Framtíð menntunar


Hér er um að ræða endurrit úr glósum og fylgigögnum sem eru hluti af ferilmöppu höfundar í námskeiðinu Námskrá og skólaþróun (KEN213F) í umsjón dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur prófessors á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, dr. Hjördísar Þorgeirsdóttur framhaldsskólakennara og dr. Atla Vilhelm Harðarssonar dósents á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.


Menntun fyrir alla
Kennum og nemum

Yfirferð í fyrirlestri um framtíð menntunar

Í fyrirlestrinum var fjallað um að nemendur gætu haldið svokallaða ferilmöppu yfir þá tíma sem væru framundan. Slíkt gæti nýst til námsmats og er ein aðferð til þess að meta hvort nemendur hafi náð efninu sem farið var yfir, kynnt sér efni þess og náð markmiðum námskeiðsins.

Sett var inn kveikja frá OECD og Sameinuðu þjóðunum hvað varðar Heimsmarkmiðin og menntun til sjálfbærni. Farið yfir kennslusýn í anda þessara áherslna. Vísað til þess að árið 2008 hafi lögum verið breytt og áhersla lögð á að ekki aðeins ættu kennarar að kenna með tilsvarandi undirbúningi heldur ekki síður að taka þátt í skólaþróun. Það varð til þess að námskeiðið varð í raun til. Við þessar breytingar var ríkari áhersla á þátttöku kennara í mótun skólanámskráa.

Fengist er við að læra tilhögun við gerð námskráa, eðli þeirra og fjalla um þróunarmál í skólum. Að loknu þessu námskeið á nemandi að geta:

  • nýtt sér hugtök, kenningar og rannsóknir um námskrá, skólaþróun og menntastefnu,
  • greint inntak og andstæð sjónarmið um menntastefnu, skráðar sem og óskráðar, innan skóla sem og á landsvísu og alþjóðlega,
  • skilið hvernig þjóðfélagsþróun og þróun þekkingar hefur áhrif á námskrár, skólastarf og menntastefnu,
  • útskýrt með hjálp kenninga og rannsókna, hvernig skólagerð framhaldsskóla og ýmsir þættir í skólamenningu hafa áhrif á hvernig skóla túlka stefnu menntayfrvalda,
  • nota hagnýt vinnubrögð við námskrárgerð og skólaþróun í framhaldsskólum,
  • greint frá og fundið nýjungar í starfi framhaldsskóla,
  • fylgst með rannsóknum á Íslandi og erlendis og fræðilegum skrifum um menntastefnu og skólaþróun.

Sé litið á kennslufræðilega sýn eru helstu hugtökin sem talin eru vera mikilvæg í því sambandi: samvinna, þátttaka, áhugi, ábyrgð, virkni og framlag. Í þessu efni hefur reynslan sýnt að aðferðirnar við nám og kennslu er ekki síður mikilvæg og kennsluefnið sjálft. Það kemur vel í ljós þegar unnið er með sjálfbærni og umhverfismál. Til að ná að þróa samfélagið í átt að aukinni sjálfbærni verður að virkja nemendur og leiða þeim það í ljós að þeir beri ábyrgð að eigin gjörðum. Með því að auka þátttöku nemenda má ná fram þessu markmiði. Ábyrgðartilfinning nemenda gagnvart námi og starfi.

Að velja sjálfir viðfangsefni og taka þátt í að ákveða hvernig þekkingar er aflað og henni miðlað.

Námskrá og skólaþróun í framhaldsskóla – Glærur dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur 14. janúar 2021

Nýjar kröfur koma til vegna fjölbreytni í hópi nemenda. Mikilvægt að tryggt sé að hæfniviðmið falli vel að markmiði sjálfbærnimenntunar.

Háskóli Íslands verður að tvinna saman sjálfbærnisýn og breytta kennsluhætti vegna þess að með virkri þátttöku nemenda verða gjarnan til nýjar hugmyndir og lausnir.

Námskrá og skólaþróun í framhaldsskóla – Glærur dr. Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur 14. janúar 2021

Í fyrirlestrinum var lögð rík áhersla á að sökum þessa verði Háskóli Íslands að auka vægi þátttökunáms. Til að ná slíku markmiði verði kennarar að nota verklag sem eykur þátttöku og virkjar nemendur.

OECD og framtíð menntunar

Þann 15. september 2020 ritaði Andreas Schleicher, forstöðumaður, Menntamálastofnun OECD, pistil um fjórar sviðsmyndir um framtíðarmenntun og skólagöngu.

  • Lenging skólagöngu
  • Útvistun menntunnar
  • Skólar sem námsmiðstöðvar
  • Læra hvar sem er, hvernær sem er

Þessar sviðsmyndir þrýsta á að við hugsum um árangur með þróun endurmenntunnar (e. re-schooling) svo dæmi sé nefnt. Námsmarkaðurinn stækkar, foreldrar eru orðnir meiri þátttakendur í ferlinu ásamt aukinni fjárfestingu í stafrænni tækni sem tengir fólk saman. Þarna skiptir miklu að auka virkni nemenda í þátttöku á oft óformföstu ferli og auðlindum til að bæta við sig þekkingu.

Að hvaða marki mun núverandi fyrirkomulag hjálpa eða hindra okkar sýn?

Andreas Schleicher, forstöðumaður, Menntamálastofnun OECD, 15. september 2020.

Eigum við að reisa hið nýja á grunni hins gamla og aðeins fínstilla það? Eigum við að bylta kerfinu með nýrri tækni? Á að nýta rými skólastofnanna með öðrum hætti, mannauðinn, fólkið og tæknina? Umbreytingar gætu hugsanlega átt að eiga sér stað en hvaða aldurshópa á slík breyting að ná til? Ungabörn, unglinga, fullorðna og jafnvel þá elstu? Þátttakan er að aukast með fjölgun mannkyns og hærri lífaldri.

Andreas Schleicher virðist sjá hér umbreytingu í miðjum COVID-19 faraldri enda birtist greinin seint á árinu 2020. Hann telur að framangreindar 4 sviðsmyndir OECD varðandi framtíðarsýn, þ.e. kennslusýn, mætti nota til hvatningar og sem innblástur til umbreytinga. Þessar sviðsmyndir mætti nota til að kanna mikilvægi þess skoða þetta einnig út frá framtíðar áföllum. Hann leggur þó upp úr því að við könnum þetta og metum án allrar sjálfumgleði með einföldum lausnum. Þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn vill Andreas Schleicher árétta að þessi draumur, sem virðist fjarlægður, gæti orðið að raunveruleikanum á morgun.

Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun

Heimsmarkmiðin – Menntun til sjálfbærni

Markmiðið er að tryggja með þessari áherslu Sameinuðu þjóðanna aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi. Til greind eru ófá undirmarkmið þessu stil stuðnings.

Menntun fyrir alla

Hér fara helstu undirmarkmiðin sem sett eru fram undir þessum lið varðandi menntun fyrir alla.

4.1 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki góðri grunnskólamenntun á jafnréttisgrundvelli án endurgjalds til að öðlast viðeigandi og gagnlega menntun. 

4.2 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost að þroskast og dafna frá unga aldri, fá umönnun og leikskólamenntun til að búa þau undir grunnskóla.  

4.3 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði. 

4.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ungmennum og fullorðnum með hagnýta kunnáttu fjölgað umtalsvert, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt viðeigandi störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi. 

