. þegar lóðirnar voru stofnaðar, virðist sem fulltrúar bæjarins hafi séð að landið var veðsett láni frá Frjálsa fjárfestingarbankanum á einum 5 veðréttum.[155]

Hér má sjá að vegna þess að Mosfellsbær hafði ekki verið gert kunnugt um sölu á lóð B við Hulduhóla árið 2005 gafst aðilum sem fengu lóðinni afsalað tækifæri til þess að veðsetja hana umtalsvert eða fyrir því sem nemur kr. 31,7 milljónum á hverja lóð. Hugsanlegt er að þarna gæti hafa verið um svokölluð krossveð að ræða þar sem að baki lágu fleirri veð en aðeins þessar 11 lóðir sem um ræðir að hafi verið eign Huldubyggðar ehf.

Eftir stendur að lóðarleiguhafa bar skylda til að tilkynna skrifstofu Mosfellsbæjar, sbr. ákvæði í 7. gr. lóðarleigusamningsins[156], um leið og sala á þessum lóðarleiguréttindum færi fram. Það var ekki gert. Að auki virðist augljóst skv. ákvæðum 9. gr. lóðarleigusamningsins að óheimilt var að framselja eða láta lóðina/lóðarleiguréttindin af hendi á annan hátt til einstaklinga, stofnana eða félaga hluta af lóðinni. Það var heimilt að selja lóðina í heild sinni en væri það gert var það skylda og á ábyrgð lóðarleiguhafa að tilkynna slíkt framsal skrifstofu Mosfellsbæjar.

Ljóst er samkvæmt þessu að þessi veðsetning og síðar gjaldþrot Huldubyggðar[157] ehf í kjölfarið getur tæpast leitt til þess að flýta byggingarframkvæmdum á þeim lóðum sem skipulagðar voru að Hulduhólum í Mosfellsbæ eftir mikla eftirgangsmuni lóðarleiguhafa og ábúenda þar á bæ.

Rétt er að árétta að sá aðili, Samvernd ehf, sem Steinunn Marteinsdóttir framseldi lóð B að Hulduhólum án vitneskju eiganda lóðarinnar, Mosfellsbæjar (gegn ákvæðum lóðarleigusamningsins) og skipulagsyfirvaldi í bænum, er nú gjaldþrota.[158] Einnig er félagið Huldubyggð ehf gjaldþrota eins og að framan greinir, félag sem fékk 11 lóðir framseldar (gegn ákvæðum í lóðarleigusamningi) frá móðurfélagi sínu sem svo seldi hluti í dótturfélaginu áfram fáeinum dögum síðar.

Greinilegt er skv. gögnum[159] að Frjálsi fjárfestingarbankinn aflétti lánum af einni lóð enda aðeins veðsettar honum 11 lóðir skv. fyrirliggjandi skjölum. Líkur eru á að hafi Steinunn selt allt landið (eins og afsal[160] gefur til kynna) til Samverndar, hafði Samvernd selt eina lóð áður en það framseldi 11 lóðir sem stofnfjárframlag vegna stofnunar Huldubyggðar ehf á sínum tíma.

Hins vegar stendur eftir að Haraldur Skarphéðinsson, stjórnarformaður[161] Huldubyggðar ehf, var gert að rita undir samkomulag[162] um 7,9 milljónir í gatnagerðargjöld og byggingarrétt fyrir þessar 11 lóðir það var gert 6. apríl 2006.

Hafði Mosfellsbær þá gefið út nýjan lóðarleigusamning 23. febrúar 2006, m.a. í ljósi þess að um var að ræða 11 lóðir en ekki 12, sem Haraldur Skarphéðinsson staðfestir fh. Huldubyggðar ehf 24. febrúar 2006. Til staðfestingu á samningnum ritar Frjálsi fjárfestingarbankinn upp á lóðarleigusamninginn sem veðhafi.

Það má vissulega ímynda sér hve mikið fát hefur komið upp innan veggja Mosfellsbæjar þegar það kom í ljós að búið var að veðsetja lóð í eigu bæjarins fyrir um 350 milljónir króna og ekki var búið að ganga frá samningum við lóðarleiguhafa varðandi gatnagerðargjöld og byggingarrétt.

Þarna telur skýrsluhöfundur að farið hafi verið illilega á bak við embættismenn Mosfellsbæjar og gegn ákvæðum samninga. Hvar ábyrgð fellur til í þessu máli skal ósagt látið en ljóst er að tjón Mosfellsbæjar var umtalsvert.

