Liðin eru 60 ár frá heimsókn David Ben-Gurion, forsætisráðherra Ísraels, til Íslands. Árið áður, 1961, heimsótti þv. utanríkisráðherra Ísraels og síðar forsætisráðherra, Golda Meir, Ísland. Á þessum tíma voru liðin um 15 ár (nú um 75 ár) frá því að Thor Thors, fh. Íslands, flutti framsögu á fundi Sameinuðu þjóðanna þess efnis að stofnað yrði Ísraelsríki. Var stofnun Ísraelsríkis samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða.
Þann 13. september 1962 lenti flugvél Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli og fjölmenni var þar mætt að kvöldi til fyrir framan flugvallarbygginguna. Forsætisráðherra Íslands, Ólafur Thors og eiginkona hans, Ingibjörg Indriðadóttir, fögnuðu komu David Ben-Gurion og eiginkonu hans Paulu Ben-Gurion sem og dóttur þeirra dr. Renanu Ben-Gurion Leshem.
Í ávarpi sínu sagði Ólafur Thors m.a.:
Með aðdáun hafa Íslendingar fylgzt með einstæðu átaki hins nýja Ísraelsríkis undir sterkri og glæsilegri forystu yðar. Íslenzku þjóðinni er vissulega mikill heiður að komu yðar.
Ólafur Thors
Réttarhöldunum yfir stríðsglæpamanninum Albert Eichman var ný lokið sama ár og aftakan afstaðin. Haft var eftir Ben-Gurion á meðan heimsókn hans stóð að engar líkur væru á að slík réttarhöld yrðu haldin á nýjan leik í Ísrael.
Í ávarpi Ben-Gurion þakkaði hann fyrir sig og þjóð sína með eftirfarandi orðum:
Innilegt þakklæti fyrir heimboð yðar til Íslands og þær vingjarnlegu móttökukveðjur sem þér nú létuð falla í okkar gerð. Okkur er ánægja að því að sækja heim land sem Ísrael hefur átt svo vinsamleg samskipti við frá því ríkið var endurreist 1948. Ég færi yður alúðarkveðjur þjóðar okkar og ríkisstjórnar.
David Ben-Gurion
Aðeins um 6 ár skildu þessa tvo merku forsætisráðherra að í aldri og var íslenski sá yngri. En um hvað var verið að tefla í alþjóðamálum á þessum tíma og fyrir margt löngu þar á undan? Mikilvægt er að halda sögunni til haga svo hún skolist ekki til.
David Ben-Gurion – Uppvöxtur frelsishetju
David Ben-Gurion var Síonisti, fæddur í Póllandi, sem þá var undir rússneskri keisarastjórn, árið 1886. Móðir hans deyr úr blóðeitrun eftir að hafa misst fóstur þegar hann er aðeins 10 ára. Hann fæðist tvíburi en bróðir hans lést skömmu eftir fæðingu. Aðeins um 14 ára stofnar hann, ásamt vinum sínum, ungliðahreyfinguna Ezra sem stuðlaði að því að kenna hebresku og stefna að því að flytja til Landsins helga. Árið 1904 flutti hann 18 ára til Varsjár og ári síðar tekur hann þátt í stjórnmálabaráttu Síonista og gerist Sósíaldemókrati í Verkamannaflokki Gyðinga þar í landi, Poalei Zion.
Um tvítugt kemurDavid Ben-Gurion fyrst til Landsins helga, þ.e. árið 1906. Hann fékk vinnu sem dagvinnumaður þar sem hann beið hvern morgun í von og óvon um að fá vinnu. Samkeppnin var hörð og þá sérstaklega fyrir gyðinga sem kepptu við þá sem fyrir voru í fleti, buðu lægra og voru meira inn í verkum þess tíma. Þá var Landið helga undir stjórn Ottóman veldisins sem ríkti á svæðinu og víðar frá 1517 til 1917.Þarna fær David Ben-Gurion heiftarlega malaríu, verður nánast hungurmorða og vart hugað líf. Hann ritar á þessum tíma bréf til Póllands, ákall þess efnis að fólk væri að deyja úr hungri undir stjórn sultansins Abulhamid II.