4.5 Eigi síðar en árið 2030 hafi kynjamismunun í menntakerfinu verið afnumin og jafn aðgangur að námi á öllum stigum tryggður og starfsþjálfun fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, þar á meðal fyrir fatlað fólk, frumbyggja og börn sem búa við erfiðar aðstæður. 

4.6 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að öll ungmenni og stór hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, hafi náð tökum á lestri og skrift og öðlast talnaskilning.

4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

4.8 Byggð verði upp og endurbætt aðstaða til menntunar fyrir börn, óháð kyni, svo að allir geti lært í öruggu og friðsamlegu umhverfi án aðgreiningar, fatlaðir sem aðrir. 

4.9 Eigi síðar en árið 2020 hafi námsstyrkjum sem standa þróunarlöndum til boða verið fjölgað um heim allan, einkum í þeim löndum sem eru skemmst á veg komin, þ.e. smáeyríkjum og Afríkuríkjum, til að efla háskólamenntun í þróunarlöndum, þar á meðal starfsnám og upplýsinga- og samskiptatækni, tækninám, verkfræði og raunvísindi.

4.10 Eigi síðar en árið 2030 verði framboð á menntuðum og hæfum kennurum aukið verulega, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og smáeyríkjum.

Vandinn við markmið sem þessi, hvort heldur að alþjóðasamfélag setur þau eða bara heimili, skólastofnun eða sveitarfélag, ef þau eru óraunhæf verði minna litið á þau sem raunverulegt markmið heldur óskhyggja. Skilgreiningaratriðið hér ætti að vera nokkuð ljóst en hér er áréttað að fyrir árið 2030 eigi að vera búið að koma málum þannig fyrir að ,,allir“ eigi aðgengi að menntun. Hvað með Jemen, Eritreu eða Tigray héraðið í Eþíópíu svo ekki sé minnst á alvarlega stöðu barna innan Evrópu og víða um heim? Hvernig ætla fulltrúar og yfirvöld þeirra 193 aðildarlanda Sameinuðu þjóðanna að tryggja að þetta nái fram að ganga?

Þarna er getið um leikskólamenntun. Í fyrsta lagi eru leikskólar og rekstur leikskóla ekki skylda sveitarfélaga að byggja upp og reka á Íslandi. Hvernig má vera að það átak, sem var gífurlega erfitt mörgum sveitarfélögum hér á landi að uppfylla, nái hreinlega fram að ganga fyrir 2030 innan allra ríkja sem aðild eiga að Sameinuðu Þjóðunum?

Skilgreiningarvandinn er hrópandi hér þegar fjallað er um að það eigi að tryggja jafnan aðgang að ,,góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði.“. Hvað er átt við með ,,góðu“ og hvað er átt við með ,,viðráðanlegu verði“? ECST einingakerfið í námi innan Evrópusambandsins og þar með Evrópska efnahagssvæðisins, sem snýr að ærði menntun, er alfarið undir stjórn Evrópusambandsins. Þetta kerfi hefur enn ekki náð, þ.e. árið 2021, að viðurkenna fjölmörg fjarkennslukerfi og menntun margra af erlendum uppruna sem koma inn í og þurfa á að halda ódýru en skilvirku námi. Hvers vegna? Ætli það kunni að vera vegna þess að hagsmunir margra háskóla séu að halda í hið gamla kerfi sem vissulega tryggir gæði og öryggi. Til þess að svo verði kostar slíkt ómælt fé.

Það er ekki svo að markmiðin séu ekki göfug og verðug. Vandinn er bara sá að þegar sett eru markmið sem þessi eru þau oft það brött að þó svo að innleiðing eigi sér stað sé ekki eftir þeim farið. Það sem reyndar er af hinu góða er að þeir sem kalla eftir breytingum geta bent á þessi markmið og krafist aðgerða, þ.e. ef stjórnvöld eru tilbúin að hlusta og gefa verkefnum tækifæri sem geta reyndar ógnað gildum og viðhorfum, jafnvel heilu starfsstéttunum, sem gæti tafið framþróun.

Í 7. lið má sjá afar áhugaverða áherslu sem tengist beint sjálbærri þróun þar sem lögð er rík áhersla á sjálfbæran lífsstíl. Markmiðið er að hlúð sé að friðsamlegri menningu, mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálbærrar þróunar. Hér vantar augljóslega eitthvað sem snýr að kynfrelsi en líkur eru á að með ,,friðsamlegri menningu“ gæti verið hægt að koma þjóðum og þjóðarbrotum heims í skilning um að við erum misjöfn.

Hverjir afla? Hvar er bákn og hvar er böl?


Þeir fiska sem róa er þekkt og innihaldsríkt íslenskt máltæki. Þetta lýsir því mikilvægi að einhver þarf að skapa verðmæti og til þess að það sé gert nægir ekki að sitja heima og bíða eftir björginni.

Allt frá iðnbyltingunni, sem hófst síðla á 18. öldinni, hefur mannkynið náð miklum framförum en þær framfarir hafa vissulega orðið til þess að gengið hefur verið nokkuð á auðlindir jarðarinnar. Úr varð að þýskur hagfræðingur og heimspekingur, Karl Marx (5. maí 1818 – 14. mars 1883), þróaði stjórnmálaspeki er gekk út á átök milli stétta í stað samninga. Auðvaldið átti að deila meira af gæðunum til almúgans, þ.e. öreiga.

Á ekki að ríkja jafnvægi og jafnræði? Sósíalistar gagnrýndu Karl Marx til að öðlast sjálfir stöðu. Bæði kommúnisminn og sósíalisminn hafa gengið illa upp í stórvarasömum tilraunum sem flestar ef ekki allar hafa endað með mikilli skelfingu fyrir mannkynið.

Á 20. öldinni efldist ný grein, þ.e. þjónustugreinin og hefur hún drifið hagvöxt lungað úr þeirri öld allt til dagsins í dag. Það gerðist vissulega ásamt þróun á nýrri tækni, framleiðslu, þróun og hraðari heimi á tölvuöldinni miklu.

Sé litið til Íslands í dag starfa þar nú rétt tæplega 56 þúsund manns í opinberri stjórnsýslu, í fræðslustarfsemi og við heilbrigðis- og félagsþjónustu, þ.e. miðað við vinnuafl á aldursbilinu 16-74 ára sem er alþjóðlegt viðmið. Á mynd 1 má sjá þróunina. Gula súlan (mynd 1) á að tákna árið 2020 og er hún og hlutfallið sett þarna af greinarhöfundi hið sama og fyrir 2019 svo sjá megi viðmið, þ.e. ekki sem raunstaða.

Mynd 1
Heimild – Hagstofa Íslands, apríl 2020 (án gulu súlunnar)

Sem hlutfall af vinnuaflinu nemur vinnuaflið hjá hinu opinbera rúmum 28% af heildar vinnuaflinu á aldursbilinu 16-74 ára og hefur aukist talsvert frá því að kosið var síðast til Alþingis 28. október 2017 og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mynduð undir lok nóvembermánaðar sama ár. Flokkarnir sem mynda þessa ríkisstjórn eru Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri hreyfingin grænt framboð.

