Hinn bíllausi lífstíll


Hver vill ekki njóta náttúrunnar? Hver vill ekki geta átt meiri frítíma með fjölskyldunni? Hver vill ekki lágmarka tafir þegar mikið liggur við?

Í lögum samtaka um bíllausan lífstíl segir í 1.2. grein þeirra samtaka:

Samtök um bíllausan lífsstíl er þverpólitískt félag fólks sem hefur það sameiginlega áhugamál að gera bíllausan lífsstíl að vænlegri kosti en nú er. Markmið félagsins er ekki að berjast gegn einkabílum eða bíleigendum, heldur einungis að stuðla að fjölbreyttari samgöngum og berjast fyrir því að jafnræðis sé gætt milli ólíkra samgöngukosta.

Þetta er áhugaverð nálgun samtaka sem vilja ekki ,,berjast gegn einkabílnum eða bíleigendum“ en leggja engu að síður áherslu á að ekki eigi að nota slík farartæki. Er þetta þá e.k. tvíhyggja? Nú styðja ófáir félagar þessara samtaka einmitt stefnu um að lagðir séu steinar víða í götu bíleigenda. Þeir styðja umtalsverða lækkun á umferðarhraða, þrengingu gatna og að dregið sé þannig úr afköstum vegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu.

Þann 24. september 2020, rétt í upphafi annarrar bylgju COVID-19 smita á Íslandi, ákváðu samtökin um bíllausan lífsstíl á Íslandi að efna til aðalfundar og skipta um stjórn.

Úrklippa af fésbókarsíðu samtakanna um bíllausan lífstíl – Aðalfundur 24. september 2020

Á fundinn mætti forsvarsmaður verkefnastofu Borgarlínu, Hrafnkell Ásólfur Proppé skipulagsfræðingur. Bryndís Haraldssdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fagnaði nýrri stjórn samtaka sem leggur til að að hún leggi jeppanum og taki Strætó.

Borgarlínur og góðar almenningssamgöngur eru mikilvægar en þarf allt þetta ofstæki í umræðuna? Er ekki í lagi að gæta að hag skattborgara svo vel verði farið með opinbera fjármuni? Það þarf að gæta að því að slíkar línur gæti að samgöngum fyrir alla. Til að leggja áherslu á samgöngur fyrir alla hafa verið stofnuð samtök. Hér má finna vefslóð þeirra samtaka: Áhugafólk um samgöngur fyrir alla.

Fjárfesting á hjólum

Staðfestar fregnir herma að 14 dögum eftir aðalfund samtakanna um bíllausa lífstílinn hafi hinn nýkjörni formaður samtakanna fjárfest í bíl. Það staðfesti formaðurinn sjálfur og einnig formaður framkvæmdastjórnar Pírata sem er víst fjárfestir í þessum bíl formannsins. Svo virðist sem verðlaunafé úr samkeppni á vegum Arion banka hafi riðið þarna baggamuninn.

Það er fagnaðarefni að banki geti glatt ungt fólk og stuðlað að frumkvöðlastarfi með fjárframlögum og margvíslegum verkefnum. Sama má segja um áhuga á drefingu rafskutlna um víðan völl þessi dægrin. Betri almenningssamgöngur eru ekki síður mikilvægar og má þar m.a. nefna BRT-Lite en ekki þunga borgarlínu eins og boðuð er. Útreiðar, hjólreiðar og aðrar samgöngur, bæði á sjó og landi, skipta einnig miklu enda varða samgöngur mikið til frelsi, frelsi til athafna.

Öll ný tækni ætti að gleðja börnin og þá sem vilja helst ekki ganga eða geta það ekki, t.a.m. sökum fötlunar eða flutninga á búnaði sem verður að fylgja með, t.a.m. til vinnu. Þrátt fyrir nýjungar og þrengingar, sem ekki stuðla endilega að frelsi, gæti hyggið ungt fólk engu að síður fjárfest í bifreið til að auka frelsi sitt og komist þannig lengra, t.d. út í sveit. Slíkt er og verður greinilega áfram bráðnauðsynlegt.

Skiptir því greinilega litlu hvort viðkomandi sé fulltrúi FÍB eða formaður samtaka um bíllausan lífsstíl, við þurfum á einkabílnum að halda.

Vinninghafarnir fjárfestu í bifreið

Þetta er fögur sýn á frelsið. Það skiptir litlu hvað ráðandi stjórnvöld reyna og berjast fyrir því að setja hömlur á fólk, skerða frelsið. Fólk mun ávallt leita leiða til að auka frelsið sitt. Það eru hins vegar til þeir sem vilja njóta frelsisins en koma böndum á aðra. Þarna geta vissulega legið að baki hefðbundin eiginhagsmunapólitík sem byggir á því að til að geta aukið eigið frelsi verði að koma böndum á frelsi annarra.

Unga fólkið flest þekkir vel hvað felst í frelsi.

Hvað er frelsi? Krafturinn til að lifa eins og maður vill.

Marcus Tullius Cicero

Leyndardómur heimsborgara með augum afdalastráks.


Á árunum undir og eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar var það í tísku meðal góðborgara höfuðstaðarins að stunda fjallferðir. Hvítasunnuhelgin var sérstaklega vinsæl til útivistar og jöklaferða enda þá ekki þiðnað af jökulsprungum og tíðarfarið orðið hentugt til tjaldvistar.

Vorið 1945 var sögumaður sjö ára gamall og beið ævinlega spenntur eftir hvítasunnunni en þá fylltist dalurinn hans undir suðurhlíðum Eyjafjalla af tjöldum. Mest áberandi voru tjaldbúðir ungmennafélaga úr Reykjavík, sem risu á grundunum milli Lambafells- og Raufarfellsfjalls, en minni einangraðir hópar fengu tjaldstæði á Hlaupinu innan við heimatúnið og við Bakkanum neðan við bæinn. Bakkinn var allar hvítasunnuhelgar frátekinn fyrir ákveðinn, lítinn hóp vaskra jökulfara sem gengu á Goðastein. Einn meðlimur þessa hóps var vörpulegur, ókvæntur, verslunarmaður úr höfuðstaðnum og þekktastur fyrir að vera bróðir eins virtasta tónskálds og tónlistarmanns þjóðarinnar. Við skulum kalla hann Brúnólf í þessari frásögn. Enda mætti hann alltaf brúnklæddur í þessar fjallferðir og eftir nýjustu Evróputísku þessa tíma. Sannur heimsborgari.

Brúnólfur
Brúnólfur

Gestur í Stofunni

Og það brást ekki að þegar strákurinn kíkti út um baðstofugluggann snemma á laugardagsmorguninn, daginn fyrir hvítasunnu, var Grændalurinn þakinn, rútum og tjöldum og nokkur tjöld einnig komin upp neðan við Bakkann og inni á Hlaupinu. Hann vissi þá jafnframt að hann átti ekki að vera með skark í bæjargöngunum framan við stofudyrnar því Brúnólfur varð að fá að sofa frameftir eins lengi og hann kærði sig um. Brúnólfur tilheyrði hópnum sem tjaldaði á Bakkanum, en hann gisti sjálfur ævinlega í stofunni á bænum hans. Þessi tilhögun var greinilega skipulögð með góðum fyrirvara því stofan var alltaf undirbúin sérstaklega fyrir þessa gistingu. Hvunndags- stofusóffinn var fjarlægður og sett saman sérstakt langt rúmstæði, sem sótt var upp á háaloft, en Brúnólfur var hávaxnari en venjulegir menn. Þá var komið fyrir í stofunni þvottaskál og stórri, blárri emeleraðri vatnskönnu svo gesturinn gæti þvegið sér og rakað sig fyrir framan stofuspegilinn. Þennan tiltekna laugardagsmorgun læddist strákurinn því fram bæjargöngin á sokkaleistunum. Út með dyrakarminum á stofunni angaði framandi kaupstaðalykt og með smá hlustunartilfæringum gat hann heyrt að gesturinn hraut. Hann fór, aldrei þessu vant, í gúmmískóna sína úti á stéttinni og flýtti sér út í fjós til foreldranna sem voru þar við morgunmjaltirnar. Hann var sjö ára, bráðum átta og vildi nú ýmislegt vita um þennan framandi gest sem svaf í langa rúminu, þvoði sér upp úr skál, lyktaði eins og kerlingarnar í Hólakirkju, en hraut samt eins og annað fólk þegar hann svaf. Hann komst varla inn úr fjósdyrunum þegar spurningaflóðið hófst utarlega í flórnum.

Mamma af hverju sefur hann Brúnólfur ekki í tjöldunum eins og hinir kallarnir í hópnum hans? Af hverju er svona vellyktandi út úr stofunni? Af hverju fær hann að sofa út þegar allir eru komnir á lappir í bænum?

Foreldrarnir létu sér hvergi bregða þar sem þau sátu á mjaltakollunum.

O-jæja væni minn vertu ekki svona spurull. Honum Brúnólfi finnst ekki gott að sofa í svefnpoka í tjaldi, svo ber hann á sig rakspíra þegar hann hefur rakað sig, hann er líka elstur í hópnum og þarf að hvíla sig vel.

En strákurinn hélt áfram og vildi vita meira.

Af hverju er hann elstur í hópnum og af hverju étur hann ekki nesti úr dósum frá sjálfum sér eins og hinir? Amma er búin að hræra fulla skyrskál og bað mig að minna þig á að fleyta ofanaf fyrir hann.

En líklega hef hann gengið of langt í forvitninni því pabbinn blandaði sér í umræðuna.

Siggi minn! við ræðum ekki um gestina okkar. Hann Brúnólfur er sómamaður, svolítið sérstakur, bráðskemmtilegur en kanski smávegis hátíðlegur og spéhræddur og ég fyrirbýð þér að hlæja að honum. Og svo ekki orð utanbæjar um gestinn okkar.

Þar með var málið útrætt. Samt vissi hann ekki almennilega hvað það var að vera spéhræddur og flýtti sér því aftur inn í bæ til að fá nánari skýringar hjá ömmunni. Hátíðlegur taldi hann víst að væri eins og fólk hagaði sér í kirkju.

Hvað er að vera spéhræddur amma?

Já væni minn það er nú aðallega svona þegar menn eru viðkvæmir fyrir hvað öðrum finnst um þá og þola t.d. alls ekki að gert sé að þeim grín eða hlegið að þeim.

Má ég þá ekki herma eftir honum?

Spurði strákurinn.

Þú átt nú sossum ekki að herma eftir neinum garmurinn

sagði amma hans.

En má ég þá ekki uppnefna hann eða segja að hann sé líkur einhverri hænunni í hænsnakofanum?

Spurði hann vondaufur.

Okkur líkar ekki væni minn að þú sért að bulla um fólk, uppnefna það og herma eftir.

Sagði amman snúðug.

Þið mamma hlógu nú samt báðar þegar þið hélduð að ég sæi ekki til ykkar, eftir að ég fullyrti að bæklaða hænan sem lenti undir kofahurðinni væri alveg eins og hún Sigga gamla.

Sagði hann galvaskur. Þá snéri gamla konan sér að eldavélinni, skaraði í, sussaði honum burtu og hann hefði geta svarið að hún brosti í kampinn.

Herbergi að Seljavöllum
Herbergi að Seljavöllum

Leyndarmálið af hverju Brúnólfur gisti inni í bæ

Morguninn var lengi að líða meðan strákurinn beið eftir að gesturinn í stofunni vaknaði, klæddi sig og kæmi á stjá. Þá hugsaði hann með sér að best væri bara að rölta niður á Bakka og forvitnast þar meir um spéhrædda gestinn í langa rúminu. Honum var að venju tekið kostum og kynjum í tjaldbúðunum á Bakkanum. Þarna voru u.þ.b. tíu tólf galvaskir strákar, nýskriðnir upp úr svefnpokunum og byrjaðir að pumpa prímusana. Strákurinn var kotroskinn eins og ófeimnum afdalastrákum er tamt og tjaldbúar höfðu gaman af grobbinu í honum. Spurðu hann um laugina, hvort eitthvað væri um gjafvaxta stelpur á næstu bæjum og hve margar beljur væru á bænum. Hann svaraði eftir bestu getu þótt hann vissi ekki hvað gjafvaxta var. Jók í og taldi bæði kálfa og tudda með kýreign foreldranna og nefndi með nafni alla næstu bæi þar sem heima áttu ógiftar stúlkur og taldi þá ógiftar kerlingar með allt upp í áttrætt. Þegar um hægðist spurði hann sjálfur yfir hópinn.