Upplausn í Landinu helga, óreiða og eymd
Í kjölfarið af miklu umróti og eymd stefna gyðingar sér saman í Jaffa í Landinu helga og stefna að sjálfstæðu ríki Gyðinga í þessu landi sem bar heitið Palestína. Lögð var sérstök áhersla á aðskilnað hagstjórnarkerfis Araba annars vegar og Ísraelsmanna hins vegar. Við annað yrði ekki búið enda mikil óreiða á allri stjórn efnahagsmála, undirboð og spilling sem gat ekki gengið upp til lengdar. Þarna hafði Tyrkinn Enver Pasa, einn aðal keppninautur frelsishetju Tyrkja, Kemal Atatürk, tekið við stjórnartaumunum í Ottoman veldinu eftir að keisraranum, Abulhamid II, hafði verið steypt af stóli 1909. Það var allt í upplausn í Landinu helga.
Eftir að fyrri heimstyrjöldin brýst út í desember 1914 er David Ben-Gurion búsettur í Jerúsalem og ræður um 40 gyðinga í sérstaka herdeild sem berst við hlið her Ottoman veldisins. Þrátt fyrir það var hann fluttur til Egyptalands um vorið 1915 og fer þaðan til Bandaríkjanna. Markmiðið var að safna liði sem myndi berjast við hlið Ottoman veldisins. Reyndist þetta hin mesta Bjarmalandsför. Mest náðust saman 3000 meðlimir á fund og þá helst á New York svæðinu. Málstaðurinn hlaut engann stuðning og fremur litla áheyrn. Meginmarkmiðið var að endurreisa land Gyðinga fyrir botni Miðjarðarhafsins.
Árið 1918 gerðist David Ben-Gurion hermaður í 38. herdeild (gyðingaherdeild) breska hersins sem hlaut þjálfun í Edward herstöðinni í Windsor í Nova Scotia. Síðar var hann sendur til Egyptalands og þaðan til palestínska þorpsins Sarafand al-Amar, nú innan Ísraelsríkis frá árinu 1948 en var áður bresk herstöð. Nú er ísraelska herstöðin Tzrifin IDF staðsett þar sem áður var þetta þorp og herstöð Breta.
Leiðtogi Síónista
Síonistahreyfingin, hreyfing Verkamannasíonista, klofnar eftir andlát marxistans og kennismiðs Síonista, Ber Borochov, árið 1919. David Ben-Gurion og vinur hans og félagi, Berl Katznelson, höfðu leitt miðjuhreyfingu þessa verkamannahreyfingar. Þeir töldu sig til hófsamari Síonista og klufu sig frá og stofnunuðu Ahdut HaAvoda með David Ben-Gurion sem leiðtoga. Á þessum tíma lýtur Palestína stjórn Breta í umboði Þjóðarbandalagsins, forvera Sameinuðu þjóðanna. Ahdut HaAvoda er ein af þeim stjórnmálasamtökum sem síðar runnu saman í ísraelska Verkamannaflokkinn.
Uppreisn Palestínuaraba
Á árunum 1936 til 1939 hófu Palestínuarabar uppreisnir gegn breskri stjórn á svæðinu og árásir á gyðingabyggðir innan Palestínu sem var undir stjórn Breta í umboði Þjóðarbandalagsins, forvera Sameinuðu þjóðanna. Ottóman veldið hafði liðið undir lok og nutu arabar á svæðinu augljóslega ekki lengur e.k. verndar úr þeirri átt. Mótaði David Ben-Gurion og Síonistar í kjölfarið, þ.e. árið 1920, stefnuna er bar yfirskriftina Aðhaldið (h. Hahavlagah) sem gyðingaherdeildin Haganah, forveri ísraelska varðliðsins í dag, tók upp og fylgdi allt til 1948. Markmiðið var að standa vörð um byggðir gyðinga og tryggja öryggi. Að öðrum kosti var ekki hægt að byggja upp eftir stríðið, þróa landið, stunda og skapa vinnu, verslun og viðskipti.
Á þessum tíma hafði gyðingum í Palestínu fjölgað á tímum Breta þar úr því að vera 57.000 í 320.000 árið 1935. Gyðingar höfðu keypt mikið land og höfðu það að markmiði að stofna ríki gyðinga á svæðinu, rækta þar upp land og lýð. Endurreisn lands gyðinga var í býgerð. Reyndar höfðu átök á milli araba og gyðinga verið tíð frá árinu 1920. Morð á tveimur gyðingum á þessum tíma stigmagnaði þessi átök. Sá neisti varð til að gyðingar myrtu tvo palestínska verkamenn og síðan hafa átök verið á víxl allt til dagsins í dag.
David Ben-Gurion taldi ótta Araba helst beinast að vexti og velgengni gyðinga á efnahagslega sviðinu mun fremur en að óttinn stafaði af fjölgun gyðinga á svæðinu og tilvist Síonista sem Bretar virtust vera hliðhollir gagnvart.