Litla rauða súlan (mynd 2) á að tákna árið 2020 og er hún og hlutfallið sett þarna af greinarhöfundi. Svo sýna megi áhrif ferðaþjónustunnar var vinnuaflið sett í 0 fyrir ferðatengda þjónustu til að lýsa því hve stór hluti hún í raun og sann er. Samdráttur er mikill hjá ferðaþjónustunni. Hefur því dregið gífurlega úr vinnuafli í þeirri grein og ferðatengdum greinum vegna uppsagna síðustu daga og vikna. Þetta sýnir einnig að þegar þessi mikilvæga atvinnugrein þurrkast nánast út hve gríðarlega stór hluti vinnuafls landsins starfar hjá hinu opinbera (mynd 1). Hér er þess gætt að halda sömu kvörðum í bæði mynd 1 og mynd 2 til að sjá megi betur þróunina hjá opinberum starfsmönnum og bera þær tölur saman við hluta hins almenna vinnumarkaðs sem finna má í mynd 2. Vakin er sérstaklega athygli að árið 2018 voru álíka margir starfandi hjá hinu opinbera og í öllum þeim greinum sem tilgreindar eru í mynd 2.

Mynd 2
Heimild – Hagstofa Íslands, apríl 2020 (án rauðu súlunnar)

Það er síður en svo mælt með því hér að farið verði í e.k. uppsagnir hjá hinu opinbera eins og nú árar. Einhver hagræðing þarf að eiga sér stað engu að síður hjá hinu opinbera þegar fram líður. Greinilegt er að það var gert á árunum frá hruni allt þar til þess að núverandi ríkisstjórn var mynduð og kom sínu fólki í embætti eins og enginn væri morgundagurinn. Það kom reyndar á daginn að staðan hjá mörgum í dag, a.m.k. fyrir fjölmarga á hinum almenna vinnumarkaði, er líkt því að enginn verði morgundagurinn. Hefur ríkisstjórn Katrínar Jakopsdóttur bætt í Báknið, komið sínu fólki í stöður rétt eftir kosningar til dagsins í dag og gefið ríflega á garðann.

Hver á að greiða skattana til að halda uppi tæplega 56 þúsund einstaklingum í störfum hjá hinu opinbera? Af þessum 56 þúsundum má nefna tæp 4 þúsund sem núverandi ríkisstjórn hefur bætt við frá því að hún tók við völdum í landinu. Það gerðist fyrir rétt rúmum 2 árum. Ljóst er samkvæmt þessum tölum að það hefur fækkað þeim sem greiða skattana til að halda megi störfum fyrir opinbera starfsmenn eins og Katrínu Jakbosdóttur og fjölmarga aðra sem teljast mikilvægt vinnuafl, sbr. heilbrigðisstarfsfólk, kennara ofl. Báknið stækkar.

Annað, sem ekki virðist vera mikið rætt, er áhættan eða starfsöryggið öllu heldur. Hver tekur meiri áhættu hér? Eru það opinberir starfsmenn eða starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði og fyrirtækin í landinu? Svarið er augljóst. Þeir sem ættu að hafa hærri tekjur, m.t.t. starfsöryggis í sambærilegum störfum fólks með sambærilega reynslu og menntun, eru starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði. Annað væri ekki aðeins ósanngjarnt heldur bæði ósiðlegt og óeðlilegt nema einna helst hjá lögreglu sem starfar í áhættuumhverfi.

Mikilvægt er að þeir sem vinna hjá hinu opinbera beri skynbragð á þessa staðreynd, þ.e. að ef viðkomandi starfar hjá hinu opinbera felst í starfinu mun meira starfsöryggi en ef starfað er á hinum almenna vinnumarkaði. Það að krefjast launa hjá hinu opinbera langt umfram það sem gerist í sömu störfum á hinum almenna vinnumarkaði er því ekki í samræmi við að áhættan er minni sem tekin er, þ.e. meira starfsöryggi er hjá hinu opinbera eins og sjá má m.a. á mynd 1. Benda má á fjölmarga aðra þætti sem auka á starfsöryggi í opinberum störfum umfram störf á hinum almenna vinnumarkaði. Má þar m.a. nefna eftirlaunakjör opinberra starfsmanna, uppsagnarákvæði, áminningarferli oþh. sem gerir fulltrúum skattgreiðenda oft erfitt að losa sig við óhæft vinnuafl og draga saman seglin þegar á bjátar í rekstri ríkis eða stofnana hins opinbera. Ekki er með þessu verið að segja að einhver eigi ekki skilið launahækkun og starfsöryggi sé viðkomandi starfandi hjá hinu opinbera, alls ekki. Það þarf bara að ríkja jafnræði og samkeppnisstaða fyrirtækja og almenna vinnumarkaðarins verður að vera jöfn gagnvart hinu opinbera. Svo virðist ekki vera í dag enda bifast Báknið ekki. Báknið kjurt.

Hér er verið að benda á staðreyndir svo almenningur geti gert sér grein fyrir þessu og þeirri áhættu sem felst í mismunandi störfum og mismunandi starfsöryggi. Þetta eiga fjölmargir sósíaldemókratar erfitt með að skilja. Fjölmargir, sem þekkja til og vita hvað hér er um að ræða, voga sér hugsanlega ekki að koma fram af ótta við verða fyrir aðkasti. En þetta eru staðreyndir og lögmál rétt eins og þyngdarlögmálið. Það breytist því ekki þó fjölmargir vinstri menn haldi öðru fram, hugsanlega margir gegn betri vitund sem er öllu verra en gagnrýni hinna vammlausu.

Margir opinberir starfsmenn kalla sífellt á hærri laun, sem eru oft (ekki alltaf) umfram það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði í sambærilegum störfum. Svo virðist sem þetta beinlínis ógni stöðugleika á vinnumarkaði. Oftar en ekki eru kröfur settar fram gegn framangreindum lögmálum. Enn og aftur er áréttað að ekki er verið að segja að starfsfólk hjá hinu opinbera eigi ekki fullan rétt á að sækja aukin laun og bætt kjör til viðsemjenda sinna. Aðeins er bent á að líta verði á framangreindar staðreyndir, þ.e. það er aukið starfsöryggi hjá hinu opinbera og mörg kjör betri en á hinum almenna vinnumarkaði.

Stundum fara opinberir starfsmenn illa upplýstir af stað með launakröfur og ýmsar kjarabætur inn í samningaviðræður. Slíkt getur skaðað samningsstöðuna og þann grunn sem laun þeirra sjálfra byggjast á. Þessi leið getur beinlínis grafið undan kjörum á hinum almenna vinnumarkaði þar sem skatttekjurnar myndast til að halda uppi störfum hjá hinu opinbera. Þetta er keðjuverkandi og kallar oftar en ekki á svokallað höfrungahlaup.

Margir kunna að hugsa: ,,Þetta lendir ekki á mér, kanski á einhverjum öðrum hjá hinu opinbera.“. Þetta er afleiðingin af því að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, hafa ekki tekið á því að koma á jafnræði á milli starfa hjá hinu opinbera annars vegar og á hinum almenna vinnumarkaði hins vegar. Það eru fáir sem þora í þá vegferð að gagnrýna, a.m.k. innan vébanda stjórnvalda í dag. Á meðan eykst ójafnræðið á milli vinnandi fólks hjá hinu opinbera og á almenna vinnumarkaðnum svo ekki sé minnst á átök á milli stétta hjá hinu opinbera. Slíkt kristallast í verkfalli sem boðað er af hálfu Eflingar stéttarfélags, óbilgirni gagnvart hjúkrunarfræðingum og lögreglu. Þetta vilja greinilega vinstri menn rétt eins og elíta íslenskra sósíaldemókrata. Sú guðsvolaða elíta, óháð flokkum er m.a. skipa ríkisstjórn íslands í dag, virðist þrífast best hjá hinu opinbera án þess að þurfa að taka afleiðingum gjörða sinna. Þar ríkir starfsöryggi innan um ókleifa veggi regluverks varðandi áminningarferli og önnur kostakjör. Svo sitja hinir hólpnu í elítunni á opinberu kaffistofunni sem Efling skúrar og lögregla stendur vörð um. Þar sötrar gengið dreggjarnar rétt eins og sprengjusveit bandaríska flughersins sem nýlega hefur skilað ,,góðu“ dagsverki og komin öll aftur heil heim í kaffi. ,,Þetta lendir ekki á mér og ég… ég er yfirleitt ef ekki alltaf í um 20 þúsund fetum innan vébanda hins opinbera á Íslandi.“. Þarna kristallast stéttaátök Karls Marx innan vébanda hins opinbera á Íslandi í dag. Sökum þessa vex og stækkar Báknið á kostnað skattgreiðenda og hugsanlega einnig á kostnað þeirra allra lægstu í opinberum launastigagöngum þar á bæ.