Af hverju sefur hann Brúnólfur ekki í tjaldi hérna eins og þið?

Honum fannst sem að umræðubann föðursins um gestinn ætti ekki við í hópi gestins sjálfs eða í túnfætinum á bænum. Það kom hik á hópinn, spurningin greinilega óvænt og eftir smá augnagotur svaraði fyrirliðinn.

Hann Brúnólfur gistir alltaf á næsta bæ þegar við förum saman í fjallferðir, hann kann nefnilega ekki að kúka á hækjum sér.

Þá vissi hann það, Brúnólfur gisti inni í rúmi á bæ með þokkalegan kamar vegan þess að hann kunni ekki að kúka úti. En honum fannst þetta ekki nóg.

Hvað gerir hann þá uppi á heiði eða uppi á jökli á morgun ef honum verður illt í maganum?

Aftur drógst með svarið sem þó að lokum kom eins og fyrr frá fyrirliðanum.

Við gröfum bara holu fyrir hann og röðum þrem steinum kring um holuna, en hættu svo að spyrja um þetta strákur.

Svo rétti talsmaðurinn stráknum tíkall og lítinn mjólkurbrúsa og bað hann að sækja mjólk heim á bæinn. Og þar sem strákurinn taldi sig nú, eftir ráðningu sína sem mjólkurpóst, vera orðinn nánast einn úr hópi tjaldbúa ætti hann fulla heimild til að vita fleira sem hann var forvitinn um.

Hann Brúnólfur getur nú notað kamarinn heima þó hann sofi hér í tjaldi eins og þið gerið?

Honum er líka illa við að hátta í köldu tjaldi, honum finnst hart að liggja á hörðum tjaldbotni og honum finnst betra að raka sig inni í húsi en utan við tjaldskör og þegiðu svo strákur og sæktu mjólkina.

Með það fór hann heim eftir mjólkinni þó mörgum óspurðum spurningum væri ósvarað um Brúnólf. Af hverju hann æti bara með fólkinu á bænum en ekki prímusmat úr dósum og drykki gosdrykki með ásamt tjaldfélögum sínum. Af hverju hann fengi nestið sitt útbúið á bænum, rúgbrauð og flatkökur með miklu sméri og kæfu og stóra mjólkurflösku. Hann spurði auðvitað að þessu öllu þegar hann kom til baka með mjólkina á tjaldstaðinn, ákveðin í að afhenda ekki mjólkurbrúsann fyrr en svör hefðu fengist. En fyrirliðinn lét sig ekki og sagði nú hálfhlægjandi en ákveðinn.

Nú steinþegir þú strákur eða ég segi honum pabba þínum af bullinu í þér.

Þá þorði strákurinn ekki annað en bakka, afhenti brúsann þegjandi og rölti til baka upp túnið.

Gesturinn kunni ekki að meta súrheyslykt

Brúnólfur var vaknaður, komin á fætur og búin að raka sig svo glansaði á bústnar kinnarnar. Hann angaði af vellyktandi, sem fólk kallar víst rakspíra fyrir sunnan. Þessi stóri maður í brúnni fínprjónaðri peysu varð að beygja sig í hverju dyragati. Hann var í brúnum einskonar reiðbuxum sem náðu rétt niður á fótleggi og enduðu þar í mjóum hólk. Neðanfrá var hann í gljáandi brúnum, háreimuðum fjallgönguklossum og ljósbrúnum sokkum sem náðu hátt upp á fótleggina utan yfir buxnahólkana. Á handleggnum hélt hann á brúnan stormjakka úr leðri, fóðraðan með einhverju mjúku og áfasta loðna hettu. Í vösunum glitti á þykka leðurhanska. Stráknum fannst þessi manneskja stórkostlegt fyrirbæri en það vantaði næstum því á hann hökuna. Röddin hans var dimm og djúp og hláturinn skrítinn eins og þessi hljóð öll kæm ekki úr munninum eða hálsinum heldur neðan úr maga. Strákurinn sat við eldhúsborðið hjá ömmu sinni og var að éta morgungrautinn sinn en gamla konan setti skyr og nýfleyttan rjóma fyrir gestinn. Brúnólfur talaði lengi bara við ömmuna en ekkert við strákinn. Hann borðaði skyrið sitt hægt og rólega, tók lítið í skeiðina í einu, hélt henni pent og litli fingurinn á hægri hendinni stóð þráðbeinn út í loftið. Það hafði strákurinn aldrei séð, langaði til að hlæja en þorði það ekki. Hann talaði heilmikið um veðrið, jökulinn, síðustu jöklaferðirnar sínar á aðra jökla og um fólk sem þau bæði þekktu fyrir sunnan amman og hann. Hann talaði ekki með matinn uppi í sér heldur stoppaði átið meðan hann talaði og hló svo á milli svo glumdi í eldhúsinu. Svo kom þó að lokum að hann beinti orðum sínum yfir borðið og spurði strákinn hvað hann væri gamall, hvort hann hjálpaði ekki foreldrum sínum við gegningarnar og eitthvað fleira sem stráknum fannst ekkert merkilegt.

Ég moka stundum flórinn og skríð inn í súrheysgryfju og leysi þar fyrir pabba.

Svaraði strákurinn, en heyrði fljótlega að gesturinn vissi ekkert hvað súrhey var eða hvað það var að leysa.

Ert þú að meina votheysgryfju?

Spurði gesturinn.

Sú agalegasta lykt sem ég veit um er af þessu votheyi.

Sagði gesturinn.

Það er ekkert vond lykt af súrheyinu okkar.

Sagði strákurinn móðgaður og stakk upp á því að gesturinn kæmi bara með sér og finndi sjálfur. Við þessa tillögu rak Brúnólfur langt nefið beint upp í loftið svo hálsinn á honum náði alveg yfir munn og allt upp að nefi, en svaraði engu. Stráknum sem fannst að þrátt fyrir ítrekaðar eftirgrennslanir hefði hann ekki fengið fullnægjandi svör við útúrboru Brúnólfs frá hópnum sínum á Bakkanum og ákvað bara að ganga hreint til verks við þann sem svörin ætti að kunna. Þegar amman brá sér niður í kjallarann notaði hann tækifærið og spurði.

Af hverju sefur þú ekki í tjöldunum eins og hinir í hópnum þínum og er það satt að þú kunnir ekki að kúka úti?

Skyrskeiðin, sem var á leið framhjá löngum hálsinum upp í munninn á gestinum, stoppaði á miðri leið og stífi litli fingurinn hvarf inn í lófann. Strákurinn hafði aldrei beðið eins lengi eftir nokkru svari. Það barst heldur ekki því að amman kom upp úr kjallaranum í sama mund og strákurinn ætlaði að fara að hvá, eins og hann var vanur ef hann fékk ekki svör strax við sínum mörgu spursmálum. Hann hætti við það og gesturinn hætti við að svara hafi hann á annað borð ætlað sér það. Hann lauk við skyrið sitt þakkaði ömmunni innilega fyrir og strauk blíðlega um kollinn á stráknum þegar hann stóð upp, beygði sig í dyragættinni og gekk út bæjargöngin. Þegar Brúnólfur var farinn til félaga sinna niðri á Bakkanum til að funda og skipuleggja jökulgönguna næsta dag vogaði strákurinn sér að opna rifu á stofudyrunum og kíkja þar inn. Risastór leðurtaska með veglegum ólum stóð á gólfinu við rúmgaflinn og á hillunni neðan við spegilinn voru raktæki og einhverjar smákrúsir. Stofan angaði öll af vellyktinni sem fólk kallaði rakspíra. “Vertu ekki að snuðra þarna í gættinni heillin mín,” sagði amman, sem átti leið framhjá inn í Gamleldhúsgöngin. “Meðan gestir dvelja í þessu herbergi eiga engir aðrir að koma þar inn nema sá sem býr um og þrífur.” Þá vissi hann það, hallaði aftur hurðinni og dró sig út á stéttina. Hann var enn úrillur yfir því að Brúnólfur teldi sjálfgefið að lyktin af súrheyinu heima hjá honum væri agaleg.

Hvítasunnudagurinn fram á kvöld árið 1945

Jöklafararnir voru löngu horfnir á braut þegar strákurinn vaknaði á hvítasunnumorgninum. Tjöldin á Bakkanum voru harðreimuð aftur, stofan á bænum var líka mannlaus og skíðin horfin af þakgrindum bílanna. Sólin skein í heiði og það var eins og þessi hvítasunnudagur stráksins á bænum yrði dæmdur til að verða óendanlegur. Hvernig gengi nú strákunum og Brúnólfi jökulgangan og hvernær mætti búast við að sjá þá koma niður heiðina og fram á brúnirnar ofan við bæinn? Hvernig færi nú ef Brúnólfi yrði illt í maganum á leiðinni? Ætli þeir hafi munað að taka með sér skóflu til þess að grafa fyrir hann holu ef svo færi? Honum var allt í einu annt um Brúnólf svona með sjálfum sér. Hann var jú eldri en hinir, hálfgerður kall og sá eini sem ekki skammaði hann fyrir hvað hann var spurull. Samt fór ekki úr honum ergelsið yfir súrheyslyktinni. Hann ákvað að þegar Björgúlfur kæmi til baka myndi hann skríða inn í súrheysgryfjuna og ná í tuggu handa honum til að þefa af. Hann vissi af reynslu fyrri vora að jöklafararnir færi beint í sundlaugina, tæku þar kalda sturtu og sundsprett til þess að ná úr sér harðsperrunum. Honum var líka falið það ábyrgðarstarf að fara með sundfötin þeirra inn í laugina án tafar þegar þeir birtust á neðstu brúnum, en þau voru frágengin í stórum bakpoka á stofugólfinu. Hann hafði ofanaf fyrir sér með venjulegum hætti fram eftir deginum við að stríða hundinum, leita að eggjum, elta pabbann í fjárhúsið og veita í læknum. Þegar klukkan var orðin fimm síðdegis sat hann samt fastur á útkikkinu. Loksins sá hann þá koma fram á brúnina fyrir ofan Svarthamra.

Hvar er Brúnólfur?

Spurði hann umsvifalaust inn við laugina þegar hann sá hann ekki í hópnum.

Þú er jafn spurull og þú varst í gær.

Svaraði fyrirliðinn og brosti.

En annars hann fór beint niður að bænum og kemur ekki hingað í laugina að þessu sinni. Við skulum taka sundfötin hans heim með okkur.

Varð honum illt?

Spurði strákurinn.

Nei nei honum varð ekkert illt.

Svaraði foringinn.

Gleymdu þið kanski skóflunni og hann gat ekki kúkað eða datt hann í holuna kanski og meiddi sig á rassinum?

Spurði strákurinn.

Svona svona nú.

Sagði fyrirliðinn þolinmóður.

Víst kom svolítið fyrir rassinn á honum en hann jafnar sig nú á því og komdu þér heim núna.

Strákurinn lét ekki segja sér það tvisvar en hentist fram einstigið, aurinn og heimaúnið í einum flengspretti. Á leiðinni ímyndaði hann sér allskonar hremmingar, sem aumingja Brúnólfur hefði lent í með rassinn á sér. Kanski hefur hann stíflast eða dottið niður í holuna. Honum var farið að verða verulega vel við Brúnólf þó kallinn kynni ekki að meta súrheyslykt. Þegar heim kom henntist hann inn í bæ og alveg inn í eldhús en þar sat Brúnólfur makildalega á eldhúsbekknum, peysulaus með rúmteppi yfir kríkana. Hann þorði ekki að spyrja neins pabbann, gestinn eða ömmuna sem öll voru í eldhúsinu og leitaði að mömmu sinni sem sat við saumavélina við gluggaborðið í stofunni og var að sauma eitthvað í brúnu buxurnar hans Brúnólfs.