Niðurlag

Hér er um að ræða skólabókadæmi um það hvernig sveitarfélag getur glatað tækifæri að afla þeirra gjalda og tekna sem þeim ber, bæði sem skipulagsyfirvaldi og sem eigandi lands eða lóða.

Hér er einnig um að ræða skólabókadæmi um framferði aðila sem ekki hefur verið tekið á eða rannsakað til hlítar. Ekki skal fullyrt að um umboðssvik sé að ræða eða önnur svik. Hugsanlega getur verið að þetta hafi haft áhrif á viðkomandi aðila út frá pólitísku sjónarhorni en það er óvíst. Hitt stendur eftir að fjölmörgum spurningum varðandi þetta mál er enn ósvarað þrátt fyrir viðleitni aðila til að koma á móts við bæjarbúa í Mosfellsbæ hvað þetta varðar.

Hins vegar er það niðurstaða skýrsluhöfundar að fórnarlambið í þessu máli  er Mosfellsbær og skattgreiðendur í Mosfellsbæ sem tapað hafa stórum fjármunum sem annars hefði mátt ráðstafa í nýjan málaflokk varðandi fatlaða. Einnig má nefna í þessu sambandi félagsmál þar sem tryggja mætti börnum í bænum þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi, börnum sem annars hafa ekki ráð á slíku vegna fjárhagsstöðu foreldra. Það hefði hugsanlega verið hægt að efla skólanna með þessum fjármunum, hægt að byggja nýtt fjölnota íþróttahús í bænum eða einfaldlega farið í að greiða fyrir þær umtalsverðu gatnaframkvæmdir og lagnavinnu sem bærinn gekkst undir á svæðinu í kringum Hulduhóla í Mosfellsbæ, þ.e grynnka á skuldum. Ætla mætti að bærinn hefði ekki verið með yfir 120% skuldsetningu m.v. rekstrartekjur eins og nú er hefði verið farið skv. leikreglum. Skuldir bæjarins væru örugglega lægri.

Hér skal í lokinn minnst á það glapræði sem virðist hafa verið uppi hjá Mosfellsbæ á þeim tíma sem hér um ræðir og sneri að skipulagi svæða víða um Mosfellsbæ. Það jók á framboð svo um munaði og Mosfellsbæ gert að gangast í skuldbindingar varðandi gatnaframkvæmd, lagnavinnu og tilsvarandi fjárfestingu sem og að byggja skóla í hálfbyggðum hverfum bæjarins.

Allt þetta vinnulag ber að sama brunni og einkennir það sem skýrsluhöfundur vill kalla spillingu á háu stigi. Það er miður að þurfa að taka svo djúpt í árinni.

Lokaorð

Það er rétt að geta þess að skýrsluhöfundur hefur engra hagsmuna að gæta annarra en þeirra sem tengjast því að vera skattborgari búandi í Mosfellsbæ. Það má nefna að skýrsluhöfundur er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisfélags Mosfellinga en sagði af sér þegar EIR málið kom upp á sínum tíma. Það mál er annað og óskylt mál en einnig mjög alvarlegt þar sem fjöldi eldri borgara var hlunnfarinn því það láðist m.a. að þinglýsa réttindum þeirra hjá viðkomandi sýslumannsumdæmi.

Allt þetta eru gjörðir fólks, fólks sem við kjósendur eigum að geta treyst og teljum að séu að vinna að okkar hag. Það nægir ekki að koma með nýjar og fínar götur rétt fyrir kjördag hafi þvílikt og annað eins gengið á árin þar á undan og jafnvel án vitneskju þorra almennings. Það er svo eitt enn verra en það er ef framvæmdir hafi verið faldar fyrir embættismönnum Mosfellsbæjar, framkvæmdir eða framsal réttinda sem þeim bar að fá vitneskju um til að geta sinnt lögboðinni skyldu sinni.

Til sjálfstæðisfólks í Mosfellsbæ og um land allt vill skýrsluhöfundur senda skilaboð og árétta að hann er enn dyggur sjálfstæðismaður, mun kjósa XD í Mosfellsbæ nú sem fyrr í komandi sveitarstjórnarkosningum en áskilur sér rétt til að strika út suma af lista flokksins sem eru þar í framboði.