Heimsókn í hús frelsishetjunnar
Hús David-Ben Gurion og Paulu Ben-Gurion er númer 17 við David Ben-Gurion breiðgötuna í Tel Aviv í Ísrael. Þetta er tveggja hæða stílhreint hús, ekki ósvipað Funki stíl þeim sem Ólafur Thors fór eftir við byggingu eigin íbúðarhúss við Garðastræti 41 í Reykjavík árið 1930. Óhætt er að segja að íburðurinn hafi ekki truflað þau hjónin í Tel Aviv en þarna bjuggu þau frá 1931 til ársins 1973.
Greinarhöfundur kom við nú á haustdögum og sá að Ísraelsmenn vernda vel þá muni og þau verk sem þeirra fyrsti forsætisráðherra skildi eftir sig. Á fyrstu hæð er eldhúsið með gamallri Kitchenaid hrærivél og hefðbundnum svörtum skífusíma. Innréttingar innbyggðar í stíl við þær sem ég man eftir í ibúðum við Hringbraut í Reykjavík. Ljósblár litur, hógværð í efnisvali og fjölskylduvænt eldhúsið minnti mig þó helst á eldhúsið hennar ömmu í Austurhlíð. Þar var reyndar ekki skífusími fyrr en sjálfvirki síminn kom.
Sá ég að rúmin voru ekki tvíbreið heldur einbreið og innti ég safnstjórann eftir því hverju sætti. Kom í ljós að Renana, dóttirin, svaf á 1. hæð og hjónin í sitthvoru rúminu í sitthvoru herberginu á 2. hæð. Bókasafnið á 2. hæð er eitthvað sem maður gleymir ekki. Þétt og yfirgripsmikið safnið er skreytt gjöfum héðan og þaðan. Gjafir frá þjóðarleiðtogum um heim allan mátti sjá um allt hús og lýsir það þeirri virðingu sem margar þjóðir og þjóðhöfðingjar heims sýndu og sýna enn þessu nýstofnaða ríki gyðinga.
Orð og efndir
Eftir þessa heimsókn standa þó eftir áleitnar setningar sem taka mátti innrammaðar þegar gengið var um þetta stílhreina hús. Þetta eru áhrifamiklar tilvitnanir í orð David Ben-Gurion sem verðugt er hverju smáríki að hafa í huga þegar kemur að því að standa vörð um sjálfstæði þess. Hér koma þýðingar af því sem bar fyrir augun.
Í aldir hafa gyðingar spurt þess í bænum sínum: Mun einhverntíma verða til ríki fyrir þjóðina? Enginn hafði nokkrun tíma ímyndað sér þessa ógnvekjandi spurningu: Mun vera til þjóð fyrir ríkið verði til þess stofnað?
David Ben-Gurion
Enginn einn einstaklingur ákveður örlög ríkis og þjóðar þess. Það er enginn einstaklingur ómissandi. Örög ríkis er háð þjóðinni, karakter hennar, getu, hæfileikum hennar, sjálfstrausti, hennar persónulegu og almennu ábyrgð.
David Ben-Gurion
Það er ekki að ástæðulausu að þessi orð spretta fram hjá baráttumanni eins og David Ben-Gurion og mynda þessar setningar. Við Íslendingar getum í mörgu nú lært af Ísraelsmönnum ef ætlunin er á annað borð að vernda þjóðareinkenni okkar, tungu, menningu og sál. Verði það ekki gert verður ekki aftur snúið og hugsanlega orðið of seint.
David Ben-Gurion starfaði sem forsætisráðherra frá endurreisn Ísraelsríkis 1948 til ársins 1954 og 1955 til 1963. Hann lést 1. desember 1973 og skilur eftir sig merka arfleifð. Rétt er að líta til þessarar sögu og baráttu nú á tímum mikilla fólksflutninga þar sem þjóðir verða að standa í fæturna hvað sín eigin málefni varðar, sjálfstæði, tungu og menningu. Það verður ekki auðvelt en auðveldast er að gera ekki nokkurn skapaðan hlut, láta reka á reiðanum og glata því sem áunnist hefur, sjálstæðinu og þannig þjóðinni.
Í Ísraelsríki munu gyðingar ekki hafa nokkur einustu réttindi sem aröbum er neitað um.
David Ben-Gurion
Efni þessarar greinar birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. desember 2022. Hana má nálgast hér.