Hvað kom fyrir Brúnólf mamma?

Svo sem ekkert væni minn, það rifnuðu aðeins buxurnar hans og ég er núna að lagfæra það.

Og lengra komst hann ekki innanbæjar. Hann sat því fyrir jöklaförunum þegar þeir komu úr lauginni í tjöldin sín.

Hvað kom fyrir Brúnólf?

Og nú spurði hann allan hópinn en ekki bara foringjann.

Af hverju rifnuðu buxurnar hans?

Ég hljóp með sundfötin ykkar alla leið inn í laug svo þið getið bara sagt mér hvað kom fyrir.

Líklega var stutt í skeifuna á sjö ára andliti stráksins því hópurinn umvafði hann skyndilega, gaf honum súkkulaði og gosdrykk. “Þetta var ekkert alvarlegt,” sagði fyrirliðinn.

Hann Brúnólfur stígur aldrei á skíði, hann gengur bara og gengur okkur alla af sér sem yngri erum. Við komum upp á Goðastein í blíðskapar veðri og sóluðum okkur í snjóbirtunni. Svo renndum við okkur á skíðunum niður bunguna í hlykkjum og beyjum til þess að drýgja vegalengdina niður. Brúnólfur ætlaði bara að labba niður beinustu leið eins og venjulega. Líklega hefur hann viljað auðvelda sér niðurleiðina og tók það til bragðs að renna sér niður hábunguna á rassinum. Hann gat ekki stoppað sig tímalega og endaði með að missa rassinn úr buxunum. Svo gekk hann með peysuna sína bundna um mittið niður alla heiði og lét hana hylja bossann. Við sáum þetta en hann var ófáanlegur til þess að ræða málið og þú skalt líka láta kjurt liggja.

Strákurinn lallaði sáttur upp túnið og inn í bæ. Hann flýtti sér framhjá stofunni og eldhúsinu og fór beint í rúmið því hann vissi að ef hann mætti Brúnólfi þá færi hann að hlæja.

Menntastefna, umbætur og skólaþróun


Hér er um að ræða endurrit úr glósum og fylgigögnum sem eru hluti af ferilmöppu höfundar í námskeiðinu Námskrá og skólaþróun (KEN213F) í umsjón dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur prófessors á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, dr. Hjördís Þorgeirsdóttir framhaldsskólakennari og dr. Atli Vilhelm Harðarsson dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.


Hvenær verður einstaklingur betur menntaður eftir að hafa gengið í gegnum skóla? Hvort er réttara einblína á að byggja upp menntað samfélag eða menntaða einstaklinga? Er þarna munur á og hver á að sinna því hlutverki og þá hvernig?

Í Skýrslu Evrópumiðstöðvar (2017) er ítrekað varað við því að skortur á sameiginlegri sýn kunni að valda því að framkvæmd við innleiðingu stefnunnar um menntun fyrir alla verði yfirborðskennd og vandamálamiðuð og að ranghugmyndir um stefnuna standi framkvæmd hennar fyrir þrifum. Því er mikilvægt að beina sjónum að markvissu námi um hvað menntun fyrir alla þýðir í raun og veru, hvers konar starfshættir eigi þar við og hvers konar starfshætti þurfi að uppræta.

Menntun fyrir alla, skýrsla unnin fyrir mennta- og menningamálaráðuneytið, júní 2019, bls. 18.

Skólastigin

SkólastigISCEDÍSLAND
Leikskóli00
Barnaskóli/yngsta- og miðstig11
Gagnfræðiskóli/unglingastig21
Framhaldsskóli31, 2 & 3
Millistig framhalds- og háskóla44
Háskóli5-85-7
Heimild: Dr. Atli V. Harðarsson, fyrirlestur HÍ, 2021

Sé litið á flokkun skólastiga (ISCED – International Standard Classification of Education) á Íslandi í sambanburði við mörg önnur lönd má sjá talsverðan mun. Þessi munur hefur aldrei verið fyllilega útskýrður af íslenskum stjórnvöldum. Gott dæmi um þetta er að nú, innan framhaldsskólastigsins, er að finna stig 1, 2 og 3 á meðan víðast hvar og samkvæmt ISCED á aðeins að vera þar að finna 3. stig.

Í barna- og gagnfræðiskólum á Íslandi, sem eiga að flokkast í 1. og 2. stig, er aðeins að finna 1. stig. Hvað veldur að margir íslenskir nemendur eru skráðir í ,,lægra flokkað“ nám en nemendur á sama aldri eru skráðir í víða erlendis?

Samkvæmt þessu geta nú fulltrúar framhaldsskóla á Íslandi ráðið til sín menntaða grunnskólakennara, væntanlega á lægri launum, þ.e. kennara sem hlotið hafa nám fyrir kennslu á 1. stigi, sbr. ISCED og látið þannig hjá líða að ráða kennara í framhaldsskóla sem eru menntaðir framhaldsskólakennarar á 3. stigi. Eru stjórnvöld skipulega að draga úr gæðum menntunar á framhaldsskólastigi á Íslandi?

Grunnþættir og hæfniviðmið aðalnámskrár

Í aðalnámskrá er lagt upp úr 6 grunnþáttum menntunar ásamt hæfnisviðmiðum. Það er ákveðin hefð í námskrárfræðum að geta um hæfnismarkmið enda eðli máls mikilvægt. Með tilkomu Bologna ferlisins var tekin upp samræming á stefnu ríkja innan Evrópusambandsins vegna æðri menntunnar og þar fléttuðust inn hæfniviðmið. Með hæfniviðmiðum er m.a. lögð áhersla á að:

  • markmið sem á að ná,
  • markmiðin haldi sem á að ná,
  • hvernig á að skipuleggja þessi markmið og nýta reynslu,
  • metið sé hvernig og hvort markmið hafa náðs.

Um þessi hæfnimarkmið er m.a. fjallað í aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 í kafla 2.2. og 10.1.

Framhaldsskólar skulu bjóða nemendum nám við hæfi þar sem tekið er mið af hæfni nemandans og framtíðaráformum. Lokamarkmið hverrar námsbrautar skulu endurspegla hæfni nemenda að loknu námi. Þau kallast því hæfniviðmið og skulu vera lýsandi þannig að nemendur viti í upphafi að hverju er stefnt. Lögð er áhersla á að öll svið lykilhæfninnar séu sýnileg í hæfniviðmiðum námsbrauta.

Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011, kafli 10.1.

Þegar kemur að grunnþáttunum 6 þar sem m.a. er getið að sjálfbærni er einn þeirra grunnþátta. Svo virðist að grunnþættirnir eigi að snúa fremur að nemendanum sjálfum. Þessir grunnþættir eru:

  • læsi,
  • sjálfbærni,
  • heilbrigði og velferð,
  • lýðræði og mannréttindi,
  • jafnrétti,
  • sköpun.

Náum við þessu t.a.m. með því að fá nemendur til að syngja í kór þar sem við göngum ekki á gæði náttúrunnar? Hvað með leiklistarlíf? Hvernig eiga einstaklingar að ná að uppfylla þessa grunnþætti í sama mund og markmiðið er að ná þeirri hæfni sem sett eru í þeim markmiðum sem getið er um í aðalnámskrá?

Gagnadrifin stjórnsýsla

Sé litið á hönnun og smíði námsbrautar er hún gerð úr áföngum. Áfangar eru hinsvegar aðeins skilgreindir með því að skrifa texta í reiti í kerfi Menntamálastofnunar. Það er einmitt þarna sem ætlunin er að skilgreina leikni og hæfni sem leitast verður eftir að nemandi nái og virðist skv. þessu tæknilega útilokað af hálfu stofnunarinnar og yfirvalda að víkja frá hæfnimiðaðri hugsun og snúa meira að þeim grunnþáttum sem getið er um í aðalnámskrá. Er ríkið enn of miðstýrt í hugsun þegar kemur að námsþróun?

Dr. Atli Vilhelm Harðarsson, dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, hefur lagt sig í framkróka við að benda á hina gagnadrifnu stjórnsýslu í tengslum við nám. Hann getur þess m.a. að oftar en ekki hafa miðstýrðar umbætur í menntamálum fremur mistekist en hitt. Hvað er þá til ráða?

White (2005) segir bæði að ákvarðanir um námskrá verði að taka mið af pólitískri sýn á hvað er gott samfélag og að markmið menntunar snúist um velferð nemandans fremur en um skyldur hans við aðra. Á svipuðum nótum talar Sigrún Aðalbjarnardóttir (2007, bls. 95) um það sem verkefni hvers samfélags „að finna jafnvægi milli einstaklingshyggju og samfélagshyggju“.

Dr. Atli Vilhelm Harðarsson, Tvímælis: Heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans, Netla, 11.12.2019, bls.7.
Njótum námsins

Umræða um menntun og úrbætur í menntun mótast af mismunandi áherslum og skoðunum. Eigum við að ,,framleiða“ nemendur fyrir atvinnulífið eða eigum við að gæta að börnunum og mennta ungt fólk sem getur notið sín ásamt því að standast alþjóðleg viðmið, ungt fólk sem getur notið lífsins til fulls og það með sjálbærnum hætti?

Hvernig er hægt að ná markmiðum hins opinbera um allt þetta? Eru þetta raunhæf markmið og mælanleg? Hins vegar er spurning hvort öll markmið eigi og geti verið mælanleg.

Í gegnum árin virðist ríkið kalla eftir stöðluðum veruleika en horfir ekki á flókið samspil menntunar, náms og þeirra einstaklinga sem mynda skólasamfélagið, þroskast þar og dafna. Einingar eru gott dæmi um þetta staðlaða form á menntun. Hafir þú náð stúdentsprófi í dönsku og þeim einingum sem til þarf er víst að þú getir yfirleitt bjargað þér á dönsku? Kanntu eitthvað í þessu tungumáli? Ríkið segir að svo sé sértu búinn að uppfylla fjölda eininga. Er slíkt mat fullnægjandi? Svar mitt er nei.

Hættan er sú að gögn einfaldi veruleikann og í raun myndi skekkju. Gagnadrifin stjórnsýsla þarf ekki endilega að mæla rétt, gefa réttar upplýsingar eða vera grunnur sem miða á við til að taka ,,réttar“ ákvarðanir fyrir skólasamfélög.

Menntastefna í mótun

Nú þegar menntastefna er mótuð og sett til framtíðar á markmið sem ekki er hægt að ná, hverskonar stefna er það? Hvorki er möguleiki á að mæla né átta sig á hvort markmiðum sé náð. Erum við með það ljóst hvort einstaklingur sé yfirleitt betur menntaður og að þá samfélagið í heild ef það byggir á gögnum sem sýna og mynda skekkju, þ.e. bjögun? Hvernig eiga stjórnendur skóla að huga að störfum sínum í skólum svo hægt sé að uppfylla allar þessar kröfur og ná árangri?

Rannsökum

Spurningin hvort markmiðið eigi að vera að hefja sig yfir þetta og einblína aðeins á hæfnina. Svo er spurning hvort við eigum fremur að líta til vitsmunalegra dygða eins og þekkingaþrár, virðingu fyrir skynsemi og rökum, hæfilega efagirni, auðmýkt fram fyrir leyndardómum tilverunnar? Í þetta fléttast siðferðislegar dygðir eins og hátterni, framferði, skapferli og hugarfar.

Við erum greinilega langt frá markmiðum okkar en látum ekki deigan síga, stefnum áfram að betra lífi, meiri sjálfbærni sem mótuð er af skynsemi og góðu hyggjuviti.

Menntastefna til 2030


Hér er um að ræða endurrit úr glósum og fylgigögnum sem eru hluti af ferilmöppu höfundar í námskeiðinu Námskrá og skólaþróun (KEN213F) í umsjón dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur prófessors á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, dr. Hjördísar Þorgeirsdóttur framhaldsskólakennara og dr. Atla Vilhelm Harðarssonar dósents á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.