Skýrsluhöfundur hefur verið sjálfstæðismaður frá unga aldri, setið sem bæði varaformaður og formaður félags ungra sjálfstæðismanna úti á landi, setið sem varamaður í stjórn SUS sem og sem aðalmaður. Hann hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og aðstoðað Sjálfstæðisflokkinn fyrir fjölmargar kosningar sem og einstökum frambjóðendum. Það er miður að þurfa að leggja svona skjal fram en það er gert sem virðingavottur við frelsið, sbr. málfrelsið, tjáningarfrelsið og það frelsi sem sjálfstæðisfólk vill standa vörð um. Þetta er tilraun til að hamla því að þaggað sé niður í gefandi, fersku og frambærilegu fólki í framtíðinni innan Sjálfstæðisflokksins sem og innan annarra flokka. Leggja þarf áherslu á að þeir fái ekki framgang innan eða utan stjórnmálaflokka sem segja ósatt, skara eld að eigin köku og ganga gegn góðu velsæmi. Þetta er ritað fyrir góða og gegna félaga í Sjálfstæðisflokknum sem og aðra landsmenn. Fyrst og síðast er þetta ritað fyrir alla Mosfellinga, mína góðu nágranna og vini hér í Mosfellsbæ.

Vill skýrsluhöfundur leggja áherslu á að hann vonar að innan Mosfellsbæjar verði bætt úr þessu verklagi, þetta mál allt rannsakað ofan í kjölinn og það afgreitt með sómasamlegum hætti þannig að niðurstaðan verði opinber öllum í Mosfellsbæ.

Með ósk um ánægjulegt sumar og góða þátttöku í sveitarstjórnarkosningunum nú í maí 2022, þ.e. 8 árum eftir að fyrstu drög að skýrslunni kom út..

Virðingarfyllst,

Sveinn Óskar Sigurðsson

Áskilnaður, ábyrgð & höfundarréttur:

Áskilur skýrsluhöfundur sér að breyta þessari skýrslu að hluta eða heild hvenær sem er. Höfundarréttur er skýrsluhöfundar. Er öllum heimilt að dreifa henni sem og fylgiskjölum þeim sem opinber eru. Hér er um drög að ræða og því gæti skýrslan breyst umtalsvert. Þeir sem vitna í þessa skýrslu gera það alfarið á eigin ábyrgð en ekki á ábyrgð skýrsluhöfundar.


Fylgiskjöl

[1] Jónatan Þórmundsson: Þættir um auðgunarbrot, sérstakur hluti, bls 209. – Sjá jafnframt bls. 4 í BA ritgerð í lögfræði við Háskóla Íslands (sjá fylgiskjal nr. 3005)

[2] Sjá fylgiskjal: 4001 (dags. 02.06.1970).

[3] Sjá fylgiskjöl: 1003 (dags. 21.09.1990), 1064 (dags. 21.09.1990).

[4] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001). Greinargerð bæjarritara en þar segir m.a. ,,Af ofangreindum yfirlitum er ljóst að lóðarhafar hafa stöðu venjulegra lóðarleigutaka og ekki er lengur um ábúðar- eða erfðafesturéttindi að ræða.“

[5] Sjá fylgiskjöl: 1012 (dags. 22.11.2001), 3002 (13.11.2003).

[6] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001) 503. fundur bæjarráðs Mosfellsbæjar fimmtudaginn 1. febrúar 2001.

[7] Sjá fylgiskjal: 1022 (dags. 23.04.2004) og sérstaklega bent á erindi frá lóðarleiguhöfum dags. 20.04.2004 þar sem þeir árétta þessa þróun mála. Þarna er reyndar mótmælt að jafnræðis sé ekki gætt varðandi deiliskipulagið.

[8] Sjá fylgiskjal: 1015 (dags. 27.08.2002).

[9] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001) og vísað til erindis til þáverandi bæjarstjóra, Jóhanns Sigurjónssonar, dags. 15.04.2001.

[10] Sjá fylgiskjal: 1015 (dags. 27.08.2002).

[11] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001) og vísað til erindis til þáverandi bæjarstjóra, Jóhanns Sigurjónssonar, dags. 15.04.2001.

[12] Sjá fylgiskjal: 4004 (dags. 29.04.2005) sem er deiliskipulagið sem samþykkt var af skipulags- og byggingarnefnd 05.10.2005, síðar auglýst frá 27.07.2004 til 19.08.2004, samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 10.11.2004 og tók svo gildi 29.04.2005.

