Fyrsta vatnsveitan í Austurhlíð úr lindum vestan Sölvagils


Ástæða þessa pistils er sú að nokkra sumardaga árið 2018 stóðu þeir nágrannarnir, Magnús Kristinsson bóndi í Austurhlíð og Sigurður Óskarsson bústaðabóndi í Diddukoti (sumarhús Eyglóar frá Austurhlíð), að viðgerð og endurbótum á þessari vatnsveitu. Í ljós kom að við samskeyti undir Diddukoti hafði safnast tappi úr vatnsgróðri og sandi sem lokaði leiðslunni. Þetta hafði aðeins einu sinni áður gerst í tæplega 70 ára sögu veitunnar og þá við inntak á brunni vestan og ofan við Austurhlíðarbæinn. Forsenda fyrir því að lagfæringar tókust 2018 voru að óskráð þekking var enn fyrir hendi á legu vatnslagnarinnar.

Magnús Kristinsson og Rósa Paulsen í Austurhlíð, Biskupstungum, Bláskógarbyggð
Magnús Kristinsson og Rósa Paulsen í Austurhlíð, Biskupstungum, Bláskógabyggð

Um miðja tuttugustu öldina (1963?) þegar bræðurnir Kristinn og Hárlaugur Ingvarssynir höfðu nýverið hafið búskap á Austurhlíðarjörðinni hófust þeir handa við að leggja nýja vatnslögn að bænum úr lind í brekkum vestan Sölvagils.

Lindin er staðsett u.þ.b. 200 metrum vestan og ofan þess staðar þar sem forn fjár- og kúabraut liggur yfir gilið. Efni vatnslagnarinnar er 32 mm plaströr sem framleitt var þá á Reykjalundi. Mágarnir, Björn í Úthlíð og Greypur á Geysi, grófu fyrir leiðslunni á lítilli traktorsgröfu sem þeir höfðu þá nýlega fest kaup á. Þess má geta að bæði plaströr og traktorsgröfur voru nýjung á þessum árum.

Á haustdögum árið 2019 hittust þeir Magnús og Sigurður aftur á ný og nú við yfirferð og könnun á ástandi leiðslunnar. Hafði þá Magnús á því orð að líklega væru þeir tveir nágrannarnir einu manneskjunnar ofar moldu sem þekktu þessa vatnsveitu, legu hennar um landið og sögu hennar. Sú þekking gæti skipt máli fyrir síðari kynslóðir vatnsnotenda úr þessari leiðslu, því síðustu tvo áratugina hefur heilt ,,kraðak“ vatnslagna verið lagðar um svæðið en flestar að vísu í víðari leiðslum og úr öðrum nálægum lindum.

Labbað með lögninni

Við hefjum för okkar upp með lögninni neðan frá brunninum sem staðsettur er nokkrum tugum metra ofan við hús Magnúsar í Austurhlíð og kynnumst því sem fyrir bar. Brunnurinn er endastöð þessarar vatnslagnar sem um ræðir og í hann rennur, án mótsstöðu, allt vatn úr lögninni og síðan um yfirfall í skurð, það sem ekki fer inn á leiðslur hússins Austurhlíð 1 og útihúsa. Við höldum í SV inn á Flatirnar í átt að Diddukoti. U.þ.b. 10 metrum innan við austur girðingu Diddukots og 20 metrum ofan suður girðingarinnar er staðsett tengitunna með áskrúfuðum hlemm. Þar er 32 mm höfuðkrani á aðalleiðslunni en einnig 25 mm affalls- og öryggiskrani. Höfuðkraninn er af eðlilegum ástæðum ævinlega fullopinn en affalskraninn lokaður. Nokkrum tugum metra vestar í SA kverk hússins Diddukots, undir niðurskrúfuðum hlemm á austurpalli, er annar 32 mm höfuðkrani og 20 mm inntakskrani fyrir Diddukot. Þessi tengi eru undir einangrun og niður að þeim liggur traustur stigi. Framangreind tengitunna og mannvirki undir pallinum eru ný frá 2018.

Við höldum í VNV á Bringurnar vestur af Diddukoti og þræðum gamlar fjár- og kúagötur. Eftir um 500 metra (skammt vestan og nokkru neðar við bústað Elínar og Garðars) komum við að lægð þar sem vatnslögnin er sýnileg og á henni renniloki. (Laust fyrir miðjan september haustið 2019 skeði það slys að einhver óviðkomandi hafði skrúfað fyrir þennan loka svo vatnslaust varð í Diddukoti og hjá brunnnotendum í Austurhlíð. Eftir þetta atvik eru uppi áform um að torvelda aðkomu óviðkomandi að þessum loka).

