
Ríkisútvarpið ofh (RÚV – ,,útvarp einstakra landsmanna“) skilaði tæpum 200 milljóna króna halla nýlega skv. frétt mbl.is þess efnis 4. mars sl. Skömmu síðar lagði meirihluti starfshóps menningar- og viðskiptaráðuneytisins til að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði og hverfi þar með frá samkeppni einkaaðila þegar kemur að sölu auglýsinga. Þetta segir frétt mbl þann 6. mars sl.
Um árabil, reyndar í áratugi, hefur verið umræða um hvort ríkið eigi að reka og eiga ríkisfjölmiðil. Hér er ríkismiðill sem skilar tapi ár eftir ár og skyggir á aðra miðla á markaðnum. Þessir einkareknu miðlar keppa sín í millum um auglýsingar en RÚV hrifsar orðið til sín stærri hluta. Það gerir RÚV til að dekka tap hins ríkisrekna miðils. Í frétt á visir.is þann 19. desember sl getur hinn glöggi fréttamaðurinn Jakbob Bjarnar þess að hlutdeild Ríkisútvarpsins í tekjum fjölmiðla á íslenskum markaði hafi aukist á milli ára. Þær fóru úr 26% í 27%.
Á sama tíma óx auglýsingadeild RÚV úr 20% í 22 prósent. Hvað með að veita RÚV, og þar með öllum landsmönnum, e.k. þróunarhjálp hvað þetta varðar? Gengur upp þetta sífellda tap og þessi sífellda óregla í rekstri? Ekki er efnið, sem boðið er uppá hjá RÚV, upp á marga fiska.
Einn stjórnandi Morgunvaktarinnar á RÚV, Þórunn Elísabet Bogadóttir, ræddi (upptaka: 51:20) í morgun við fyrrum starfsmann fréttastofu RÚV sem býr í Úganda. Þessi starfsmaður þar býr þar sökum þess að maki viðkomandi, einnig fyrrum starfsmaður fréttastofu RÚV, starfar nú Í Kampala. Hann er þar á vegum utanríkisráðuneytisins í e.k. þróunarhjálp. Í viðtalinu kom m.a. fram að hitinn í Kampala sé mikill. Hann reynist svo mikið að jafnvel Úgandamenn séu farnir að kvarta. En líkur eru á, þar sem í morgun hafi verið skýjað, að ekki þyrfti að fara að kæla húsnæðið með loftkælingunni. Þá var fullyrt að við slík skilyrði létti þeim sem fæddir eru á annari breiddargráðu, þ.e. við Norður-Íshafið.
Í þessu opinskáa viðtali kom m.a. fram hve mikill munur sé á umgjörð í kringum hinn yfir 150 ára Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi og þess einkaskóla sem börn þessara starfsmanna stunda nám í þarna í Kampala. Viðtalið gekk svo út á þau forréttindi sem þessir starfsmenn, sem og börn þeirra, njóta á meðan dvöl þeirra stendur fjarri heimahögum.
Óhætt er að segja að þarna er ekki saman að jafna kjörum almennings og þeirra starfsmanna sem starfa á vegum íslensku utanríkisþjónustunnar. Þá var áréttað í viðtalinu (upptaka 58:10) að við komun til Kampala ,,myndi öllu skipta að“ börnin kæmust inn í ,,góðan skóla“. Þá segir fyrrum starfsmaður fréttastofu RÚV við stjórnanda Morgunvaktarinnar á RÚV (upptaka 58:55):
Það er nú þannig að það er ekki hægt að treysta mikið á svona opinbert skólakerfi í Úganda. Það er bara hreinlega í molum eftir einkavæðingu sem að sett var af stað fyrir einhverjum áratugum síðan og núna mega bara opinberu skólarnir teljast heppnir ef kennararnir þar eru með tilhlíðanlega menntun. Rannsóknir hafa meira að segja leitt í ljós að sumir kennarar eru ekki einu sinni læsir, sem skiptir ekki máli því það er líka allur gangur á því hvort þeir mæti í vinnuna og það er að segja ef til er skólabygging yfir höfuð. Þið heyrið hvernig þetta er. Þannig að það var ljóst að það er enginn míró hér en við urðum að finna bara sambærilega möguleika og bara eina leiðin að fara bara í einkaskóla og það þarf náttúrulega að vera alþjóðegur.
Í framangreindu viðtali, þar sem þáttastjórnandi tók undir hvert orð viðmælandans, kom m.a. fram að skólinn heitir Ambrosoli en skv. vefsetri hans stunda þar nám um 320 börn á aldrinum 2ja ára til 11 ára og koma frá um 50 löndum (53 skv. viðmælandanum í morgun). Skólinn er kenndur við kaþólska prestinn, lækninn og ítalann Giuseppe Ambrosoli (fæddur árið 1923, látinn 1987).
Skólinn var fyrst rekinn sem ítalskur skóli skv. upplýsingum á vefsetri skólans. Árið 2003 var einkafyrirtækið Ambrosoli Limited stofnað og skólinn þróaður í alþjóðlegan einkaskóla. Í viðtalinu kom m.a. fram að eitthvað er af börnum frá Úganda í skólanum en það er ,,út af gæðum skólans“, sbr. viðmælanda. Svo er víst þarna dóttir einhvers hershöfðingja sem kemur í skólann í herfylgd.
Það sem vekur hér sérstaka og reyndar sífellda undrun að íslenskum opinberum starfsmönnum, sem þurfa að sætta sig e.k. afbrigði einkavæðingar og hina einkareknu skóla fyrir börn sín t.a.m. erlendis, en geta ekki í sama mund þolað öðrum foreldrum íslenskra barna að njóta hins sama þegar heim er komið.
Starfsmenn RÚV, reyndar landsmenn allir, gætu lært eitthvað af þessu viðtali við fyrrum samstarfsmann fréttastofu RÚV. Á næstu vikum og mánuðum, jafnvel fyrir næstu jól, gæti þessi viðmælandi og maki hans mögulega komið upp í Efstaleiti og veitt þar örnámskeið í þróunarhjálp hvað þetta varðar.
Sama gæti væntanlega átt við um íslenska ríkisrekna skóla, heilbrigðisþjónustu og fjölmiðla og víðast hvar erlendis, ekki satt? Er ekki einnig orðið brýn þörf á e.k. þróun í þessum málum til betri vega á Íslandi?