[13] Sjá fylgiskjal: 1022 (dags. 23.04.2004)

[14] Sem sjá má að hann hafi gert á fleiri fundum en slíkt segir ekki til um hvort viðkomandi hafi beitt aðilum þrýstingi, t.a.m. embættismönnum. Einnig segir það ekki til um hvort hann hafi liðkað til um skipulag í Leirvogstungu á meðan aðrir fulltrúar hafi liðkað til um skipulag við Hulduhóla. Þarna vógu hagsmunir kjörinna fulltrúa umtalsvert í þeirri vinnu sem unnin var innan Mosfellsbæjar. Á meðan var einnig verið að skipuleggja land og lóðir fyrir aðra sem ekki höfðu sömu aðstöðu og þeir sem áttu réttindi að Hulduhólum og hluta af Leirvogstungusvæðinu.

[15] Sjá fylgiskjal: 1032 (dags. 05.10.2004)

[16] Sjá fylgiskjal: 1035 (dags. 21.02.2005) Hér óskar lóðarleiguhafi að Hulduhólum um að Mosfellsbær gefi út lóðir skv. uppdráttum sem unnir hafa verið fyrir lóðarleiguhafann. Af einhverjum óútskýrðum ástæðum skrifar byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar undir 4 lóðarleigusamninga og þeir rata út úr húsi bæjarins án þess að fá lögformlega afgreiðslu innan bæjarins. Mosfellsbæ var ekki tilkynnt um sölu lóðarleiguréttinda sem er á skjön við ákvæði lóðarleigusamningsins þar sem ekki er heimilt að selja hluta af þeim réttindum sem um var að ræða, sem og var gert (sjá 7. gr. lóðaleigusamninga, 9. gr.).

[17] Sjá fylgiskjöl: 1043 (lóð D leigð til Haraldar Sverrissonar), 1045 (lóð C leigð til Steinunnar Marteinsdóttur), 1047 (lóð B leigð til Steinunnar Marteinsdóttur), 1049 (lóð A leigð til Steinunnar Marteinsdóttur) – Bent skal sérstaklega á lóð B í þessu samhengi og ákvæði 7. og 9. gr. lóðaleigusamninganna).

[18] Sjá fylgiskjal: 4005 (dags. 20.05.2014)

[19] Sjá fylgiskjal: 2009

[20] Sjá fylgiskjöl: 1047 (lóð B), 2009 (afal frá Steinunni til Samverndar ehf, dags. 15.04.2005).

[21] Sjá fylgiskjal: 4003 (dags. 26.01.2011)

[22] Erfitt að lesa annað út úr skiptalýsingunni (sjá fylgiskjal 4003) en þar hafi lóðin ein ekki aðeins verið fengin í arf heldur húsið sem á lóðinni stóð þar að auki.

[23] Sjá fylgiskjöl: 2008 (afsal Samverndar til Huldubyggðar ehf dags. 28.04.2005) og 2010 (skýrsla stofnanda Huldubygðar, dags. 26.04.2005).

[24] Sjá fylgiskjal: 2010 (dags. 26.04.2005).

[25] Sjá fylgiskjal: 2010 (dags. 26.04.2005).

[26] Sjá fylgiskjal: 4004 (dags. 20.05.2014)

[27] Sjá fylgiskjal: 1037 (dags. 19.05.2005)

[28] Sjá fylgiskjal: 1037 (dags. 19.05.2005)

[29] Sjá fylgiskjal: 2010 (dags. 26.04.2005) Stofngögn er Samvernd eignarhaldsfélag lagði inn ásamt yfirlýsingu um virði 11 lóða að fjárhæð 117 milljóna sem hlutafjárframlag í Samverndar í dótturfélag sitt Huldubyggðar ehf. Félagið stofnað aðeins 3 dögum áður en deiliskipulag tekur gildi á svæði Hulduhóla (sjá fylgiskjal nr. 4004 dags. 29.04.2005).

[30] Sjá fylgiskjal: 2010 (sjá Skýrsla stofnanda Hulduhóla ehf – sem átti að vera Huldubyggð ehf, nafni breyttist í stofnferlinu).

[31] Sjá fylgiskjal: 1047 (dags. 08.03.2005)

[32] Sjá fylgiskjal: 2007 (dags. 29.04.2005) – Samvernd framselur alla hluti sína í félaginu til einstaklings, hluti að nafnvirði 117 milljónir króna.