Það er mikilvægt að fram fari ítarleg rannsókn á því hvort svo stór hópur opinberra starfsmanna sé eðlilegur í litlu hagkerfi. Einnig þyrfti að kanna hvort ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, stofnanir á vegum hins opinbera og sveitarfélög hafi beinlínis ógnað fjármálastöðugleika í landinu með því að bæta við allt að 4 þúsundum í opinber störf á síðustu 2 árum. Það er afar mikilvægt að líta á þetta í samhengi. Þarna virðist ríkisstjórnarsamstarfið mikið til hafa byggst á því að gefa á garðann strax í upphafi fyrsta starfsárs ríkisstjórnarinnar. Það varð að líma samstarfið einhvernvegin saman.

Það er miður ef ríkið dregur sífellt meira súrefni frá atvinnulífinu í landinu með því að keppa við það um vinnuaflið. Miðað við áhættustigið og starfsöryggið má ætla að ríkið keppi ekki aðeins um vinnuafl heldur má vænta þess að það hirði flest af vel menntuðum frá atvinnulífinu þó það þurfi að kanna betur.

Ríkið virðist því stunda félagsleg undirboð á vinnumarkaði með ígidi óeðlilegra ,,ríkisstyrkja“ sem felast í störfum hjá hinu opinbera og kjörum sem almenni vinnumarkaðurinn getur aldrei boðið. Vísa má m.a. á skýrslu sem starfshópur ráðuneytis félags- og barnamála gaf út í janúar árið 2019 er snéri einmitt að félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Í þeirri skýrslu má beinlínis sjá hvert almenni vinnumarkaðurinn leitar þegar ríkið hagar sínum máli með þeim hætti sem hér er reifað. Athuga ber að ríki og sveitarfélög saman er sem tvíhöfða þurs á íslenskum vinnumarkaði. Það er miður að starfshópur ráðherra félags- og barnamála hafi ekki litið sér nær við skýrslugerðina.

Hér má finna skýrslu samstarfshóps ráðuneytis félags- og barnamála á Íslandi er varðar félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

Ætla má að þeir sem leiti í störf hjá hinu opinbera verði oftar en ekki að uppfylla ströng skilyrði um menntun, reynslu og fyrri störf, fara í gegnum flókna og oft ósanngjarnt mat sem fáir eða enginn botnar í. Þetta virðist til þess eins að þróa áfram kapplaup um bestu bitana, þ.e. hjá hinu opinbera. Svo er það starfsánægjan við að vinna hjá hinu opinbera, það er allt annað mál og ólíkt viðfangsefni en það sem hér er reifað.

Nú um stundir eiga margir um sárt að binda og fyrirtæki á hnjánum hjá þeirri ríkisstjórn sem keppir við atvinnulífið um vinnuaflið með ígildi félagslegra undirboða. Haldi þetta áfram inn í ókomna framtíð mun vinnuaflið líklegast leita þangað sem ,,hlýjast“ er og í ,,öruggt“ húsaskjól hins opinbera. Á meðan dregur ríkið að sér nánast allt súrefni og skemmir útfrá sér frá ári til árs, þ.e. étur undan sér. Báknið verður böl.

Eftir allt hrósið til heilbrigðisstarfsfólks að undanförnu, sem mest allt eru opinberir starfsmenn er eiga allt gott skilið eftir vasklega framgöngu gegn COVID-19, vill greinarhöfundur hrósa og þakka öðru fólki einnig.

Hrósið og þakkirnar, að öðrum ólöstuðum, fær ferðaþjónustufólkið sem starfað hefur m.a. fyrir íslenska skattgreiðendur síðustu ár og áratugi og tekur nú á sig áhættuna sem í þeirra störfum var fólgin. Þetta er fólkið sem nú axlar ábyrgðina og skilur eftir í ríkissjóði gífurlegt fjármagn. Það fjármagn nýtist nú svo að halda megi uppi frábæru starfsfólki á heilbrigðisstofnunum og kennurum er sinntu börnum á erfiðum tímum. Þetta fjármagn nýtist einnig til uppbyggingar innviða og til að reisa atvinnulífið við.

Fólkið sem starfað hefur í ferðaiðnaði hefur ekki aðeins styrkt ríkissjóð og byggt upp frá hruni. Þetta fólk hefur aflað gífurlegra gjaldeyristekna og tekið áhættu í ófærð og byl. Það hefur starfað í grein sinni af alúð og dug.

Von greinarhöfundar er að kjósendur og þar með skattgreiðendur sjái þá mynd sem hér er dregin upp og móti sína afstöðu út frá því. Lengi má böl bæta.

Til hamingju með daginn ykkar, 1. maí, kæra verkafólk um land allt !

Þakkir enn og aftur frábæra ferðaþjónustufólk !

Atvinnumál þjóðar í þrengingum – Hvert stefnir?


Vinnuaflið á Íslandi, 25-64 ára (2019), telur um 155.000 einstaklinga en skv. alþjóðlegu viðmiðið, á aldursbilinu 16-74 ára, telur það um 197.000.

Samkvæmt Vinnumálastofnun (VMST-apríl 2020) eru með einum eða öðrum hætti 53.000 einstaklingar á bótum. Þar af 18.000 atvinnulausir og 35.000 á hlutabótum vegna skerts starfshlutfalls. Meðalskerðing þessa hóps er um 60% og er ígildi atvinnuleysis þess hóps því um 21.000.

Í dag eru því um 39.000 atvinnulausir eða ígildi þess að vera það. Þetta telur um 20% til 25% atvinnuleysi (þýði 16-74 ára og 25-64 ára) og kostar þetta um 12 milljarða á mánuði.

Starfandi eru um 56.000 opinberir starfsmenn (þýði 16-74 ára) er telur 28% vinnuaflsins en um 45.000 (sé miðað við 25-64 ára). Því eru um 48% til 54% vinnuaflsins á framfæri hins opinbera á Íslandi í dag.

Atvinnuleysi í einstaka sveitarfélögum er fordæmalaust. Í Mýrdalshreppi mældist það í apríl 2019 um 1,1% en skv. mælingum í dag mælist það 46,8%. Í Reykjanesbæ mældist þetta í apríl 2019 um 6,1% en í dag er það komið í 27%. Framundan er að útsvarið lækki og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga einnig enda ber þetta allt að sama brunni.

Fjárhagslega veik sveitarfélög eins og Mosfellsbær, þar sem atvinnuleysi mælist nú yfir 16%, geta lítið sem ekkert gert. Það er boðið upp á frestun á greiðslu gjalda og lækkun á liðum sem hrökkva skammt. Þessar aðgerðir eru samræmdar á höfuðborgarsvæðinu á meðal sveitarfélaga þar þó Reykjavík hafi farið sínar eigin leiðir og klofið samstöðuna. Í samanburði má segja að Reykjavík standi einna verst á höfuðborgarsvæðinu en þar mælist nú 18,2% atvinnuleysi, í Hafnarfirði 17%, Kópavogi og Garðabæ tæp 17% og á Seltjarnarnesi 15,5% (apríltölur VMST).