Heimildir herma að í kringum 1979 hafi ekki verið til aðalnámskrá fyrir framhaldsskólanna. Fyrsta samræmda aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla leit dagsins í ljós í ráðherratíð Birgis Ísleifs Gunnarssonar þv. menntamálaráðherra árið 1986.

Í ritrýndri fræðigrein sinni, Fleiri vindar blása, fjalla þau Árný Helga Reynisdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson um þær miklu breytingar sem áttu sér stað í umhverfi íslenskra framhaldsskóla á árabilinu 1986 til 2012. Sérstaklega er tekið fram að lög um framhaldsskóla árið 2008 ásamt útgáfu aðalnámskrár árið 2011 hafi falið í sér verulega stefnubreytingu frá fyrri viðmiðum varðandi skólastarf. Í framangreindri grein, sem birt er í Netlu, segir m.a. varðandi niðurstöðu af viðtölum við tólf kennara í fjórum framhaldsskólum á Íslandi:

Niðurstöður benda til þess að hlutverk kennaranna hafi breyst töluvert, t.d. fylgja því fleiri uppeldis- og kennslufræðilegar áskoranir sem rekja má til breyttrar samfélagsgerðar og fjölbreyttari nemendahóps. Viðhorf nemendanna hafa breyst, þeim finnst ekki lengur „merkilegt“ að vera í framhaldsskóla, þeir eru lítt móttækilegir fyrir upplýsingum sem hópur, þeir gera kröfur um athygli sem einstaklingar og eru síður pólitískt meðvitaðir. Viðmælendum okkar kvörtuðu ekki undan breytingunum á nemendahópnum en viðurkenndu að þetta gerði skólastarfið ekki einfaldara. Þeir nefndu að kennsluhættir hefðu breyst, t.d. að verkefnavinna hefði aukist á kostnað prófa. Einnig hefði skrifleg umsýsla aukist, ekki síst eftir tilkomu upplýsingatækni. Aðalnámskráin frá 1999 var flestum viðmælendum minnisstæð og ný aðalnámskrá frá 2011 fékk fremur jákvæða dóma, þótt ýmislegt hafi þótt óljóst um hvernig ætti að útfæra suma þætti hennar í skólastarfinu.

Árný Helga Reynisdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Fleiri vindar blása – Viðhorf reyndra framhaldsskólakennara til breytinga í skólastarfi 1986-2012, Netla 3. október 2013.
Fyrsta útskrift stúdenta við Menntaskólann í Hamrahlíð í júní 1970
Guðmundur Arnlaugsson (f.1913-d.1996) í pontu og ávarpar nýstúdenta MH
Heimild: Einu sinni var, Elín Hirst (2009)

Þetta er auðvitað stórmerkilegt að fyrsta aðalnámskráin varð til með grasrótarstarfi.

dr. Atli Vilhelm Harðarson, dósent, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, 21. janúar 2021

Það er áhugavert að í raun voru það kennarar sem mótuðu grunn að fyrstu samræmdu aðalnámskránni fyrir framhaldsskólanna með fundarhöldum og samræmdum vinnubrögðum, áfangalýsingum kennarra úr Flensborg, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti (1976). Síðar bættust fleiri kennarar við í þessa samræmdu vinnu þar sem þeir bjuggu til sameiginlega nálgun. Þegar ráðuneyti menntamála ákveður að gera aðalnámskrá nýtir ráðuneytið þessa vinnu kennara og mótar úr efniviðnum þeirra nýja aðalnámskrá, þá fyrstu fyrir framhaldsskóla á Íslandi.

Bæklingurinn, Í krafti upplýsinga: tillögur menntamálaráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni 1996-1999, sló tóninn sem síðar mátti lesa í nýrri aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla 1999 innihélt. Hún kemur fram í tíð Björns Bjarnasonar þá menntamálaráðherra.

Í gildi er aðalnámskrá 2011, 2. útgáfa með breytingum frá 2015, og í henni eru tilgreindir eftirfarandi 6 grunnþættir menntunar:

  • læsi,
  • sjálfbærni,
  • heilbrigði og velferð,
  • lýðræði og mannréttindi,
  • jafnrétti,
  • sköpun.

Framangreind aðalnámskrá kom fram í tíð Katrínar Jakobsdóttir þáverandi menntamálaráðherra og núverandi forsætisráðherra. Um hæfni segir í gildandi aðalnámskrá.

Ætlast er til að lykilhæfni og grunnþættir fléttist saman og myndi burðarstoð í öllu starfi framhaldsskóla, starfsumhverfi og skólabrag sem og námi og kennslu allra námsáfanga. Við umsókn um staðfestingu námsbrautarlýsinga er skólum skylt að útskýra hvar og hvernig grunnþáttum og lykilhæfni er sinnt.

Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011, 2. útgáfa með breytingum 2015, bls. 31.
Samspil grunnþátta og hæfni í aðalnámskrá framhaldsskóla 2011
Samspil grunnþátta og hæfni í aðalnámskrá framhaldsskóla 2011

Byggði framangreind aðalnámskrá m.a. á mikilvægi skóla án aðgreiningar sem á stoð í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samhliða var framhaldsskólum gert heimilt til að móta sína námskrá í ríkari mæli.

Brot úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna
Brot úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Nútímasamfélag gerir margar og oft mótsagnakenndar kröfur til þegnanna. Hlutverk skólakerfisins er m.a. að búa einstaklinginn undir áskoranir og verkefni daglegs lífs og hjálpa honum að fóta sig í flóknu samhengi náttúru og samfélags, hluta og hugmynda.

Aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla 2011

Rétt er að minnast á Hvítbók þá er Illugi Gunnarsson, þv. menntamálaráðherra, lét gefa út 2014 en þar var lögð áhersla á læsi. Þar kom m.a. fram að stefnt yrði að því að 90% barna nái lágmarksviðmiðun í læsi en staðan þá var um 79% barna náðu viðmiðinu. Einnig var lögð áhersla að 60% nemenda ljúki úr framhaldsskóla en það hlutfall reyndist þá 44%. Þar sem aðalnámskrá hafi tekið gildi 2011 var helst til of stutt um liðið frá því þar til hvítbók þessi var gefin út en var samt góð áminning um stöðu mála.

Árið 2018 var síðan gefin út skýrslan, Menntun fyrir alla – horft fram á veginn. Hún var unnin fyrir mennta- og menningamálaráðuneytið og er þar kannað hvernig til hefur tekist á Íslandi að innleiða stefnu um menntun án aðgreiningar og menntun fyrir alla. Þar voru settar fram tillögur í sjö liðum til hvers konar úrbóta.

Tillögurnar eru byggðar á grunni niðurstaðnanna sem birtast í vörðunni, fræðilegu samhengi og síðast en ekki síst á vistkerfinu sem nefnt er að framan. Tillögurnar eru byggðar á því að sameiginlegt markmið allra aðgerðanna sem í þeim felast sé að auka gæði náms allra nemenda og að menntakerfið í heild beri sameiginlega ábyrgð á því. Engu að síður er gengið út frá því að ábyrgð á tilteknum málaflokkum geti tilheyrt einu eða fleiri lögum í vistkerfinu sérstaklega og séu á ábyrgð hagsmunaaðila og stjórnenda sem þar starfa.

Horft fram á veginn, skýrsla mennta- og meningarmálaráðuneytisins, 2018

Þegar litið er yfir töfluna, sem lesa má í framangreindri skýrslu, hallar mjög á skólastofnanir og sjá má að þar liggur ábyrgðin að langmestu leiti hjá sveitarfélögunum og ríkinu. Það vekur sérstaka athygli við lestur og rýni skýrslunnar og er í raun megin niðurstaða hennar. Allra verst er þó að þessari ábyrgð er ekki vísað á einn stað og á meðan svo er geta allir bent hver á annan án þess að nokkur árangur náist í bráð eða lengd.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra lagði fram þingsályktunartillögu um menntastefnu 2021-2030, stórt og mikið plagg, sem námskráin á síðan að byggja á. Hún hefur verið samþykkt á Alþingi.

Í þessari þingsályktunartillögu segir að menntastefnan byggir á eftirfarandi stoðum sem styðja á við gildi stefnunnar:

  • Jöfn tækifæri fyrir alla – Áherslur á: 1. Nám við allra hæfi. 2. Menntun um allt land. 3. Fjölbreytt menntasamfélag. 4. Snemmbæran stuðning. 5. Raunfærnimat.
  • Kennsla í fremstu röð – Áherslur á: 1. Kennaramenntun og nýliðun. 2. Þekkingu og hugrekki. 3. Hæfniþróun fagstétta í skólastarfi. 4. Lagaramma menntamála. 5. Fjölbreytileika.
  • Hæfni fyrir framtíðina – Áherslur á: 1. Læsi. 2. Framþróun íslensks máls og táknmáls. 3. Vísindi og rannsóknir. 4. Starfs-, iðn- og tækninám. 5. Náms- og starfsráðgjöf. 6. List- og verknám. 7. Sköpun og gagnrýna hugsun. 8. Stafræna tilveru. 9. Bókasöfn. 10. Menntun fyrir alla.
  • Vellíðan í öndvegi – Áherslur á: 1. Heilsueflningu. 2. Geðrækt. 3. Forvarnir. 4. Rödd nemenda. 5. Vellíðan allra.
  • Gæði í forgrunni – Áherslur á: 1. Ábyrgð og samhæfingu þjónustukerfa. 2. Aðalnámskrár sem styðja við menntastefnu. 3. Námsmat og námsgögn. 4. Væntingar til nemenda. 5. Væntingar til foreldra. 6. Stöðugar umbætur og gæðastarf. 7. Skilvirka ráðstöfun fjármuna.

Í þingsályktunartillögunni er síðan tekið fram í III. kafla hennar hvernig innleiðingu menntastefnunarinnar á að vera háttað. Innleiðingin á að eiga sér stað á þremur tímabilum. Fyrir hvert tímabil á að vinna innleiðingaráætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum.

Þingsályktunin var samþykkt 24. mars 2021 og segir í ályktuninni að innan sex mánaða frá samþykki hennar mun fyrsta áætlunin verða lögð fram og kynnt ráðherra. Á það að eiga sér stað fyrir lok júlí 2021.

Framtíð menntunar


Hér er um að ræða endurrit úr glósum og fylgigögnum sem eru hluti af ferilmöppu höfundar í námskeiðinu Námskrá og skólaþróun (KEN213F) í umsjón dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur prófessors á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, dr. Hjördísar Þorgeirsdóttur framhaldsskólakennara og dr. Atla Vilhelm Harðarssonar dósents á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.


Menntun fyrir alla
Kennum og nemum

Yfirferð í fyrirlestri um framtíð menntunar

Í fyrirlestrinum var fjallað um að nemendur gætu haldið svokallaða ferilmöppu yfir þá tíma sem væru framundan. Slíkt gæti nýst til námsmats og er ein aðferð til þess að meta hvort nemendur hafi náð efninu sem farið var yfir, kynnt sér efni þess og náð markmiðum námskeiðsins.

Sett var inn kveikja frá OECD og Sameinuðu þjóðunum hvað varðar Heimsmarkmiðin og menntun til sjálfbærni. Farið yfir kennslusýn í anda þessara áherslna. Vísað til þess að árið 2008 hafi lögum verið breytt og áhersla lögð á að ekki aðeins ættu kennarar að kenna með tilsvarandi undirbúningi heldur ekki síður að taka þátt í skólaþróun. Það varð til þess að námskeiðið varð í raun til. Við þessar breytingar var ríkari áhersla á þátttöku kennara í mótun skólanámskráa.