[33] Sjá fylgiskjal: 2006 (dags. 05.07.2005) – Haraldur Skarphéðinsson kaupir alla hluti (að nafnvirði 117 milljónir) í Huldubyggð ehf af Guðbjarti Ingibergssyni, hlutafélag sem átti 11 lóðir í landi Hulduhóla í Mosfellsbæ.

[34] Sjá fylgiskjal: 2009 (dags. 15.04.2005).

[35] Sjá fylgiskjal: 4004 (dags. 29.04.2005).

[36] Sjá fylgiskjal: 4005 (dags. 20.05.2014).

[37] Sjá fylgiskjal: 2010 (dags. 26.04.2005) og 2008 (dags. 28.04.2005).

[38] Sjá fylgiskjal: 3003 (dags. 14.08.2009 – frétt í formi svars Haralds Sverrissonar er ritar svar sitt ekki aðeins persónulega heldur einnig sem sitjandi bæjarstjóri í Mosfellsbæ og þannig embættismaður hjá Mosfellsbæ og auk þess kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn)

[39] Sjá fylgiskjöl: 2002, 2003, 2004 (ársreikningar Samverndar fyrir rekstrarárin 2005, 2006 og 2007). Hér má geta þess að hafi Samvernd haldið einni lóð eftir af 12 (sem voru á lóð B að Hulduhólum sem var gefin út 08.03.2005) má ætla að sala á þeirri lóð hafi komið fram í ársreikningi. Svo er ekki að sjá.

[40] Hann fékk úthlutaðri lóð sama dag og móðir hans, þ.e. 8. mars 2008 – sjá fylgiskjal nr. 1043 (dags. 08.03.05).

[41] Sjá fylgiskjal: 1038 – Haraldur er sagður hafa vikið af fundi.

[42] Sem reikna má fyllilega með að Haraldur vissi af enda fékk hann sjálfur úthlutaðri lóð 08. mars 2005 á undan öðrum lóðarleiguhöfum á sama svæði rétt eins og móðir hans.

[43] Sjá fylgiskjal: 1039 (17.11.2005) – Sjá að bæjarstjóri Mosfellsbæjar sendir erindi til bæjarráðs til að kanna hvernig standa skuli að ráðstöfun lóðarleiguhafa á lóðum. Þegar Ragnheiður Ríkharðsdóttir sendir þetta erindi til bæjarráðs hefur enginn tilkynnt gerð lóðaleigusamninga 08.03.2005 (sjá fylgiskjal 1043 og 1047) eða  ráðstöfun (sölu og útgáfu afsals) lóðaleiguréttinda Steinunnar Marteinsdóttur til þriðja aðila sem átti sér stað fyrr á árinu, þ.e. 15.04.2005 (sjá fylgiskjal nr. 2009).

[44] Sjá fylgiskjöl: 2011, 2012

[45] Sjá fylgiskjal: 3004 (dags. 28.05.2010)

[46] Sjá fylgiskjal: 4001 (dags. 02.06.1970)

[47] Sjá fylgiskjal: 3002 (dags. 13.11.2003)

[48] Sjá fylgiskjal: 3002 (dags. 13.11.2003) – Tilvitun í Karl Axelsson, hrl úr frétt Morgunblaðsins.

[49] Sjá fylgiskjal: 3002 (dags. 13.11.2003) – Tilvitun í Ólaf Björnsson, hrl úr frétt Morgunblaðsins.

[50] Sjá fylgiskjal: 4002 (dags. 24.06.1986) – Búsetuleyfi

[51] Sjá fylgiskjal: 1003 (dags. 21.09.1990) og 1064 (dags. 21.09.1990).

[52] Sjá fylgiskjal: 1001 (dags. 14.03.1983)

[53] Sjá fylgiskjal: 1004 (dags. 09.06.1992).

[54] Sjá fylgiskjal: 1005 (dags. 14.03.1983) og 1006 (dags. 14.03.1983) lóðarleiguhafar að Hamrafelli fá rausnarlega samninga við Mosfellsbæ á þessum tíma sbr. lóðarleiguhafar Hulduhóla á sínum tíma.

[55] Sjá fylgiskjal: 3003 (dags. 14.08.2009) – Svar Haraldar Sverrissonar til DV árið 2009.

[56] Sjá fylgiskjal: 1007 (dags. 22.08.2000)

[57] Sjá fylgiskjal: 1008 (dags. 30.08.2000)

[58] Sjá fylgiskjal: 1009 – sjá erindi dags. 24.11.2000.