Hér á landi svipar nú til eins og í alþjóðasamfélaginu. Það ríkir hálfgerð ringulreið og aðgerðarstopp vegna þess að enginn virðist vita hvaða leið á að fara til að reisa atvinnulífið við. Gripið var víða um heim til allsherjar lokana vegna COVID-19 sem hefur nær kæft hagkerfi heims. Kerfislega mikilvæg ríki heims, eins og Bandaríkin, Bretlandi, Þýskaland, Ítalía og Frakkland, eru í miklum vanda. Þessi ríki hafa stóru hlutverki að gegna til að koma hagkerfi okkar Íslendinga í gang.

Óttinn er sjálfsagt mikill við skuldasöfnun ríkja og aukningu fjármagns í umferð samfara varanlegum samdrætti í framboði ásamt mikilli eftirspurn inn í ókomna framtíð. Þessi þróun er þekkt eftir styrjaldir fyrri alda.

Faraldurinn sem nú geisar mun marka skýr skil á milli tímabils lækkunar verðbólgu síðustu 30 til 40 árin og umtalsverðrar verðbólgu næstu áratuga. Hér er vístað til hagfræðiprófessoranna dr. David Miles (Imperial College Business School, London) og dr. Andrew Scott (London Business School) en þetta kom fram í greinarstúf þeirra 4. apríl sl. er birtist í breska vefmiðlinum VOX.

Óvissan varðandi þróun veirufaraldursins er mikil og enn meiri óvissa er ríkjandi um þróun efnahagsmála heimsins. Íslendingar munu þurfa að líta til rótækra og óvenjulegra aðgerða til að koma eigin hagkerfi í gang. Hvers vegna? Það er augljóslega vegna þess að fáir utanaðkomandi munu stuðla að því að eigin frumkvæði að koma öðrum en eigin þjóð úr þessum vanda. Mikilvægt er Íslendingum að opnað sé sem fyrst á virkari verslun, samgöngur og alþjóðaviðskipti.

Það sem þarf að varast er tvennt. Annars vegar að hér verði ekki gífurleg verðhjöðnun og stöðnun og hins vegar að hér verði ekki til langs tíma gífurleg verðbólga með tilsvarandi launaskriði, óróa á fjármálamörkuðum og óstöðugleika. Þarna skiptir miklu að launþegahreyfingar axli ábyrgð ásamt atvinnurekendum. Valdajafnvægi ákveðinna hópa í samfélaginu mun riðlast og því mikilvægt er að sýna samtakamátt í einskonar þjóðarsátt.

Sé vísað í orð dr. Miles og dr. Scott, munu launþegahreyfingar hafa mikil áhrif á verðlagsþróun. Þeir félagarnir geta þess m.a. að eftir spænsku veikina hafi mikill hluti vinnuaflsins látist í þeim faraldri. Vegna þess hafði það haft mikil áhrif á launaþróun, þ.e. til hækkunar sökum skorts á vinnuafli. Svo virðist ekki raunin nú. Telja þeir félagarnir að það verði í framtíðinni mun meira rætt um „nauðsynlegt eða ónauðsynlegt“ vinnuafl í stað „sérhæfðs vinnuafls eða ósérhæfðs“. Það mun koma til þó svo að það sé ekki bein afleiðing af COVID-19 faraldrinum.

Þeir kraftar sem munu verða leystir úr læðingi eftir COVID-19 faraldurinn, sökum mikils atvinnuleysis, munu væntanlega auka þolinmæði almennings gagnvart verðbólgu. Samstaða um nýjar áherslur, þar sem fjármagni yrði varpað inn í hagkerfið, gætu orðið til að breyta afstöðu fræðimanna til stefnu í peningamálum. Óvæntir atburðir geta leitt til þess að mistök, m.a. vegna stefnumótunar í dag, komi upp á yfirborðið síðar og muni kristallast m.a. í mikilli verðbólgu. Hinir óvæntu atburðir gætu einnig leitt til skelfilegrar þróunar, þ.e. til verðhjöðnunar. Því má vænta þess að verðbólga verði víða óumflýjanleg. Undirbúum því stýritækin, styrkjum innviði og tökum stefnuna.

Til hamingju með daginn Vigdís


Í dag á Vigdís Finnbogadóttir 90 ára afmæli. Íslendingar hafa átt því láni að fagna að velja sér forseta sem hafa reynst þjóð sinni vel. Vigdís gerði gott betur en svo að hafa reynst þjóð sinni vel. Vigdís varð fjölmörgum konum um heim allan innblástur og ég sem faðir tveggja stúlkna er stoltur af því að geta sagt þeim að það voru Íslendingar sem fyrstir kusu sér konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. Það var árið 1980, ég þá 12 ára en man vel hve mikilvægt þetta var og gerði mér grein fyrir tímamótunum.

Forsetaframbjóðendurnir 1980 - Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Albert Guðmundsson þingmaður og Pétur J. Thorsteinsson sendiherra
Forsetaframbjóðendurnir 1980 – Vigdís Finnbogadóttir, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Pétur J. Thorsteinsson sendiherra og Albert Guðmundsson þingmaður.

15 árum síðar, þá starfandi hjá Seðlabanka Íslands, fékk ég það verkefni að rita skýrslu fyrir forsetaembættið um efnahagsmál í Kína áður en forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, hélt í opinbera ráðstefnu til Beijing. Um var að ræða Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Átti ég fund með forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, á sínum tíma og var skrifstofa embættisins þá í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Alla tíð hef ég fylgst vel með framþróun í réttindum kvenna og störfum Vigísar. Það er fagnaðarefni að á Íslandi er nú rekin stofnun á vegum háskóla Sameinuðu þjóðanna í kynjafræðum og jafnrétti (UNU-GEST) þar sem konur víða að úr heiminum stunda nám og geta að því loknu haldið heim með boðskap Vigdísar og fleiri kvenna úr öllum heiminum sem rutt hafa brautina fyrir konur og ekki síður karlmenn.

Vigdís Finnbogadóttir nýkjörin forseti Íslands árið 1980
Vigdís Finnbogadóttir nýkjörin forseti Íslands árið 1980

Vigdís starfaði í Þjóðleikhúsinu og hóf þar fyrst störf 24 ára sem ritstjóri leikskrár og blaðafulltrúi leikhússins. Hún kenndi frönsku í Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum við Hamrahlíð frá 32 ára aldri til 42 ára aldurs. Þegar hún var fertug hóf hún að kenna frönsku í sjónvarpinu og stóð það í um eitt ár. Aðeins 42 ára varð hún leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur sem þá var til húsa í Iðnó. Hún, ásamt öðrum, stofnaði leikhópinn Grímu á þrítugasta og fyrsta aldursárinu. Þann hóp skipuðu auk Vigdísar þau Erlingur Gíslason (faðir Benedikts Erlingssonar leikara), hjónin Guðmundur Steinsson (leikritahöfundur) og Kristbjörg Kjeld leikkona (lék í kvikmyndinni Mamma Gógó), Magnús Pálsson (gjörningalistamaður) og Þorvarður Helgason. Óhætt er að segja að að frumkvöðlastarf þessa leikhóps hafi gert íslenskt leikhús frjórra, mun betra og þróað það inn í framtíðina.