Fengist er við að læra tilhögun við gerð námskráa, eðli þeirra og fjalla um þróunarmál í skólum. Að loknu þessu námskeið á nemandi að geta:

  • nýtt sér hugtök, kenningar og rannsóknir um námskrá, skólaþróun og menntastefnu,
  • greint inntak og andstæð sjónarmið um menntastefnu, skráðar sem og óskráðar, innan skóla sem og á landsvísu og alþjóðlega,
  • skilið hvernig þjóðfélagsþróun og þróun þekkingar hefur áhrif á námskrár, skólastarf og menntastefnu,
  • útskýrt með hjálp kenninga og rannsókna, hvernig skólagerð framhaldsskóla og ýmsir þættir í skólamenningu hafa áhrif á hvernig skóla túlka stefnu menntayfrvalda,
  • nota hagnýt vinnubrögð við námskrárgerð og skólaþróun í framhaldsskólum,
  • greint frá og fundið nýjungar í starfi framhaldsskóla,
  • fylgst með rannsóknum á Íslandi og erlendis og fræðilegum skrifum um menntastefnu og skólaþróun.

Sé litið á kennslufræðilega sýn eru helstu hugtökin sem talin eru vera mikilvæg í því sambandi: samvinna, þátttaka, áhugi, ábyrgð, virkni og framlag. Í þessu efni hefur reynslan sýnt að aðferðirnar við nám og kennslu er ekki síður mikilvæg og kennsluefnið sjálft. Það kemur vel í ljós þegar unnið er með sjálfbærni og umhverfismál. Til að ná að þróa samfélagið í átt að aukinni sjálfbærni verður að virkja nemendur og leiða þeim það í ljós að þeir beri ábyrgð að eigin gjörðum. Með því að auka þátttöku nemenda má ná fram þessu markmiði. Ábyrgðartilfinning nemenda gagnvart námi og starfi.

Að velja sjálfir viðfangsefni og taka þátt í að ákveða hvernig þekkingar er aflað og henni miðlað.

Námskrá og skólaþróun í framhaldsskóla – Glærur dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur 14. janúar 2021

Nýjar kröfur koma til vegna fjölbreytni í hópi nemenda. Mikilvægt að tryggt sé að hæfniviðmið falli vel að markmiði sjálfbærnimenntunar.

Háskóli Íslands verður að tvinna saman sjálfbærnisýn og breytta kennsluhætti vegna þess að með virkri þátttöku nemenda verða gjarnan til nýjar hugmyndir og lausnir.

Námskrá og skólaþróun í framhaldsskóla – Glærur dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur 14. janúar 2021

Í fyrirlestrinum var lögð rík áhersla á að sökum þessa verði Háskóli Íslands að auka vægi þátttökunáms. Til að ná slíku markmiði verði kennarar að nota verklag sem eykur þátttöku og virkjar nemendur.

OECD og framtíð menntunar

Þann 15. september 2020 ritaði Andreas Schleicher, forstöðumaður, Menntamálastofnun OECD, pistil um fjórar sviðsmyndir um framtíðarmenntun og skólagöngu.

  • Lenging skólagöngu
  • Útvistun menntunnar
  • Skólar sem námsmiðstöðvar
  • Læra hvar sem er, hvernær sem er

Þessar sviðsmyndir þrýsta á að við hugsum um árangur með þróun endurmenntunnar (e. re-schooling) svo dæmi sé nefnt. Námsmarkaðurinn stækkar, foreldrar eru orðnir meiri þátttakendur í ferlinu ásamt aukinni fjárfestingu í stafrænni tækni sem tengir fólk saman. Þarna skiptir miklu að auka virkni nemenda í þátttöku á oft óformföstu ferli og auðlindum til að bæta við sig þekkingu.

Að hvaða marki mun núverandi fyrirkomulag hjálpa eða hindra okkar sýn?

Andreas Schleicher, forstöðumaður, Menntamálastofnun OECD, 15. september 2020.

Eigum við að reisa hið nýja á grunni hins gamla og aðeins fínstilla það? Eigum við að bylta kerfinu með nýrri tækni? Á að nýta rými skólastofnanna með öðrum hætti, mannauðinn, fólkið og tæknina? Umbreytingar gætu hugsanlega átt að eiga sér stað en hvaða aldurshópa á slík breyting að ná til? Ungabörn, unglinga, fullorðna og jafnvel þá elstu? Þátttakan er að aukast með fjölgun mannkyns og hærri lífaldri.

Andreas Schleicher virðist sjá hér umbreytingu í miðjum COVID-19 faraldri enda birtist greinin seint á árinu 2020. Hann telur að framangreindar 4 sviðsmyndir OECD varðandi framtíðarsýn, þ.e. kennslusýn, mætti nota til hvatningar og sem innblástur til umbreytinga. Þessar sviðsmyndir mætti nota til að kanna mikilvægi þess skoða þetta einnig út frá framtíðar áföllum. Hann leggur þó upp úr því að við könnum þetta og metum án allrar sjálfumgleði með einföldum lausnum. Þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn vill Andreas Schleicher árétta að þessi draumur, sem virðist fjarlægður, gæti orðið að raunveruleikanum á morgun.

Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun

Heimsmarkmiðin – Menntun til sjálfbærni

Markmiðið er að tryggja með þessari áherslu Sameinuðu þjóðanna aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi. Til greind eru ófá undirmarkmið þessu stil stuðnings.

Menntun fyrir alla

Hér fara helstu undirmarkmiðin sem sett eru fram undir þessum lið varðandi menntun fyrir alla.

4.1 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki góðri grunnskólamenntun á jafnréttisgrundvelli án endurgjalds til að öðlast viðeigandi og gagnlega menntun. 

4.2 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost að þroskast og dafna frá unga aldri, fá umönnun og leikskólamenntun til að búa þau undir grunnskóla.  

4.3 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði. 

4.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ungmennum og fullorðnum með hagnýta kunnáttu fjölgað umtalsvert, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt viðeigandi störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi. 

4.5 Eigi síðar en árið 2030 hafi kynjamismunun í menntakerfinu verið afnumin og jafn aðgangur að námi á öllum stigum tryggður og starfsþjálfun fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, þar á meðal fyrir fatlað fólk, frumbyggja og börn sem búa við erfiðar aðstæður. 

4.6 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að öll ungmenni og stór hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, hafi náð tökum á lestri og skrift og öðlast talnaskilning.

4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

4.8 Byggð verði upp og endurbætt aðstaða til menntunar fyrir börn, óháð kyni, svo að allir geti lært í öruggu og friðsamlegu umhverfi án aðgreiningar, fatlaðir sem aðrir. 

4.9 Eigi síðar en árið 2020 hafi námsstyrkjum sem standa þróunarlöndum til boða verið fjölgað um heim allan, einkum í þeim löndum sem eru skemmst á veg komin, þ.e. smáeyríkjum og Afríkuríkjum, til að efla háskólamenntun í þróunarlöndum, þar á meðal starfsnám og upplýsinga- og samskiptatækni, tækninám, verkfræði og raunvísindi.

4.10 Eigi síðar en árið 2030 verði framboð á menntuðum og hæfum kennurum aukið verulega, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og smáeyríkjum.

Vandinn við markmið sem þessi, hvort heldur að alþjóðasamfélag setur þau eða bara heimili, skólastofnun eða sveitarfélag, ef þau eru óraunhæf verði minna litið á þau sem raunverulegt markmið heldur óskhyggja. Skilgreiningaratriðið hér ætti að vera nokkuð ljóst en hér er áréttað að fyrir árið 2030 eigi að vera búið að koma málum þannig fyrir að ,,allir“ eigi aðgengi að menntun. Hvað með Jemen, Eritreu eða Tigray héraðið í Eþíópíu svo ekki sé minnst á alvarlega stöðu barna innan Evrópu og víða um heim? Hvernig ætla fulltrúar og yfirvöld þeirra 193 aðildarlanda Sameinuðu þjóðanna að tryggja að þetta nái fram að ganga?

Þarna er getið um leikskólamenntun. Í fyrsta lagi eru leikskólar og rekstur leikskóla ekki skylda sveitarfélaga að byggja upp og reka á Íslandi. Hvernig má vera að það átak, sem var gífurlega erfitt mörgum sveitarfélögum hér á landi að uppfylla, nái hreinlega fram að ganga fyrir 2030 innan allra ríkja sem aðild eiga að Sameinuðu Þjóðunum?

Skilgreiningarvandinn er hrópandi hér þegar fjallað er um að það eigi að tryggja jafnan aðgang að ,,góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði.“. Hvað er átt við með ,,góðu“ og hvað er átt við með ,,viðráðanlegu verði“? ECST einingakerfið í námi innan Evrópusambandsins og þar með Evrópska efnahagssvæðisins, sem snýr að ærði menntun, er alfarið undir stjórn Evrópusambandsins. Þetta kerfi hefur enn ekki náð, þ.e. árið 2021, að viðurkenna fjölmörg fjarkennslukerfi og menntun margra af erlendum uppruna sem koma inn í og þurfa á að halda ódýru en skilvirku námi. Hvers vegna? Ætli það kunni að vera vegna þess að hagsmunir margra háskóla séu að halda í hið gamla kerfi sem vissulega tryggir gæði og öryggi. Til þess að svo verði kostar slíkt ómælt fé.

Það er ekki svo að markmiðin séu ekki göfug og verðug. Vandinn er bara sá að þegar sett eru markmið sem þessi eru þau oft það brött að þó svo að innleiðing eigi sér stað sé ekki eftir þeim farið. Það sem reyndar er af hinu góða er að þeir sem kalla eftir breytingum geta bent á þessi markmið og krafist aðgerða, þ.e. ef stjórnvöld eru tilbúin að hlusta og gefa verkefnum tækifæri sem geta reyndar ógnað gildum og viðhorfum, jafnvel heilu starfsstéttunum, sem gæti tafið framþróun.

Í 7. lið má sjá afar áhugaverða áherslu sem tengist beint sjálbærri þróun þar sem lögð er rík áhersla á sjálfbæran lífsstíl. Markmiðið er að hlúð sé að friðsamlegri menningu, mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálbærrar þróunar. Hér vantar augljóslega eitthvað sem snýr að kynfrelsi en líkur eru á að með ,,friðsamlegri menningu“ gæti verið hægt að koma þjóðum og þjóðarbrotum heims í skilning um að við erum misjöfn.

Hverjir afla? Hvar er bákn og hvar er böl?


Þeir fiska sem róa er þekkt og innihaldsríkt íslenskt máltæki. Þetta lýsir því mikilvægi að einhver þarf að skapa verðmæti og til þess að það sé gert nægir ekki að sitja heima og bíða eftir björginni.

Allt frá iðnbyltingunni, sem hófst síðla á 18. öldinni, hefur mannkynið náð miklum framförum en þær framfarir hafa vissulega orðið til þess að gengið hefur verið nokkuð á auðlindir jarðarinnar. Úr varð að þýskur hagfræðingur og heimspekingur, Karl Marx (5. maí 1818 – 14. mars 1883), þróaði stjórnmálaspeki er gekk út á átök milli stétta í stað samninga. Auðvaldið átti að deila meira af gæðunum til almúgans, þ.e. öreiga.

Á ekki að ríkja jafnvægi og jafnræði? Sósíalistar gagnrýndu Karl Marx til að öðlast sjálfir stöðu. Bæði kommúnisminn og sósíalisminn hafa gengið illa upp í stórvarasömum tilraunum sem flestar ef ekki allar hafa endað með mikilli skelfingu fyrir mannkynið.

Á 20. öldinni efldist ný grein, þ.e. þjónustugreinin og hefur hún drifið hagvöxt lungað úr þeirri öld allt til dagsins í dag. Það gerðist vissulega ásamt þróun á nýrri tækni, framleiðslu, þróun og hraðari heimi á tölvuöldinni miklu.

Sé litið til Íslands í dag starfa þar nú rétt tæplega 56 þúsund manns í opinberri stjórnsýslu, í fræðslustarfsemi og við heilbrigðis- og félagsþjónustu, þ.e. miðað við vinnuafl á aldursbilinu 16-74 ára sem er alþjóðlegt viðmið. Á mynd 1 má sjá þróunina. Gula súlan (mynd 1) á að tákna árið 2020 og er hún og hlutfallið sett þarna af greinarhöfundi hið sama og fyrir 2019 svo sjá megi viðmið, þ.e. ekki sem raunstaða.