[59] Sjá fylgiskjal: 1010 (dags. 07.12.2000)

[60] Sjá fylgiskjal: 1011 (dags. 28.12.2000)

[61] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001)

[62] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001) – fundargerð 503. fundar bæjarráðs Mosfellsbæjar.

[63] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001) – Sjá minnisblað vegna fundar 13.03.2001.

[64] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001)

[65] Undirstrikun er höfundar skýrslunnar.

[66] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001)

[67] Stangast þetta á við það sem Haraldur Sverrisson segir um að hafa aldrei staðið í viðskiptum með lóðir hafi hann á einhverjum tíma verið þinglýstur eigandi að Hulduhólum ásamt móður sinni, af e.k. fasteignaréttindum. Sjá fylgiskjöl nr. 3003 (dags. 14.08.2009), nr. 1044 (dags. 23.02.2006), nr. 1043 (dags. 08.03.2005) og 4003 (dags. 26.01.2011). Síðasta fylgiskjalið kom reyndar til um 17 mánuðum eftir að hann gaf út þessa yfirlýsingu sem lesa má í fylgiskjali nr. 3003.

[68] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001) – Sjá greinargerð bæjarritara.

[69] Sjá fylgiskjöl nr. 3003 (dags. 14.08.2009)

[70] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001) – Sjá greinargerð bæjarritara.

[71] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001) – Sjá minnisblað frá viðræðufundi dags. 13. mars 2001 þar sem einn lóðarleiguhafinn amast út í notkun barna á þessu landi og umferð útivistarfólks, landi sem var skipulagt sem almennt útivistarsvæði.

[72] [innskot] eru leiðréttingar höfundar á texta sem ekki var rétt ritaður í frumtexta sem vitnað er til.

[73] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001) – Sjá greinargerð bæjarritara.

[74] Sjá fylgiskjal: 1012 (dags. 22.11.2001)

[75] Sjá fylgiskjal: 1015 (dags. 27.08.2002)

[76] Sjá fylgiskjal: 1016 (dags. 04.09.2002)

[77] Sjá fylgiskjal: 1017 (dags. 24.09.2002) – Þess getið í fundargerð að Haraldur Sverrisson hafi vikið af fundi undir dagskárlið nr. 7 er varðaði þetta mál.

[78] Sjá fylgiskjal: 1019 (dags. 22.10.2002).

[79] Sjá fylgiskjal: 1021 (dags. 20.04.2004)

[80] Sjá fylgiskjal: 1022 (dags. 23.04.2004)

[81] Sjá fylgiskjal: 1022 (dags. 23.04.2004) – sjá erindi frá lóðarleiguhöfum

[82] Undirstrikun er skýrsluhöfundar.

[83] Sjá fylgiskjal: 1023 (dags. 28.04.2004)

[84] Sjá fylgiskjal: 1024 (dags. 04.05.2005)

[85] Sjá fylgiskjal: 1026 (dags. 08.06.2004).

[86] Sjá fylgiskjal: 1027 (dags. 09.06.2004)

[87] Sjá fylgiskjal: 1028 (dags. 29.06.2004)

[88] Sjá fylgiskjal: 1029 (dags. 07.07.2004)

[89] Sjá fylgiskjal: 1030 (dags. 07.09.2004)

[90] Sjá fylgiskjal: 1031 (dags. 15.09.2004)

[91] Sjá fylgiskjal: 1032 (dags. 05.10.2004)

[92] Sjá fylgiskjal: 1033 (dags. 13.10.2004)

[93] Sjá fylgiskjal: 1034 (dags. 10.11.2004)

[94] Sjá fylgiskjal: 1036 (dags. 29.04.2005)

[95] Sjá fylgiskjal: 1035 – Bein tilvitun í erindi frá Steinunni Marteinsdóttur. Undirstrikið er skýrsluhöfundar.

[96] Sjá fylgiskjal: 1022 – Erindi sent bæjarstjórn en barst til bæjarstjórans Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og var tekið fyrir á 661. fundi bæjarráðs (dags. 23.04.2004) og þaðan sent til skipulags- og bygginganefndar til umsagnar og afgreiðslu á fundi einum (sjá fylgiskjal 1030 – dags. 07.09.2004) þar sem aðeins einn nefndarmaður greiddi verkefninu atkvæði og veitti því framgöngu því tveir aðrir, er mættu á fundinn, töldu sig vanhæfa og viku af fundi.Var málið síðan endanlega afgreitt úr nefnd (sjá fylgiskjal 1032 – dags. 05.10.2004) þrátt fyrir eðli þess og fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart Mosfellsbæ án þess að hagmunir bæjarins væru að fullu tryggðir.

