COVID-19 – Hvað svo?


Grein sem birstist í Morgunblaðinu 14. apríl 2020

Um þessar mundir herjar veira, COVID-19, á heimsbyggðina. Þetta er skelfileg veira og illa liðin enda talin banvæn. Hvaða skaða veldur hún?

Þegar við lítum nú á veldisvöxt smita vegna COVID-19 er það ógnvekjandi en sama yrði einnig uppi á teningnum varðandi aðrar flensur yrðu skráningar sambærilegar. Þetta áréttar dr. John Lee (breskur prófessor emiratus í meinafræði). Fjallar hann í nýlegri grein sinni 28. mars sl. í „The Spectator“, sérstaklega um Bretland og COVID-19. Bendir hann á ferli veirufaraldursins í Bandaríkjunum sem og í öðrum löndum. Frá því í september 2019, skv. bandarískum heilbrigðisyfirvöldum, hefur árstíðabundin flensa náð að smita 38 milljónir þar í landi, 390.000 hafa lagst inn á spítala í kjölfarið og 23.000 hafa látist.

Varðandi Ísland segir hann að tölur þaðan bendi til að um 50% þeirra sem greinast með COVID-19 séu nánast alveg einkennalausir og aðrir með minni háttar einkenni. Dr. John Lee undirstrikar að Ísland sé afgerandi hvað greiningagetu varðar og skeri sig úr í því efni. Getur hann þess 28. mars sl. að á Íslandi hafi um 0,3% af smituðum einstaklingum láti lífið [innsk.: 0,5% 12. apríl]. Þetta hlutfall nemur um 9,9% á Ítalíu [innsk.: 12,8% 12. apríl] og 0,5% í Þýskalandi [innsk.: 2,2% 12. apríl]. Dr. Lee spyr sig réttilega í greininni: „Teljum við að vírusstofninn sé svo mismunandi í þessum nágrannalöndum að virkilega sé um mismunandi sjúkdóma að ræða?“ Hann bætir og við spurningu þess efnis hvort fólkið í þessum löndum gæti verið svo mismunandi af guði gert að það geti skýrt margfaldan mun á dauðsföllum á milli landanna.

Fullyrðir dr. Lee að ef framangreindar tilgátur séu ekki réttar, sem augljóst má vera, að hér kristallist umtalsverð tölfræðileg kerfisskekkja á milli landa. Á Spáni er gefið upp 7,1% dánarhlutfall [innsk.: 10,1% 12. apríl] af COVID-19 greindum einstaklingum þar í landi, 1,3% í Bandaríkjunum [innsk.: 3,8% 12. apríl], 1,3% í Sviss, [innsk.: 3,3% 12. apríl], 4,3% í Frakklandi [innsk.: 14,9% 12. apríl], 1,3% í Suður-Kóreu, 5% í Bretlandi [innsk. 12,5% 12. apríl] og 7,8% í Íran [innsk.: 6,2% 12. apríl]. Dr. Lee segir í grein sinni að við gætum alveg eins borið saman epli og appelsínur. Fullyrðir dr. Lee að eini rétti mælikvarðinn sé sá að ef sýking veldur dauðsföllum umfram eðlilegan framgang lífsins frá ári til árs megi sjá stöðuna rétt og meta svo út frá því hvað gera skuli. Fullyrðir hann að enn hafi ekki verið sýnt fram á tölfræðilegar staðreyndir sem sanna ótvírætt að um sé að ræða óeðlilega mikil dauðsföll umfram það sem gerist og gengur frá ári til árs um heim allan.

Til áréttingar bendir dr. Lee réttilega á að vissulega geti „COVID-19 hæglega dregið fólk til dauða sem er með alvarlega undirliggjandi lungasjúkdóma og hjá einstaklingum sem reykja. Meðalaldur þeirra sem látast nú á Ítalíu er um 78 ár. Níu af hverjum tíu sem látast nú þar eru á áttræðisaldri. Lífslíkur Ítala eru tæplega 83 ár.

Með framangreind rök að leiðarljósi má ætla að einangrun ákveðins aldurshóps sé mikilvæg ráðstöfun en óvíst hvort það módel sem beitt er á alla sé hið eina rétta. Til þess að þeim eigi að fylgja eftir verða að liggja einhver haldbær rök. Einnig þurfa að liggja fyrir haldbær rök sé áformað að beita harðari úrræðum. Taka þessi módel tillit til aldurs, þekktra undirliggjandi sjúkdóma, breytileika veiru, skráningar dánarvottorða og annarra marbreytilegra þátta?

Staðreyndin er einmitt kannski sú að við erum að skoða veiruna COVID-19 á allt annan hátt og af mun meiri athygli en nokkur veira hefur verið skoðuð áður, fullyrðir dr. Lee. Sjónvarpsútsendingar og upptökur frá Ítalíu lýsa hörmungum. En dr. Lee segir sjónvarp ekki vera vísindi. Það má víst til sannsvegar færa. Það vita flestir, dr. Lee ekki síður en aðrir, að lokun og einangrun (e. lockdown) dregur úr áhrifum og smiti COVID-19 og slökun á þessum lokunum muni auka á smit. En þarf þetta að verða til þess að halda eigi þessum lokunum til streitu? Er þetta ekki einmitt úrræðið þegar kemur til að um mjög alvarlegan vírus sé að ræða? Því og þess vegna er okkur lífsnauðsynlegt að skrá rétt og færa rétt til bókar. Ef ekki er rétt að því staðið gætu tölurnar gefið rangar vísbendingar um afleiðingarnar sem vírusinn kann í raun og sann að valda. Hvernig getum við annars metið afleiðingarnar af því að fólk geti látið lífið, misst atvinnu, lífsgæði sín og tilgang vegna fyrirséðrar ógnar? Hvað af þessu veldur í raun mestum skaða?

Hér er ekki verið að fjalla um hvort um sé að ræða líf eða fjármuni heldur líf eða líf. Það geta einmitt liðið mánuðir, jafnvel ár þar til við getum metið áhrif gjörða okkar í dag. Hver verður skaðinn af menntunarskorti barna, vegna aukningar sjálfsmorða, aukins geðheilbrigðisvanda og af því að taka heilbrigðisstarfsfólk frá öðrum sjúkum sem eru veikir og þurfa á margvíslegri læknishjálp að halda?

Hvað svo með gífurlegan samdrátt í matvælaframleiðslu og óheyrilegan samdrátt viðskipta á heimsvísu sem mun hafa gífurlegar afleiðingar hér á Íslandi og víðar en sérstaklega í vanþróuðum löndum?

Heimildir: The Spectator 28. mars 2020, www.who.int, www.covid.is