Mynd 1
Heimild – Hagstofa Íslands, apríl 2020 (án gulu súlunnar)

Sem hlutfall af vinnuaflinu nemur vinnuaflið hjá hinu opinbera rúmum 28% af heildar vinnuaflinu á aldursbilinu 16-74 ára og hefur aukist talsvert frá því að kosið var síðast til Alþingis 28. október 2017 og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mynduð undir lok nóvembermánaðar sama ár. Flokkarnir sem mynda þessa ríkisstjórn eru Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri hreyfingin grænt framboð.

Litla rauða súlan (mynd 2) á að tákna árið 2020 og er hún og hlutfallið sett þarna af greinarhöfundi. Svo sýna megi áhrif ferðaþjónustunnar var vinnuaflið sett í 0 fyrir ferðatengda þjónustu til að lýsa því hve stór hluti hún í raun og sann er. Samdráttur er mikill hjá ferðaþjónustunni. Hefur því dregið gífurlega úr vinnuafli í þeirri grein og ferðatengdum greinum vegna uppsagna síðustu daga og vikna. Þetta sýnir einnig að þegar þessi mikilvæga atvinnugrein þurrkast nánast út hve gríðarlega stór hluti vinnuafls landsins starfar hjá hinu opinbera (mynd 1). Hér er þess gætt að halda sömu kvörðum í bæði mynd 1 og mynd 2 til að sjá megi betur þróunina hjá opinberum starfsmönnum og bera þær tölur saman við hluta hins almenna vinnumarkaðs sem finna má í mynd 2. Vakin er sérstaklega athygli að árið 2018 voru álíka margir starfandi hjá hinu opinbera og í öllum þeim greinum sem tilgreindar eru í mynd 2.

Mynd 2
Heimild – Hagstofa Íslands, apríl 2020 (án rauðu súlunnar)

Það er síður en svo mælt með því hér að farið verði í e.k. uppsagnir hjá hinu opinbera eins og nú árar. Einhver hagræðing þarf að eiga sér stað engu að síður hjá hinu opinbera þegar fram líður. Greinilegt er að það var gert á árunum frá hruni allt þar til þess að núverandi ríkisstjórn var mynduð og kom sínu fólki í embætti eins og enginn væri morgundagurinn. Það kom reyndar á daginn að staðan hjá mörgum í dag, a.m.k. fyrir fjölmarga á hinum almenna vinnumarkaði, er líkt því að enginn verði morgundagurinn. Hefur ríkisstjórn Katrínar Jakopsdóttur bætt í Báknið, komið sínu fólki í stöður rétt eftir kosningar til dagsins í dag og gefið ríflega á garðann.

Hver á að greiða skattana til að halda uppi tæplega 56 þúsund einstaklingum í störfum hjá hinu opinbera? Af þessum 56 þúsundum má nefna tæp 4 þúsund sem núverandi ríkisstjórn hefur bætt við frá því að hún tók við völdum í landinu. Það gerðist fyrir rétt rúmum 2 árum. Ljóst er samkvæmt þessum tölum að það hefur fækkað þeim sem greiða skattana til að halda megi störfum fyrir opinbera starfsmenn eins og Katrínu Jakbosdóttur og fjölmarga aðra sem teljast mikilvægt vinnuafl, sbr. heilbrigðisstarfsfólk, kennara ofl. Báknið stækkar.

Annað, sem ekki virðist vera mikið rætt, er áhættan eða starfsöryggið öllu heldur. Hver tekur meiri áhættu hér? Eru það opinberir starfsmenn eða starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði og fyrirtækin í landinu? Svarið er augljóst. Þeir sem ættu að hafa hærri tekjur, m.t.t. starfsöryggis í sambærilegum störfum fólks með sambærilega reynslu og menntun, eru starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði. Annað væri ekki aðeins ósanngjarnt heldur bæði ósiðlegt og óeðlilegt nema einna helst hjá lögreglu sem starfar í áhættuumhverfi.

Mikilvægt er að þeir sem vinna hjá hinu opinbera beri skynbragð á þessa staðreynd, þ.e. að ef viðkomandi starfar hjá hinu opinbera felst í starfinu mun meira starfsöryggi en ef starfað er á hinum almenna vinnumarkaði. Það að krefjast launa hjá hinu opinbera langt umfram það sem gerist í sömu störfum á hinum almenna vinnumarkaði er því ekki í samræmi við að áhættan er minni sem tekin er, þ.e. meira starfsöryggi er hjá hinu opinbera eins og sjá má m.a. á mynd 1. Benda má á fjölmarga aðra þætti sem auka á starfsöryggi í opinberum störfum umfram störf á hinum almenna vinnumarkaði. Má þar m.a. nefna eftirlaunakjör opinberra starfsmanna, uppsagnarákvæði, áminningarferli oþh. sem gerir fulltrúum skattgreiðenda oft erfitt að losa sig við óhæft vinnuafl og draga saman seglin þegar á bjátar í rekstri ríkis eða stofnana hins opinbera. Ekki er með þessu verið að segja að einhver eigi ekki skilið launahækkun og starfsöryggi sé viðkomandi starfandi hjá hinu opinbera, alls ekki. Það þarf bara að ríkja jafnræði og samkeppnisstaða fyrirtækja og almenna vinnumarkaðarins verður að vera jöfn gagnvart hinu opinbera. Svo virðist ekki vera í dag enda bifast Báknið ekki. Báknið kjurt.

Hér er verið að benda á staðreyndir svo almenningur geti gert sér grein fyrir þessu og þeirri áhættu sem felst í mismunandi störfum og mismunandi starfsöryggi. Þetta eiga fjölmargir sósíaldemókratar erfitt með að skilja. Fjölmargir, sem þekkja til og vita hvað hér er um að ræða, voga sér hugsanlega ekki að koma fram af ótta við verða fyrir aðkasti. En þetta eru staðreyndir og lögmál rétt eins og þyngdarlögmálið. Það breytist því ekki þó fjölmargir vinstri menn haldi öðru fram, hugsanlega margir gegn betri vitund sem er öllu verra en gagnrýni hinna vammlausu.

Margir opinberir starfsmenn kalla sífellt á hærri laun, sem eru oft (ekki alltaf) umfram það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði í sambærilegum störfum. Svo virðist sem þetta beinlínis ógni stöðugleika á vinnumarkaði. Oftar en ekki eru kröfur settar fram gegn framangreindum lögmálum. Enn og aftur er áréttað að ekki er verið að segja að starfsfólk hjá hinu opinbera eigi ekki fullan rétt á að sækja aukin laun og bætt kjör til viðsemjenda sinna. Aðeins er bent á að líta verði á framangreindar staðreyndir, þ.e. það er aukið starfsöryggi hjá hinu opinbera og mörg kjör betri en á hinum almenna vinnumarkaði.

Stundum fara opinberir starfsmenn illa upplýstir af stað með launakröfur og ýmsar kjarabætur inn í samningaviðræður. Slíkt getur skaðað samningsstöðuna og þann grunn sem laun þeirra sjálfra byggjast á. Þessi leið getur beinlínis grafið undan kjörum á hinum almenna vinnumarkaði þar sem skatttekjurnar myndast til að halda uppi störfum hjá hinu opinbera. Þetta er keðjuverkandi og kallar oftar en ekki á svokallað höfrungahlaup.

Margir kunna að hugsa: ,,Þetta lendir ekki á mér, kanski á einhverjum öðrum hjá hinu opinbera.“. Þetta er afleiðingin af því að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, hafa ekki tekið á því að koma á jafnræði á milli starfa hjá hinu opinbera annars vegar og á hinum almenna vinnumarkaði hins vegar. Það eru fáir sem þora í þá vegferð að gagnrýna, a.m.k. innan vébanda stjórnvalda í dag. Á meðan eykst ójafnræðið á milli vinnandi fólks hjá hinu opinbera og á almenna vinnumarkaðnum svo ekki sé minnst á átök á milli stétta hjá hinu opinbera. Slíkt kristallast í verkfalli sem boðað er af hálfu Eflingar stéttarfélags, óbilgirni gagnvart hjúkrunarfræðingum og lögreglu. Þetta vilja greinilega vinstri menn rétt eins og elíta íslenskra sósíaldemókrata. Sú guðsvolaða elíta, óháð flokkum er m.a. skipa ríkisstjórn íslands í dag, virðist þrífast best hjá hinu opinbera án þess að þurfa að taka afleiðingum gjörða sinna. Þar ríkir starfsöryggi innan um ókleifa veggi regluverks varðandi áminningarferli og önnur kostakjör. Svo sitja hinir hólpnu í elítunni á opinberu kaffistofunni sem Efling skúrar og lögregla stendur vörð um. Þar sötrar gengið dreggjarnar rétt eins og sprengjusveit bandaríska flughersins sem nýlega hefur skilað ,,góðu“ dagsverki og komin öll aftur heil heim í kaffi. ,,Þetta lendir ekki á mér og ég… ég er yfirleitt ef ekki alltaf í um 20 þúsund fetum innan vébanda hins opinbera á Íslandi.“. Þarna kristallast stéttaátök Karls Marx innan vébanda hins opinbera á Íslandi í dag. Sökum þessa vex og stækkar Báknið á kostnað skattgreiðenda og hugsanlega einnig á kostnað þeirra allra lægstu í opinberum launastigagöngum þar á bæ.

Það er mikilvægt að fram fari ítarleg rannsókn á því hvort svo stór hópur opinberra starfsmanna sé eðlilegur í litlu hagkerfi. Einnig þyrfti að kanna hvort ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, stofnanir á vegum hins opinbera og sveitarfélög hafi beinlínis ógnað fjármálastöðugleika í landinu með því að bæta við allt að 4 þúsundum í opinber störf á síðustu 2 árum. Það er afar mikilvægt að líta á þetta í samhengi. Þarna virðist ríkisstjórnarsamstarfið mikið til hafa byggst á því að gefa á garðann strax í upphafi fyrsta starfsárs ríkisstjórnarinnar. Það varð að líma samstarfið einhvernvegin saman.

Það er miður ef ríkið dregur sífellt meira súrefni frá atvinnulífinu í landinu með því að keppa við það um vinnuaflið. Miðað við áhættustigið og starfsöryggið má ætla að ríkið keppi ekki aðeins um vinnuafl heldur má vænta þess að það hirði flest af vel menntuðum frá atvinnulífinu þó það þurfi að kanna betur.

Ríkið virðist því stunda félagsleg undirboð á vinnumarkaði með ígidi óeðlilegra ,,ríkisstyrkja“ sem felast í störfum hjá hinu opinbera og kjörum sem almenni vinnumarkaðurinn getur aldrei boðið. Vísa má m.a. á skýrslu sem starfshópur ráðuneytis félags- og barnamála gaf út í janúar árið 2019 er snéri einmitt að félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Í þeirri skýrslu má beinlínis sjá hvert almenni vinnumarkaðurinn leitar þegar ríkið hagar sínum máli með þeim hætti sem hér er reifað. Athuga ber að ríki og sveitarfélög saman er sem tvíhöfða þurs á íslenskum vinnumarkaði. Það er miður að starfshópur ráðherra félags- og barnamála hafi ekki litið sér nær við skýrslugerðina.

Hér má finna skýrslu samstarfshóps ráðuneytis félags- og barnamála á Íslandi er varðar félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

Ætla má að þeir sem leiti í störf hjá hinu opinbera verði oftar en ekki að uppfylla ströng skilyrði um menntun, reynslu og fyrri störf, fara í gegnum flókna og oft ósanngjarnt mat sem fáir eða enginn botnar í. Þetta virðist til þess eins að þróa áfram kapplaup um bestu bitana, þ.e. hjá hinu opinbera. Svo er það starfsánægjan við að vinna hjá hinu opinbera, það er allt annað mál og ólíkt viðfangsefni en það sem hér er reifað.

Nú um stundir eiga margir um sárt að binda og fyrirtæki á hnjánum hjá þeirri ríkisstjórn sem keppir við atvinnulífið um vinnuaflið með ígildi félagslegra undirboða. Haldi þetta áfram inn í ókomna framtíð mun vinnuaflið líklegast leita þangað sem ,,hlýjast“ er og í ,,öruggt“ húsaskjól hins opinbera. Á meðan dregur ríkið að sér nánast allt súrefni og skemmir útfrá sér frá ári til árs, þ.e. étur undan sér. Báknið verður böl.