[97] Afar góð viðbrögð satt best að segja þar sem aðilar vita niðurstöðu nefndarfundar sama dag og hann var haldinn, þ.e. 20.04.2004, rita erindi samdægurs og koma því til bæjarstjóra, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Hér er vísað í fylgiskjal nr. 1021 varðandi 111. fund skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar en af honum vék Haraldur Sverrisson þar sem hann taldi sig vanhæfan undir þeim dagskrárlið er afgreiddi mál er sneri að Hamrafelli.

[98] Sjá fylgiskjal: 1022 – sjá erindi dags. 20.04.2004.

[100] Sjá fylgiskjal: 4005 (dags. 20.05.2014)

[99] Sjá fylgiskjöl: 1049 (dags. 08.03.2005 – lóð A), 1047 (dags. 08.03.2005 – lóð B), 1045 (dags. 08.03.2005 – lóð C) og 1043 (dags. 08.03.2005 – lóð D).

[101] Heimild: Vefsetur Alþingis og Sambands íslenskra sveitarfélaga – www.althingi.is & www.samband.is

[102] Sjá fylgiskjal: 2009 (dags. 15.04.2005) – Steinunn Marteinsdóttir afsalar lóðarleigurétti sínum af lóð B, 21.488,8 fermetrum, til Samverndar ehf.

[103] Sjá fylgiskjal: 4004 (dags. 29.04.2005) – Deiliskipulag fyrir Hulduhóla og nágrenni.

[104] Sjá fylgiskjal: 4005 (dags. 20.05.2014)

[105] Sjá fylgiskjal: 2012 (dags. 18.09.2012) – Huldubyggð úrskurðað gjaldþrota.

[106] Sjá fylgiskjal: 1035 (dags. 21.02.2005)

[107] Sjá fylgiskjal: 1043 (dags. 08.03.2005) – lóðarleigusamningur sem byggingarfulltrúi ritar undir og Haraldur Sverrisson. Sjá einnig fylgiskjal nr. 1044 þar sem sjá að þessi sama lóð var stækkuð umtalsvert með nýjum lóðarleigusamningi 23.02.2006.

[108] Sjá vefsetur Alþingis og Sambands Íslenskra sveitarfélaga – www.althingi.is & www.samband.is

[109] Sjá fylgiskjal: 4005 (dags. 20.05.2014)

[110] Óhætt að fullyrða þetta enda er ekki annað sé að hann hafi einnig staðið að þessari beiðni enda ritar hann undir lóðaleigusamning þennan sama dag og lóðirnar voru stofnaðar, þ.e. 8. mars. 2005 (sjá fylgiskjal 1043).

[111] Sjá fylgiskjal: 1003 (dags. 21.09.1990)

[112] Sjá fylgiskjal: 4005 (dags. 20.05.2014)

[113] Sjá fylgiskjal: 2009 (dags. 15.04.2005)

[114] Sjá fylgiskjal: 2009 (dags. 15.04.2005)

[115] Sjá fylgiskjal: 1047 (dags. 08.03.2005)

[116] Sjá fylgiskjal: 1036 (dags. 29.04.2005) – Auglýsing í B-deils Stjórnartíðinda.

[117] Sjá fylgiskjal: 2009 (dags. 15.04.2005) – villur í texta látnar halda sér enda bein tilvitun í texta afsalsins.

[118] Sjá fylgiskjal 1037 (dags. 19.05.2005)

[119] Sjá fylgiskjal 1038 (dags. 26.05.2005)

[120] Sjá fylgiskjal: 1039 (dags. 17.11.2005)

[121] Sjá fylgiskjal: 1040 (dags. 30.11.2005)

[122] Sjá fylgiskjal: 2006 (dags. 05.07.2005)

[123] Sjá fylgiskjal: 2008 (dags. 28.04.2005),

[124] Sjá fylgiskjal: 2007 (dags. 29.04.2005)

[125] Ath. aðeins 11 lóðir af 12 sem féllu undir lóð B skv. skipulagi.