Á 7. áratugnum skaut upp kollinum Rauðsokkahreyfingin. Hún var stofnuð í upphafi áratugarsins árið 1970. Barðist hreyfingin gegn kynjamisrétti. Á þessum tíma var róstursamt í Evrópu og í Bandaríkjunum. Víetnamstríðið geisaði, kalt stríð í Evrópu samhliða hernaðaruppbyggingu og stúdentar víða um heim létu til sín taka. Rauðsokkurnar höfðu áhrif. Kvennafrídaginn 24. október 1975 lögðu íslenskar konur niður vinnu og flykktust á baráttufundi víðsvegar um landið. Móðir mín hélt til Reykjavíkur á baráttufund ásamt vinkonum sínum og var þar ásamt um 30 þúsund konum. Árið 1980 var svar Íslendinga við þessu ástandi og þessari áskorun að kjósa sér fyrst þjóða konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. Fyrir valinu varð Vigdís Finnbogadóttir. Það var Íslendingum mikil gæfa enda hefur Vigdís alla tíð verið þjóð sinni til sóma.

Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna
Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna á gangi við Bessastaði árið 1986

Það kom í hlutverk Vigdísar Finnbogadóttur síðar, þ.e. árið 1986, að vera óbeint þátttakandi og gestgjafi tveggja voldugustu manna heims þegar leiðtogafundur þeirra Ronald Reagans, forseta Bandaríkjanna, og Mikhaíl Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna, var haldin í Höfða í Reykjavík. Þá var hún 56 ára gömul og sjaldan glæsilegri. Hver man ekki eftir því þegar hún tók á móti leikaranum og forseta Bandaríkjanna á Bessastöðum í þá tíð? Það var þá þegar kalda stríðið leið undir lok og það gerðist á Íslandi. Óhætt er að segja að Vigdís getur brætt hjörtu margra.

Vigdís Finnbogadóttir
Vigdís Finnbogadóttir

Árið 2001 var sett á laggirnar stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Um er að ræða rannsóknarstofnun innan Hugvísindadeildar Háskóla Íslands og var hún sett á laggirnar í október 2001 og nýtur þess heiðurs að bera nafn Vigdísar Finnbogadóttur. Um árabil hefur Vigdís gegnt starfi velgjörðarsendiherra tungumála hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) eða allt frá árinu 1998. Það er gaman frá því að segja að eiginkona mín, Danith Chan, starfaði á skrifstofu UNESCO í Beijing í Kína í nokkur ár á 10. áratugunum, þ.e. á sama áratugnum og ég ritaði skýrsluna fyrir Vigdísi áður en hún hélt á kvennaráðstefnu þar í borg. Allt á þetta sínar skýringar og um örlög okkar allra er spunninn þráður.

Við Íslendingar getum verið stoltir af því að hafa haft Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta. Til hamingju með daginn Vigdís Finnbogadóttir og innilegar þakkir fyrir þitt framtak, umhyggju og yndisleik.

COVID-19 – Hvað svo?


Grein sem birstist í Morgunblaðinu 14. apríl 2020

Um þessar mundir herjar veira, COVID-19, á heimsbyggðina. Þetta er skelfileg veira og illa liðin enda talin banvæn. Hvaða skaða veldur hún?

Þegar við lítum nú á veldisvöxt smita vegna COVID-19 er það ógnvekjandi en sama yrði einnig uppi á teningnum varðandi aðrar flensur yrðu skráningar sambærilegar. Þetta áréttar dr. John Lee (breskur prófessor emiratus í meinafræði). Fjallar hann í nýlegri grein sinni 28. mars sl. í „The Spectator“, sérstaklega um Bretland og COVID-19. Bendir hann á ferli veirufaraldursins í Bandaríkjunum sem og í öðrum löndum. Frá því í september 2019, skv. bandarískum heilbrigðisyfirvöldum, hefur árstíðabundin flensa náð að smita 38 milljónir þar í landi, 390.000 hafa lagst inn á spítala í kjölfarið og 23.000 hafa látist.

Varðandi Ísland segir hann að tölur þaðan bendi til að um 50% þeirra sem greinast með COVID-19 séu nánast alveg einkennalausir og aðrir með minni háttar einkenni. Dr. John Lee undirstrikar að Ísland sé afgerandi hvað greiningagetu varðar og skeri sig úr í því efni. Getur hann þess 28. mars sl. að á Íslandi hafi um 0,3% af smituðum einstaklingum láti lífið [innsk.: 0,5% 12. apríl]. Þetta hlutfall nemur um 9,9% á Ítalíu [innsk.: 12,8% 12. apríl] og 0,5% í Þýskalandi [innsk.: 2,2% 12. apríl]. Dr. Lee spyr sig réttilega í greininni: „Teljum við að vírusstofninn sé svo mismunandi í þessum nágrannalöndum að virkilega sé um mismunandi sjúkdóma að ræða?“ Hann bætir og við spurningu þess efnis hvort fólkið í þessum löndum gæti verið svo mismunandi af guði gert að það geti skýrt margfaldan mun á dauðsföllum á milli landanna.

Fullyrðir dr. Lee að ef framangreindar tilgátur séu ekki réttar, sem augljóst má vera, að hér kristallist umtalsverð tölfræðileg kerfisskekkja á milli landa. Á Spáni er gefið upp 7,1% dánarhlutfall [innsk.: 10,1% 12. apríl] af COVID-19 greindum einstaklingum þar í landi, 1,3% í Bandaríkjunum [innsk.: 3,8% 12. apríl], 1,3% í Sviss, [innsk.: 3,3% 12. apríl], 4,3% í Frakklandi [innsk.: 14,9% 12. apríl], 1,3% í Suður-Kóreu, 5% í Bretlandi [innsk. 12,5% 12. apríl] og 7,8% í Íran [innsk.: 6,2% 12. apríl]. Dr. Lee segir í grein sinni að við gætum alveg eins borið saman epli og appelsínur. Fullyrðir dr. Lee að eini rétti mælikvarðinn sé sá að ef sýking veldur dauðsföllum umfram eðlilegan framgang lífsins frá ári til árs megi sjá stöðuna rétt og meta svo út frá því hvað gera skuli. Fullyrðir hann að enn hafi ekki verið sýnt fram á tölfræðilegar staðreyndir sem sanna ótvírætt að um sé að ræða óeðlilega mikil dauðsföll umfram það sem gerist og gengur frá ári til árs um heim allan.

Til áréttingar bendir dr. Lee réttilega á að vissulega geti „COVID-19 hæglega dregið fólk til dauða sem er með alvarlega undirliggjandi lungasjúkdóma og hjá einstaklingum sem reykja. Meðalaldur þeirra sem látast nú á Ítalíu er um 78 ár. Níu af hverjum tíu sem látast nú þar eru á áttræðisaldri. Lífslíkur Ítala eru tæplega 83 ár.

Með framangreind rök að leiðarljósi má ætla að einangrun ákveðins aldurshóps sé mikilvæg ráðstöfun en óvíst hvort það módel sem beitt er á alla sé hið eina rétta. Til þess að þeim eigi að fylgja eftir verða að liggja einhver haldbær rök. Einnig þurfa að liggja fyrir haldbær rök sé áformað að beita harðari úrræðum. Taka þessi módel tillit til aldurs, þekktra undirliggjandi sjúkdóma, breytileika veiru, skráningar dánarvottorða og annarra marbreytilegra þátta?