Og áfram er haldið í átt að Sölvagili. Sunnan undir barði yfir djúpri laut efst á Bringunum, u.þ.b. 100 metrum austan við hliðið og girðinguna austan Sölvagils, er aðgengilegt tengi á leiðslunni. (Þarna var fyrrum úttak fyrir vatn búpenings frá Hlíðartúni).

Og svo er farið yfir Sölvagilið og þræddar sem fyrr gamlar fjár- og kúagötur. Yfir gilbotnin á vaðinu liggur götótt, ókunnugt 25 mm plaströr. Nokkrum tugum metra neðan við vaðið má sjá margar plastlagnir sem liggja þvert yfir gilið og sumar vandlega innbyggðar í einhverskonar gálgamúnderingu. Ein þessara lagna (og líklega sú eina 32 mm) er lögnin okkar sem hér um ræðir og í brekkunni vestanmegin er samsetning á henni. (Þar hefur þurft a.m.k. einhverju sinni að opna vegna lofttappa í gilinu og þá var jafnhliða losað um tengið efst á Bringunum.). Frá vaðinu á Sölvagili er haldið NNV yfir mýrardrag og upp á hjalla og þaðan u.þ.b. 150 metra að inntaki og lind – á Hellisholti.

Lindin

Og þá er komið að lindinnni okkar og leiðarlokum. Uppspretta lindarinnar er í grýttri skálaga dæld og niður frá henni hefur lindarvatnið með árunum grafið sig niður í skorning, Rjúpnagjá. Fyrir u.þ.b. áratug (líklega fram til 2010) var ein tunna grafin niður í dældina og úr henni lá vatnslögnin. Einhvern vegin hafði lindarvatnið í árana rás færst niður frá tunnunni og runnið framhjá henni svo hún náði ekki að safna vatni sem inntak fyrir vatnslögnnina. Þá var sett upp ný tunna nokkrum metrum neðar efst í Rjúpnagjánna og neðst í dældinni. Leidd var lögn úr eldri og efri tunnunni beint inn í nýju tunnuna. Nýja tunnan var alsett götum á þeirri hlið sem snéri upp að lindinni og síðan byggt upp að henni milli bakka beggja vegna og yfirfall sett til hliðar. Þannig tókst að safna því vatni sem framhjá fyrri tunnunni hafði leitað. Nokkuð hefur borið á því að frost og vetrarríki hafi riðlað ,,vatnsgörðunum“ við hina nýju tunnu og því þurfti á u.þ.b. tveggja ára fresti að þétta þá og lagfæra. Tiltölulega auðvelt er þó að laga þetta varanlega með betri hliðarvörnum við tunnuna og jafnvel að færa hana aðeins neðar í rásina þaar sem hún er þrengri.

Eftirmálar

Þegar nýja tunnan var sett upp voru til kallaðar þrjár Austurhlíðarsystur, þ.e. húsfreyjurnar í Austurhlíð 1, Hlíðartúni og Diddukoti. Undir, að því er saga þeirra segir, harðri og óbilgjarnri verkstjórn báru þær að stíflunni grjót sem þær tíndu vítt og breytt allt frá Káragili, ,,örþreyttar og útjaskaðar.“.

Þess ber að geta að vatnsveita þessi er ekki sú fyrsta við Austurhlíðarbæinn því á fyrri hluta 20. aldarinnar hafði Guðmundur Magnússon bóndi (faðir Eyglóar og afi Magnúsar) virkjað bæjarlækinn með s.k. vatnshrút. En eins og fyrr er getið er hér fjallað um fyrstu vatnsveituna úr lindum vestan Sölvagils.

Um þessa fræknu framkvæmt var svo samin bragur sem nálgast má hér.

Upplýsing

Reykjalundarleiðslan í þessari vatnsveitu er sem fyrr segir 32 mm. Hún er mun þykkri og efnismeiri en jafn víðar plastleiðslur síðari tíma. Hefur hún hvergi látið á sjá á þessum 70 árum. Gæta þarf þess að þegar þessi lögn er tengd saman þá þarf að saga úr hólkum sem slegnir eru inn í leiðsluna. Ástæðan er sú að leiðslan er, eins og fyrr segir, mun efnismeiri og þykkri en leiðslur nútímans með sömu víddarmælingu.