[126] Sjá fylgiskjal: 2008 (dags. 28.04.2005)

[127] Sjá fylgiskjal: 2010 (dags. 26.04.2005)

[128] Sjá fylgiskjal: 2010 (dags. 26.04.2005)

[129] Sjá fylgiskjöl: 2002 (dags. 30.09.2008), 2003 (dags. 15.09.2007) og 2004 (dags. 29.05.2007.

[130] Sjá fylgiskjal: 3003 (dags. 14.08.2009)

[131] Sjá fylgiskjal: 2004 (dags. 29.05.2007)

[132] Sjá fylgiskjal: 2011 (dags. 08.04.2014)

[133] Sjá fylgiskjal: 1009 (dags. 30.11.2000) – Steinunn Marteinsdóttir ritar undir.

[134] Sjá fylgiskjal: 1064 (dags. 21.09.1990) – Utan er skilin ein lóð að Hulduhólum sem var óbyggð skv. yfirlýsingu þar um frá 1990.

[135] Sjá fylgiskjal: 1043 (dags. 08.03.2005)

[136] Sjá fylgiskjal: 1039 (dags. 17.11.2005)

[137] Sjá fylgiskjal: 1041 (dags. 14.12.2005)

[138] Sjá fylgiskjal: 1042 (dags. 12.01.2006)

[139] Sjá fylgiskjal: 2006 (dags. 05.07.2005)

[140] Sjá fylgiskjal: 1042 (dags. 12.01.2006) – 756. fundur bæjarráðs og drög að samkomulagi sem samþykkt var á þeim fundi.

[141] Lóðir við Hamrafell, Hulduhóla, Láguhlíð, Brúarhól, Vinja og lóðum í miðbæ Mosfellsbæjar.

[142] Sjá fylgiskjal: 1051 (dags. 23.02.2006)

[143] Sjá fylgiskjal: 2006 (dags. 05.07.2005)

[144] Stofnskjal lóða úr landi Hamrafells – Sjá einnig fylgiskjal 1023 (dags. 28.04.2004) þar sem málefni lóðarleiguhafa Hamrafelli var frestað og einnig fylgiskjal 1022 (dags. 23.04.2004) þar sem sjá má erindi frá lóðarleiguhöfum að Hjallabrekku og Hulduhólum (dags. 20.04.2004 – er barst sama dag og mál Hamrafells hafði verið tekið fyrir varðandi deiliskipulag). Þar mótmæla lóðarleiguhafar að Hulduhólum og Hjallabrekku því að Hamrafell skuli fá að vinnast á undan þeirra landi. Þar rætt um að þau hafi verið ,,útundan“ í gerð deiliskipulags.

[145] Sjá fylgiskjal: 1043 (dags. 08.03.2005) – sjá lóðaleigusamning dags. 23.02.2006 þar sem þessi lóð er stækkuð – sjá fylgiskjal 1044.

[146] Sjá fylgiskjal: 1049 (dags. 08.03.2005)

[147] Sjá fylgiskjal: 4003 (dags. 26.01.2011)

[148] Sjá fylgiskjal: 3001 (dags. 21.05.2010)

[149] Sjá fylgiskjal: 4003 (dags. 26.01.2011)

[150] Sjá fylgiskjal: 1056 (dags. 02.03.2006)- Ath. ein lóð af 13 var lóð Steinunnar nr. 200794 sem Haraldur sonur hennar erfði – Sjá fylgiskjal: 4003 (dags. 26.01.2011)

[151] Sjá fylgiskjal: 1047 (dags. 08.03.2005)

[152] Sjá fylgiskjal: 2008 (dags. 28.04.2005)

[153] Sjá fylgiskjal: 4004 (dags. 29.04.2005)

[154] Sjá fylgiskjal: 1064 (dags. 21.09.1990)

[155] Sjá fylgiskjal: 1056 (dags. 02.03.2006) – Sjá veðflutningsskjöl Frjálsa fjárfestingarbankans.

[156] Sjá fylgiskjal: 1047 (dags. 08.03.2005)

[157] Sjá fylgiskjal: 2012 (dags. 18.09.2012)

[158] Sjá fylgiskjal: 2011 (dags. 08.04.2014)

[159] Sjá fylgiskjal: 1056 (dags. 02.03.2006)

[160] Sjá fylgiskjal: 2009 (dags. 15.04.2005)

[161] Sjá fylgiskjal: 2005 (dags. 05.07.2005)

[162] Sjá fylgiskjal: 1057 (dags. 06.04.2006)