Staðreyndin er einmitt kannski sú að við erum að skoða veiruna COVID-19 á allt annan hátt og af mun meiri athygli en nokkur veira hefur verið skoðuð áður, fullyrðir dr. Lee. Sjónvarpsútsendingar og upptökur frá Ítalíu lýsa hörmungum. En dr. Lee segir sjónvarp ekki vera vísindi. Það má víst til sannsvegar færa. Það vita flestir, dr. Lee ekki síður en aðrir, að lokun og einangrun (e. lockdown) dregur úr áhrifum og smiti COVID-19 og slökun á þessum lokunum muni auka á smit. En þarf þetta að verða til þess að halda eigi þessum lokunum til streitu? Er þetta ekki einmitt úrræðið þegar kemur til að um mjög alvarlegan vírus sé að ræða? Því og þess vegna er okkur lífsnauðsynlegt að skrá rétt og færa rétt til bókar. Ef ekki er rétt að því staðið gætu tölurnar gefið rangar vísbendingar um afleiðingarnar sem vírusinn kann í raun og sann að valda. Hvernig getum við annars metið afleiðingarnar af því að fólk geti látið lífið, misst atvinnu, lífsgæði sín og tilgang vegna fyrirséðrar ógnar? Hvað af þessu veldur í raun mestum skaða?

Hér er ekki verið að fjalla um hvort um sé að ræða líf eða fjármuni heldur líf eða líf. Það geta einmitt liðið mánuðir, jafnvel ár þar til við getum metið áhrif gjörða okkar í dag. Hver verður skaðinn af menntunarskorti barna, vegna aukningar sjálfsmorða, aukins geðheilbrigðisvanda og af því að taka heilbrigðisstarfsfólk frá öðrum sjúkum sem eru veikir og þurfa á margvíslegri læknishjálp að halda?

Hvað svo með gífurlegan samdrátt í matvælaframleiðslu og óheyrilegan samdrátt viðskipta á heimsvísu sem mun hafa gífurlegar afleiðingar hér á Íslandi og víðar en sérstaklega í vanþróuðum löndum?

Heimildir: The Spectator 28. mars 2020, www.who.int, www.covid.is

Stefnumál og stöðugleiki


Hverju sinni sem hugað er að velferð þjóðar skiptir miklu að stöðugleiki ríki og fólk geti gengið að grundvallarlífsskilyrðum sem gefnum. Eitt af því er að geta átt skjól, ekki aðeins húsaskjól heldur einnig skjól þegar ekk er í önnur hús að venda.

Traustur grunnur hvers samfélags byggir á því að fólk búi vel í haginn, gæti að því að það sjálft byggi velferð sína á þekkingu og menntun ásamt því að stuðla að viðgangi fjölskyldu sinnar og öryggi. Þegar á reynir eru það einmitt stoðirnar sem hver og ein fjölskylda hefur rekið undir sig og sína sem samfélagið sjálft stendur á.

Grunnstefna, sem á að vera þverpólitísk samstaða um, ætti því að vera sú að tryggja velferð fjölskyldna um fram allt enda eru það þær sem allt annað byggist á. Sé menntun og þekking ekki til staðar og fjölskyldan getur ekki stuðlað að því að ala upp samkeppnishæfar kynslóðir, sem verða að keppa við aðrar á alþjóðlegum vettvangi, eru það fyrirtækin sem eiga erfitt með að fóta sig, skapa atvinnu og stuðla að velferð og viðgangi samfélagsins.

Mikilvægt er að frelsi fylgi ábyrgð. Það verður því að gera þeim, sem vilja auka frelsið, að tryggja að þroski hvers samfélags og geta þess að takast á við aukið frelsi í viðskiptum án þess að slíkt geti valdið öðrum tjóni. Það vill svo vera að oft er talið að við öll séum sterk, traustsins verð og með þann aga sem til þarf að banna sjálfum sér að taka út það og nýta í eigin þágu sem öðrum ber. Eitt má nefna í því samhengi.

Ef við viljum samkeppni og frjálsan markað verðum við að tryggja að slíkt frelsi verði ekki til þess að valda öðrum helsi, m.a. vegna styrk þess sem hefur fengið frelsið í hendur úr hendi ríkis eða sveitarfélags? Gott dæmi eru bankar og stofnanir sem hyggja á sameiningar, hagræðingu og frekari skuldsetningu til að auka arðsemi eiginfjár með því t.a.m. að lágmarka það í bókum sínum. Svo skellur á kreppa, veirufaraldur og önnur vá sem ber að með öðrum hætti í hvert sinn sem slikt kemur öllum á óvart. Það er einmitt þá sem veikleiki hagræðingarinnar kemur í ljós, veikleiki og máttleysi fyrirtækjanna og stofnana vegna of mikilla skulda sem teknar voru þegar allt lék í lyndi. Í hruni koma veikleikar t.a.m. sveitarfélaga og ríkis í ljós og getuleysi til að gæta að grunnstoðum samfélagsins, þ.e. fjölskyldunum. Hvað með að eiga nú fleiri en eitt hátæknisjúkrahús og geta nú tryggt fyrir komandi kynslóðir að allir viti betur, afli þekkingar og læri af því sem við göngum nú í gegnum?

Það er einmitt þá sem margir verða fyrir áfalli geta aðeins leitað á einn stað, þ.e. í trú sína og von ef öll sund eru lokuð. Því er mikilvægt að fólk geti leitað huggunar harmi gegn. Eftir stendur þó ábyrgð þeirra sem ekki huga að áhættu fyrr en hún umbreytist í hörmungar þar sem stoðir gefa sig jafnvel allar nema ein, þ.e. kirkjan.

Gróa á Efstleiti rær lífróður


Frá því löngu fyrir Krist hafa menn fjallað um réttlætið. Þrátt fyrir að í árhundruði hafi menn fjallað um þetta hugtak virðist sem að þroskinn sé ekki meiri en svo að heimskan eigi ekki greiða leið að hugskotssjónum manna. Um þetta hafa heimspekingarnir rætt um í aldir. Eitt sem virðist þó einkenna þekkingagrunn þjóða sem hafa náð langt er að þorri almennings er bæði vel læs og skrifandi.

Fjölmiðar gegna mikilvægu hlutverki. Það sem hefur gerst frá því fyrir Krist og til miðalda er að í stað steinblokka, papírus og kálfskinns kom pappír og svo prenttæknin. Ljósvakarnir ollu byltingu og nú samfélagsmiðlar eftir að netnotkun er orðin almennari um allan heim.

Eitt gott dæmi um þessa öru þróun og byltingu nú um okkar daga er að það er talið vera mannréttindarmál að byggðir utan þéttbýlis í Bandaríkjunum hafi greiðan og hraðan aðgang að upplýsingum um ljósleiðara. Þetta óttast ríkisfjölmiðlar og róa um þessar mundir lífróður. RÚV hefur valið leið rætninnar, óvandaðrar fréttamennsku sökum illa launaðra ríkisstarfsmanna og sérhæft sig í neikvæðri fréttaumfjöllun í almennri dreifingu til að halda athygli almennings að einhverju spennandi þó slíkt sé rekið á kostnað skattgreiðenda, almenns siðgæðis og réttlætis.

Það er ekki gott að verða undir þessum ríkisrekna en úrelta valtara og vera svo tekinn upp með kíttispaða … ójbara.

Á Íslandi hefur hraðinn aukist og svo mikið að saman fer nú bæði ígrunduð skynsemi og mikill sori á ljóshraða manna í millum. Keppnin snýst nú ekki um gæðin lengur heldur að í stað hávaða og nánast útdauðrar einokunar komi fjöldi rætinna skilaboða. Hvers vegna má það vera? Er Gróa á Leiti ekki löngu dauð?

