Hverju sinni sem hugað er að velferð þjóðar skiptir miklu að stöðugleiki ríki og fólk geti gengið að grundvallarlífsskilyrðum sem gefnum. Eitt af því er að geta átt skjól, ekki aðeins húsaskjól heldur einnig skjól þegar ekk er í önnur hús að venda.
Traustur grunnur hvers samfélags byggir á því að fólk búi vel í haginn, gæti að því að það sjálft byggi velferð sína á þekkingu og menntun ásamt því að stuðla að viðgangi fjölskyldu sinnar og öryggi. Þegar á reynir eru það einmitt stoðirnar sem hver og ein fjölskylda hefur rekið undir sig og sína sem samfélagið sjálft stendur á.
Grunnstefna, sem á að vera þverpólitísk samstaða um, ætti því að vera sú að tryggja velferð fjölskyldna um fram allt enda eru það þær sem allt annað byggist á. Sé menntun og þekking ekki til staðar og fjölskyldan getur ekki stuðlað að því að ala upp samkeppnishæfar kynslóðir, sem verða að keppa við aðrar á alþjóðlegum vettvangi, eru það fyrirtækin sem eiga erfitt með að fóta sig, skapa atvinnu og stuðla að velferð og viðgangi samfélagsins.
Mikilvægt er að frelsi fylgi ábyrgð. Það verður því að gera þeim, sem vilja auka frelsið, að tryggja að þroski hvers samfélags og geta þess að takast á við aukið frelsi í viðskiptum án þess að slíkt geti valdið öðrum tjóni. Það vill svo vera að oft er talið að við öll séum sterk, traustsins verð og með þann aga sem til þarf að banna sjálfum sér að taka út það og nýta í eigin þágu sem öðrum ber. Eitt má nefna í því samhengi.
Ef við viljum samkeppni og frjálsan markað verðum við að tryggja að slíkt frelsi verði ekki til þess að valda öðrum helsi, m.a. vegna styrk þess sem hefur fengið frelsið í hendur úr hendi ríkis eða sveitarfélags? Gott dæmi eru bankar og stofnanir sem hyggja á sameiningar, hagræðingu og frekari skuldsetningu til að auka arðsemi eiginfjár með því t.a.m. að lágmarka það í bókum sínum. Svo skellur á kreppa, veirufaraldur og önnur vá sem ber að með öðrum hætti í hvert sinn sem slikt kemur öllum á óvart. Það er einmitt þá sem veikleiki hagræðingarinnar kemur í ljós, veikleiki og máttleysi fyrirtækjanna og stofnana vegna of mikilla skulda sem teknar voru þegar allt lék í lyndi. Í hruni koma veikleikar t.a.m. sveitarfélaga og ríkis í ljós og getuleysi til að gæta að grunnstoðum samfélagsins, þ.e. fjölskyldunum. Hvað með að eiga nú fleiri en eitt hátæknisjúkrahús og geta nú tryggt fyrir komandi kynslóðir að allir viti betur, afli þekkingar og læri af því sem við göngum nú í gegnum?
Það er einmitt þá sem margir verða fyrir áfalli geta aðeins leitað á einn stað, þ.e. í trú sína og von ef öll sund eru lokuð. Því er mikilvægt að fólk geti leitað huggunar harmi gegn. Eftir stendur þó ábyrgð þeirra sem ekki huga að áhættu fyrr en hún umbreytist í hörmungar þar sem stoðir gefa sig jafnvel allar nema ein, þ.e. kirkjan.