Eftir allt hrósið til heilbrigðisstarfsfólks að undanförnu, sem mest allt eru opinberir starfsmenn er eiga allt gott skilið eftir vasklega framgöngu gegn COVID-19, vill greinarhöfundur hrósa og þakka öðru fólki einnig.

Hrósið og þakkirnar, að öðrum ólöstuðum, fær ferðaþjónustufólkið sem starfað hefur m.a. fyrir íslenska skattgreiðendur síðustu ár og áratugi og tekur nú á sig áhættuna sem í þeirra störfum var fólgin. Þetta er fólkið sem nú axlar ábyrgðina og skilur eftir í ríkissjóði gífurlegt fjármagn. Það fjármagn nýtist nú svo að halda megi uppi frábæru starfsfólki á heilbrigðisstofnunum og kennurum er sinntu börnum á erfiðum tímum. Þetta fjármagn nýtist einnig til uppbyggingar innviða og til að reisa atvinnulífið við.

Fólkið sem starfað hefur í ferðaiðnaði hefur ekki aðeins styrkt ríkissjóð og byggt upp frá hruni. Þetta fólk hefur aflað gífurlegra gjaldeyristekna og tekið áhættu í ófærð og byl. Það hefur starfað í grein sinni af alúð og dug.

Von greinarhöfundar er að kjósendur og þar með skattgreiðendur sjái þá mynd sem hér er dregin upp og móti sína afstöðu út frá því. Lengi má böl bæta.

Til hamingju með daginn ykkar, 1. maí, kæra verkafólk um land allt !

Þakkir enn og aftur frábæra ferðaþjónustufólk !

Atvinnumál þjóðar í þrengingum – Hvert stefnir?


Vinnuaflið á Íslandi, 25-64 ára (2019), telur um 155.000 einstaklinga en skv. alþjóðlegu viðmiðið, á aldursbilinu 16-74 ára, telur það um 197.000.

Samkvæmt Vinnumálastofnun (VMST-apríl 2020) eru með einum eða öðrum hætti 53.000 einstaklingar á bótum. Þar af 18.000 atvinnulausir og 35.000 á hlutabótum vegna skerts starfshlutfalls. Meðalskerðing þessa hóps er um 60% og er ígildi atvinnuleysis þess hóps því um 21.000.

Í dag eru því um 39.000 atvinnulausir eða ígildi þess að vera það. Þetta telur um 20% til 25% atvinnuleysi (þýði 16-74 ára og 25-64 ára) og kostar þetta um 12 milljarða á mánuði.

Starfandi eru um 56.000 opinberir starfsmenn (þýði 16-74 ára) er telur 28% vinnuaflsins en um 45.000 (sé miðað við 25-64 ára). Því eru um 48% til 54% vinnuaflsins á framfæri hins opinbera á Íslandi í dag.

Atvinnuleysi í einstaka sveitarfélögum er fordæmalaust. Í Mýrdalshreppi mældist það í apríl 2019 um 1,1% en skv. mælingum í dag mælist það 46,8%. Í Reykjanesbæ mældist þetta í apríl 2019 um 6,1% en í dag er það komið í 27%. Framundan er að útsvarið lækki og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga einnig enda ber þetta allt að sama brunni.

Fjárhagslega veik sveitarfélög eins og Mosfellsbær, þar sem atvinnuleysi mælist nú yfir 16%, geta lítið sem ekkert gert. Það er boðið upp á frestun á greiðslu gjalda og lækkun á liðum sem hrökkva skammt. Þessar aðgerðir eru samræmdar á höfuðborgarsvæðinu á meðal sveitarfélaga þar þó Reykjavík hafi farið sínar eigin leiðir og klofið samstöðuna. Í samanburði má segja að Reykjavík standi einna verst á höfuðborgarsvæðinu en þar mælist nú 18,2% atvinnuleysi, í Hafnarfirði 17%, Kópavogi og Garðabæ tæp 17% og á Seltjarnarnesi 15,5% (apríltölur VMST).

Hér á landi svipar nú til eins og í alþjóðasamfélaginu. Það ríkir hálfgerð ringulreið og aðgerðarstopp vegna þess að enginn virðist vita hvaða leið á að fara til að reisa atvinnulífið við. Gripið var víða um heim til allsherjar lokana vegna COVID-19 sem hefur nær kæft hagkerfi heims. Kerfislega mikilvæg ríki heims, eins og Bandaríkin, Bretlandi, Þýskaland, Ítalía og Frakkland, eru í miklum vanda. Þessi ríki hafa stóru hlutverki að gegna til að koma hagkerfi okkar Íslendinga í gang.

Óttinn er sjálfsagt mikill við skuldasöfnun ríkja og aukningu fjármagns í umferð samfara varanlegum samdrætti í framboði ásamt mikilli eftirspurn inn í ókomna framtíð. Þessi þróun er þekkt eftir styrjaldir fyrri alda.

Faraldurinn sem nú geisar mun marka skýr skil á milli tímabils lækkunar verðbólgu síðustu 30 til 40 árin og umtalsverðrar verðbólgu næstu áratuga. Hér er vístað til hagfræðiprófessoranna dr. David Miles (Imperial College Business School, London) og dr. Andrew Scott (London Business School) en þetta kom fram í greinarstúf þeirra 4. apríl sl. er birtist í breska vefmiðlinum VOX.

Óvissan varðandi þróun veirufaraldursins er mikil og enn meiri óvissa er ríkjandi um þróun efnahagsmála heimsins. Íslendingar munu þurfa að líta til rótækra og óvenjulegra aðgerða til að koma eigin hagkerfi í gang. Hvers vegna? Það er augljóslega vegna þess að fáir utanaðkomandi munu stuðla að því að eigin frumkvæði að koma öðrum en eigin þjóð úr þessum vanda. Mikilvægt er Íslendingum að opnað sé sem fyrst á virkari verslun, samgöngur og alþjóðaviðskipti.

Það sem þarf að varast er tvennt. Annars vegar að hér verði ekki gífurleg verðhjöðnun og stöðnun og hins vegar að hér verði ekki til langs tíma gífurleg verðbólga með tilsvarandi launaskriði, óróa á fjármálamörkuðum og óstöðugleika. Þarna skiptir miklu að launþegahreyfingar axli ábyrgð ásamt atvinnurekendum. Valdajafnvægi ákveðinna hópa í samfélaginu mun riðlast og því mikilvægt er að sýna samtakamátt í einskonar þjóðarsátt.

Sé vísað í orð dr. Miles og dr. Scott, munu launþegahreyfingar hafa mikil áhrif á verðlagsþróun. Þeir félagarnir geta þess m.a. að eftir spænsku veikina hafi mikill hluti vinnuaflsins látist í þeim faraldri. Vegna þess hafði það haft mikil áhrif á launaþróun, þ.e. til hækkunar sökum skorts á vinnuafli. Svo virðist ekki raunin nú. Telja þeir félagarnir að það verði í framtíðinni mun meira rætt um „nauðsynlegt eða ónauðsynlegt“ vinnuafl í stað „sérhæfðs vinnuafls eða ósérhæfðs“. Það mun koma til þó svo að það sé ekki bein afleiðing af COVID-19 faraldrinum.

Þeir kraftar sem munu verða leystir úr læðingi eftir COVID-19 faraldurinn, sökum mikils atvinnuleysis, munu væntanlega auka þolinmæði almennings gagnvart verðbólgu. Samstaða um nýjar áherslur, þar sem fjármagni yrði varpað inn í hagkerfið, gætu orðið til að breyta afstöðu fræðimanna til stefnu í peningamálum. Óvæntir atburðir geta leitt til þess að mistök, m.a. vegna stefnumótunar í dag, komi upp á yfirborðið síðar og muni kristallast m.a. í mikilli verðbólgu. Hinir óvæntu atburðir gætu einnig leitt til skelfilegrar þróunar, þ.e. til verðhjöðnunar. Því má vænta þess að verðbólga verði víða óumflýjanleg. Undirbúum því stýritækin, styrkjum innviði og tökum stefnuna.

Til hamingju með daginn Vigdís


Í dag á Vigdís Finnbogadóttir 90 ára afmæli. Íslendingar hafa átt því láni að fagna að velja sér forseta sem hafa reynst þjóð sinni vel. Vigdís gerði gott betur en svo að hafa reynst þjóð sinni vel. Vigdís varð fjölmörgum konum um heim allan innblástur og ég sem faðir tveggja stúlkna er stoltur af því að geta sagt þeim að það voru Íslendingar sem fyrstir kusu sér konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. Það var árið 1980, ég þá 12 ára en man vel hve mikilvægt þetta var og gerði mér grein fyrir tímamótunum.

Forsetaframbjóðendurnir 1980 - Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Albert Guðmundsson þingmaður og Pétur J. Thorsteinsson sendiherra
Forsetaframbjóðendurnir 1980 – Vigdís Finnbogadóttir, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Pétur J. Thorsteinsson sendiherra og Albert Guðmundsson þingmaður.

15 árum síðar, þá starfandi hjá Seðlabanka Íslands, fékk ég það verkefni að rita skýrslu fyrir forsetaembættið um efnahagsmál í Kína áður en forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, hélt í opinbera ráðstefnu til Beijing. Um var að ræða Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Átti ég fund með forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, á sínum tíma og var skrifstofa embættisins þá í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Alla tíð hef ég fylgst vel með framþróun í réttindum kvenna og störfum Vigísar. Það er fagnaðarefni að á Íslandi er nú rekin stofnun á vegum háskóla Sameinuðu þjóðanna í kynjafræðum og jafnrétti (UNU-GEST) þar sem konur víða að úr heiminum stunda nám og geta að því loknu haldið heim með boðskap Vigdísar og fleiri kvenna úr öllum heiminum sem rutt hafa brautina fyrir konur og ekki síður karlmenn.

Vigdís Finnbogadóttir nýkjörin forseti Íslands árið 1980
Vigdís Finnbogadóttir nýkjörin forseti Íslands árið 1980

Vigdís starfaði í Þjóðleikhúsinu og hóf þar fyrst störf 24 ára sem ritstjóri leikskrár og blaðafulltrúi leikhússins. Hún kenndi frönsku í Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum við Hamrahlíð frá 32 ára aldri til 42 ára aldurs. Þegar hún var fertug hóf hún að kenna frönsku í sjónvarpinu og stóð það í um eitt ár. Aðeins 42 ára varð hún leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur sem þá var til húsa í Iðnó. Hún, ásamt öðrum, stofnaði leikhópinn Grímu á þrítugasta og fyrsta aldursárinu. Þann hóp skipuðu auk Vigdísar þau Erlingur Gíslason (faðir Benedikts Erlingssonar leikara), hjónin Guðmundur Steinsson (leikritahöfundur) og Kristbjörg Kjeld leikkona (lék í kvikmyndinni Mamma Gógó), Magnús Pálsson (gjörningalistamaður) og Þorvarður Helgason. Óhætt er að segja að að frumkvöðlastarf þessa leikhóps hafi gert íslenskt leikhús frjórra, mun betra og þróað það inn í framtíðina.

Á 7. áratugnum skaut upp kollinum Rauðsokkahreyfingin. Hún var stofnuð í upphafi áratugarsins árið 1970. Barðist hreyfingin gegn kynjamisrétti. Á þessum tíma var róstursamt í Evrópu og í Bandaríkjunum. Víetnamstríðið geisaði, kalt stríð í Evrópu samhliða hernaðaruppbyggingu og stúdentar víða um heim létu til sín taka. Rauðsokkurnar höfðu áhrif. Kvennafrídaginn 24. október 1975 lögðu íslenskar konur niður vinnu og flykktust á baráttufundi víðsvegar um landið. Móðir mín hélt til Reykjavíkur á baráttufund ásamt vinkonum sínum og var þar ásamt um 30 þúsund konum. Árið 1980 var svar Íslendinga við þessu ástandi og þessari áskorun að kjósa sér fyrst þjóða konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. Fyrir valinu varð Vigdís Finnbogadóttir. Það var Íslendingum mikil gæfa enda hefur Vigdís alla tíð verið þjóð sinni til sóma.

Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna
Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna á gangi við Bessastaði árið 1986

Það kom í hlutverk Vigdísar Finnbogadóttur síðar, þ.e. árið 1986, að vera óbeint þátttakandi og gestgjafi tveggja voldugustu manna heims þegar leiðtogafundur þeirra Ronald Reagans, forseta Bandaríkjanna, og Mikhaíl Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna, var haldin í Höfða í Reykjavík. Þá var hún 56 ára gömul og sjaldan glæsilegri. Hver man ekki eftir því þegar hún tók á móti leikaranum og forseta Bandaríkjanna á Bessastöðum í þá tíð? Það var þá þegar kalda stríðið leið undir lok og það gerðist á Íslandi. Óhætt er að segja að Vigdís getur brætt hjörtu margra.

Vigdís Finnbogadóttir
Vigdís Finnbogadóttir

Árið 2001 var sett á laggirnar stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Um er að ræða rannsóknarstofnun innan Hugvísindadeildar Háskóla Íslands og var hún sett á laggirnar í október 2001 og nýtur þess heiðurs að bera nafn Vigdísar Finnbogadóttur. Um árabil hefur Vigdís gegnt starfi velgjörðarsendiherra tungumála hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) eða allt frá árinu 1998. Það er gaman frá því að segja að eiginkona mín, Danith Chan, starfaði á skrifstofu UNESCO í Beijing í Kína í nokkur ár á 10. áratugunum, þ.e. á sama áratugnum og ég ritaði skýrsluna fyrir Vigdísi áður en hún hélt á kvennaráðstefnu þar í borg. Allt á þetta sínar skýringar og um örlög okkar allra er spunninn þráður.

Við Íslendingar getum verið stoltir af því að hafa haft Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta. Til hamingju með daginn Vigdís Finnbogadóttir og innilegar þakkir fyrir þitt framtak, umhyggju og yndisleik.

COVID-19 – Hvað svo?


Grein sem birstist í Morgunblaðinu 14. apríl 2020

Um þessar mundir herjar veira, COVID-19, á heimsbyggðina. Þetta er skelfileg veira og illa liðin enda talin banvæn. Hvaða skaða veldur hún?

Þegar við lítum nú á veldisvöxt smita vegna COVID-19 er það ógnvekjandi en sama yrði einnig uppi á teningnum varðandi aðrar flensur yrðu skráningar sambærilegar. Þetta áréttar dr. John Lee (breskur prófessor emiratus í meinafræði). Fjallar hann í nýlegri grein sinni 28. mars sl. í „The Spectator“, sérstaklega um Bretland og COVID-19. Bendir hann á ferli veirufaraldursins í Bandaríkjunum sem og í öðrum löndum. Frá því í september 2019, skv. bandarískum heilbrigðisyfirvöldum, hefur árstíðabundin flensa náð að smita 38 milljónir þar í landi, 390.000 hafa lagst inn á spítala í kjölfarið og 23.000 hafa látist.

Varðandi Ísland segir hann að tölur þaðan bendi til að um 50% þeirra sem greinast með COVID-19 séu nánast alveg einkennalausir og aðrir með minni háttar einkenni. Dr. John Lee undirstrikar að Ísland sé afgerandi hvað greiningagetu varðar og skeri sig úr í því efni. Getur hann þess 28. mars sl. að á Íslandi hafi um 0,3% af smituðum einstaklingum láti lífið [innsk.: 0,5% 12. apríl]. Þetta hlutfall nemur um 9,9% á Ítalíu [innsk.: 12,8% 12. apríl] og 0,5% í Þýskalandi [innsk.: 2,2% 12. apríl]. Dr. Lee spyr sig réttilega í greininni: „Teljum við að vírusstofninn sé svo mismunandi í þessum nágrannalöndum að virkilega sé um mismunandi sjúkdóma að ræða?“ Hann bætir og við spurningu þess efnis hvort fólkið í þessum löndum gæti verið svo mismunandi af guði gert að það geti skýrt margfaldan mun á dauðsföllum á milli landanna.

Fullyrðir dr. Lee að ef framangreindar tilgátur séu ekki réttar, sem augljóst má vera, að hér kristallist umtalsverð tölfræðileg kerfisskekkja á milli landa. Á Spáni er gefið upp 7,1% dánarhlutfall [innsk.: 10,1% 12. apríl] af COVID-19 greindum einstaklingum þar í landi, 1,3% í Bandaríkjunum [innsk.: 3,8% 12. apríl], 1,3% í Sviss, [innsk.: 3,3% 12. apríl], 4,3% í Frakklandi [innsk.: 14,9% 12. apríl], 1,3% í Suður-Kóreu, 5% í Bretlandi [innsk. 12,5% 12. apríl] og 7,8% í Íran [innsk.: 6,2% 12. apríl]. Dr. Lee segir í grein sinni að við gætum alveg eins borið saman epli og appelsínur. Fullyrðir dr. Lee að eini rétti mælikvarðinn sé sá að ef sýking veldur dauðsföllum umfram eðlilegan framgang lífsins frá ári til árs megi sjá stöðuna rétt og meta svo út frá því hvað gera skuli. Fullyrðir hann að enn hafi ekki verið sýnt fram á tölfræðilegar staðreyndir sem sanna ótvírætt að um sé að ræða óeðlilega mikil dauðsföll umfram það sem gerist og gengur frá ári til árs um heim allan.

Til áréttingar bendir dr. Lee réttilega á að vissulega geti „COVID-19 hæglega dregið fólk til dauða sem er með alvarlega undirliggjandi lungasjúkdóma og hjá einstaklingum sem reykja. Meðalaldur þeirra sem látast nú á Ítalíu er um 78 ár. Níu af hverjum tíu sem látast nú þar eru á áttræðisaldri. Lífslíkur Ítala eru tæplega 83 ár.

Með framangreind rök að leiðarljósi má ætla að einangrun ákveðins aldurshóps sé mikilvæg ráðstöfun en óvíst hvort það módel sem beitt er á alla sé hið eina rétta. Til þess að þeim eigi að fylgja eftir verða að liggja einhver haldbær rök. Einnig þurfa að liggja fyrir haldbær rök sé áformað að beita harðari úrræðum. Taka þessi módel tillit til aldurs, þekktra undirliggjandi sjúkdóma, breytileika veiru, skráningar dánarvottorða og annarra marbreytilegra þátta?

Staðreyndin er einmitt kannski sú að við erum að skoða veiruna COVID-19 á allt annan hátt og af mun meiri athygli en nokkur veira hefur verið skoðuð áður, fullyrðir dr. Lee. Sjónvarpsútsendingar og upptökur frá Ítalíu lýsa hörmungum. En dr. Lee segir sjónvarp ekki vera vísindi. Það má víst til sannsvegar færa. Það vita flestir, dr. Lee ekki síður en aðrir, að lokun og einangrun (e. lockdown) dregur úr áhrifum og smiti COVID-19 og slökun á þessum lokunum muni auka á smit. En þarf þetta að verða til þess að halda eigi þessum lokunum til streitu? Er þetta ekki einmitt úrræðið þegar kemur til að um mjög alvarlegan vírus sé að ræða? Því og þess vegna er okkur lífsnauðsynlegt að skrá rétt og færa rétt til bókar. Ef ekki er rétt að því staðið gætu tölurnar gefið rangar vísbendingar um afleiðingarnar sem vírusinn kann í raun og sann að valda. Hvernig getum við annars metið afleiðingarnar af því að fólk geti látið lífið, misst atvinnu, lífsgæði sín og tilgang vegna fyrirséðrar ógnar? Hvað af þessu veldur í raun mestum skaða?

Hér er ekki verið að fjalla um hvort um sé að ræða líf eða fjármuni heldur líf eða líf. Það geta einmitt liðið mánuðir, jafnvel ár þar til við getum metið áhrif gjörða okkar í dag. Hver verður skaðinn af menntunarskorti barna, vegna aukningar sjálfsmorða, aukins geðheilbrigðisvanda og af því að taka heilbrigðisstarfsfólk frá öðrum sjúkum sem eru veikir og þurfa á margvíslegri læknishjálp að halda?

Hvað svo með gífurlegan samdrátt í matvælaframleiðslu og óheyrilegan samdrátt viðskipta á heimsvísu sem mun hafa gífurlegar afleiðingar hér á Íslandi og víðar en sérstaklega í vanþróuðum löndum?

Heimildir: The Spectator 28. mars 2020, www.who.int, www.covid.is

Stefnumál og stöðugleiki


Hverju sinni sem hugað er að velferð þjóðar skiptir miklu að stöðugleiki ríki og fólk geti gengið að grundvallarlífsskilyrðum sem gefnum. Eitt af því er að geta átt skjól, ekki aðeins húsaskjól heldur einnig skjól þegar ekk er í önnur hús að venda.

Traustur grunnur hvers samfélags byggir á því að fólk búi vel í haginn, gæti að því að það sjálft byggi velferð sína á þekkingu og menntun ásamt því að stuðla að viðgangi fjölskyldu sinnar og öryggi. Þegar á reynir eru það einmitt stoðirnar sem hver og ein fjölskylda hefur rekið undir sig og sína sem samfélagið sjálft stendur á.

Grunnstefna, sem á að vera þverpólitísk samstaða um, ætti því að vera sú að tryggja velferð fjölskyldna um fram allt enda eru það þær sem allt annað byggist á. Sé menntun og þekking ekki til staðar og fjölskyldan getur ekki stuðlað að því að ala upp samkeppnishæfar kynslóðir, sem verða að keppa við aðrar á alþjóðlegum vettvangi, eru það fyrirtækin sem eiga erfitt með að fóta sig, skapa atvinnu og stuðla að velferð og viðgangi samfélagsins.

Mikilvægt er að frelsi fylgi ábyrgð. Það verður því að gera þeim, sem vilja auka frelsið, að tryggja að þroski hvers samfélags og geta þess að takast á við aukið frelsi í viðskiptum án þess að slíkt geti valdið öðrum tjóni. Það vill svo vera að oft er talið að við öll séum sterk, traustsins verð og með þann aga sem til þarf að banna sjálfum sér að taka út það og nýta í eigin þágu sem öðrum ber. Eitt má nefna í því samhengi.

Ef við viljum samkeppni og frjálsan markað verðum við að tryggja að slíkt frelsi verði ekki til þess að valda öðrum helsi, m.a. vegna styrk þess sem hefur fengið frelsið í hendur úr hendi ríkis eða sveitarfélags? Gott dæmi eru bankar og stofnanir sem hyggja á sameiningar, hagræðingu og frekari skuldsetningu til að auka arðsemi eiginfjár með því t.a.m. að lágmarka það í bókum sínum. Svo skellur á kreppa, veirufaraldur og önnur vá sem ber að með öðrum hætti í hvert sinn sem slikt kemur öllum á óvart. Það er einmitt þá sem veikleiki hagræðingarinnar kemur í ljós, veikleiki og máttleysi fyrirtækjanna og stofnana vegna of mikilla skulda sem teknar voru þegar allt lék í lyndi. Í hruni koma veikleikar t.a.m. sveitarfélaga og ríkis í ljós og getuleysi til að gæta að grunnstoðum samfélagsins, þ.e. fjölskyldunum. Hvað með að eiga nú fleiri en eitt hátæknisjúkrahús og geta nú tryggt fyrir komandi kynslóðir að allir viti betur, afli þekkingar og læri af því sem við göngum nú í gegnum?

Það er einmitt þá sem margir verða fyrir áfalli geta aðeins leitað á einn stað, þ.e. í trú sína og von ef öll sund eru lokuð. Því er mikilvægt að fólk geti leitað huggunar harmi gegn. Eftir stendur þó ábyrgð þeirra sem ekki huga að áhættu fyrr en hún umbreytist í hörmungar þar sem stoðir gefa sig jafnvel allar nema ein, þ.e. kirkjan.