Vil ég í þessu efni minnast á tvær vísur sem styðja við að Gróa mun líklega lifa flesta heimspekinga af:

Vondra róg ei varast má
varúð þó menn skeyti,
mörg er Gróa málug á
mannorðs þjófa Leiti.

Það hefur verið lengi vitað að Gróa á Leiti var ein söguhetja Jóns Thoroddsens, skálds og sýslumanns, afa Gunnars heitins Thoroddsens fyrrum forsætisráðherra. En framangreind vísa var ort  af Sigurbirni Jóhannssyni (ljóðabók hans Ljóðmæli, Winnipeg 1902) frá Fótaskinni, sem fluttist til Kanada, faðir skáldkonunnar Jakobínu Johnson.

Síðar orti okkar ástkæra skáld, Þórarin Eldjárn, eftirfarandi kvæði:

Þegar hún Gróa á Efstaleiti lýgur
er ljósvakinn varla nægur
og orðrómurinn um allar jarðir flýgur,
svo óhlutdrægur.

Svo er komið nú að RÚV hefur með afgerandi hætti gengisfellt fréttamennsku á Íslandi með framferði sínu síðustu ár. Allt er slíkt unnið sökum þess að ríkismiðillinn rær lífróður. Óvönduð meðferð gagna og upplýsinga um samborgara okkar og ráðamenn hefur leitt af sér undirmál og um samfélagið streyma nú ótrúlegar samsæriskenningar um fyrrum forsætisráðherra Íslands, þ.e. Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Það er hreint með ólíkindum hve langt RÚV hefur náð með því að ganga þarna, hugsanlega ómeðvitað, erinda kröfuhafa og vinstri öfgaafla á Íslandi. Má ætla að einstaka embættismenn rói einnig undir. RÚV er reyndar uppfullt af embættismönnum hjá hinu opinbera einokunarhlutafélagi. Flestir hafa þeir fjárfest í sama lottómiðanum. Þeir hafa tekið áhættu í störfum sínum við samninga við kröfuhafa og með því að deila meiðandi upplýsingum sem leitt hafa til ólgu og uppreisna. Flest er þetta allt að ósekju nú allra síðustu ár. Auk þess er verið að grafa undan þrískiptingu ríkisvaldsins með því að framkvæmdavaldið seilist enn lengra en áður í að rægja þingmenn í gegnum RÚV og hafa í hótunum við þá á opinberum vettvangi eða með beinum hætti. Viljum við þetta Ísland?

Það er því mikið undir fyrir þessa aðila að ná að svæla ,,óværuna“, kraftmikinn einstakling sem stóð við kosningaloforðin, út af Alþingi Íslendinga og eyðileggja orðsporið eins og kostur er. Allt er þetta til þess eins að geta þæft glæpinn gegn Íslendingum og dregið fjöður yfir eigin gjörðir síðustu árin, þ.e. bæði fyrir og eftir hrun. Fremst í flokki fer RÚV og þar er enn og aftur nýtt almannafé rétt eins og við greiðslu launa þeirra embættismanna sem vildu selja Ísland með ICESAVE. Allt þetta er gert til að róa að því öllum árum að ná af almenningi eina rétti sínum, þ.e. rétti sínum til að geta sýnt saklausum réttlæti.

Varaformaður Framsóknarflokksins er vandaður maður og fer enginn í grafgötur með það. Hins vegar verða Framsóknarmenn að gera það upp við sig um næstu helgi hvort þeir vilji að RÚV verði hampað eða réttlætinu.

Framsóknaflokkar þurfa að sýna styrk.

Þessi pistill birtist fyrst á vefsetrinu eyjan.is þriðjudaginn 27.9.2016.

Mín helstu áherslumál


  • Húsnæðis- og skipulagsmál
  • Endurskoðun á kjörum og lagaumhverfi í tengslum við aldraða og öryrkja með leiðréttingu að leiðarljósi og bætt kjör
  • Húsnæðismál með sérstaka áherslu á hagsmuni ungs fólks, barnafólks þar sem leitast verður við að endurvekja verkamannabústaðarkerfið í einhverri mynd
  • Lækka skatta og álögur á fyrirtæki sem og einstaklinga en gæta jafnframt að tækjustofnum hins opinbera
  • Lágmarka skuldir ríkis og sveitarfélaga
  • Smærri og meðalstór fyrirtæki hafa ekki notið sammælis við stærri fyrirtæki og styrkja verður rekstrargrundvöll þeirra
  • Standa ber utan Evrópusambandsins en tryggja góða samvinnu við Evrópu almennt
  • Beina þróunarhjálp erlendis í farveg til að styrkja innviði ríkja, orkuöflun og vatnsbúskap ríkja auk mannúarmála af margvíslegu tagi
  • Snúa við sönnunarbyrði í öllum eftirlitsgeira hins opinbera og draga úr eftirlitsiðnaði
  • Endurskoða refsilöggjöf vegna fíkniefnamála
  • Styrkja samstarf okkar innan NATO og stuðla að meiri samvinnu við aðildarríkin á sviði varnarmála
  • Tryggja með Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) að ungt fólk geti stundað nám erlendis án mikilla vandkvæða óháð stétt og stöðu
  • Stuðla að mannúðarmálum innanlands fyrir innflytjendur og treysta innleiðingu þeirra enn frekar í íslenskt samfélag
  • Takmarka samþykki Útlendingastofnunar á málum flóttamanna við afkastagetu, burði opininbera aðila og samfélagsins til að taka við og sinna því góða fólki sem sækir um hæli á Íslandi
  • Standa vörð um íslenskan sjávarútveg en stuðla að nýliðun og tryggja að bæjarfélög hafi úrræði til að verja stöðu sína varðadi viðskipti með aflaheimildir
  • Byggja hátæknisjúkrahús og koma því vel fyrir í okkar umhverfi, stuðla að bættri heilsuvernd og heilsugæslu með því að minnka biðraðir
  • Tryggja lífsgæði aldraða m.a. með bættum kjörum en síðast en ekki síst með því að takmarka biðraðir og tryggja að fólk geti búið saman til æviloka en ekki sundrað
  • Styrkja löggæslu í landinu og öryggismál innanlands m.a. með góðum flugsamgöngum á höfuðborgarsvæðinu
  • Breyta löggjöf um nauðungarsölur þar sem kröfuhöfum verði gert að bjóða í alla kröfu sína og allt að fasteignamati eigna eða skv. mati dómskvaddra matsmanna
  • Stefna á rafrænni stjórnsýslu á Íslandi (e. eGovernment) svo upplýsingaflæði til bæði skattgreiðenda og ráðamanna sé greið að nákvæmum lifandi upplýsingum
  • Efla erlenda fjárfestingu í innviðum á Íslandi, orkutengdum iðnaði og ferðaþjónustu
  • Stuðla að náttúruvernd og efla skórækt enn frekar í landinu
  • Byggja upp innviði fyrir ferðaþjónustu og leitast við að einkaaðilar fái að innheimta gjöld af ferðamönnum sem renna skulu að hluta í uppbyggingu innviða á viðkomandi stöðum
  • Tryggja gagnsæi í skattlagningu og streymi skattfjár í útgjaldaliði sem þeim var ætlað að dekka bæði hjá ríki- og sveitarfélögum
  • Standa vörð um höfundarétt og annan beinan og óbeinan eignarétt almennt sem virðist eiga undir högg að sækja